Færsluflokkur: Bloggar

Er ekki alveg að fatta þetta.

Ég hef verið að velta þessu fyrir mér og eftir því sem meira kemur í ljós, þá er maður að fatta minna, eða þannig. kaninn sagði samningnum upp einhliða, ég held að það sé á hreinu. Hann hefur engan viðbúnað hér á landi, en á samt rétt á að taka yfir alla flugumferð telji hann ástæðu til. Hann bara fór og skildi allt í drasli, en það er svo sem skiljanlegt þar sem hann var búinn að segja að hann myndi gera það. Var reyndar búinn að fá skilninginn á því samþykktan og undirritaðan í síðasta samningi.

Ég get bara ekki fyrir nokkurn mun skilið hvers vegna við vorum að skrifa undir nýjan samning við Kanann. Hann er með engan viðbúnað, en kemur ef þörf er á. Við erum í Nato og þar er gert ráð fyrir að komið sé til aðstoðar verði á okkur ráðist, engin þörf fyrir sérsamning þar, eða hvað? Það er ekki eins og Kaninn verði kominn hingað á korteri. Það tekur nokkra sólahringa að koma hingað. Það þarf að kalla út heimavarnalið Virginiu, koma þeim í flug og setja upp búnaðinn. Ísland herlaust verður það auðvelt til hertöku að það mun taka margar vikur fyrir "bandamann" okkar að safna liði og koma því til landsins án þess að það verði hrakinn út í sjó, í einhverri tilraun til landvarna.

Þegar Kaninn sagði bless, áttum við að segja bless líka.


mbl.is Ákvæði um yfirtöku á flugstarfsemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forvitnilegar kosningar, fyrir okkur líka.

Það er gaman að sjá hversu mjótt er á muninum á milli þeirra Royal og Sarkozy. Þessar kosningar eru um margt áhugaverðar, ekki bara fyrir Frakka, heldur líka þá sem fyrir utan sitja.

Ef Royal nær kosningu, þá er talið sjálfgefið að hún kalli til formann Sósíalistaflokksins og fái honum umboð til stjórnarmyndunar. Þetta mætti kalla eðlilegt í kjölfar sigurs vinstrimanna í kosningunum, en staða þeirra tveggja er samt nokkuð til að velta fyrir sér þar sem þau myndu bæði búa í sömu höllinni. Spurning hvort koddatalið "pillow-talk" þeirra verði að skrást formlega þar sem þar væru forseti og forsætisráðherra að ræða saman. Frakkland yrði þá svona svipað fyrirbæri og Póland þar sem tvíburabræður skipta með sér sætum forseta og forsætisráðherra.

Sarkozy er einnig nokkuð áhugaverður. Hann er einn fárra stjórnmálamanna sem ekki hefur farið í gegnum hefðbundinn menntaveg stjórnkerfisins, en þess utan er hann talinn vera félagi í Scientology og þar með góður vinur Tom Cruse, sem heimsótti hann reyndar þegar hann átti leið um París. Ef rétt reynist, þá er hér um að ræða mjög áhugaverða niðurstöðu og vert að fylgjast með Scientology hópnum í kjölfarið.

Svo gæti náttúrulega LePen náð ofurárangri eins og í síðustu kosningum, en það er náttúrulega bara kapituli út af fyrir sig.


mbl.is Sarkozy með meira fylgi en Royal samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonbrigði með viðtal

Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir smá vonbrigðum með viðtalið við hana Ingibjörgu í Mogganum á sunnudaginn. Ég hafði gert mér vonir um einhverjar krassandi tilkynningar eða málefnalegar sprengjur. Eftir að ég var búin að lesa viðtalið, þá var ég bara búinn að lesa viðtalið. Það sat einhvern vegin ekkert eftir.

Ef eitthvað var, þá var það að Samfylkingin virðist ætla að fara í ríkistjórn með þeim sem tekur við henni. Fyrir áramót var ýmislegt sem benti til þess að stjórnarandstaðan ætlaði að mynda lauslegt bandalag til stjórnarmyndunar. Í Kryddsíldinni hrikti hins vegar í þessu bandalagi og nú er svo komið að Samfylkingin er farin að opna á möguleikann á tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Í Kryddsíldinni skarst í odda með VG og Samfylkingunni út af leiðtogasætinu, Ingibjörg telur að eðlilegt sé að stærri flokkurinn í samstarfinu fá forsætisráðherrann. Ég velti því fyrir mér hvort hún sé tilbúin að ganga að því í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Ég hef það einhvern vegin á tilfinningunni að Ingibjörg eigi erfitt með að vera eitthvað annað en númer eitt.

Svo er það annað sem ég held að komi til með að draga úr líkunum á því að Ingibjörg verði vinsæl til samstarfs, en það er sú árátta hennar að hrauna yfir allt og alla. Það að taka þingflokkinn sinn fyrir og kenna honum um slæma stöðu flokksins, er náttúrulega bara dæmi um lélega diplomatik, eða hreinlega skort á henni. Þetta virðist sama viðhorfið og er í gangi hjá henni í tengslum við krónuna. Það væri athugandi að skoða hvenær fylgi flokksins fór að dala, samkvæmt skoðanakönnunum. Ef ég man rétt, þá jókst fylgi flokksins jafnt og þétt þar til í kringum síðasta landsfund flokksins. Spurning hvað gerðist þar.

Hvað er svo með stefnu Samfylkingarinnar. Það virðist sem sú stefna byggist á niðurstöðum kannanna, nema þá helst í Evrópuumræðunni. En þar virðist sem stefnan hafi verið sett á Evrópuaðild, þrátt fyrir að það sé ekkert sem segi að almenningur sé tilbúin í þá ferð. Ég sé heldur ekki að Samfylkingin sé eitthvað sérstaklega vinstri sinnuð heldur, að því leitinu til að hún hefur reynt að höfða mikið til stórfyrirtækja í útrás, eins og Evróputalið bendir til.

Það eina sem mér fannst ég geta lesið út úr þessu viðtali var að kosningabaráttan kemur til með að verða mjög áhugaverð. Hvort sem hún verður á persónulegum nótum eða hugmyndafræðilegum, sem ég tel reyndar minni líkur á.


Evran vs. Dollar

Það er búið að vera gaman að fylgjast með hysteríunni sem er að byggjast upp í kringum evru umræðuna. Krónan búin að vera og því lengur sem við drögum það að taka upp evruna, því meiri verður katastroffan fyrir þjóðfélagið.

Það er sem ég hafi heyrt þennan söng ...

Á mínum yngri árum (fyrir sirka svona 20 slíkum), þá var þessi sama umræða í gangi. Reyndar var evran ekki til umræðu, enda ekki til sem slík. Heldur var rætt um dollar. Þjóðfélagið á fullu stími upp í fjöru og krónan, þá tveimur núllum fátækari, alger Mikka mús gjaldmiðill. Dollarinn var lausnin. Ef hann yrði ekki tekinn upp, þá værum við dæmd til eilífrar bölvunar í myrkum djúpum fátæktar. Slíkrar að hörmungar fyrri alda yrðu sem barnaleikur í samanburðinum.

Við tókum dollarann ekkert upp og hin myrku djúp hafa látið bíða eftir sér. Ég velti því fyrir mér hvað hefði gerst ef við hefðum tekið upp dollarann 1985 eða þar um kring. Hvernig væri þá umhorfs hér á skerinu. Hver væri umræðan, nú þegar allar þjóðir eru farnar að losa sig við dollarann úr myntkörfunum, í mismiklu mæli þó.

Ég legg til að við lokum munninum, öndum með nefinu og teljum upp á tíu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband