Þetta hefði ekki átt að koma á óvart

Þetta ætti ekki að koma á óvart, enda er ESB ekki sveigjanlegt batterý, heldur gildir þar reglan um að allt skuli staðlað. Auðvitað erum við ekki að fá flýtimeðferð, en hins vegar er ljóst að við uppfyllum fjöldann allan af skilyrðum og þurfum því ekki að bíða þann tíma sem tekur okkur að breyta þjóðfélaginu. En sérmeðferð verður engin og því síður undantekningar frá ríkjandi reglum. Það hefur verið logið að þjóðinni til að koma þessu ferli í gang, allt tal um sérmeðferð er bull.

Meðferðin okkar núna er ekki ósvipuð meðferðinni sem Fídji búar fengu á 19. öldinni. Þeir féllu úr því að vera þjóðfélag hagsældar í að lifa við örbirgð og aumingjaskap í framhaldinu. Þeir einu sem græddu voru Englendingar og nokkrir bankamenn!!! Kannast einhver við þetta.

Enn og aftur vil ég benda á orð Bismark þegar hann sagði ríki ekki eiga vini heldur hagsmuni. Við verðum að átta okkur á því að hagsmunir okkar hafa stundum legið með þessum þjóðum, en oft er það nú svo að okkar hagsmunir eru þvert á þeirra. Ætlum við að festa okkur inni í netinu hjá þeim og geta aldrei varið okkar hagsmuni sökum smæðar innan kerfisins, eða standa fyrir utan og geta valið okkur félaga með breittum hagsmunum.

Sem ríki verðum við að búa við sveigjanleika. Innan ESB hverfur þessi sveigjanleiki.


mbl.is Ísland fær enga sérmeðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave hlekkurinn

Það er augljóst í þessari samantekt og var svo sem augljóst fyrir hana, að Icesave mun verða hlekkur um fót þegar kemur að ESB. Það þarf samhljóða ákvörðun Evrópuríkjanna að hefja inngönguferlið okkar, ekkert annað er mögulegt. Það er því alveg á hreinu að fái Hollendingar og Bretar ekki sitt fram, þá muni ekki verða að inngöngu. Þetta sýnir að þetta hlé sem er á þingi í bili, mun aðeins verða til þess að svipustjórn Jóhönnu mun berjast harðar fyrir samþykkt Icesave samningsins.

Við getum auðvitað reynt að fá betri samning með því að leita eftir því við Breta og Hollendinga, en þetta eru gömul nýlenduveldi og ekki mikið fyrir að semja við sér "óæðri" ríki. Svo er það náttúrulega hefndin hjá Bretum, en harkan hjá þeim er að mínu mati skýranleg með vísan í þorskastríðin sem við unnum. Bretar hafa aldrei verið sáttir við að tapa fyrir "óæðra" ríki, enda þeir gamalt (og halda enn) stórveldi og nýlenduveldi. Bretar vilja sýna okkur að það borgar sig ekki að vera að mótmæla þeim, þeir eru að slá á puttana á okkur. Farnist okkur vel samveran með þeim í ESB.

Það er ekki spurning að mínu mati, að innganga í ESB með Icesave hlekkjað við leggin, mun aldrei verða okkur til framdráttar eða hagsældar. Kostnaðurinn við það er bara of mikill og enginn, ég segi ENGINN, mögulegur hagur okkar af inngöngu í ESB mun bæta það upp. Spurningin er hversu miklu viljum við fórna. Þeim sem vilja meina að við eigum ekkert val, aðrir hafa komið okkur í þetta og þvingað á okkur "valið", vil ég segja eftirfarandi: Það er til val og það val mun leiða okkur til hagsældar. Við verðum bara að hafa hugrekki til að taka af skarið. Hvert það val er, er hægt að sjá með því að lesa bloggið mitt og þá sérstaklega greinaflokkinn um nýtt Ísland.

Veljum íslenska framtíð á íslenskum forsendum.


mbl.is Umsókn Íslands um ESB bíður afgreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er annar skellur framundan?

Síðustu mánuði hafa markaðir erlendis verið að taka örlítið við sér vegna væntinga um að efnhahagslífið sé að koma til eftir slæmt ástand undanfarna mánuði. Það er hins vegar ekkert sem hefur komið fram sem bendir til þess að þetta sé eitthvað að batna og þessi frétt styður það. Svipaða sögu mætti segja frá BNA, en þar hafa atvinnuleysistölur ekki staðið undir væntingum.

Heimurinn hefur sloppið vel hingað til, en þar sem menn hafa ekki tekið á raunverulegu meini þar frekar en hér, þá má búast við að þetta geti allt fallið saman og þá mun ástandið á Íslandi ekki verða talið neitt sérstakt, eða vekja neina athygli umfram aðrar þjóðir.

Ég óttast að jákvæð viðbrögð á mörkuðum erlendis sé svo kölluð "Bear-trap" en það er fyrirbæri sem kemur oft upp í niðursveiflum. Þá kemur jákvæðnisskot sem fær fólk til að hefja fjárfestingar. Svo þegar þetta er komið á ákveðinn skrið, er fótunum kippt undan væntingunum og annar skellur tekur við. Sé þetta rétt mat hjá mér, þá kemur ekki til neinnar aðstoðar að utan.

Besta lausn okkar liggur í því að vinna sjálf á rótum vandans hér heima og leita leiða sem munum byggja þjóðfélagið upp á forsendum eignar, en ekki skulda eins og óumflýjanlega mun verða ef við höldum okkur við sama fjármálakerfi.


mbl.is Enn eykst samdrátturinn í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hagvöxtur mögulegur?

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg að sjá hvernig þessi hagvöxtur á að koma til, þegar litið er til aðgerða ríkistjórnarinnar. Til þess að hagvöxtur komi til, þá þarf að vera hvati til þess í samfélaginu. Hagvöxtur er aukin framleiðsla á verðmætum og til þess að það geti komið til, þá þarf að vera til fjármagn til að skiptast á þessum verðmætum. Nái ríkistjórnin sínu fram, þá er hæpið að til verði fjármagn innanlands til að ýta undir hagvöxt. Allt fjármagn og öll orkan fer erlendis í formi skuldagreiðslna, fjármagn fer úr landi án þess að nokkuð annað komi í staðinn. Umhverfið hér innanlands mun ekki vera heillandi fyrir ungt fólk, sem mun í meira mæli halda erlendis til gæfuleitar. Þannig dregur enn frekar úr líkum á hagvexti og gerir spá bankans enn ólíklegri.

Hins vegar er áhugavert að heyra þá segja krónuna hafa dregið úr skellinum, ólíkt því sem gerist hjá Írum. Er þetta enn frekar ástæða þess að við eigum ekki að sækja til ESB, heldur vinna úr okkar málum sjálf.

Það að ég telji þessa spá bankans ekki muni ganga eftir, byggir á því að ríkistjórnin haldi áfram á sömu braut aðgerðarleysis í málefnum lands og þjóðar, með afglöpum í því litla sem hún þó gerir. Hins vegar tel ég mögulegt að spá Seðlabankans geti gengið eftir, en þá þarf að bretta upp ermarnar og taka rækilega til hendi.

Lausn vandans liggur ekki í þeim afleiðingum sem við höfum einblínt á, heldur rótinni. Rót vandans er það fjármálakerfi sem við höfum búið við nú í nokkur hundruðir ára. Núverandi fjármálakerfi er í eðli sínum gallað, þannig að það leitar til aukinnar skuldsetningar í stað eignar. Kaldhæðni kerfisins liggur í því að eftir því sem við framleiðum meira og aukum verðmæti samfélagsins, þá aukum við skuldsetninguna. Það er nefnilega þannig í núverandi kerfi að aukin hagsæld leiðir af sér aukna skuldsetningu. Það er í þessari áráttu kerfisins til skuldsetningar sem vandinn liggur, hvergi annarsstaðar. Það er því okkur lífsnauðsynlegt að skifta út núverandi kerfi skuldsetningar og taka upp kerfi sem leiðir til eignar með aukinni hagsæld.


mbl.is Hraður vöxtur eftir kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörfað í vörn

Skyldi Jóhanna vera að draga lið sitt saman í vörn svo hægt sé að sækja fram og fá samþykktan Icesave samninginn. Hún gerir sér nefnilega grein fyrir því að án hans er umsókn hennar í ESB tilgangslaus. Það verður því allt kapp sett á að fá þennan samning í gegn. Það skiptir ekki hagur lands eða þjóðar, heldur skal keyrt áfram af kappi en forsjá. Hins vegar er Icesave svo miklu stærra og meira en einhver ESB viðauki og má ekki samþykkja þennan samning sem nú er í umræðunni.

Afgreiðsla málsins hefur frestast og er hér aðeins um að ræða frest til að safna vopnum, ekki síst hjá þeim sem eru á móti. Nú er lag að þeir sem vilja aðrar lausnir láti í sér heyra og taki til máls. Við verðum að koma hugmyndum okkar á framfæri því þær eru til og margir með góðar hugmyndir en hafa ekki komið þeim út. Þetta er mál sem skiptir okkur öll máli og á ekki að bendla við neitt annað, hvorki flokka eða stjórnarsamstarf.

Hingað til höfum aðeins virkjað Ísland, nú er mál að virkja Íslendinga.


mbl.is Hlé gert á störfum þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfnum þá Icesave

Gott að heyra að Icesave muni ekki skipta máli varðandi umsóknina. Þá er ekki spurning að Alþingi getur hafnað samningnum. Annars er alltaf gaman að heyra þegar við erum kynnt inn sem góður kostur þar sem við erum norrænt lýðræðisríki. Hingað til hafa Norðurlöndin ekki stutt okkur nema það sé þeim til hagsbóta og svo spyr maður sig um þetta með lýðræðið. Hvers vegna er það kostur þegar verið er að ganga inn í samband sem hefur slíkan lýðræðishalla að slagar hátt í einræðisríki.

Haldi menn í barnaskap sínum að okkur verði tekið fagnandi og fáum allt upp í hendurnar, þá er voðinn vís. Framundan eru þungir og erfiðir tímar þar sem okkur verður gert að sæta alskonar vitleysu og spurningin verður ekki hvort við eigum að taka þetta upp, heldur hvenær. Með vísan til flýtivilja ríkistjórnarinnar, þá er ég hræddur um að ESB aðild muni verða frágengin með Icesave vinnubrögðum.


mbl.is Umsóknin á dagskrá á mánudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir hverra eiga að ráða

Nú er Össur búinn að "formlega" afhenda pappírinn. Þessi pappír mun líklega verða einn sá dýrasti í Íslandssögunni, enda vita tilgangslaus þegar litið er til þeirra verkefna sem bíða úrlausnar hér á landi.

Verkefnin sem þarf að leysa eru ærin, en mest um liggur að byggja upp nýtt efnahagsumhverfi þar sem þjóðin getur búið við betri kost og horfið frá kerfi skuldsetningar til þess sem leiðir til eignar. Við þurfum að græða sár og byggja upp, vinna að hagsmunum heildarinnar. Við þurfum ekki að rjúfa friðinn og sækja til sérhagsmuna.

Aðild að ESB mun ekki hjálpa okkur í þessum verkum, heldur þvert á móti. Umsóknarferlið mun krefjast krafta sem betur væru nýttir til innri uppbyggingar og friður mun ekki ríkja meðan ferlið er í gangi, sérstaklega þegar litið er til umgjörðarinnar í kringum umsóknina. Ef svo vildi til að umsóknin yrði samþykkt og við færum inn, þá er ekki fyrirséð að það muni á nokkurn hátt hjálpa okkur. Það er nefnilega þannig að samkvæmt relgunum sem gilda í þessum evrópska klúbbi, þá er bannað að hjálpa sérstökum ríkjum með beinum hætti. Þetta verður til þess að við fáum enga aðstoð þarna hvort eð er. Ef menn efast um þetta, þá er vert að skoða þá aðstoð sem Írar og Spánverjar hafa fengið frá klubbnum til að bjarga þeirra efnahagsástandi. Einnig mætti bæta við ýmsum austantjaldslöndum sem sóttu í klúbbinn fyrir stuttu.

Ef rökin fyrir inngöngu eru þau að hefðum við verið inni, þá værum við ekki að horfa slíkt ástand sem nú ríkir hér á landi, þá vil ég benda á Írland og Spán sem eru í ekki síðri vanda en við. Þar er reyndar um fleiri og breiðari flóru banka og því ekki allir komnir á hausinn. En fyrir hinn almenna borgara þessara ríkja, þá er framtíðin ekki að brosa við þeim. "Rökin" eru því ekki til staðar.

Við skulum líta til þess sem Bismark sagði, er hann benti á að ríki ættu ekki vini, heldur hagsmuni. við höfum horft upp á það síðustu misserin, að þó við höfum talið hin og þessi ríki vini okkar, þá hefur sá vinskapur rist grunnt þegar horft er á málið frá hlið þessara "vina" okkar. Nokkur dæmi væri kannski ummæli fyrrum forsætisráðherra Noregs um að við værum of vitlaust til að taka sæti í öryggisráðinu, yfirlýsingu sænsks ráðherra um að samþykkt þeirra á inngöngu Íslands í hvalveiðiráðið hefðu verið mistök, meðhöndlun Bandaríkjastjórnar á okkur í tengslum við varnarliðið eftir að fengið stuðning okkar fyrir árás á Írak, svo ekki sé minnst á "vini" okkar Breta og Hollendinga og klúbbsins góða sem við sækjum svo stíft í. Margt annað mætti taka til, en þetta ætti að vera nóg til að sýna okkur að við eigum enga "vini" svo lengi sem hagsmunir ganga ekki saman.

Það er því okkar að leysa úr þeim málum sem að okkur snúa og við verðum að gera það á þann hátt að komi okkur til góða. Við eigum ekki að líta til annarra þjóða nema hagsmunir leiði saman og þá aðeins meðan það ástand ríkir. Við verðum að átta okkur á því umhverfi sem við búum við, þar sem við höfum margsinnis verið stungin í bakið og mun verða það í framtíðinni. Við verðum að treysta á okkur sjálf og vera meðvituð, þannig náum við bestri framtíð. Framtíðin á að byggja á okkur á okkar forsendum.

Lítum til lausna sem hugnast okkur, ekki sækja í kistu ónýtra hugmynda. Íslandi er best borgið frjálst og fullvalda í getu til að velja sér samstarfsþjóðir. Íslandi er ekki best borgið í lokuðum klúbbi þar sem félagsmönnum er skipað til og frá, gegn hótunum verði þeir ekki við tilskipununum. Hafi mönnum þótt hótanastjórnun síðustu daga vera undarleg, þá er vert til þess að hugsa að sá flokkur sem þeim beitir, er sá flokkur sem best hugnast þessi aðild. Menn líkjast því sem þeir sækja.


mbl.is Afhenti Svíum aðildarumsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimskra manna ráð

Ekki veit ég hvaðan ríkistjórnin fær ráð, en að mínu mati þá eru það heimskra manna ráð. Verið er að gefa bankana til aðila sem ekki munu hafa neitt annað að leiðarljósi en gróða og eignarupptöku. Vinna með smáfólki mun ekki sitja ofarlega á lista þeirra.

Þjóðfélagið þarf að vinna úr ýmsum hlutum. Þeir eru flestir tilkomnir vegna skuldsetningar sem ekki er hægt að standa undir í dag. Hvað gerir þá ríkistjórnin? Fyrst segist hún þurfa að byggja upp bankana svo hægt sé að koma atvinnulífinu á stað og bjarga almenningi. En hvernig geta bankarnir "bjargað" fyrirtækjum og almenningi. Einfallt, eins og alltaf, með aukinni skuldsetningu.

Það er nefnilega þannig að leið ríkistjórnarinnar til "bjargar" í krafti bankanna, leiðir bara af sér aukna skuldsetningu og það er ekki leið. Við verðum að horfa út fyrir gamla kassan og finna nýja leið. Þjóðfélagið þarf ekki lausnir sem byggja á aukinni skuldsetningu, er ríkistjórnin ekki að átta sig á því.

Vandinn í dag liggur í kerfinu, ekki skuldunum sem slíkum. Því verðum við að breyta kerfinu og þá mun hitt lagast í kjölfarið. Höggvum að rótunum, en látum afleiðingarnar ekki villa okkur sýn. Lausnin sem við þurfum að taka upp hefur verið kynnt hér á blogginu mínu og ráðlegg ég öllum að lesa fyrri færslur (fjórar færslur) sem ég kalla nýtt Ísland.

Rísum upp og byggjum betra Ísland, almenningur á rétt á því.


mbl.is Þingmenn framsóknar áhyggjufullir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipustjórnin

Ég var að velta einu fyrir mér. Er Alþingi undirdeild í stjórnaráðinu? Hvernig stendur á því að það er forsætisráðherra sem ræður því hvort þingmenn sitji eða standi í sumar.

Nú á að keyra Icesave í gegn, en eins og kom fram hjá formanni utanríkismálanefndar, þá er engin ástæða til að draga þetta og allt tal um að menn þurfi að kynna sér gögnin í málinu vitleysa. Það sé svo mikið af gögnum að þingmenn komi aldrei til með að geta lesið þetta í tíma og því sé það eitt í málinu að samþykkja þetta svo halda megi áfram. Spurningin er bara hvert á að halda.

Því hefur verið haldið fram að lagatextinn vísi ekki til neinnar skildu ríkisins til að ábyrgjast innistæður banka, en textinn er byggður á ESB reglum og því staðlaður í öllu ESB. Ástæðan fyrir því að ríkið þarf að samþykkja ábyrgð sé einfaldlega vegna þess að það beri enga ábyrgð eða skylda til að greiða þessa upphæð. ESB vilji forðast að fólk átti sig á þessari brotalöm í reglunum og vilji þvinga íslenska ríkið til að borga eitthvað sem það þarf ekki að borga, til þess að hindra fólk í að sækja innistæður sínar í evrópska banka. Það gæti skapað gífurlegan glundroða í Evrópu.

Það er hins vegar ekki ólíklegt að svipan, sú sem notuð var á þingmenn í síðustu kosningu, verði tekin upp aftur, því það er augljóst að komi Alþingi til með að hafna Icesave, þá muni umsóknin um inngöngu í ESB (þessi sem augljóslega var send til Svíþjóðar áður en kosningu lauk á Alþingi) verða vistuð í bréfatæturum báknsins í Brussel. Það er því alveg á hreinu að þetta verður barið í gegn af Jóhönnu.

Þeir þingmenn sem samþykktu ESB aðildarumsóknina gegn betri vitund, geta því núna komið í veg fyrir, eða tafið ferlið, með því að hafna því að Alþingi eigi að bera ábyrgð á einhverju sem það yfir höfuð á ekki að bera ábyrgð á.

Það er kominn tími til að þingmenn hætti að hugsa um hagsmuni útlendinga og fari að hugsa um almenning. Þeir verða nefnilega að átta sig á því að það er almenningur sem hefur kosningaréttinn í næstu kosningum, ekki útlendingarnir. Það eru til aðrar lausnir á því ástandi sem hér ríkir og tími til komin að ráðamenn taki af skarið og fari að vinna fyrir þá sem þeir eiga að vinna fyrir.


mbl.is Engin vissa um meirihluta fyrir Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhverjir af gömlu bönkunum eignist hina nýju???

Ég hlýt að hafa misst af einhverju hérna. Eru gömlu bankarnir ekki kapút og þess vegna voru nýju bankarnir stofnaðir. Nú eiga þeir gömlu að eignast þá nýju? Rosalega er ég ánægður með að núverandi ríkistjórn skuli vera svona gegnsæ sem hún er, því annars héldi maður að verið væri að fíflast í manni.


mbl.is Eignarhald á bönkunum að skýrast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sól hætt að gylla haf

Ísland fullvalda meðan sól gyllir haf, segir í vinsælum lagatexta sem oft er hjartnæmt sungin á hátíðisdögum þjóðarinnar. Nú er sól augljóslega hætt að gylla haf.

Ég ætla ekki að segja of mikið um þetta núna, þar sem ég yrði líklegast sóttur heim af lögreglunni með von um ákæru vegna líflátshótanna. Þeir sem þarna sýndu sitt rétta andlit voru svo sem flestir búnir að gefa þetta upp, en það sem mér kemur mér mest á óvart, er að sjá Ögmund og Katrínu kjósa á þann veg sem þau kusu. Ögmundur, var að ég taldi, líklegur til að láta valdið víkja fyrir frelsinu, en hann er jafn valdasjúkur og hin. Katrín, ég hlustaði á þig tala 1. des í Kópavogi og miðað við orð þín þá og nú, þá hlýtur þér að líða illa.


mbl.is Samþykkt að senda inn umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðan samning???

Enn og aftur er talað um að ná góðum samning. Það verða engir samningar um hvað við tökum upp og hvað ekki, heldur verður þetta spurningin um það hvenær við tökum þetta allt upp. Þetta er ekki klúbbur þar sem men geta valið og hafnað. Þetta er klúbbur sem umsækendur verða að taka allan pakkan eða hverfa frá ella.

Þessi áróður um að hingað muni flykkjast erlent fjármagn í massavís, er bara barnalegur í besta lagi. Hingað kemur ekkert tsjunamiflóð fjármagns frekar en þegar við gengum inn í EES. Allur fjármagnsflutningur verður á höndum Íslendinga sjálfra. Ef það er svona gott að vera á leiðinni inn, þá hlýtur að vera enn betra á vera inni. Það hefur bara gleymst að segja Írum það. Fyrst þeir eru ekki að sjá tsjunamiflóð fjármagns á leið til sína núna, hvers vegna ætti það að þá að koma til okkar??? Þeir eru þegar inni.

Hagsmunaaðilar eru að ganga gegn fullveldi þjóðarinnar og það breytir engu hvað þeir segja, það er fullveldisafsal að ganga í þetta ríkjasamband, alveg eins og ef við myndum ganga inn í BNA.


mbl.is Skref í átt að auknu trausti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsæld í formi eignar - Nýtt Ísland 4

Það er nauðsynlegt að samræmi sé á milli verðmæta samfélagsins og fjármagns í umferð. Einhver verður að sjá til þess að með auknum verðmætum, aukist fjármagn í umferð, spurningin er bara hver það er og hvernig það er gert. Ætlum við að fá það í umferð í formi skulda, eða eigna.

Ef verðmætasköpun í samfélagi er 100.000.000, þá þarf að skaffa pening fyrir þessum sömu verðmætum. Eins og staðan er í dag, þá skaffa bankarnir peninginn í formi skulda og rukka okkur um vexti. Þannig að til að vera skuldlaus við bankann, þá þarf samfélagið að borga til baka 106.000.000, en allir ættu að sjá að það er einfaldlega ekki hægt. Það er nefnilega ekki hægt að borga 106.000.000 ef það er aðeins til 100.000.000 í peningum.

Í nýju kerfi, þá myndi ríkið jafna magn peninga og verðmæta. Allur munur yrði svo tekinn og honum skipt upp. Til að byrja með myndi ríkið taka 50% og skipta því milli ríkis og sveitafélaga til að standa undir samneyslunni. Hinum 50% yrði svo skipt upp á milli allra borgara samfélagsins. Þannig kæmi hagsældin til samfélagsins í formi eignar en ekki skuldar.

Eins og staðan er í dag, þá má gera ráð fyrir að það vanti um 600 – 700 milljarða til þess að samræmi sé á milli peninga og verðmæta. Þessi tala gæti hafa breyst þar sem nokkrir mánuðir eru síðan ég heyrði hana nefnda, auk þess sem upplýsingar frá hinu opinbera eru frekar gloppóttar nú á dögum. Höldum okkur hins vegar við töluna svona til að klára reikninginn, en þá erum við að sjá ríkið fá um 300 til 350 milljarða og restin sem færi til almennings væri í kringum 940 – 1.100 þúsund, eða í kringum eina milljón á mann. Þennan pening fengu einstaklingarnir án þess að skuldsetja sig og myndi hann þá koma í veg fyrir neyslulán. Þessar tölur er settar fram til skýringar og gætu hafa breyst. Þær eru hins vegar ekki fjarri sanni og sýna hvernig hlutirnir geta auðveldlega verið.

Hægt og bítandi myndu svo lán hverfa, en í staðinn ætti fólk hlutina sem það notar og húsin sem það býr í. Aukin hagsæld myndi sýna sig í auknum eignum, ekki skuldum.

Auðvitað eru margar spurningar sem vakna við þetta, enda um að ræða hugsun sem ekki samrýmist því sem okkur hefur verið innrætt í gegnum árhundruðin. Hvernig getur staðið á því að fólk fær peninginn „ókeypis“? Hvaðan kemur peningurinn? Getur þetta gengið upp? Eru þetta ekki bara draumórar?

Við sjáum ekkert athugavert við það að hluthafar í fyrirtækjum fái greiddan arð, þó þeir leggi ekkert til framleiðslunnar eða komi nálægt rekstrinum að öðru leiti. Afhverju á þá ekki almenningur rétt á arði vegna aukinna verðmæta samfélagsins?

Hvaðan kemur peningurinn og hvers vegna á almenningur tilkall til hans frekar en þeir sem vinna við að búa til verðmætin beint? Framleiðsla þjóðfélagsins samanstendur af nokkrum þáttum og er beint vinnuframlag einn þeirra. Fyrir það fá einstaklingarnir sem koma að framleiðslunni greitt. Hins vegar byggir verðmætasköpunin á öðrum þáttum líka svo sem sameiginlegri þekkingu samfélagsins og ekki síst nýtingu sameiginlegra auðlinda. Það er eðlilegt að allir njóti góðs af því sem verður til við nýtingu þeirra. Við megum heldur ekki gleyma að þeir sem standa beint að framleiðslunni fá líka greiddan arð og fá því bæð greidd laun og arðinn. Þannig fá þeir í raun meira í sinn hlut en þeir sem fá aðeins arðinn greiddan.

Eins og áður hefur komið fram, þá er peningur verðlaus og aðeins hugsaður til að auðvelda skipti á verðmætum. Ríkið á að búa hann til eins og bankarnir gera í dag, en í stað þess að bankarnir láni þennan pening gegn vöxtum, til þeirra sem eru bönkunum þóknanlegir, þá er réttlátt að borgarar samfélagsins fái þennan pening greiddan beint sem eign.

Getur þetta gengið upp svona? Já, ekki síður en það gengur upp að fá peningana í gegnum bankakerfið. Þessir peningar þurfa að komast út í samfélagið og það er réttlátara að allir fái jafnt í staðin fyrir að fáir einstaklingar, sem stjórnast af græðgi, deili honum til þeirra sem þeim eru þóknanlegir og rukki fyrir það vexti.

Þá er það síðasta spurningin sem sett var fram, eru þetta ekki draumórar. Þetta er vissulega draumur nú um stundir, en órar eru þetta ekki. Þetta hefur ekki verið prófað áður í því mæli sem það þyrfti að gerast í dag, en það er ekki þar með sagt að það sé ómögulegt. Það er nefnilega þannig að allt sem gert hefur verið, hafði áður aldrei verið gert fyrr. Það er að segja, þó eitthvað hafi ekki verið gert áður, þýðir ekki að það sé ekki hægt.

Við vitum fyrir víst að núverandi fyrirkomulag er ekki að ganga upp og þjónar engan vegin hagsmunum almennings. Ef við viljum sjá alvöru lausnir, þá verðum við að höggva að rót vandans, en einblína ekki á afleiðingar hans. Með því að skipta um kerfi, þá erum við að höggva á rót vandans og byggja upp réttlátara samfélag þar sem einstaklingarnir eignast verðmæti, en ekki skuldir.

Hér er hægt að lesa síðasta pistil í sama greinarflokki.


mbl.is Mikil óvissa um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningaframleiðsla - Nýtt Ísland 3

Eins og kom fram í síðasta pistli, þá er aðeins um 5 – 10% fjármagns í formi peninga. Þannig að ríkið, sem hefur einkaleyfi á framleiðslu peninga, sér aðeins um framleiðslu á um litlum hluta fjármagnsins. Hver sér þá um hin 90 – 95%?

Þegar talað er um að bindiskilda banka sé 10%, þá þýðir það í raun að banki sem er með innistæður og eignir fyrir 1.000.000 krónum, getur lánað 9.000.000 krónur. Sem sagt bankinn getur búið til pening. Þannig er það að þegar hagkerfið stækkar með aukinni verðmætasköpun, þá býr bankinn til fjármagnið. Þetta fjármagn lánar bankinn okkur svo með vöxtum.

Það er reyndar tvennt í þessu sem ætti ekki að vera til staðar, það er að segja við borgum bankanum fyrir eitthvað sem hann ekki á og svo þýðir þetta að hagsæld samfélagsins kemur til almennings í formi skuldar en ekki eignar. Það er þess vegna sem við skuldum meira og meira með meiri hagsæld, eitthvað sem er auðvitað mjög öfugsnúið. Hagfræðingar hafa stutt þetta kerfi dyggilega og mælt hagsæld þjóða eftir því hversu skuldugar þær eru.

Annað sem í þessu kerfi felst, er að það verður aldrei hægt að greiða bankanum til baka skuldina. Það er nefnilega þannig að þegar bankinn býr til 100.000.000 krónur og lánar samfélaginu það með 6% vöxtum, þá þarf að greiða bankanum til baka 106.000.000 krónur. Það þýðir að það vantar fjármagn fyrir 6.000.000 krónur. Þannig er að ómögulegt fyrir samfélagið að greiða skuldina til baka þó allt fjármagn væri tekið og sett í þetta. Til þess að “redda” þessu, þá lána bankarnir okkur fyrir vöxtunum og hirða eignir þeirra sem ekki geta staðið undir því.

Þessi hringavitleysa leiðir svo til þess að fjármagn í umferð verður meira en verðmætin í samfélaginu, sem leiðir til verðbólgu og þenslu (það er nefnilega ekki launahækkun til almennings sem stýrir verðbólgunni). Svo þegar þetta er allt að fara yfirum, þá kippa bankarnir til sín fjármagninu og þá verður allt í einu minna fjármagn en verðmæti og þá skellur á kreppa og samdráttur.

Það að ætla að ýta undir sparnað í þessu kerfi er líka dauðadómur fyrir samfélagið, því að með auknum sparnaði framleiða bankarnir minna fjármagn og þá verður fjármagn í umferð minna en verðmætin í samfélaginu og samdráttur á sér stað. Þetta kerfi er því hannað til að auka skuldir almennings og ríkja með tilheyrandi eignaupptöku með reglulegu millibili. Þegar svo sett eru lög, eins og Ólafslögin, þá ýta þau ekki undir sparnað, heldur þvert á móti auka bara við skuldsetningu almennings og eignaupptöku. Kerfið étur alltaf almenning.

En hvað er þá til ráða? Hvernig er hægt að koma með lausn sem vinnur með fólkinu í stað þess að vinna gegn því og gera það að þrælum? Um það fjallar næsti pistill.

Hér má lesa síðasta pistil í sama greinarflokki.

Hér má lesa næsta pistil í greinaflokknum.


mbl.is Atkvæði greidd um ESB í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin eini tilgangur peninga - Nýtt Ísland 2

Peningar hafa aðeins einn tilgang. Hinn eini tilgangur peninga er að auðvelda samfélagi manna að skiptast á þeim verðmætum sem þetta samfélag skapar. Hagsæld samfélaga byggir á þeim verðmætum sem það skapar og þessum verðmætum verðum við að geta skipst á svo allir geti notið góðs af. Það er nefnilega þannig að allir koma ekki til með að geta framleitt allt og því þarf að vera að hægt að skiptast á verðmætum. Þess vegna og aðeins þess vegna hefur mannskepnan fundið upp peninga. Peningar hafa því ekkert verðgildi sem slíkir, heldur er það undirliggjandi framleiðsla samfélagsins sem er hið eina sanna verðgildi. Peningar án undirliggjandi verðmæta hafa því ekkert verðgildi, eru verðlausir.

Í sinni einföldustu mynd, þá er það þannig að magn peninga þarf að vera í samræmi við þau verðmæti sem til staðar eru í samfélaginu. Sé til of mikið af pening, verður þennsla og verðbólga. Sé hins vegar of lítið af peningum í umferð, þá verður kreppa eða samdráttur.

Það er því grundvallaratriði í peningastjórnun að það sé jafnvægi á milli verðmæta samfélagsins og þeirra peninga sem eru í umferð. Reyndar er það nú svo að peningar eru ekki eina tegund fjármagns sem er í gangi í nútíma samfélögum. Peningar, það er seðlar og mynt, eru reyndar ekki nema 5 til 10% þess fjármagns sem er í umferð. Hinn hlutinn er rekinn í gegnum bankana í formi reikningsinnistæðna.

En ef peningamagn þarf alltaf að endurspegla undirliggjandi verðmæti í samfélaginu, hvernig er þá bætt við peningum þegar verðmæti samfélagsins aukast, eins og þau gera á hverju ári? Þetta leiðir til kafla númer 3, hvernig nýtt fjármagn kemst í umferð.

Hér má sjá fyrri færslu í sama greinarflokki. 


mbl.is Icesave-deilan vekur athygli í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband