23.4.2007 | 09:30
Smá svona í morgunsárið.
Ég fékk svona smá "þetta er ekki í lagi" aðsvif um helgina þegar ég fylgdist með umræðunni hjá vinstri mönnum. Það sló svo úr þegar ég las JBH í Blaðinu. Ég er alltaf að komast betur og betur á þá skoðun að hann sé tækifærisinni alveg fram í fingurgómana. Ég vil hins vegar benda á að þetta er bara sú tilfinning sem ég hef fyrir honum, en hann hefur voða lítið verið að draga úr henni að mínu mati.
Ég heyrði af viðtali við fyrrum ráðherra í stjórn Mitterands í Frakklandi, en hann var spurður að því hvernig staðið hefði á því að hann hefði gerst sósíalisti þar sem hann væri af efnafólki kominn og hluti af því sem flokkast undir yfirstétt. Hann sagði ástæðuna hafa verið einfalda. Hann hefði talið að hagsmunum sínum og líkum á skjótum frama, betur fyrir komið með því að starfa innan sósíalistaflokksins. Sem sagt maðurinn var 100% tækifærissinni, allt í nafni alþýðunnar.
Ég man þega JBH var formaður Alþýðuflokksins, en þá náði hann töluverðu fylgi frá Sjálfstæðisflokknum, enda var hann talinn leiðtogi einhvers sem kallað var hægri kratar. Á þeim tíma var JBH sem sagt hægrimaður, enda mikil hægri sveifla í loftinu. Nú er öldinn augljóslega önnur, því JBH getur seint kallast hægri eitthvað í dag. Nú blæs hann út um það að það einginn flokkur sé marktækur nema hann lýsi því yfir að gengið verið inn í ESB og síðan verði fólk upplýst um hversu mikið það sé að græða á því að fara þar inn.
Hann kemur lika inn á það að 16 ára stjórnarseta Sjálfstæðisflokksins sé líka nóg og rétt að hann fari frá, bara vegna tímans. Hann talar reyndar um einhverja ógn við lýðræðið ef fólk kýs Sjálfstæðisflokkinn. Ég verð að segja að ég sé það ekki ógn við lýðræðið ef fólk kýs sjálft á forsendum eigin skoðana, hins vegar finnst mér það ógn við lýðræðið þegar einhver segir að val fólks sé hættulegt lýðræðinu. Svona tal er tal forræðishyggjunnar og hún er lýðræðinu hættuleg.
Aðkoma þeirra hjóna að skipulagsdeilunum í Mosó hafa svo fest í sessi þessa hugmynd mína að þarna eru á ferðinni atvinnumótmælendur og fólk sem grípur tækifærin, en ég mun alltaf muna eftir myndinni af Bryndísi þegar hún sat með hendi á enni fyrir framan eitthvert vinnutækið. Slíkir leikrænir tilburðir gætu hæglega hafa reddað henni prófi frá hvaða leiklistarskóla sem er.
Ég hafði hugsað mér upphaflega að taka viðtalið hans JBH og greina það niður í smáeindir, en ákvað svo að láta það vera. Svona tal er bara þannig að því er vart til að svara. Maðurinn er harður fylgismaður inngöngu í hið evrópska eftirlaunafélag fyrrverandi stjórnmálamann sem ESB er og hann verður bara að skoðast sem slíkur. Það er ekki þjóðinni til hags að styrkja eftirlaunastarf stjórnmálamanna, þeir verða bara að spila golf og spila vist eins og við hin komum til með að gera.
Allt tal um auma krónu og nauðsyn þess að við afsölum okkur öllu og göngum þar inn svo hægt verði að lækka hér kostnað, vexti og verð er lýðskrum og áróður. Ég hef kynnst því hvernig Euro upptakan hefur komið við fólk í Evrópu. Frá upptöku Euro hefur verð á öllum vörum snarhækkað og verður hún sífellt sterkari röddin sem segir að það hafi verið glapræði að taka hana upp.
Ég kem til með að kjósa allt annað en lýðskrum og hentistefnuloforð í næstu kosningum. 40% fylgi í könnunum hlýtur að þýða að menn séu að gera eitthvað rétt. Það þýðir líka að lang flestir treysta því sem þar er staðið fyrir og 40% þýða ekki að þetta sé eitthvað sem þjóðin vill ekki, heldur er hér um að ræða tæpan helming allra kjósenda. Hugsum til þess. Nær helmingur landsmanna er sammála, á meðan restin getur ekki sammælst um það hvað hún vill eða hvernig hún vill gera það.
21.4.2007 | 15:14
Fönix.
Fönix er fugl sem rís úr ösku og hefur sig mikilfenglega til flugs. Hvort það verði reyndin með húsin á horninu er svo aftur önnur spurning.
Ég er mikill talsmaður þess að vernda arfleiðina og halda í þau fáu gömlu hús sem bera sögunni vitni. Ég er tildæmis mjög ósáttur við nauðgunina á Alþingishúsinu og það stílbrot að klína glergöngum við hlið þess. Ég hef alltaf verið ósáttur við krabbameinsæxlið á Landsbankahúsinu og undarlegum stílbrotum í viðbyggingum þess.
Ég velti hins vegar fyrir mér stöðunni í dag nú þegar konungshöll Jörundar 1. af Íslandi eru rústir einar. Sama hvað verður, þá mun húsið sem rís á staðnum aldrei verða höllin hans Jörundar. Þetta væri svona eins og að halda því fram að þjóðveldisbærinn sé húsið hans Gauks. Nákvæm endurgerð verður aldrei neitt annað en það, endurgerð.
Hins vegar verður að huga vel að því hvað verður látið koma í stað hinna horfnu húsa. Það er alveg á hreinu að ef taka á tillit til götumyndarinnar, þá verða þarna reist 5 - 6 hæða hús. Það dregur þá athyglina að Hressó og því stílbroti sem það er. 5 - 6 hæða húsaröð í anda erlendu stórborganna kemur okkur vissulega í einhverskonar "alvöru" borgarhóp, en við verðum að sama skapi að átta okkur á því að þær "alvöru" borgir eru allar á sunnlægari gráðum og því sól almennt hærra á lofti. Að byggja háar byggingar sunnanvert við götu, getur aldrei gert annað en að varpa skugga á götuna sjálfa. Hver verður þá ásókn almennings í það skuggahverfi?
Láreistari hús henta því betur til sólríkari tilveru. En það er ekki þar með sagt að þau þurfi að vera nákvæmlega eins og húsin sem voru fyrir. Þau gætu hæglega viðhaldið stílnum, en verið nýlegri í útliti og að efnisvali. Efnisvalið er nefnilega mikilvægt þegar kemur að framtíðinni á þessum stað. En timburhús, eins og þau sem fyrir voru, verða alltaf sami eldsmaturinn og þau gömlu. Það er því spurning hvort ekki eigi að nota önnur og eldtregari efni í nýju húsin.
Sama hvert framhaldið verður, þá mun ég persónulega sakna gömlu húsanna, en þeim fylgja margar og góðar minningar af miðbæjarferðum fyrri ára, jafnt á degi sem og nóttu.
Reykjavíkurborg vill kaupa hús sem urðu eldi að bráð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.4.2007 | 10:27
Vilji fólksins?
Alveg er þetta dæmalaust hvernig stjórnmálamenn geta "alltaf" farið að vilja fólksins. Stjórnarskráin svo kallaða fyrir ESB var ekki eins vinsæl og menn vildu halda. Frakkar og Hollendingar felldu hana í þjóðaratkvæði og þýska pólitíkin keyrði hana í gegnum þingið eftir að hafa hætt við kosningu vegna lélegrar niðurstöðu í könnunum. Breska stjórnin vildi ekki að hún yrði felld þannig að kosningunni var frestað. Sem sagt almenningur var almennt á móti, en stjórnmálamenn almennt með.
Svo núna er búið að vera að hringla í textanum og halda því fram að nú sé þetta annað plagg. En ekki á að treysta almenningi fyrir því að klúðra þessu núna, þannig að ekki á að kjósa um þetta. Þarna er rétta andlit ESB að sýna sig. Þetta er eins ólýðræðislegt og hægt er. Enda veltir maður því fyrir sér hvað maður hefur með að gera apparat sem hefur rúmlega 30.000 bjúrókrata í störfum.
Í kosningaslagnum í Frakklandi mátti heyra mikla óánægju með Brussel og jafnvel talað um að yfirgefa báknið, enda hafi Frakkar verið rændir með euro upptökunni.
ESB hefur ekkert með frelsi og lýðræði að gera. Þetta er sósíalismi sem laumar sér inn í nafni frelsis og lýðræðs.
Blair hættir við þjóðaratkvæðagreiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.4.2007 | 08:06
Stundum getur minna þýtt meira.
Munið þið eftir skattlausa árinu, þegar farið var úr eftirá greiddum skatti í fyrirfram greiddan. Ég man eftir því, en ég man ekki eftir að ríkið hafi farið á hausinn við það að vera tekjuskattlaust í eitt ár.
Þegar fólk hefur meira á milli handanna, þá aukast tekjur ríkisins í veltusköttum. Einnig verður aukið fjármagn í höndum einstaklinga til þess að sparnaður og fjárfesting eykst, sem leiðir svo til meiri hagvaxtar og aukinna tekna ríkisins.
Einfalt skattakerfi er öllum til hagsbóta. Þannig á skattur af tekjum að vera 10% eða þar undir, skattur af veltu (vsk) á að vera um 10 - 15% og skattar á áður skattlagða hluti eiga ekki að vera til (erfðaskattur, eignaskattur osfrv.). Eftir því sem skattar eru lægri, færri og einfaldari, því mun meiri líkur eru á að þeir skili sér allir til ríkisins. Hvers vegna ætti verktaki að svindla undan vsk ef hann hann heldur eftir 90% af tekjunum sínum. Hvers vegna ætti svo verkkaupinn að kaupa verk án vsk ef það er ekki nema 10% af heildarkostnaðinum. Lágir skattar og háar sektir vegna undanskota verða til þess að það borgar sig ekki fyrir einstaklinga að standa í því að svíkja undan. Einfaldara skattkerfi verður svo líka til þess að auðveldara er að reikna skatta og fylgjast með innheimtu þeirra.
Ögmundur sagði fyrir síðustu kosningar að hann vildi ekki að Ísland yrði einhver skattaparadís. Ég spyr hins vegar á móti, af hverju má ég ekki búa í paradís?
Mikill meirihluti segir 35,72% tekjuskatt of háan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.4.2007 | 09:06
Hvað ef Segolene kemst ekki í aðra umferð?
Það vill svo til að ég er staddur í Frakklandi núna og hef verið að hlusta á umræðuna í tengslum við kosningarnar. Þar eru menn ekki svo vissir um að kosið verði milli Segolene og Sarkozy í annarri umferð. Þar verði hugsanlega kosið milli annars þeirra og LePen. þegar svo litið er til þess að Sarkozy virðist hafa meira fylgi en Segolene í fyrri umferð, þá velti ég því fyrir mér hvort Sósíalistarnir kjósi Sarkozy eða LePen.
Ágúst Hjörtur minnist á ýmislegt í sínu bloggi um þessa frétt. Þar er rétt að mikið er að í frönsku efnahagslífi og stöðnun ríkt. Þar segir hann hins vegar að hægrimenn hafi lengi verið við stjórn og gefur í skyn að þetta sé allt þeim að kenna. Svo einfallt er það reyndar ekki. Rétt er það að Chirac hefur verið nokkuð lengi við völd, en hann tók við af Mitterand sem hafði verið við völd frá því snemma á níunda áratugnum. Hann Sósíalistar hafa einokað frönsk stjórnmál og hafa ber í huga að Chirac var með sósíaliskan forsætisráðherra lengi framan af.
Vandi fransks efnahagslífs er afleiðing áratuga veru Sósíalista við stjórnvölin. Allar tilraunir hægrimanna til að laga til eftir vinnstri vitleysu síðustu áratuga, hafa kerfisbundið verið eyðilagðar af verkalýðshreyfingunni og öðrum samtökum Sósíalista. Til dæmis voru umbætur í atvinnumálum árið 2005 - 2006, eyðilagðar af verkalýðshreyfingunni og fjöldi ungmenna urðu af vinnu sem þau ella hefðu fengið. Í kjölfarið krafðist verkalýðshreyfingin að önnur og aðeins eldri lög yrðu felld niður. Þegar hún var spurð hvort þá ætti ekki að leggja niður hundruð þúsunda starfa sem til urðu vegna þeirra, þá varð svarið ... Jú auðvitað er enn verið að bíða eftir svari.
Það yrði frönsku efnahagslífi ekki til bóta að Segolene yrði kosinn forseti, en með hana sem forseta og manninn hennar sem forsætisráðherra. Þá yrði ástandið eins og í Póllandi.
Íslenskir Sósíalistar vonast auðvitað eftir kvennkyns Sósíalista við stjórnvölin í Frakklandi svo hægt sé að finna enn eina glórulausu ástæðuna til að kjósa Samfylkinguna í næsta mánuði. Það eina sem yrði samnefna í þeim niðurstöðum, væri að sultarólin yrði hert til muna.
Royal og Sarkozy hnífjöfn samkvæmt nýrri könnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2007 | 09:39
Verðbólga er ekki fasti.
Verðbólga er ekki fasti sem ekki er hægt að breyta. Auðvitað má gera ráð fyrir því að hluti skýringarinnar á lágri verðbólgu nú, sé fólginn í lækkun virðisaukaskattsins og því líklegt að hún komi til með að hækka þegar lækkanirnar hafa komið fram.
Verðbólga er mæling á hækkunum í þjóðfélaginu. Hækkandi laun hækka kostnað sem leiðir af sér hærra verð og því hærri verðbólgu. Leiðin til að auka kaupmátt felst í því að auka fjármagnið í höndum einstaklinga án þess að hækka laun og koma þannig í veg fyrir að aukið fjármagn leiði til hærra verðlags.
Leiðin til þess að auka fjármagnið í höndum einstaklinga, án þess að hækka launin, er að lækka skatta. Við höfum markmið til að líta til, 10% skatts á fjármagnstekjur. Samræmum skatta á tekjur og höfum hann 10%. Þetta er mögulegt án þess að kosta þjóðfélagið mikið, enda hefur það sýnt sig að tekjur hafa aukist með lækkandi sköttum.
Líkurnar á því að þetta gerist í stjórnartíð vinstrimanna eru hins vegar engar. Ef þetta er eitthvað sem fólki hugnast, þá er aðeins ein leið til að ná þessu markmiði, en það er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í maí. Allt annað dregur úr líkunum á því að almenningur fái notið lægri skatta.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,6% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2007 | 19:21
En hvernig?
10.4.2007 | 17:50
Rauði Moskvichinn hans Jóa.
Pólitík er undarleg tík, var einu sagt og stendur það enn. Nú hefur VG verið að taka mikið stökk og er það í beinu framhaldi af grænu umræðunni sem verið hefur undanfarið. Þarna er litið til þeirra út frá þessari stefnu, enda þeir sem lengst og fastast hafa staðið á henni. Allt gott um það, en samt hef ég á tilfinningunni að fólk sé ekki alveg að sjá vöruna sem er í boði.
Jói er maður sem var frægur fyrir að keyra um á rauðum Moskvich. Bíllinn þótti flottur í sína tíð og margir sögðu þetta besta og flottasta bíl ever. Svo gerðist það um 1990 að í ljós kom að Moskvichinn var ekki svo góður sem um var getið. Var hann farinn að ganga illa og bara var ekki að ganga upp. Þeir sem fylgt höfðu rauða Moskvichinum fóru nú að leita annað, áttu reyndar í smá vandræðum með að velja nýjan bíl þar sem áhugi þeirra á gamla Moskvichinum hafði meira byggst á blindri hugsjón frekar en heilbrigðri skynsemi.
Þar sem Jói sá að þetta var farið að fara illa með hann og bílinn, þá áttaði hann sig á því að hann yrði að breyta til. Jói var ekki vitlaus. Hann tók gamla rauða Moskvichinn og sjænaði hann til. Hann sparslaði í dældir og glufur, sprautaði hann grænan og kallaði hann Mossa. Og allir urðu yfir sig hrifnir. Nú þurftu þeir ekki lengur að leita að nýjum bíl, bíllinn var fundin í græna Mossanum. Græna byltingin var fædd.
Það eina sem menn ekki áttuðu sig á, var að þrátt fyrir sparsl í dældir og glufur, græna málningu og nýtt nafn, þá var þetta sami gamli rauði Moskvichinn. Ekkert hafði breyst, fólk bara hélt það.
10.4.2007 | 17:35
Kominn í sumarið.
2.4.2007 | 10:36
Hvað svo?
Í kjölfar kosninganna í Hafnarfirði, er vert að skoða framhaldið. Menn hafa sagt niðurstöðuna byggða á andstöðu við álver, umhverfisvernd og svo tal um hættu á ofþennslu í þjóðfélaginu. Það er því ljóst að enginn veit í raun hver ástæðan var, en einhver var hún. Við þurfum hins vegar að átta okkur á því hvers vegna kosningin fór eins og hún fór.
Ég tel að nú þurfi landsmenn að setjast niður og ræða málin, hvað eigi að vera næstu skref. Næstu skrefum í virkjunarmálum á að fresta þangað til við höfum ákveðið hvað við viljum gera og hvaða framtíð við sjáum fyrir okkur. Eins og staðan er í dag, þá er engin þörf á nýrri virkjun strax. Við þurfum að gera heilstæða áætlun um framtíðina og hvernig við sjáum hana þegar litið er til stóriðju og virkjana. Ætlum við að virkja allar lækjasprænur eða ætlum við að leyfa einhverjum þeirra að renna og þá hverjum. Ætlum við að byggja eintóm álver eða ætlum við að huga að fjölbreyttari iðnaði.
Það er ljóst að við verðum að ræða málin, en við verðum að mæta til þeirra viðræðna með opin huga og án öfga aðgerða og aðgerðaleysis. Niðurstaðan í Hafnarfirði gaf okkur smá tíma til að ná andanum og við verðum að nýta þann tíma viturlega. Niðurstaðan er komin og hana ber að virða, en allt þras um hana tefur okkur bara í að ræða málin af alvöru.
25.3.2007 | 11:09
Gekk ekki alveg með trompin
Það virkaði ekki hjá þeim mannránið, allavegana tóku Breta ekki aðra afstöðu til málsins. Áhugavert að skoða framhaldið, en ég tel að nú fari að styttast í það að einhver niðurstaða komi í málið. Mun hún vera í formi árásar á Íran, sýningar á sprengjunni eða ákvörðun frá Íran um að vinna með SÞ. Ég tel reyndar að hið síðasta muni seint koma og því spurning hvort verði á undan árásin eða sprengjan.
Margir hafa spurt, afhverju Íranir megi ekki eignast sprengjuna ef aðrir megi það. Vandamálið er að með tilkomu sprengjunnar í höndum Írana, eru verulegar líkur á að hún verði notuð. Það þarf ekki endilega eldflaugar og sprengjuflaugar til að nota hana. Hægt væri að setja hana um borð í bát, sigla til Evrópu eða Ameríku og sprengja í næstu höfn. Spurning hvort við viljum taka sénsinn á því?
Íranar fordæma refsiaðgerðir SÞ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2007 | 16:05
Að sækja sér tromp á hendi.
Íranir standa frammi fyrir því að finna sér tromp sem gefið geti þeim lengri tíma í deilunni um kjarnorkurannsóknir þeirra. Þessi aðgerð þeirra gæti verið akkúrat það tromp sem þeir þurfa. Hæpið að Bretar séu tilbúnir til að samþykkja loftárás á írönsk mannvirki, vitandi af sínum mönnum í Teheran.
Áhugavert verður að sjá framhaldið á þessu máli. Verður samið um lengri fresti til að fá fólkið heim?
Bretarnir sagðir hafa viðurkennt að þeir hafi verið á írönsku hafsvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.3.2007 | 10:40
Og hvað með það.
Maður getur alveg orðið vitlaus á þessari gengdarlausu öfund og vitleysu sem tröllríður öllu og öllum hérna í þjóðfélaginu.
Hvað með það þó einhver sé ríkari en ég. Hvað með það þó einhver sé með einkabílstjóra, einkaþotu og hús á Kanarí. Ef ég vil þetta, þá verð ég bara að finna leið til þess sjálfur að ná þessum markmiðum. Það að bölsóttast út í hegðun annarra er bara vitleysa. Að krefjast þess að séð verði til þess að þessum aðilum verði ekki gert mögulegt að halda úti þessari neyslu, er bara enn meiri vitleysa.
Tækifærin sem þessir einstaklingar nýttu sér, voru ekki bara fyrir þá. Við öll stóðum frammi fyrir þessum tækifærum á sínum tíma. Við vorum bara mis sniðug að nýta okkur þau.
Ég vil að það komi hér fram áður en lengra er haldið í skrifum, að ég hef séð mikla eymd í þessu þjóðfélagi og veit að það er víða pottur brotinn. Það sem ég hef orðið vitni að er margfallt verra en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Ég er ekki að tala um það fólk í þessum pistli. Sumt fólk þarf aðstoð og við þurfum sem samfélag að veita hana. Málið er bara að við þurfum að vinna á því án þess að níðast á öðrum og eigum þeirra. Að þessu sögðu vil ég segja eftirfarandi:
Í daga hafa mun fleiri einstaklingar það mun betra en fyrir 10 - 15 árum síðan. Almennt höfum við það mjög gott og allt tal um óstjórn og aumingjaskap í ríkisstjórn síðustu ára sem leitt hefur til almennrar vesældar hjá landsmönnum er bara bull. Það að vera fátækur er ekki það sama og vera blankur. Að mínu mati höfum við sem þjóð ekki gengið í gegnum meira velsældarskeið bara forever. Það að sumir hafa það ekki eins gott og aðrir er í flestu tengt því að þeir hinir sömu voru ekki að eltast við tækifærin sem veittu vel. Það er ekki við neinn að sakast nema þá einstaklinga sjálfa.
Auðvitað vill ég meira, en ég gerir mér grein fyrir því að það er undir mér komið að svo verði. Það er ekki ríkistjórninni að kenna að svo er ekki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2007 | 09:33
Uppistand á Alþingi.
Ég skil ekki hvað talað hefur verið neikvætt um þetta nýja framboðs Ómars og félaga. Hreinlega skil það bara ekki.
Hefur það ekki verið umtalað ástandið á Alþingi, að þetta sé nú bara grín sem þar fer fram. Alþingismenn hafa alla vegana verið að hamra á því sumir hverjir, sérstaklega stjórnarandstaðan. Væri þá ekki eðlilegt að fá alvöru uppistandara þangað inn. Mann sem þekkir grínið og hefur haft af því atvinnu áratugum saman. Ég held að Ómar sé líklegast eini fagmaðurinn á þessu sviði sem unnnið hefur þarna innandyra, fyrir utan Jörund rakara sem mig minnir að hafi tekið sæti stutta stund sem varaþingmaður fyrir einhverjum misserum síðan.
Ómar er því í raun eini atvinnu uppistandarinn og því hæfastur af þeim sem þarna sækja til starfa. Væri ekki eðlilegt að hann yrði því líka forsætisráðherra. Ég skil ekki fólk sem segir að hann og flokkurinn hans hafi ekkert að gera inn á þing.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2007 | 09:23
Held ég sé að fatta!
Alltaf gaman fyrir kosningar. Allar kannanirnar og deilurnar þar sem menn eru að herða stálið í eggvopnunum, pússa skildi og smyrja brynjur. Þrátt fyrir deilurnar, þá held ég samt að við getum sameinast í tómri gleði.
Við erum búin að vera þusa um ójafrétti, launamun kynja, skatta af eða á, vöruverð, ónýta krónu, neyslukapphlaup, misskiptingu auðs, húsnæðislánavexti og ég veit ekki hvað og hvað. Ég held samt að ég sé búinn að fatta hvað við eigum að gera. Það laust mig hugmynd nú fyrir stuttu er ég las eitthvað af þessu við höfum það svo skítt bloggum. Hér er hugmyndin.
Hvað ef við leggjum niður krónuna og tökum bara upp punkta!!! Þá erum við laus við krónuna. Við gætum svo haft það þannig að í staðin fyrir að fá greidd laun í krónum þá fengu allir úthlutað ákveðnum fjölda af punktum í hverjum mánuði t.d. 10.000, en þessa punkta myndum við svo nota til að sækja okkur mat og nauðsynjar. Ég nefni vísvitandi ekki orðið kaupa þar sem við myndum ekki vera að kaupa neitt. Punktastaðan yrði svo að sjálfsögðu núlluð um hver mánaðmót þannig að engin óeðlieg uppsöfnun punkta ætti sér stað. Þannig byrja allir á núlli í hverjum mánuði. Þarna væri komið í veg fyrir launamun, auðsöfnun og annað vesen tengt þessum verkfærum djöfulsins sem peningarnir eru.
Hugmyndin er nefnilega sú að við hættum að vinna fyrir launum. Ríkið tæki yfir alla starfssemi og myndi sjá til þess að fólki yrði úthlutað vinnu eftir hæfni (meira segja það er möguleiki). Í leikskólum yrði fylgst með börnum og fundið út hvað þau væru hentug fyrir í framtíðinni. Við það að ríkið tæki allt yfir, þá væri komið í veg fyrir heildsala og gráðuga forstjóra sem engöngu eru í bísness til að níðast á lítilmagnanum (okkur). Öllu vöruskipti við útlönd yrðu gerð í gegnum ríkið, þannig að allar tekjur af útflutningi kæmu beint til ríkisins og þar með væri ekki verið að safna þessum tekjum í hendur fárra einstaklinga. Innflutningurinn yrði svo undir stjórn ríkisins þannig að bruðl væri fyrir bí (þarna er nú komið flott slagorð fyrir næstu kosningar).
Við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur af því sem hefur einkennt þetta neysluþjóðfélag. Við myndum ekki kaupa okkur bíla, okkur væri úthlutað bifreið við hæfi, ef við yfir höfuð þurfum á henni að halda. Ríkið sæji nefnilega til þess að það yrði aðeins flutt inn ákveðin fjöldi bifreiða af fyrirfram greindri tegund. T.d. myndi einstakling aðeins vera úthlutað smábifreið, en hann ekki látinn bruðla í einhvern jeppa sem hann hefur hvort eð er ekki neitt með að eiga. Húsnæði yrði úthlutað á fólk eftir þörf og því værum við laus við lán, vexti og verðbætur. Allt merkjakapphlaup í fatnaði yrði líka að engu þar sem ríkið framleiddi og seldi bara staðala vöru. Væri ekki töff að taka aftur upp Maó jakkafötin. Þá væri menn ekki að bera sig saman eftir merkjum, en við það myndi stressstuðullinn snarlækka.
Í þessu þjóðfélagi þyrfti fólk ekki að hafa áhyggjur af neinu sem skiptir máli. Þarna væru allir eins, allir jafnir í stöðu og eignum, enda væru þær svo sem ekki til staðar nema í mesta lagi í tengslum við fatnað. Menn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni, það væri búið að ákveða hana fyrir okkur. Meira segja væri hægt að setja upp tengingarstofu þar sem séð væri til þess að öllum einstæðum yrði fundinn maki, þannig að fólk þyrfti ekki að krúsa pöbbana í einhverri innantómri makaleit, heldur gætu bara setið á kaffihúsum og rökrætt um heimspeki.
Frelsi hefur nefnilega alveg hrikalegan ókost. Það er allt þetta val sem maður stendur frammi fyrir og allir möguleikarnir sem maður verður að taka afstöðu til. Hugmyndin mín leysir allar áhyggjur tengdu þessu þar sem maður þarf ekki að velta fyrir sér valmöguleikum. Við bara fáum hlutinn (ath eintöluna) upp í hendurnar og þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Einnig erum við laus við allar vangaveltur um glötuð eða ný tækifæri, þau einfaldlega skipta ekki máli þar sem þau koma illa til með að bjóðast.
Ef einhver ætlar núna að baula um atvinnuleysi og eymd í kjölfarið á því að þessari hugmynd yrði hrundið í framkvæmd. Þá vil ég benda hinum sama á það, að með yfirtöku ríkisins á allri starfssemi, þá munu störf margfaldast, bæði í framleiðslu og ekki síður í allri umsjón og eftirlit með því að kerfið virki. T.d. eftirlit með óþarfa neyslu (neyslulöggur), eftirlit með einstaklingum sem vilja meira en aðrir (bruðllöggur), eftirlit með óþverra og rugli á netinu (netlöggur), almennt samfélagseftirlit með þeim sem vilja skera sig úr (samfélagslöggur) og svo náttúrulega eftirlit með eftirlitsaðilum (eftirlitslöggur). Þetta væri bara hreint út sagt frábært samfélag.
Nú eru að koma kosningar. Sameinumst um hugmyndina mína. Hún hefur aldrei verið prófuð áður, þ.e. í þessari ákveðnum mynd. Það hefur hugsanlega verið reynt að apa hana upp einhversstaðar áður, en þeir hafa þá alltaf sleppt úr grundvallaratriðum sem gera þessa hugmynd nefninlega svo frábæra.
Svo getum við kallað þetta Voða Gott Samfélag, jafnvel skammstafað það líka.
VG áfram í mikilli sókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |