En hvað með Sjálfstæðisflokkinn?

Þó svo að það sé ljóst að meirihluti þeirra sem svara vilja VG og Samfylkinguna í stjórn, þá er það líka ljóst að samkvæmt fréttinni, þá það er ekki nema 28 % svarenda sem gefa þetta upp, eða innan við 1/3 þeirra. Einnig má sjá að 24,2 % vill áframhaldandi stjórn og er því munur þeirra sem vilja VG/Sf og núverandi stjórn óverulegur, nokkuð sem er mjög áhugavert með tilliti til þess að núverandi stjórn hefur setið mjög lengi og ætla mætti að það hefði einhver áhrif.

Satt er það að VG kemur sterkt inn sem afl til stjórnarsetu, en það verður líka að líta til þess að þegar heildin er skoðuð, þá vildi fólk helst sjá Sjálfstæðisflokkinn í stjórn. Það er því augljóst að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mest fylgis til stjórnasetu af öllum flokkunum.

VG hafa verið að koma sterkir inn í könnunum og eru margar skoðanir á því hvers vegna það sé. Ég tel að ástæðan sé sú að VG eru, í hugum flestra, mjög stefnufastur flokkur, óháð því hvort fólk sé sammála stefnunni eða ekki. Þetta held ég að sé ástæðan fyrir því að vinstri sinnaðir einstaklingar leita í æ meira mæli til VG. Popularismi er ekki eins popular og menn virðast halda.

Ég hef áður sagt, og þessi könnun hefur styrkt mig í þeirri skoðun, að ef fólk vill afgerandi niðurstöðu í kosningunum í vor, þá stendur valið milli VG og Sjálfstæðisflokksins.


mbl.is Katrín: Ljóst að kjósendur vilja VG í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki alveg að kaupa þetta, jafnvel í EUR

Ég verð nú að segja það að ég er ekki alveg að kaupa þessar staðhæfingar.

Að halda því fram að við getum haldið fullri stjórn á íslenskum fiskimiðum þannig að við gætum haldið frá öllum "útlendingum", á sama tíma og við nytum verka "harðsnúinna samningamanna Íslendinga" til að redda okkur aðgangi að fiskimiðum annarra aðildarlanda, er náttúrulega bara barnaskapur. Aðildaviðræður við ESB munu ekki verða til þess að við fáum allt og þurfum ekkert að gefa í staðin. Við höfum ekki mikið uppá að bjóða nema fiskimiðin, allavegana ekki stóran heimamarkað fyrir vörur aðildalanda ESB. Þegar til þess er svo litið að stoð fullyrðingarinnar um stjórn okkar á veiðum, byggir á veiðireynslu eða einhverri óskilgreindri hefðareglu, þá minnkar nú verðmæti fullyrðingarinnar. Við skulum spyrja fiskimenn í Hull og annarrstaðar við Norðursjó, hvort hægt sé að halda stjórn á fiskimiðum þegar komið er inn í ESB.

Vaxtalækkunartalið er líka áhugavert. Þegar EES var samþykkt var það sama sagt, en fyrir þá sem ekki vita, þá er frjálst flæði fjármagns milli Íslands og annarra EES ríkja. Það er ekkert því til fyrirstöðu að við opnum reikninga í Evrópu og að evrópskir bankar komi hingað og opni útibú. Evrópskir bankar hafa, eftir því sem ég best veit, ekki séð sér hag í að koma hingað og opna útibú. Þannig að ef við ætlum að versla við evrópskan banka, þá verðum við að leita til þeirra erlendis. Þegar það er svo komið, þá þarf að senda peninga á milli og það kostar, jafnvel þó við værum búin að taka upp EUR (hér nota ég evrópska staðalinn þar sem upptaka EUR myndi banna okkur að nota íslenska orðið evra). Við hér á Íslandi erum orðin það vön Reiknistofu bankanna og þeirri samvinnu sem hefur gert okkur fært að finna varla fyrir bankaviðskiptum að við gætum aldrei þolað að vinna með banka í Evrópu. Þar er það þannig að maður droppar sér ekki bara í næsta útibú til að versla, heldur verður maður að eiga viðskipti við "sitt" útibú. Þannig að bara þetta myndi gera það að verkum að erfitt væri fyrir Íslendinga að eiga samskipti við banka í öðrum löndum. Svo er það vextirnir, jú auðvitað myndu stýrivextir lækka hressilega og líklegast myndi verðtryggingin verða aflögð, þó það sé ekkert öruggt í því. Það er nefnilega þannig að efnahagsástandið hjá okkur og svo restinni af Evrópu er mjög frábrugðið. Á meðan það hefur verið þensla hér, þá hefur verið mjög rólegt efnahagslíf í Evrópu. Hér yrði því að grípa til einhverra séraðgerða til að draga úr aukinni þennslu með lækkuðum stýrivöxtum.

Verðsamanburðurinn er líka nokkuð áhugaverður, en hann hefur sýnt svo ekki verður um villst að verð í EUR löndunum hefur ekki lækkað. Þvert á móti hefur það hækkað. Þegar verð hefur verið reiknað út frá fyrra gengi gamla gjaldmiðilsins, þá hefur það komið í ljós að vöruverð hefur allstaðar hækkað, ekki ósvipað og gerðist hjá okkur þegar krónan missti tvö núll fyrir tæpum þrjátíu árum síðan. Þess utan þá hefur verð "dýru" landanna í norðri haldist mun betur, á meðan verðið í "ódýru" löndunum í suðri hefur hækkað verulega.´

Það er því líklegra að hér breytist lítið af því sem að ofan er greint, nema að við hefðum litla sem enga stjórn á efnahagsmálum og auðlindum.


mbl.is Fulltrúar Samfylkingar: Full yfirráð auk veiðiheimilda annars staðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað verður um LePen

Þegar Chirac var kosinn forseti síðast, þá hlaut hann fjöldan allan af atkvæðum vinstrimanna. Var þeim svo illa við þetta að þeir fóru í táknrænar afeitrunarsturtur. Ástæðan fyrir þessum "stuðningi" vinstrimanna var LePen ógnin. LePen hafði náð að verða kandidat tvö í undanúrslitunum og vakti þetta mikla athygli, ekki bara í Frakklandi, heldur um allan heim. Aðstæður hafa lítið breyst í Frakklandi, nema þá helst til að auka styrk LePen og flokks hans. Þó svo að hingað til hafi aðallega verið litið til sósíalista og hægrimanna sem kandidata, þá eru fleiri um hituna. En hvar er LePen?

Í Frakklandi er það þannig að forsvarsmenn sveitafélaga, borgar- og bæjarstjórar, þurfa að gefa samþykki sitt svo einstaklingur geti boðið sig fram til forseta. Þ.e. vilji einhver bjóða sig fram, þá þarf hann stuðning þessara sveitastjórnarmanna. Nú gengur sú saga fjöllunum hærra, að sveitastjórnarmenn séu að plotta sig saman um að veita LePen ekki nægan stuðning þannig að hann geti ekki gefið kost á sér. Þarna séu sósíalistar og hægrimenn að sjá til þess að valið verði milli þeirra tveggja. Hefur almenningi þótt þetta ólýðræðislegt og verið mjög ósáttur við þetta.

Óánægja fólks og tilfinning þess að verið sé að leika sér með lýðræðið, gæti því orðið til þess að LePen næði meira fylgi en ella, ef ekki hefði komið til þessa orðróms. Ef þetta er rétt þá eru sósíalistar og hægrimenn að spila hættulegan leik.

En svona er lýðræðið. Fullt af götum sem fagmenn eiga auðvelt með að nýta sér í þem tilgangi að komast hjá því að við almenningur getum notað það til að sýna fram á vilja okkar.


mbl.is Chirac segist ekki gefa kost á sér áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Naglfast

Jæja, enn er komið tilefni til að kenna nagladekkjunum um aukna svifryks í Reykjavík. Ég velti því fyrir mér, að með auknum áróðri, færri nagladekkjum, þá eykst svifryk í borginni. Gæti hugsanlega verið eitthvað annað þarna á ferðinni. Hefur verið gerð úttekt á því hversu stórt hlutfall bifreiða í borginni er á nöglum. Hefur verið athugað hjá dekkjaverkstæðum hversu margir fá sé nagladekk á veturna.

Ég er alveg sammála þeim sem segja að það sé minni þörf á nöglum í Reykjavík, nú en áður. Minni snjór undanfarin ár sýnir það berlega. En Reykjavík er ekki eini staðurinn á landinu sem er í byggð. Það er líka fólk sem býr utan Reykjavíkur. Þetta fólk býr ekki við sömu aðstæður og Reykvíkingar, þar sem gatnakerfið er hreinsað reglulega.

Það hefur komið fram, að þó fólk sé á móti negldum dekkjum í Reykjavík, þá er viðurkenndur réttur manna til að aka um á negldum dekkjum utan borgarinnar. Talað er um að setja skatt á þá sem aka á negldum dekkjum og þurfa að koma til borgarinnar. Ég spyr bara, hvað á maður að gera sem kemur að norðan, eða jafnvel að austan, að gera þegar hann kemur til Reykjavíkur. Á hann að vera með auka umgang í skottinu og skipta um dekk.

Þegar búið er að sýna mér framá það með rökum, að megin ástæða svifryks í Reykjavík sé vegna nagladekkjanna, þá skal ég athuga með að hafa með mér auka umgang í skottinu.


mbl.is Kannað hvort taka eigi gjald fyrir notkun á nagladekkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stígum varlega til jarðar.

Þegar fjallað er um almennings eign auðlinda, þá er vert að stoppa og hugsa sinn gang. Ákvæði vegna nýtingar auðlinda á landi eða til sjávar, sem ekki er skilgreind eign ákveðinna lögaðila, er að sjálfsögðu nokkuð sem þarf að hugsa um. En hversu langt á skilgreining almenningseignar auðlinda að ná.

Ég hef heyrt því kastað fram að allar auðlindir væru eign þjóðarinnar, sama hvar þær væru staðsettar. Þannig myndi til að mynda háhitasvæði undir jörð í einkaeigu vera eign ´"þjóðarinnar". Eigandi jarðarinnar hefði því ekkert með það að segja hvernig þessi auðlind yrði nýtt, eða nyti nokkurs af henni. Bóndi gæti þá átt það á hættu að jörð hans yrði tekin af honum og nýtt undir iðnað á þann hátt að hann þyrfti að breyta sínum búskaparháttum þannig að hann hugsanlega yrði að hætta búskap. Það er því umhugsunarvert að Framskókn skuli kasta slíkri sprengju út í þjóðfélagið.

Auðvitað gerir maður þær kröfur til ráðamanna að þeir hafi þá skynsemi til þess að bera að halda sig við auðlindir utan einkaeigu, en nú á tímum lýðskrums og atkvæðaveiða er aldrei að vita hvað mönnum dettur í hug. Það að vilji sé til að "keyra" auðlindarákvæði í gegn fyrir kosningar er bara út í hött og engöngu hugsað til þess að höfða til grunnhygginna kjósenda sem láta gyllitilboð draga sig á asnaeyrunum.

Ákvarðanir teknar á hlaupu hafa tilhneigingu til þess að koma aftan að mönnum. Setjumst niður, ræðum málið af skynsemi og tökum ákvörðun þegar ásættanleg niðurstaða er fundin. Ekki taka ákvörðun bara til að taka ákvörðun.


mbl.is Stjórnarandstaðan býðst til að styðja stjórnarskrárbreytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrælsóttinn.

Þá er bara mánuðurinn eftir. Alcoa hefur keyrt upp áróðurinn síðustu daga og nú kemur mikið frá hópnum Hag í Hafnarfirði. Þarna eru á ferðinni einstaklingar og fulltrúar fyrirtækja sem hafa beinan hag af starfssemi álversins. Er sterkur þráður umræðu þeirra, að álverinu verði lokað komi ekki til stækkunnar. Þetta muni svo hafa gífurleg afleidd áhrif í Hafnarfirði og jafnvel víðar. Miðað við framsetninguna, þá virðist kreppa í uppsiglingu komi ekki til stækkunarinnar.

Ef skoðaður er áróður fyrir stækkuninni, þá virðist hann koma frá þremur áttum. Í fyrsta lagi frá Alcoa sjálfu, sem kannski er eðlilegt, en dregið hefur úr beinum þrýsting frá þeim eftir að geisladiskaplottið snérist í höndunum á þeim. Hinir tveir hóparnir eru svo starfsmenn Alcoa og nú þjónustuaðilar. Það sem er sammerkt með þessum aðilum, er að þeir eru fjárhagslega háðir starfssemi álversins. Þessir aðilar eru undir hæl Alcoa komnir og því kannski eðlilegt að þeir mæli með því að álverið fái stækkunina í gegn. Maður veltir því þess vegna fyrir sér hvort þarna sé um staðfasta skoðun þessara aðila að ræða, eða þátttakan byggð á hræðslu við að missa lífsviðurværi sitt.

Þeirri fullyrðingu hefur verið kastað út í þjóðfélagið, að ef ekki komi til stækkunnar, þá verði álverinu lokað. Hvort þetta kemur beint frá Alcoa eða ekki, þá er augljóst að þessi fullyrðing er fram sett til að vekja ótta hjá þeim sem byggja afkomu sína á áframhaldandi starfssemi. Það er hins vegar þannig að harður stuðningur aðila sem eiga allt sitt undir Alcoa, getur ekki talist trúverðugur, alveg óháð því hvort þarna tali fólk af sannfæringu og sé í hjarta sínu fullt vissu um að stækkun álversins sé hið eina rétta í stöðunni. Tengsl aðilanna eru bara slík að ósjálfrátt verður allt tekið með vara sem frá þeim kemur. Þetta er svona eins og þegar vinnuhjú voru beðin um að vitna gegn húsbændum sínum, þau bara gerðu það ekki nema tilneydd.

Allt er í heiminum hverfult og er vera hersins hér á landi gott dæmi um það. Auðvitað var það ekki auðvelt að missa stóran atvinnurekanda og margir áttu um sárt að binda í kjölfarið. En suðurnesjamenn hafa sýnt að það þýðir ekki að gráta Björn bónda, heldur verður bara að finna nýjann. Kaldhæðnin í þessu öllu er kannski að þeir leita hans í álveri, en óháð því, þá tel ég að þeir komi til með að finna hann, hvar svo sem það verður. Aðlögunarhæfnin er manninum svo eðlislæg að það finnst alltaf lausn, þó svo að það taki mislangan tíma að finna hana.

Ef svo ólíklega vildi til að Alcoa tæki ákvörðun um að loka álverinu í kjölfar höfnunar á stækkun, þá hef ég ekki áhyggjur af þeim sem hafa haft lífsviðurværi sitt af starfseminni í Straumsvík. Viðskiptavinir munu koma fram á öðrum stöðum. Einnig er ég viss um að álverið mun halda áfram starfssemi, ef ekki í höndum Alcoa, þá einhverra annarra.

Þessi kosning er í raun ekki um álverið sem slíkt, heldur það hvernig bæ Hafnfirðingar vilja búa í.


mbl.is Hvetja Hafnfirðinga til að taka þátt í íbúakosningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BZ og Ungdomshuset

Jæja, þá er Ungdomshuset horfið úr höndum frítökufólksins. Það má alveg búast við því að mikið verði um læti í henni Köben núna næstu daga. Reyndar skil ég ekki borgaryfirvöld að gera þetta svona rétt fyrir helgi. Dönsku autonomarnir, sem eru skilgetið afkvæmi gömlu BZ-ana, eru mjög virkir í að skipuleggja læti og koma þjóðfélaginu í vandræði. Þetta er hópur sem kemur alstaðar að frá Danmörku og hefur reglulega pirrað íbúa Nörrebro með mótmælum sínum. Eftir átök BZ-ana og lögreglu í lok 9. áratugarins höfðu BZ-arnir fengið Ungdomshuset og því er það mikið tilfinningamál núna þegar á að rýma það.

Ég man eftir áramótunum 94/95, en ég tók strætó upp Nörrebrogade þann 2. janúar og það var ótrúleg upplifun. Allt hafði orðið vitlaust á gamlársdag, en tveimur dögum síðar var enn verið að þrífa glerbrot og laga skemmdar byggingar. Þarna áttaði ég mig á því að Danir kunna að valda skemmdum ef þeir vilja við hafa. Það sem einnig vakti athygli mína var að íbúarnir mótmæltu þessu harðlega, ekki lögreglunni eða hennar aðgerðum, heldur að "skríllinn" hefði getað komið þarna og valdið usla. Kröfðust þeir harðari aðgerða lögreglu. Einn íbúinn lýsti því hvernig hann og kona hans höfðu þurft að hnipra sig saman í húsaskoti eftir að þau lentu á milli autonomanna og lögreglu þar sem þau voru á leið heim eftir gleðskap.

Autonomarnir hafa tekið Nörrebro í einhverskonar fóstur og eru reglulega með óeirðir í hverfinu. Þetta fólk, sem mikið til eru námsmenn og börn efnaðs millistéttafólks, hefur haldið uppi merki hinna svo kölluðu BZ-ara sem við hér heima kölluðum hústökufólk. BZ-arnir voru svo afkvæmi hippanna í Kristjaníu. Þannig að það sem nú er að gerast er hluti af mjög áhugaverðri sögu Kaupmannahafnar. Hvort þetta endi með því að autonomarnir nái einhverju fram er svo alltaf spurning.

Það er ótrúlegur kraftur sem leynist ungu fólki og alveg ótrúlegt að það skuli ekki vera gert meira í að nýta þann kraft í eitthvað uppbyggilegt.


mbl.is Rýming Ungdomshuset hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hollar matarvenjur

Þó svo að segja megi að MCD sé ekki beint hollustan uppmáluð, þá er það kannski ekki bara maturinn sjálfur, innihaldið, sem skiptir máli. Ef skoðað er mataræði í Bandaríkjunum, Bretlandi og að vissu leiti Norðurlöndunum og svo mataræði í suður Evrópu, þá kemur fram sláandi munur á holdafari einstaklinga.

Jafnvel þó svo að mikið sé borðað af feitum mat í suður Evrópu, þá er fólk almennt betur sett holdafarslega séð en Bandaríkjamenn og Bretar. Helsti munurinn er í hvernig fólk borðar. Ef fólk fylgist með því hvernig Bandaríkjamenn borða, þá er vaknað snemma á morgnanna og komið við í Starbucks á leiðinni í vinnuna. Kaffið er drukkið við skrifborðið meðan unnið er. Í hádeginu er svo stokkið út á næsta horn og þar fengin pulsa eða samloka. Hálftíma síðar er viðkomandi sestur við skrifborðið.

Í suður Evrópu er þessu öðruvísi farið. Þar fær fólk sér kaffi í rólegheitum, venjulega líka betra kaffi. Í hádeginum er svo farið á brasserie eða jafnvel heim. Einum til tveimur tímu seinna er svo haldið áfram að vinna.

Það sem gerist er að maginn og ekki síst skrokkurinn sjálfur, tekur betur á móti matnum. Maginn þarf að vinna það sem í hann er sett. Ímyndið ykkur hvernig það væri að fá verkefni til að ljúka á 20 mínútum, eða hafa til þess klukkutíma. Þú ert miklu afslappaðri á eftir og það sama á við um magann. Maginn vinnur betur, sem veldur því að líðanin er betri og maturinn meltist betur.

Valið stendur á milli hraðáts eða góðáts. Það að banna MCD leysir í sjálfu sér engan vanda. Það sem þarf að gera er að kenna fólki að borða. Hættum að líta á matinn sem bara eldsneyti og förum að líta á hann sem þann lúxus sem hann í raun er. Lærum að njóta.


mbl.is Karl Bretaprins mælir með að McDonalds-staðir verði bannaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Iðnaður til sveita

Landbúnaður er í raun ekkert annað en iðnaður, matvælaiðnaður. Sem slíkur á hann í sömu vandræðum og annar íslenskur iðnaður þegar kemur að útflutningi og samkeppni. En eins og týpískur íslenskur iðnaður, þá eru einingarnar of litlar. Matvælaframleiðsla er líklegast sá iðnaður sem ætti að eiga besta möguleika til að lifa af hér á landi, en öll þurfum við jú að borða og það oft á dag.

Hugmyndir um stuðning við landbúnaðinn hafa flest allar verið í þá átt að vernda hann fyrir samkeppni. Slíkar aðgerðir hafa ekki gert neitt gagn hingað til. Það þarf að hætta að láta bændur hafa það á tilfinningunni að þeir séu ölmusumenn og gera þá að bísnessmönnum.

Taka þarf til hendinni í landbúnaðinum. Það þarf að fella niður framleiðsluþök og gera bændum kleift að framleiða það sem þeir vilja eða geta. Til þess þarf að gera einingarnar stærri. Vandinn er samt sá að til þess að geta stækkað einingarnar þannig að þær skili hagnaði, þá þarf að kaupa upp jarðir. Ekki hefur verið skortur á jörðum, bjóðist fyrir þær "rétt" verð. Efnaðir einstaklingar hafa verið betur í stakk búnir til að kaupa jarðirnar undir frístundabyggð og því gert bændum erfitt fyrir að kaupa þær til að stækka framleiðslueiningarnar hjá sér. Svo er líka erfitt að stækka við sig þegar kvatinn er ekki til staðar til að stækka. Væri ekki nær að nota fjármagnið sem sent er til bænda í ölmusupósti, til að setja upp sjóð sem bændur geta sótt í til að fjármagna stækkanir og hagræðingar á rekstrareiningunum sínum. Þarna er ég ekki að tala um ölmususjóð, heldur lánasjóð, sem greitt yrði til baka í. En þó með þolanlegum vöxtum.

Það eru margir bændur sem vilja selja og hætta rekstri, en vildu gjarnan að einhver nýtti jörðina til áframhaldandi búskapar. En án fjármagns, geta aðrir bændur ekki komið að kaupunum og því verður æ erfiðara fyrir starfandi bændur að stækka við sig og hagræða. Um leið og fleiri og fleiri jarðir fara úr framleiðslu.

Hættum að gera lítið úr bændum og sýnum þeim að við treystum þeim til að geta unnið vinnuna sína. Búum þeim umhverfi sem hvetur þá til verka í stað þess að letja.


Libertarianismi

Datt um bloggið hjá Hirti Guðmundssyni þar sem hann er að benda á pólitískt hugsjónapróf. Þar kom í ljós að ég er eitthvað sem heitir Libertarian í henni Ameríku. Lýsingin á hugmyndafræðinni kemur fram í smá texta sem er svohljóðandi:

LIBERTARIANS support maximum liberty in both personal and  economic matters. They advocate a much smaller government; one that is limited to protecting individuals from coercion and violence. Libertarians tend to embrace individual responsibility, oppose government bureaucracy and taxes, promote private charity, tolerate diverse lifestyles, support the free market, and defend civil liberties.

 Einnig er manni raðað í tvívíddar pólitískt rammakerfi og þar er ég staðsettur svona:

 hugsjónastaðsetning

Svo er náttúrulega að kynna sér hvað þessi Libertarianismi er, en síðan bíður reyndar líka uppá það. Þá er bara fyrir aðra að taka prófið, sem tekur minni tíma en að hlaða niður síðunni. Svo er bara spurning hvort við Libertarianarnir ættum ekki bara að hittast og taka völdin LoL


Ekkert mál, ég skal taka við.

Hræðsluáróður Alcan hefur nú færst út til smáfyrirtækja í Hafnarfirði. Ég ætla þessu fólki ekki það að það sé ekki raunverulega hrætt við að missa atvinnuna, enda geri ég ráð fyrir að Alcan hafi gefið það sterkt í skyn að það muni hætta starfssemi verði ekki af stækkun. Svo er líka spurning hvort þeim hafi verið hótað einhverju komi þeir ekki til hjálpar í áróðrinum. Ég ætla samt þessu fólki ekki það, að það láti hóta sér beint, heldur geri ég ráð fyrir að því hafi verið gert grein fyrir að Alcan muni hætta með álverið. Þessi fullyrðing hefur verið notuð á almenning, en þar sem hún virðist ekki ætla að gera útslagið, þá er reynt að beita henni á þá sem hafa beinna hagsmuna að gæta.

Hins vegar er það svo að svona álver verður ekki lagt af einn, tveir og þrír, eins og kemur fram í athugasemd við færslu hjá mér um álverið, en starfsmaður Alcan benti þar góðsfúslega á það ,,að álver verður ekki flutt svo auðveldlega". Það er einmitt mergur málsins. Það kostar helling að leggja af svona álver, en þar erum við að tala um fleiri milljónir. Afhverju ætti Alcan að leggja af álver sem skilar hagnaði, þegar það verður þeim aðeins til kostnaðar að loka því?

Ef Alcan telur þetta ekki þess vert að halda áfram með, þá vil ég hér og nú bjóðast til að taka yfir reksturinn og spara þeim peninginn sem færi í að loka þessu. Það yrði ódýrara fyrir þá. Ég er ekki í nokkrum vafa um að álverið í Straumsvík kemur til með að skila góðum hagnaði, þrátt fyrir það að það verði ekki stækkað.

Þetta er hræðsluáróður, að því verði lokað einn, tveir og þrír. Ef ekki, þá er ég tilbúinn að taka yfir reksturinn og halda honum áfram. Alcan þarf bara að segja til.


mbl.is Hvetja Hafnfirðinga til að samþykkja stækkun álvers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki skattaparadís!

Ég man enn sem það hafi verið í gær, þegar ég heyrði í Ögmundi rétt fyrir síðustu kosningar. Þá var umræðan um skattalækkanaloforð kosningamálið. Ögmundur sagði VG ekki ætla að lækka skatta. Hann vildi ekki að Ísland yrði einhver skattaparadís. Ég spurði mig þá, hvers vegna má ég ekki eiga heima í paradís?

Auðvitað væri gott að þurfa ekki borga fyrir neitt, tölta bara inn til læknis og fá bara þá þjónustu sem ég vil, óháð kostnaði. Það er einfaldlega þannig að ekkert er ókeypis. Allt kostar pening, það er bara spurningin hver á að bera kostnaðinn.

Það er ekkert réttlæti fólgið í því að taka frá einum og gefa öðrum, það er bara þjófnaður. Ef fólk leggur meira á sig en aðrir og uppsker meira fyrir vikið, á það að fá að njóta þess. Það á ekki að líða það að fólk sem leggur minna á sig fái afrakstur erfiðis hinna bara í pósti um áramótin.

Til hvers eru menn svo að snuðrast í kringum heitan graut með þetta. Afhverju ekki koma hreint fram. Þetta er einfalt, menn fá ekki laun, heldur er afrakstur vinnu þeirra settur í sameiginlegan sjóð og svo deilt jafnt úr honum aftur. Þá er ekki spurning um einhverja krónu eða Evru. Ef manni vantar eitthvað, þá fer maður í ríkissjoppuna og fær úthlutað, eftir að búið er að fullvissa sig um það að viðkomandi þurfi þetta sem hann vill fá. þá eru bara framleiddir ríkishlutir þannig að allir fá sama sófan og því búið að koma í veg fyrir allan meting og gæðakapphlaup. Og til að koma í veg fyrir að fólk hverfi af landi brott vegna óánægju, sem varla ætti að eiga sér stað í svona gósenþjóðfélagi, þá er fjölskyldum bannað að fara saman úr landi.

Tekjur ríkisins hafa aldrei verið meiri eftir að skattar voru lækkaðir. Fleiri hafa það betur nú en áður. Auðvitað eru margir sem hafa það ekki gott. En væri ekki nær að reyna að auka hag þeirra frekar en að draga úr hagsæld hinna.

Sósíalinn á ekki að vera fyrir alla, hann á að vera fyrir þá sem þurfa á honum að halda. Það versta sem getur komið fyrir forræðishyggjuflokka, er ef öllum líður vel. Ef öllum líður vel, þá er enginn tilgangur að kjósa forræðishyggjuflokk.


mbl.is VG vill veita Jafnréttisstofu auknar heimildir til eftirlits með fyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er trompið?

Það er margt áhugavert við fréttina um vígbúnað Sýrlendinga við Gólan hæðir. Sýrlendingar hafa ekki haft bolmagn til að hefja árás á Ísrael af fyrra bragði, ekki síst eftir að Bandaríkjamenn hernámu Írak. Sýrlendingar hefðu aldrei geta haldið uppi hernaði á tveimur vígstöðvum og því hörfuðu þeir frá Líbanon fyrir stuttu. Morðin á líbönsku ráðamönnunum sem urðu til þess voru heimfærð á Sýrlendinga, sem voru í raun þeir einu á svæðinu sem ekkert græddu á þeim.

Nú er hins vegar farið að fréttast af auknum viðbúnaði sýrlenska hersins við Gólan. Þetta gæti að sjálfsögðu verið bragð til að ýta á Ísrael og fá þá að samningaborðinu. Ísrael á hins vegar kjarnorku vopn og veit að ekki verður ráðist á þá frá Sýrlandi svo lengi sem bandarískir hermenn standa hinum megin við Sýrland. Þessi ögrun er því marklaus sem slík.

En ef rétt er að Íran hafi séð Sýrlendingum fyrir búnaði og niðurgreitt hernaðarútgjöld fyrir þá, kemur önnur mynd á þetta. Íranir hafa setið hjá og fylgst með bandarískum vandræðum í Írak og glott við. Þeir eru á fleigi ferð að ná sér í kjarnorkusprengju og hafa verið að prófa viðbúnað bandarískra hermanna í Írak.

Er hugsanlegt að Íran og Sýrland hefji samtímis árásir? Hvað gerist ef Sýrlendingar ráðast á Ísrael, mun ekki koma krafa frá þeim um að Bandaríkjamenn haldi hið snarasta að austurlandamærum Sýrlands? En verður það mögulegt ef Íranski herinn heldur yfir landamærin við Írak. Þar er lítill viðbúnaður fyrir utan breskar herdeildir sem verið er að fækka í. Bandaríkjamenn yrðu að skipta liði sínu ef þeir ætluðu að halda uppi vörnum á báðum stöðum. Þannig að í stað þess að Sýrlendingar yrðu í vandræðum á tveimur vígstöðum, stæðu Bandaríkjamenn í þeirr stöðu.

Hvernig færi svo fyrir ísraelska hernum. Þeir áttu í erfiðleikum með Hizbolla í Líbanon, að því er virðist vegna óöryggis ráðamann í ákvarðanatöku í upphafi átakanna. Hins vegar má búast við meiri hörku af hálfu þeirra ef Sýrland réðist inn í landið. Þannig að þetta er nokkuð forvitnileg staða.

Svo er það kjarnorkuáætlun Írana. Er mögulegt að þeir séu komnir með úranium fyrir tvær til þrjár sprengjur og ætli sér að gera tilraunaspreningar fyrir utan Íran. Kjarnorkusprenging sem ekki heppnast fullkomlega getur samt valdið gífurlegutjóni auk þess sem þessi tækni er orðin rúmlega 50 ára og því erfitt að gera mistök. Hver yrði staðan hjá Bandaríkjamönnum og Ísraelum ef sprengd yrði sprengja í Ísrael, Írak og Bandaríkjunum. Búast mætti við öngþveiti fyrst um sinn og gæti það ekki verið það sem Íranir og Sýrlendingar þyrftu til að ná markmiðum sínum.

Velti þessu bara fyrir mér, en ögranir Sýrlendinga gagnvart Ísrael ganga ekki upp nema þeir telji sig hafa eitthvað tromp á hendi.


mbl.is Sýrlenski herinn styrktur og færður nær landamærunum við Ísrael
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað hefur breyst?

Var að lesa blogg Péturs Gunnarsssonar og Hjartar J. Guðmundssonar þar sem Hjörtur hafði svarað bloggi Péturs um það hvers vegna Davíð í dag væri á annarri skoðun en Davíð þá. Var þar verið að skoða umskipti Davíðs þegar kemur að viðhorfi hans til Evrópusambandsins, þá Evrópubandalagsins, árið 1989 þegar hann mun hafa verið hlintari inngöngu en hann er í dag.

Í kjölfarið fór ég að lesa moggann frá því í mars 1991, en þá var haldinn landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Var ég að velta því fyrir mér að finna þar umfjöllun um utanríkisályktun þingsins og hvort þar væri eitthvað sem gæti skýrt þessa breitingu á skoðun Davíðs.

Ég var ekki búinn að fletta mörgum blöðum þegar ég rak augun í greinar sem Ingibjörg Sólrún sendi frá sér þar sem hún fjallaði um EB og viðhorf hennar og Kvennalistans til inngöngu. Var mjög áhugavert að lesa þetta með tilliti til blogganna sem ég minntist á hér að ofan og núverandi málflutnings Ingibjargar, en ef maður skoðar niðurlag seinni greinar hennar frá 14. mars 1991 bls. 20-21, þá má lesa eftirfarandi:

Við höfum ekki heyrt nein sannfærandi rök fyrir því að það sé Íslendingum, hvað þá íslenskum konum, til hagsbóta að ganga inn í EB.

Hún heldur svo áfram með þessu:

Stórt og miðstýrt kerfi eins og EB er ekki vinsamlegt öllum þorra fólks. Það er fjarlægt, sérhæft og erfitt að átta sig á því.

En lokamálsgreinin er svo eftirfarandi:

Vegna alls þessa er full ástæða fyrir Íslendinga að flýta sér hægt í samskiptum sínum við EB, láta ekki órökstudda sleggjudóma og taugaveiklun ná tökum á sér og umfram allt - semja ekki af sér. Við erum ekki að missa af neinni lest því hún verður áfram kjur á sínum stað.

Ég spyr mig því hvað hefur breyst?


Hvenær skal upphaf telja

11. september markaði vissulega tímamót í sögunni. En hvernig tímamót voru það, var það upphaf hryðjuverkaógnarinnar eða voru þetta tímamót í einhverju öðru. Þarna voru án efa umfangsmestu hryðjuverk sem framin höfðu verið, en þetta var ekkert upphaf.

Hryðjuverk eru ekkert nýtt fyrirbæri. Frakkar hafa verið í áratuga baráttu við alsírska hryðjuverkamenn, Spánverjar slegist við ETA, Bretar við IRA og ekki má gleyma baráttu ítalskra og þýskra ráðamanna við vinstrisinnaða öfgamenn eins og Bader Meinhoff og Rauðu herdeildirnar. Hryðjuverk hafa jafnvel líka verið stunduð í Bandaríkjunum og er þar Oklahóma sprengingin nærtækust.

En 11. september hefur verið haldið fram sem einhvers konar upphafi, en það er varla hægt að segja að það sé upphafið af hryðjuverkafyrirbærinu. Árásáunum hefur hins vegar verið hampað af Bandaríkjamönnum sem einhversskonar móður allra hryðjuverka, þrátt fyrir að magn barna sem deyja vegna ofbeldis og vanhirðu í Bandaríkjunum á tveggja ára tímabili, séu fleiri en dóu í árásunum 11. september.

Ég er samála því að fólk þarf að vera betur meðvitað um hryðjuverk og þá ógn sem af þeim stafar. En við verðum að skoða þetta út frá sögulegu samhengi, ekki amerísku.


mbl.is Hryðjuverkafræðsla gerð að skyldu í dönskum skólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband