BZ og Ungdomshuset

Jæja, þá er Ungdomshuset horfið úr höndum frítökufólksins. Það má alveg búast við því að mikið verði um læti í henni Köben núna næstu daga. Reyndar skil ég ekki borgaryfirvöld að gera þetta svona rétt fyrir helgi. Dönsku autonomarnir, sem eru skilgetið afkvæmi gömlu BZ-ana, eru mjög virkir í að skipuleggja læti og koma þjóðfélaginu í vandræði. Þetta er hópur sem kemur alstaðar að frá Danmörku og hefur reglulega pirrað íbúa Nörrebro með mótmælum sínum. Eftir átök BZ-ana og lögreglu í lok 9. áratugarins höfðu BZ-arnir fengið Ungdomshuset og því er það mikið tilfinningamál núna þegar á að rýma það.

Ég man eftir áramótunum 94/95, en ég tók strætó upp Nörrebrogade þann 2. janúar og það var ótrúleg upplifun. Allt hafði orðið vitlaust á gamlársdag, en tveimur dögum síðar var enn verið að þrífa glerbrot og laga skemmdar byggingar. Þarna áttaði ég mig á því að Danir kunna að valda skemmdum ef þeir vilja við hafa. Það sem einnig vakti athygli mína var að íbúarnir mótmæltu þessu harðlega, ekki lögreglunni eða hennar aðgerðum, heldur að "skríllinn" hefði getað komið þarna og valdið usla. Kröfðust þeir harðari aðgerða lögreglu. Einn íbúinn lýsti því hvernig hann og kona hans höfðu þurft að hnipra sig saman í húsaskoti eftir að þau lentu á milli autonomanna og lögreglu þar sem þau voru á leið heim eftir gleðskap.

Autonomarnir hafa tekið Nörrebro í einhverskonar fóstur og eru reglulega með óeirðir í hverfinu. Þetta fólk, sem mikið til eru námsmenn og börn efnaðs millistéttafólks, hefur haldið uppi merki hinna svo kölluðu BZ-ara sem við hér heima kölluðum hústökufólk. BZ-arnir voru svo afkvæmi hippanna í Kristjaníu. Þannig að það sem nú er að gerast er hluti af mjög áhugaverðri sögu Kaupmannahafnar. Hvort þetta endi með því að autonomarnir nái einhverju fram er svo alltaf spurning.

Það er ótrúlegur kraftur sem leynist ungu fólki og alveg ótrúlegt að það skuli ekki vera gert meira í að nýta þann kraft í eitthvað uppbyggilegt.


mbl.is Rýming Ungdomshuset hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband