Held ég sé að fatta!

Alltaf gaman fyrir kosningar. Allar kannanirnar og deilurnar þar sem menn eru að herða stálið í eggvopnunum, pússa skildi og smyrja brynjur. Þrátt fyrir deilurnar, þá held ég samt að við getum sameinast í tómri gleði.

Við erum búin að vera þusa um ójafrétti, launamun kynja, skatta af eða á, vöruverð, ónýta krónu, neyslukapphlaup, misskiptingu auðs, húsnæðislánavexti og ég veit ekki hvað og hvað. Ég held samt að ég sé búinn að fatta hvað við eigum að gera. Það laust mig hugmynd nú fyrir stuttu er ég las eitthvað af þessu við höfum það svo skítt bloggum. Hér er hugmyndin.

Hvað ef við leggjum niður krónuna og tökum bara upp punkta!!! Þá erum við laus við krónuna. Við gætum svo haft það þannig að í staðin fyrir að fá greidd laun í krónum þá fengu allir úthlutað ákveðnum fjölda af punktum í hverjum mánuði t.d. 10.000, en þessa punkta myndum við svo nota til að sækja okkur mat og nauðsynjar. Ég nefni vísvitandi ekki orðið kaupa þar sem við myndum ekki vera að kaupa neitt. Punktastaðan yrði svo að sjálfsögðu núlluð um hver mánaðmót þannig að engin óeðlieg uppsöfnun punkta ætti sér stað. Þannig byrja allir á núlli í hverjum mánuði. Þarna væri komið í veg fyrir launamun, auðsöfnun og annað vesen tengt þessum verkfærum djöfulsins sem peningarnir eru.

Hugmyndin er nefnilega sú að við hættum að vinna fyrir launum. Ríkið tæki yfir alla starfssemi og myndi sjá til þess að fólki yrði úthlutað vinnu eftir hæfni (meira segja það er möguleiki). Í leikskólum yrði fylgst með börnum og fundið út hvað þau væru hentug fyrir í framtíðinni. Við það að ríkið tæki allt yfir, þá væri komið í veg fyrir heildsala og gráðuga forstjóra sem engöngu eru í bísness til að níðast á lítilmagnanum (okkur). Öllu vöruskipti við útlönd yrðu gerð í gegnum ríkið, þannig að allar tekjur af útflutningi kæmu beint til ríkisins og þar með væri ekki verið að safna þessum tekjum í hendur fárra einstaklinga. Innflutningurinn yrði svo undir stjórn ríkisins þannig að bruðl væri fyrir bí (þarna er nú komið flott slagorð fyrir næstu kosningar).

Við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur af því sem hefur einkennt þetta neysluþjóðfélag. Við myndum ekki kaupa okkur bíla, okkur væri úthlutað bifreið við hæfi, ef við yfir höfuð þurfum á henni að halda. Ríkið sæji nefnilega til þess að það yrði aðeins flutt inn ákveðin fjöldi bifreiða af fyrirfram greindri tegund. T.d. myndi einstakling aðeins vera úthlutað smábifreið, en hann ekki látinn bruðla í einhvern jeppa sem hann hefur hvort eð er ekki neitt með að eiga. Húsnæði yrði úthlutað á fólk eftir þörf og því værum við laus við lán, vexti og verðbætur. Allt merkjakapphlaup í fatnaði yrði líka að engu þar sem ríkið framleiddi og seldi bara staðala vöru. Væri ekki töff að taka aftur upp Maó jakkafötin. Þá væri menn ekki að bera sig saman eftir merkjum, en við það myndi stressstuðullinn snarlækka.

Í þessu þjóðfélagi þyrfti fólk ekki að hafa áhyggjur af neinu sem skiptir máli. Þarna væru allir eins, allir jafnir í stöðu og eignum, enda væru þær svo sem ekki til staðar nema í mesta lagi í tengslum við fatnað. Menn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni, það væri búið að ákveða hana fyrir okkur. Meira segja væri hægt að setja upp tengingarstofu þar sem séð væri til þess að öllum einstæðum yrði fundinn maki, þannig að fólk þyrfti ekki að krúsa pöbbana í einhverri innantómri makaleit, heldur gætu bara setið á kaffihúsum og rökrætt um heimspeki.

Frelsi hefur nefnilega alveg hrikalegan ókost. Það er allt þetta val sem maður stendur frammi fyrir og allir möguleikarnir sem maður verður að taka afstöðu til. Hugmyndin mín leysir allar áhyggjur tengdu þessu þar sem maður þarf ekki að velta fyrir sér valmöguleikum. Við bara fáum hlutinn (ath eintöluna) upp í hendurnar og þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Einnig erum við laus við allar vangaveltur um glötuð eða ný tækifæri, þau einfaldlega skipta ekki máli þar sem þau koma illa til með að bjóðast.

Ef einhver ætlar núna að baula um atvinnuleysi og eymd í kjölfarið á því að þessari hugmynd yrði hrundið í framkvæmd. Þá vil ég benda hinum sama á það, að með yfirtöku ríkisins á allri starfssemi, þá munu störf margfaldast, bæði í framleiðslu og ekki síður í allri umsjón og eftirlit með því að kerfið virki. T.d. eftirlit með óþarfa neyslu (neyslulöggur), eftirlit með einstaklingum sem vilja meira en aðrir (bruðllöggur), eftirlit með óþverra og rugli á netinu (netlöggur), almennt samfélagseftirlit með þeim sem vilja skera sig úr (samfélagslöggur) og svo náttúrulega eftirlit með eftirlitsaðilum (eftirlitslöggur). Þetta væri bara hreint út sagt frábært samfélag.

Nú eru að koma kosningar. Sameinumst um hugmyndina mína. Hún hefur aldrei verið prófuð áður, þ.e. í þessari ákveðnum mynd. Það hefur hugsanlega verið reynt að apa hana upp einhversstaðar áður, en þeir hafa þá alltaf sleppt úr grundvallaratriðum sem gera þessa hugmynd nefninlega svo frábæra.

Svo getum við kallað þetta Voða Gott Samfélag, jafnvel skammstafað það líka.


mbl.is VG áfram í mikilli sókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband