Fyrir hvað stendur Umbótahreyfingin?

Fékk athugasemd við síðustu færslu mína frá samfylkingarmanninum Helga Rúnari Jónssyni. Mér fannst hún svo góð að ég ákvað að skrifa heila færslu vegna hennar. En Helgi spyr eftirfarandi;

 Fyrir hvað stendur "umbótahreyfingin" fyrir..??, umbætur og frelsi  í viðskiptum og betri stjórnunar hætti eða afturhald, einangrunarstefnu og sömu stjórnunar hætti og verið hafa hér á landi í áratugi..??.

Ég ætla að koma með stutta svarið fyrst og fer svo út í smáatriðin;

Það segir sig sjálft að hópur sem kallar sig Umbótahreyfing hefur það að markmiði að fá hreyfingu á umbætur, þ.e. eitthvað sem bætir um. Það er því alveg kristal tært að Umbótahreyfingin stendur fyrir nýja tíma með nýja sýn á framtíðina.

Ef Helgi hefði skoðað vefinn hjá Umbótahreyfingunni, þá hefði hann séð að við viljum sjá miklu mun skýrari skiptingu hins þrískipta valds, en það er grundvallaratriði til að koma í veg fyrir þau einræðisvinnubrögð sem viðhöfð hafa verið á Íslandi í áratugi, og sjást einstaklega vel hjá núverandi ríkisstjórn.

Umbótahreyfingin stendur líka fyrir beint lýðræði og hefur sett fram tillögu að nýju Alþingi eða Alþingi 2.0 eins og það er kallað. Það að við afsölum okkur valdinu til einstaklinga sem eru fastir í sérhagsmaneti, gengur ekki lengur.

Það sem er þó kjarninn, eða hornsteinninn, í stefnu Umbótahreyfingarinnar, er nýtt fjármálakerfi.  En það er lykilatriði til þess að hægt sé að halda fram veginn til hagsældar almennings í þessu landi. Ef við höldum okkur við núverandi fjármálakerfi, býður okkar ekkert annað en örbyggð og vesæld.

Þetta segir sig allt sjálft ef menn bara skoða vefinn sem Helgi augljóslega hafði ekki tök á.

Hins vegar er alveg augljóst hvert stefnt var með þessari spurningu. Þar var kastað fram frelsi og umbætur ásamt nýjum og betri stjórnarháttum. En þetta eru allt frasar sem ESB aðildarsinnar hafa hengt á sjálfa sig. En á móti kom svo afturhald, enangrunarstefna og það sama gamla í stjórnarháttum, eitthvað sem ESB aðildarsinnarnir hafa ítrekað reynt að hengja á þá einstaklinga sem ekki eru fylgjandi aðild.

Þetta kemur heim og saman við frasana sem mætur fulltrúi í bæjarstjórn Kópavogs lét út úr sér í viðtali á Útvarpi Sögu í kjölfar þess að hann sagði sig úr Framsóknarflokknum. Þar var honum tíðrætt um "þjóðernissynnana" (Þá sem ekki eru fylgjandi aðild að ESB) og svo það sem hann kallaði "alþjóðasinnana" (Þá sem eru fylgjandi ESB aðild). Þessi staðalstimplun er mjög einkennandi fyrir málflutning ESB aðildarsinna, enda eru rökin engin tiltæk. En ég kem betur inn á það.

Að henda út frösum og staðalmyndum, er leið til að villa um fyrir fólki og gera andstæðinga sína tortryggilega. Afturhald og sérstaklega þjóðernisstimpillinn eru gott dæmi, en þeir sem henda þessu fram eru að segja að andstæðingar ESB séu svona Anders Behring týpur (það vill jú enginn umgangast svoleiðis fólk). Þetta er einfaldlega örvæntingarfull tilraun rökþrota einstaklinga til að koma höggi á þá sem þeim eru ekki þóknanlegir í skoðunum.

En skoðum spurninguna betur. Hvar liggur afturhaldið?

Ef við göngum inn í ESB, þá erum við að afsala okkur fullveldi og sjálfstæði, en með fullri gildistöku Lissabon sáttmálans, þá mun Ísland ekki verða sjálfstæðara en Kentucky innan Bandaríkjanna. Þarna erum við að horfa til þess að Ísland verður komið í sömu stöðu og fyrir 1904, hugsanlega hægt að tegja til 1918. Sameining Evrópu er gamall draumur í stíl við á Cesar, Napóleon og Hitler. Vopnin og aðferðirnar eru bara aðrar. Í stað stórskotaliðs og byssustinga, eru komin slægð og undirförli.

Eitt dæmið um það hvað þjóðir ráða litlu, er þegar Sarkozy og Merkel hittust til að ræða vanda euro svæðisins, en þar var ekki talað við aðrar euro þjóðir. Þeirra álit einfaldlega skipti ekki máli.

Frelsi í viðskiptum er líka einn brandarinn. Rétt, það eru minni höft milli landa ESB. En lengra nær frelsið ekki, því ESB er umlukið verndar og tollamúr. Og jafnvel innan þess er athafnafrelsið takmarkað. Til dæmis gæti Íslenskur bóndi ekki flutt til ESB og ræktað hvað sem er hvar sem er. ESB er búið að skilgreina svæði til ræktunar og þar er ekki hægt að vera með landbúnað sem ekki samsvarar kerfinu. Svo tekur Brussel upp á því til dæmis að hætta að mestu að framleiða eitthvað, eins og til dæmis sykurrófur, en þar með var hoggið stórt skarð í pólskan landbúnað.

Ég er fylgjandi frjálsum viðskiptum og horfi til heimsins, um 7 milljarða manna. En ég einskorða mig ekki við einhvern 500 milljón manna markað í Evrópu.

Loka hnykkurinn er svo brandarinn um betri stjórnhætti. Með inngöngu í ESB erum við algerlega laus við beint lýðræði og spillingin er slík að reikningar sambandsins hafa ekki verið samþykktir í um 15 ár (þegar bent var á þetta, var uppljóstrarinn rekinn). Íslensk spillingapólitík er brandari í samanburði við þá brusselísku.

Okkur var tjáð, við upphaf þessarar vegferðar Samfylkingarinnar, að ef við hefðum verið í ESB fyrir 2008, þá hefðum við ekki lent í "kreppunni". Síðan þá höfum við séð hvernig Grikkland og Írland hafa verið étin upp af euro-inu og sjálfsætði þeirra í raun verið algerlega afnumið. Við horfum líka upp á að restin af löndunum er í mjög vondum málum. Þessu hafa ESB aðildarsinnar svarað með því að aðild sé engin trygging fyrir slæmri stjórn heimafyrir. 

En ef aðild tryggir ekki neitt, afhverju þá vera að ganga inn. Ef við þurfum að vinna alla vinnuna sjálf hvort eð er, er þá ekki best að gera það sjálfstæð með allar dyr opnar, en vængstífð með fyrirfram ákveði val fyrir framan okkur.

Það er ekkert sem gerst hefur undanfarin ár, sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með aðild að ESB. Aðildin kemur heldur ekki til með að hjálpa neitt varðandi endurreisnina. Það er því tilgangslaust að sækja þarna inn, nema til að komast á jötuna, en almenningur verður að gera sér grein fyrir því að það er takmarkað plássið á jötunni, við komust ekki öll þar fyrir.

Það er óhjákvæmilegur fylgifiskur aðildar, að við töpum sjálfstæðinu við inngöngu í ESB. Það er einfaldlega þannig að þjóð sem ekki ræður löggjöf sinni, hefur ekki sjálfstæða utanríkisstefnu eða hefur forræði yfir fjámálum sínum og fjármagni, er ekki sjálfstæð og mun aldrei geta talist sjálfstæð. Spurningin er því hvort við viljum vera sjálfstæð eða ekki. Það er í raun eina raunverulega spurningin sem við stöndum frammi fyrir, því ekkert er hvort eð er í boði við inngöngu.

Umbótahreyfingin hefur hins vegar allt aðra sýn á framtíðina. Það er framtíð þar sem Íslendingar geta verið stoltir af landi sínu og þjóð, búa ekki við fátækt og hafa beinan og óhindraðan aðgang að stjórn sinna mála í formi beins lýðræðis. Þetta er framtíð sem hugnast okkur, en því miður ekki sérhagsmunahópunum.

Það er hins vegar almennings að taka af skarið og rísa upp gegn ofríkinu. Það er almennings að taka til sín aftur það vald sem hann með réttu á. Valdið til að ráða framtíð sinni.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er um það bil 190 þjóðríki í heiminum. Aðeins 27 þeirra eða rúmlega 14% eru í Evrópusambandinu.

Hvernig skilgreinir maður svo hugtakið einangrunarhyggja?

Guðmundur Ásgeirsson, 25.8.2011 kl. 16:24

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Ég varp öndinni léttara,nú skal sá sem kallast utanríkisráðherra svara.

Helga Kristjánsdóttir, 26.8.2011 kl. 02:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband