Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nýtt fjármálakerfi, nýr grunnur

Gylfi talar um gamla kerfið og nýja kerfið, þ.e. kerfið sem var rekið með ríkisbönkum og kerfið sem var rekið með einkabönkum. Gylfi flýtur hins vegar framhjá því augljósa, en það er sú staðreynd að bæði kerfin voru byggð á sama grunni og það er þessi grunnur sem er brotinn, ekki hvort bankarnir hafi verið ríkisreknir eða ekki.

Svo víkur hann að krónunni og að það þurfi að fá nýjan gjaldmiðil, eitthvað sem aðrir nota. Hins vegar sé ég ekki hvernig það á að hjálpa okkur, frekar en það hjálpar ekki Grikkjum að vera með euro núna.

Málið er einfallt. Gjaldmiðillinn hefur það hlutverk eitt að auðvelda OKKUR að skiptast á þeim verðmætum sem VIÐ framleiðum. Þess vegna er allt tal um að við notum gjaldmiðil sem miðast við annað hagkerfi, ekki okkur til hagsbóta.

Við verðum að líta til þess hvað peningurinn er í raun og veru, aðeins ávísun á verðmæti, en ekki verðmæti í sjálfu sér. Þegar við áttum okkur á þessu, og ekki síst þegar stjórnmálamenn átta sig á þessu, þá fyrst getum við farið að tala um nýtt kerfi.

Það er nefnilega alveg út í hött að ætla að tala um nýtt kerfi sem byggir á sama grunni og það nýfallna. Við verðum að horfa á alveg nýtt kerfi, annað er bara "skítamix".

Það þarf að setja upp hérna kerfi þar sem fjármagnið er ávísun á raunveruleg verðmæti, landsframleiðsluna og þá fyrst munum við geta horft jákvætt til framtíðarinnar.

Ég hef oft bent á hvað þarf að gera og vísa á bloggið mitt fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér það. Einnig vísa ég á vef umbótahreyfingarinnar, en þar er þetta skýrt.


mbl.is Gylfi: Þurfum traustari grunn en krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erum ekki í verstu málunum

Þó okkur sé talin trú um að við séum verst stadda þjóð á vesturhveli jarðarinnar, þá er það nú ekki svo. Að skulda 78% af landsframleiðslunni er náttúrulega allt of mikið, en þetta er ekki það versta og í raun ekki svo langt frá því sem gerist hjá öðrum þjóðum.

Ástandið hjá okkur er nefnilega ekki svo slæmt. Það er í gangi ótrúlegur lygavefur sem hefur verið settur fram í þeim tilgangi að fá okkur til að samþykkja eitthvað sem okkur ber ekki að samþykja. Því er haldið fram að við þurfum einhver heljarinnar ósköp af lánum til að lifa af. Þetta gæti ekki verið fjarri lagi.

Við þurfum engin frekari lán. Við erum með gjaldeyrir sem stendur undir þeim "risa" skuldbindingum sem bíða okkar og því ekki ástæða til að taka meiri lán. Við eigum ekki að taka lán til að bjarga erlendum áhættufjárfestum, þeir verða bara að átta sig á því að hvað áhætta er. IMF/AGS hefur gert hér meiri skaða en góðu hófi gegnir og því eigum við að senda þá heim, en hingað til hafa þeir gætt hagsmunna allra annarra en okkar almennings.

Það er einhver mesta lygin í þessu öllu, að við þurfum að taka öll þessi lán til að byggja upp gjaldeyrisvaraforða. Forði er eign sem maður á til hörðu áranna. Að taka lán til að byggja hann upp er eins vitlaust og hægt er að hugsa sér. Við ættum að vera búin að sjá það nú, eftir lánabullið sem gekk hér yfir síðustu misseri, að lán skapar ALDREI eign.

Við eigum að byggja upp gjaldeyrisforða með því að selja meira en við kaupum erlendis frá. Við erum búin að vera að gera þetta síðan gengið féll og við eigum bara að halda því áfram.

Við verðum að venja okkur við samfélagslega hugsun, þ.e. að við verðum aldrei sterkari en samfélagið. Það er því nauðsynlegt að leggja til hliðar sérhagsmuni og frekju svo samfélagið geti styrkst.

Við höfum það mjög gott. Vandræði okkar liggja ekki í óyfirstíganlegum þáttum, þau eru öll tengd peningum og peningamálum er hægt að bjarga.

Hættum að hlusta á barlóminn og aumingjaskapinn. Við getum losað okkur út úr þessu ástandi á mjög skömmum tíma. Það er ekki allt búið, þetta er í raun allt að byrja núna.


mbl.is Lofa að aðstoða Grikki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélag fyrir okkur

Það er komið nóg af undanlátssemi við Breta og Hollendinga, allt í þeim tilgangi að ekki verði lokað á inngöngu okkar í ESB. En hér er fréttaskot til ríkisstjórnarinnar, við viljum ekki þangað inn. Allt tal um að þessi kosning hafi verið tímaeyðsla þar sem nú séu betri samningar í boði, er bara bull því þessir samningar hefðu aldrei verið í boði ef ekki væri fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hefðu lögin verið samþykkt í upphafi, þá hefði aldrei komið til neitt nýtt tilboð. Það þarf ekki annað en að hlusta á níðingana til að sjá að landslagið hefur breyst.

„Það er ekki hægt að fara á fund smáþjóðar eins og Íslands, þar sem mannfjöldinn er álíka og borgin Wolverhamton og sega: endurgreiðið alla peningana strax," sagði hann. „Við höfum reynt að sýna sanngirni."

Þessi fullyrðing Elskunnar, er ótrúleg þar sem hún er á skjön við hegðun þeirra hingað til. Það hefur ekki verið neitt í gangi nema hótanir og yfirgangur. Nokkuð sem þeir augljóslega sjá núna að gengur ekki upp. Nú eigum við að krefjast raunverulegrar sanngirni.

Við höfum kosið og það með verulega góðri þátttöku, sérstaklega þegar litið er til þess að ríkisstjórnin hvatti fólk til að fara ekki að kjós og því má gera ráð fyrir að stuðnings menn stjórnarinnar hafi setið heima. Nokkuð sem vekur hjá manni spurningar um stuðning stjórnarinnar meðal kjósenda.

Hvernig getur þetta fólk, þá sérstaklega Steingrímur Joð gert ráð fyrir því að traust sé til hans, ef hann treystir sér ekki sjálfur í verkið. Það að Steingrímur skuli hafa kastað því út til erlendra fjölmiðlamanna hvort þeir viti um einhvern sem vilji taka að sér starfið hans, er bara ótrúlegt. Slík merki um vantrú á sjálfan sig og móðgun við vinnuveitendur sína (okkur) nær ekki nokkurri átt. En Steingrímur, ekki örvænta, ég skal taka þetta að mér. Sendu mér bara póst og svo er ég líka í símaskránni.

Nú verðm við að hætta þessu bulli. Við verðum að byggja okkur upp sem samfélag þar sem réttinda almennings eru ekki fótum troðin til hagsbóta fyrir einhverja "vini" og vandamenn. Við almenningur þurfum að rísa upp og taka valdið sem við með réttu eigum.

Það er hægt að leysa þetta ástand sem skapað hefur verið hér á landi og það er hægt að leysa það án þess að hella okkur út í óyfirstíganlega skuldasöfnun.

Það er kominn tími til að byggja hér upp samfélag þar sem tekið er tillit til einstaklinganna og samfélagsins sem heildar. Það verður að byggja hér upp samfélag þar sem hagsældin kemur til fólksins í formi eignar en ekki skuldar. Þar sem verðmætaframleiðsla er undirstaða hagsældar en ekki upplásnar bólur á 15 til 20 ára fresti.

Rísum upp og byggjum nýtt Ísland á okkar forsendum, byggjum upp samfélag sem er OKKUR fyrir bestu.


mbl.is Bretar vilja sýna sveigjanleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samdrátturinn eðlilegur

Það ætti ekki að koma nokkrum á óvart að það sé samdráttur í þjóðarframleiðslu. Það er einfaldlega þannig að fjármagn í umferð og verðmæti í samfélaginu leita jafnvægis. Þegar mikið er af fjármagni, verður þennsla þar sem verðmætin eru að sækja í að jafna bilið. Þegar svo fjármagninu er kippt úr umferð eins og nú er, þá dregur úr framleiðslu þar sem framleiðslan leitar leiða til að aðlagast fjármagninu í umferð.

Samdrátturinn þýðir bara að það er framleitt minna í ár en á því síðasta, ekki að það sé einhver katastroffa framundan. Samdráttur þýðir ekki heldur að ekkert sé framleitt. Það hefur verið mikil þennsla í þjóðfélaginu og því eðlilegt að hún minnki eitthvað, sérstaklega með minna framboði á fjármagni.

Við þurfum að ná okkur á rétta braut og það er eðlilegast að gera það með því að draga úr spennunni. Við leysum engin vandamál með því að dæla inn lánsfé, það ýtir bara undir vitleysuna.

Ég tel eðlilegast að við hættum við að taka lán til að "redda" ástandinu og lítum til þess að jafna fjármagn í umferð og verðmætaframleiðslu. Við eigum að semja um þau lán sem eru að falla á gjalddaga og gera nýja greiðslusamninga. Það er lánveitandanum mun hagstæðara að gera samning um greiðslu síðar, en að fá ekkert núna. Síðan látum við viðskiptajöfnuðinn byggja upp styrk hægt og bítandi, en það leiðir til sterkari framtíðar.

Við verðum að horfa til fram í tímann, en forðast skyndilausnir. Það lagar ekkert þynnkuna að fá sér snafs, hún kemur bara síðar. Í núverandi ástandi er hæg en stöðug bæting það sem við þurfum á að halda.

Reynum að ná áttum og látum ekki hagfræðihugtök sem engu raunverulegu máli skipta, koma okkur úr jafnvægi.


mbl.is Samdrátturinn var 6,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Förum með gát

Nú eru Hollendingar eitthvað tilbúnir að spjalla, þó þeir segist ekki ætla að semja neitt. Bretar hafa lýst því yfir að þeir séu ekki hrifnir af þjóðaratkvæði um Icesave frumvarpið og reyndar virðist stjórnin vera það líka (sbr. skjal á wikileaks). Þegar svo hugsað er til panikarinnar hjá Bjarna Ben í kjölfar höfnunar Ólafs á frumvarpinu, þá virðist hann ekki heldur hrifinn af því að leyfa fólkinu að kjósa. Það er því ekki að ástæðulausu að það vakna hjá fólki grunsemdir um að samið verði um eitthvað, bara til að geta frestað kosningunum.

Hins vegar verða ráðamenn að átta sig á því að það má ekki flýta sér í þessu máli. Tíminn vinnur virkilega með okkur, ég mun skýra það betur. Fyrir utan að við virðumst ekki eiga að borga þetta (skilningur flestra nema Samfylkingarinnar), þá má ekki samþykkja eitthvað á forsendum einhverra heljarinnar sölugróða á eignum Landsbankans. Málið er að við getum ekki litið til þess að ástandið sé liðið og allt sé að komi til með að hækka í heiminum. Það eru váleg ský á sjóndeildarhringnum og við getum ekki sagt að það versta sé yfirstaðið. Það þarf nokkurn tíma til þess ennþá.

Hvað er ég þá að fara? Jú, í dag datt mér í hug að kíkja snöggvast á SP500 vísitöluna og tók þá eftir merkjum sem benda ekki til jákvæðrar þróunar í bandarísku efnahagslífi. Fyrir þá sem ekki vita, þá er SP500 ein af þremur helstu vísitölum á bandaríska markaðnum. Á meðan Dow Jones og Nasdaq eru þær þekktustu, þá eru þær ekki endilega í samhljóm. Þannig flaug Nasdaq upp árin fyrir 2000 en Dow Jones gerði ekki mikið. Svo á meðan Dow Jones flaug upp fyrir 2008, þá var Nasdag ekki á sama flugi. SP500 hefur hins vegar sýnt sig vera nokkurskonar meðaltal þessara tveggja og sýna mjög nána tengingu við markaðinn almennt. Alltént þá gat ég sagt fyrir um bakslagið á bandaríska fjármálamarkaðnum í nóvember 2007.

En skoðum SP500 betur. Þegar vikulega kortið er skoðað (en ég nota kortið fyrir næsta víkjandi mánuð á framvirkum markaði) þá eru þar merki um að skammtímaútlitið sé fyrir lækkun. Þannig hefur vísitalan lækkað niður fyrir viðmiðunarmörkin á uppsveiflunni í kjölfar síðustu lækkunar. Hún hefur aðeins risið, en ekki náð uppfyrir ákveðin hindrunarmörk (resistance) sem má sjá í nóvember og desember 2009.

sp500daily20100224-02 

Ef við svo skoðum meðallengdar útlitið (mid-term) útlitið, þá er staðan ekki mikið betri. Þar er vísitalan komin nokkuð niðurfyrir viðmiðunarlínuna og ekki sjáanlegt að hún sé að leitast við að sækja hratt upp. Til viðbótar þessu, þá er hækkun vísitölunnar búin að vera aflíðandi, en það er merki um þreytu í markaðnum. Það eru því allar líkur á að vísitalan muni lækka næstu vikur.

sp500weekly20100224-02 

En hvað segir langtímakortið þá? Það er aðeins betra útlitið þar en á vikulega kortinu, en samt ekki þannig að maður fari að fagna. Vísitalan var að falla niður fyrir viðmiðunarlínuna í þessum mánuði og þegar litið er til þess að hækkunin frá því að botninum var náð í kjölfar síðasta falls, hefur verið aflíðandi, þá er útlitið vægast sagt ekki gott.

sp500monthly20100224-02 

Það bendir allt til þess að markaðurinn í BNA sé að fara að gefa sig og þá mun hann ekki falla einn, heldur mun sá breski og líklegast euro markaðirnir falla með. Euro markaðirnir gætu þolað eitthvað högg í viðbót, þ.e. markaðir stóru landanna, en breski markaðurinn mun ekki þola annað högg. Það er hæpið að breska stjórnin muni geta dælt fjármagni inn í bankana á ný, auk þess sem almenningur er líklegur til að mótmæla hraustlega. Þegar svo litið er til stjórnmálakreppunnar í Hollandi, þá er ekki líklegt að það verði um skipulögð viðbrögð af þeirra hálfu. Í slíku falli, þá verður Icesave sem títiprjónn í helv... og því ekki líklegt að menn verði með hugan við það.

Það er því allt sem bendir til þess að tíminn muni vinna með okkur, en ég tel líklegt að við séum að horfa á vikur frekar en mánuði þangað til við fáum fréttir af mikilli lækkun á bandarísku mörkuðunum. Auðvitað er leiðinlegt að slíkt skuli henda þar, en með hliðsjón til aðstæðna okkar á Íslandi, þá mun það verða okkur frekar til lukku en leiða.

Ég gaf út fyrir nokkrum vikum að ég teldi um tvo mánuði í fréttir af bandaríska markaðnum. Þessi skoðun mín á SP500 hefur ekki dregið úr því áliti mínu. Við erum að horfa á mjög skamman tíma.


mbl.is Icesave fundur á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að mörgu leiti öfundsverð staða

Sú staða sem Íslendingar standa frammi fyrir, er að mörgu leiti öfundsverð fyrir fjölda einstaklinga í hinum vestræna heimi. Bandarískur og evrópskur almenningur, sérstaklega breskur, er búinn að fá sig full saddan af því að horfa á ríkið dæla fjármagni inn í fjármálakerfið, án þess að nokkur breyting virðist ætla að verða á kerfinu. Almenningur í þessum löndum telur ekki rétt að styrkja þá sem stóðu að fallinu með því að auka birðir almennings.

Það er nefnilega ekki bara Ísland sem stendur illa vegna bankakrísu, það er allur hinn vestræni heimur. Íslendingar höfðu bara ekki sama svigrúm til að dæla peningum í kerfið eins og hinar vestrænu þjóðirnar. Það gæti hins vegar breyst.

Það má búast við að almenningur taki ekki vel í nýja holskeflu styrkja komi til seinni falls kerfisins, eins og ýmislegt bendir til. Þess vegna horfa margir til Íslands og bíða niðurstöðunnar. Fái Íslendingar að kjósa um Icesave frumvarpið og komi til þess að það verði fellt, þá mun það hafa áhrif víða. Almenningur mun þá sjá að hann þarf ekki að láta vaða yfir sig á skítugum skónum og taka hverju sem er til þess að fjármagnskerfið geti risið upp og haldið áfram hefðbundnum hætti.

Við stöndum frammi fyrir því að velja áfram sama fjármálakerfi, kerfi sem níðist á almenningi með reglulegu millibili, eða setja upp nýtt fjármálakerfi sem vinnur með almenningi en ekki gegn honum. Við höfum skildur til komandi kynslóða að nýta tækifærið núna og skipta um kerfi. Þetta veit fjöldi fólks, en það hefur bara vantað kornið sem fyllir mælinn. Kannski er það komið núna.

Viðurkennum galla núverandi kerfis og losum okkur við það. Lausnir eru til, eins og til dæmis þær sem settar eru fram á www.umbot.org


mbl.is Allra augu á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkjasamband innan ríkjasambands

Eru menn að tapa sér hérna, eða eru þeir ekki að skilja eðli ESB. Að stofna norrænt ríkjasamband er eitt, en að segja að það eigi að vera innan ESB til að það gangi upp, er náttúrulega bara bull.

Skoðum hvað felst í því að ganga í ríkjasamband.

1. Sameiginleg yfirstjórn, þ.e. yfirþjóðlegur þjóðhöfðingi og stjórn

2. Sameiginleg mynt og efnahagsstjórn

3. Sameiginleg utanríkisstefna

4. Sameiginleg, eða yfirþjóðleg löggjöf

Svo koma ýmsir aðrir þættir sem spila minni rullu í heildar myndinni, en þetta er svona það helsta sem felst í því fullveldisafsali sem tilheyrir því að ganga í ríkjasamband sbr. USA ef vilji væri að fara þangað inn.

En Þetta er allt hluti af því að ganga í ESB. Það er því óraunhæft hjal að halda því fram að hægt sé að hafa einhverja aðra skoðun eða framkvæmd á þessum hlutum innan ESB. Norrænt ríkjasamband getur aldrei komið til nema utan ESB blokkarinnar, allt tal um annað er annað hvort háð þekkingarleysi eða vísvitandi lygar. Svo er spurning hvort við yfir höfuð viljum ganga í eitthvert norrænt ríkjasamband frekar en eitthvað annað ríkjasamband.


mbl.is Vill öll norrænu ríkin í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er rétt gengi?

Við höfum verið að rífast um rétt gengi krónunnar í mörg ár og virðumst ekki geta komist að neinu samkomulagi með það hvað sé rétt gengi. Getur verið að ástæðan sé sú að við höfum ekki velt því fyrir okkur hvað sé rétt gengi.

Er rétt gengi krónunnar það að hún sé svo sterk að við almenningur séum alltaf að "meika rosa díla" þegar við verslum erlendis, eða á hún að vera það veik að það sé iðnaðurinn sem "meiki rosa díla". Á hvorn vegin sem er, þá "tapar" annað hvort almenningur eða iðnaðurinn.

Ég vil hins vegar velta fram spurningunni, hver er tilgangur gengisskráningar? Gengisskráning er notuð til að vinna viðmið á milli gjaldmiðilssvæða. Tilgangurinn hlýtur að vera sá að við getum keypt sambærilegar vörur á sambærilegu verði, óháð því hvar á hvoru myntsvæðinu við erum. Þannig ætti meðaltal neyslu að verða svipað, sama í hvoru landinu við erum. Auðvitað verða allar vörur aldrei á sama verði, en jafnt út ætti þetta að koma niður á því sama.

Eftir að hafa skoðað þetta nú síðasta árið, eftir að krónan féll niður í ekki neitt, eins og sumir vilja meina, þá virðist mér hún hugsanlega vera komin nær réttri skráningu ef við skoðum skráninguna síðustu 5 ár. Auðvitað er gott að gera alltaf "díla" þegar maður ferðast, en er það sanngjarnt gagnvart innlendri verslun? Er eðlilegt að veikja innlenda verslun til hagsbóta fyrir erlenda? Hvernig er staðan hjá okkur þegar við ferðumst í dag, er allt verðlag miklu dýrara en hér heima? Það eru til vöruflokkar sem eru dýrari úti en hér heima, en hversu mikið. Við erum vön að hafa bjórinn miklu ódýrari erlendis, en hvað með aðrar vörur? Ég fór til London fyrir síðustu jól og það kom mér á óvart að vörur voru annað hvort svipaðar í verði eða ódýrari. Sum veitingahús gátu verið dýrari en hér heima, en samt ekki svo mikið. Það sama hefur verið upp á teningnum í Frakklandi. Ég er ekki að sjá að vörur þar séu mikið dýrari en hér heima og jafnvel ódýrari.

Við verðum að átta leggja það niður fyrir okkur hvernig hlutirnir eiga að vera, áður en við kvörtum yfir því hvernig þeir eiga ekki að vera. Ef við gerum það ekki, förum við bara í hringi. Þetta á ekki bara við um gengið, heldur allt kerfið okkar í dag.


mbl.is Veik króna hjálpar iðnaðinum en rýrir kaupmátt almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hverjum kom það á óvart?

Þessi skýrsla kom til tals milli mín og félaga míns fyrir stuttu síðan, en ég sagði hana ekki muni koma út í bráð. Mín skoðun er einfaldlega þessi. Það er í fyrsta lagi ómögulegt að gefa þetta út án þess að almenningur verði reiður. Það er því lag að fresta þessu svo oft, eða þangað til enginn hefur lengur áhuga á þessu. Svo er þessi skýrsla líka ein smjörklípan hjá ráðamönnum, alltaf verið að vitna í að þar liggji svörin.

Hins vegar tel ég að almenningur verði að fara að átta sig á því hvar hollustan liggur. Það er mjög áhugvert að hugsa til þess að það eru í raun aðeins tveir málaflokkar sem hafa náð að sameina alþingismenn nú síðustu árin. Það eru lög um auknar greiðslur til þeirra og flokkanna þeirra (t.d. er skorið niður um 50.000.000 hjá öldruðum, en flokkarnir fá 300.000.000) og svo síðast en ekki síst möguleikinn á að fólkið fái að segja sitt um vinnubrögðin á þingi.

Það var alveg hreint ótrúlegt hvernig fjórflokkarnir runnu saman í einn samhljóm þegar Ólafur Ragnar gerði það sem enginn átti von á og hafnaði Icesave frumvarpinu. Allt í einu var kominn grundvöllur til samninga og samvinnu. Það eina sem varð að gæta að, var að almenningur fengi ekki að kjósa.

Af hverju má almenningur ekki kjósa, fyrir utan að þetta "er svo umfangsmikill og flókinn alþjóðasamningur", nokkuð sem fær mann til að velta fyrir sér vilja ráðamanna til að leyfa okkur að kjósa um ESB samninginn, hann er jú mun stærri og flóknari alþjóðasamingur.

Svarið er einfallt. Valdablokkirnar vilja ekki leyfa fólki að kjósa, því það dregur úr völdum þeirra sjálfra. Með því að leyfa einar kosningar, hefur skapast fordæmi og það fordæmi má ekki setja. Til dæmis er áhugavert að hugsa til þess að Jóhanna mun hafa sagst hafa staðið að 10 tillögum um þjóðaratkvæði, en samt getur stjórn hennar ekki tekið eina af þessum tíu tillögum og sett fram sem lagafrumvarp, heldur þarf að búa til einnota frumvarp, ef vera kynni að almenningur "neyddist" til að fá að kjósa.


mbl.is Skýrslan frestast enn lengur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yes, Minister

Mér hefur oft verið hugsað til þess, en tel það nú nauðsyn. Íslenskir ráðamenn og aðstoðarfólk þeirra verða að gera svo vel að horfa á "Yes, minister þættina bresku.

Í einum þættinum verður ráðuneytisstjóranum Humphrey á að segja einhverja vitleysu við útvarpsmann í hljóðveri. Humphrey hélt að upptökunni hefði verið hætt, en í kjölfarið var honum sagt "there is no such thing as a dead mic". Einar hefði átt að vera búinn að horfa á þennan þátt, þá hefði hann ekki hagað sér eins og einhver dómdags asni og talað við blaðamann eins og hann væri einhver Jónas á torginu.

Ríkisstjórnin og handlangarar hennar verða að fara að átta sig á því að þau geta ekki sagt bara hvað sem er og síðan haldið fram einhverri vitleysu þegar þau átta sig á áhrifum bullsins í sér. Allt sem þetta fólk segir er tekið sem opinber yfirlýsing og þegar þau svo eru að vitna í einhverjar sögusagnir á Íslandi, þá er það tekið sem staðfesting á þessum sögusögnum.

Ef þetta fólk hefur ekki betra hráefni á milli eyrnanna, þá er kominn tími til að það skakklappist heim, því skaðinn sem það veldur þjóðinni er gífurlegur. Ekki nema furða að við fáum þessar trakteringar frá alþjóðaelítunni. Hún hlýtur að líta á okkur sem samansafn fávita.


mbl.is „Algjörlega út í hött“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband