Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vaxtaverkir

Flott væri ef þetta gengi eftir. Hins vegar er það nú þannig að mesta ósamræmið milli innlenda lánamarkaðarins og svo flestra þeirra erlendu, er verðbótaþátturinn. Það næst aldrei eðlilegur samanburður nema fella verðtrygginguna niður.

Ég vil sjá vísitöluna frysta þannig að einu breytingarnar á lánum verða vegna vaxta. Þá getur fólk líka farið að átta sig á því hvað það er í raun að borga. Þá sitja flestir eftir með lán sem hafa um 7 - 10% vexti, eða 4 - 5%, þeir sem eiga gömul bankahúsbréf. Í kjölfarið myndi svo Seðlabankinn byrja að lækka vexti þannig að við værum að sjá vexti fara í um 3% á einhverjum tveimur árum.

Sumir hafa haldið því fram að verðbótaþátturinn verði að vera til þess að hjálpa gamlafólkinu og koma í veg fyrir að lífeyrissjóðirnir stór tapi og það svo bitni á lífeyri landssmanna. Ég tel hins vegar litlar líkur á því, mín skoðun er sú að hagnaður lífeyrissjóðanna hafi miklu mun frekar komið til vegna fjárfestinga í hlutabréfum, heldur en verðbótaþætti húsnæðislána. Þeir sem mest lána með verðbótum, eru bankarnir og það eru þeir sem eru hvað andsnúnastir niðurfellingunni. Svo má ekki gleyma ríkinu í gegnum húsnæðislánin.

Margir vilja meina að það sé ekki hægt að afnema verðtrygginguna nema með aðild að ESB, en slíkt er ekki rétt. Það er lítið mál að laga þetta, þetta er bara spurning um pólitískan vilja ráðamanna. Ekkert annað.


mbl.is Vaxtastefnan ógnar bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afléttum umsátrinu

Það er alveg ótrúlegt hvað er að gerast í þessu þjóðfélagi í dag. Þegar heimilin, stoðir samfélagsins, eru að falla hvert af öðru, þá keyrir hin nýja ríkistjórn einhverja ESB rútu á flússandi fartinni áfram algerlega tilfinningalaus hverjum það veldur skaða í ferlinu. Það tekur alltaf eitt til tvö ár að semja okkur inn í bandalagið, ef við erum mjög heppin, en heimilin þurfa hjálp núna strax. ESB aðild ætti ekki að vera efst á dagskrá og skipta mestu máli, eins og augljóslega hefur verið í viðræðum stjórnarflokkana.

Lítum á þetta frá öðrum sjónarhóli. Ímyndum okkur að við séum á gangi og göngufélaginn fær aðsvif og fellur til jarðar í hjartastoppi. Hvað gerum við, við hringjum í 112 að sjálfsögðu og hvað svo. Þætti það eðlileg hegðun að við bara horfðum á félagann með krosslagðar hendur meðan við biðum eftir sjúkrabílnum. Nei, við förum strax að hnoða viðkomandi og veitum honum fyrstu hjálp.

Það er þessi fyrstahjálp sem þarf að veita heimilunum í landinu. ESB gæti kannski hjálpað eitthvað, einhverntíman í framtíðinni, en ESB umræða er ekki eitthvað sem við eigum að eyða tímanum í núna. Auk þess velti ég fyrir mér hvaða hjálp við eigum að fá frá ESB, því að til þess að komast þar inn og fá að taka upp euro, þá þurfum við að vera búin að laga allt efnahagslífið. Þannig að til þess að ESB hjálpi, þá þurfum við að vera búin að hjálpa okkur sjálf. Þetta er svona svipað og vera með hausverk og fá panodil, sem við hins vegar getum ekki notað fyrr en hausverkurinn er farinn. Til hvers þá að taka inn panodilið?

Þessi aðgerðaáætlun sem hrinda á í framkvæmd er móðgun við almenning. Þetta er eingöngu aðgerðaráætlun til þess að komast inn í ESB og euro upptöku. Við erum hér að horfa á ríkistjórn sem ætlar sér ekki að vinna að hag almennings, heldur vinna að leið að kjötkötlum ESB. ESB aðild getur og mun hugnast sumum landsmanna, en þessir sumir eru ekki almenningur. Til dæmis má nú spyrja sig hvernig þessi ríkistjórn ætlar að ná 2,5% verðbólgumarkmiði, þegar ekki tókst að ná því markmiði þegar það var eina markmið seðlabankans. Við komum ekki til með að klára inngönguna fyrr en eftir um tvö ár og síðan líða um fimm ár í euro upptöku, ef við erum heppin. Getur almenningur beðið svo lengi eftir því að ástandið batni hérna.

Samfylkingin mun, ásamt öðrum ESB sinnum halda því fram að bara við það eitt að hefja viðræður, muni traust alheimsins aukast svo á okkur að gjaldeyrir muni fljóta inn í landið í formi erlendrar fjárfestingar, að öllum okkar áhyggjum muni verða varpað út í hafsauga. Bara það að hefja viðræður muni breyta öllu. ... bara smá pæling ... Ef það að hefja viðræður er svona rosalega flott, afhverju eru fulltrúar alheimsins ekki á fullu að dæla pening inn í írskan og spænskan efnahag, þeir eru jú nú þegar inni??? Er fólk virkilega að halda það að fjárfestar vilji frekar fjárfesta hjá vonabís, heldur en þeim sem þegar eru komnir í klúbbinn. Írar hafa hafa ekki staðið frammi fyrir auknu fjármagni, heldur öfugt, erlend fyrirtæki hafa verið að loka starfssemi sinni í landinu með tilheyrandi atvinnuleysisaukningu.

ESB er ekki lausnin á núverandi ástandi efnahagsmála. Við þurfum að leysa okkar mál sjálf á okkar eigin forsendum. Við getum ekki beðið eftir því að aðrir leysi þau kannski fyrir okkur einhverntíma á næstu tveimur árum.

Jóhanna sagðist ætla að slá skjaldborg um heimilin í landinu, skildirnir eru komnir upp í kringum heimilin, en þeir snúa bara öfugt. Það er ekki búið að reisa skjaldborg um heimilin, heimilin hafa verið lokuð í umsátri, umsátri sem mun standa þar til almenningur hefur brotnað niður og gengið að skilmálum herstjórans, eða þá að almenningur sæki út og brjóti umsátrið á bak aftur.

Almenningur verður að átta sig á því að íslensk framtíð liggur í íslenskum forsendum. Okkar forsendum.


mbl.is Atvinnuleysi verði undir 8% fyrir lok árs 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsleg meðvitund

Ein helsta ástæðan fyrir því að ástandið á Íslandi er eins og það er, tel ég vera skort á samfélagslegri meðvitund. Íslendingar hafa fallið um of í gryfju sjálfhverfrar hugsunar, hugsunar sem hefur náð sífellt meiri tökum á mannskeppnunni.

En hvað er samfélagsleg meðvitund. Samfélagsleg meðvitund er í raun sú hugsun einstaklinga að þeir geri sér grein fyrir því að þeir eru aðilar að samfélagi þar sem sérhver einstaklingur skiptir máli varðandi styrk samfélagsins. Samfélagslega meðvitaður einstaklingur gerir sér grein fyrir því að allar gjörðir hans hafa áhrif á þá einstaklinga sem hann á samskipti við, eða búa í sama samfélagi og hann. Þannig leitar einstaklingur sem er samfélagslega meðvitaður ekki til þess að brjóta niður aðra einstaklinga, hvort sem það er í viðskiptum eða öðrum samskiptum. Hugmyndafræðin að fá allt fyrir ekki neitt er til dæmis eitthvað sem samfélagslega meðvitaður einstaklingur myndi ekki láta eftir sér, enda viðurkennir hann þá staðreynd að allir aðilar sem koma að samningum þurfa að fá sinn réttláta skerf af því verki sem þeir leggja til.

Ekkert samfélag getur orðið sterkara en einstaklingarnir sem byggja það en með sjálfhverfri hegðun, leitast einstaklingar við að "vinna" aðra meðlimi samfélagsins. Þannig verða einstaklingarnir veikari fyrir og stoðir samfélagsins um leið. Græðgin og öfundin sem gegnsýrir allt þjóðfélagið hefur stuðlað að því að samfélagsleg meðvitund er í lágmarki og því verður að breyta.

Við stöndum á tímamótum. Við tölum um að breyta þurfi lögum og reglugerðum um leið og herða þurfi eftirlit. Það skiptir hins vegar engur hversu "góð" löggjöfin er eða eftirlitið "sterkt", lögin og eftirlitið verður aldrei betra en einstaklingarnir sem eiga að fara eftir því. Eina leiðin til að koma í veg fyrir að núverandi ástand endurtaki sig í framtíðinni, er að breyta okkur sjálfum.

Margir gætu, og munu, halda því fram að það sé óvinnandi verk að breyta heilli þjóð og myndi ég samþykkja það ef um væri að ræða einhverja af stærri þjóðum heimsins. Við erum hins vegar ekki nema rétt rúmlega 300 þúsund og því í einhverri bestu aðstöðunni til að ná fram breyttu hugarfari. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að þetta gerist ekki yfir eina nótt, en við því fyrr sem við byrjum að breyta okkur, því fyrr verðum við búin og getum haldið stolt inn í framtíðina.

Breytt hugarfar er skilyrði fyrir því að við getum bætt þjóðfélag okkar í framtíðinni.


Svörin liggja hjá okkur sjálfum

Ég er sammála Lynch í því að við Íslendingar þurfum að leita meira inná við að svörum, þó svo að leiðirnar þangað geta verið mismunandi. Menn verða ekki ríkir á því að hugleiða, hins vegar verður andlegt viðhorf þeirra sem hugleiða þannig að þau ná fram flestu því sem þau leggja sér fyrir hendur.

Það er til vísindagrein sem kallast skammtafræði sem leitast við að finna minnstu einingu alheimsins. Í þeim tilgangi hafa þeir meðal annars byggt risastóra rannsóknastofu á landamærum Sviss og Frakklands. Þessi hugmundafræði leitast við að finna það sem margir hafa kallað hina allt um liggjandi orku, sem meðal hugmyndir Wallace D. Wattles byggja á, en hann gaf út bókina Vísindin að baki ríkidæmi, sem svo aftur var kvatinn að gerð myndarinnar um Leyndarmálið, eða The Secret. Hægt er að kaupa bókina hér.

Í grófum dráttum þá miðar hugmyndafræðin að því að leiða fólki í ljós nauðsyn þess að það geri hlutina á réttan hátt og sæki vitneskju sína til undirmeðvitundarinnar. En gengið er út frá því að rétt "forrituð" undirmeðvitund veiti alltaf rétt svar við öllum spurningum. Besta leiðin, og sú eina rétta, er að nálgast visku undirmeðvitundarinnar með innhverfri íhugun.

Ég ætla ekki að meta tæknina sem Lynch er að boða, en málið er að tæknin sem slík skiptir ekki megin máli, heldur það að fólk leiti á réttan stað til íhugunar. Miðað við fjöldann sem sótti fund Lynch, þá er augljóst að fólk er farið að átta sig á því að við verðum ekki bara að breyta regluverkinu, heldur ekki síst hvernig við hugsum og framkvæmum hlutina.

 Við verðum ekki peningalega rík á því að hugleiða, heldur mun hugleiðslan hjálpa okkur til að sjá hlutina í réttu ljósi og framkvæma þá á réttan hátt. Með réttri hegðun munum við síðan verða sterkari einstaklingar og um leið sterkari þjóð. Slík hegðun mun svo óhjákvæmlega leiða til þess að við munum öðlast ríkidæmi, bæði andlegt og veraldlegt. Þetta fylgist allt að.

Ég held út vefnum rikidaemi.is og þar er hægt að sjá nánar þær hugmyndir sem ég hef verið að boða og versla bók Wallace D. Wattles Vísindin að baki ríkidæmi.

Það að vera ríkur er ekki bara að eiga fullt af pening, heldur líka að hafa öðlast innri ró.


mbl.is Kynna sér innhverfa íhugun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komin tími á fólkið í landinu

Hingað til hafa allar aðgerðir ríkistjórnarinnar miðað að því að efla fyrirtækin í landinu, þá sérstaklega þau fyrirtæki sem starfa í fjármálageiranum. ALLAR aðgerðir til handa fólkinu í landinu hafa hins vegar ekki miðað að því að koma því til hjálpar, heldur þess eins að fyrirtækin fái sitt.

Við verðum hins vegar að átta okkur á því að án fólksins í landinu, eru fyrirtækin dauðadæmd. það er nefnilega þannig að á meðan fólkið í landinu getur lifað án fyrirtækjanna, þá geta fyrirtækin ekki lifað án fólksins.

Ríkistjórnin verður að átta sig á því að eina leiðin til að bjarga atvinnulífinu og fyrirtækjunum til lengri tíma, er að styrkja fólkið. Það er því lífsnauðsynlegt að hluti niðurfelldra lána fari til einstaklinganna í landinu.

Ýmsar leiðir eru til þess að láta niðurfellinguna komast áfram til einstaklinganna. Til dæmis mætti láta bankana deila upphæð hinna niðurfelldu lána þannig að hún skiptist jafnt á alla skuldara. Þeir sem skulda minnst fá þannig hlutfallslega meira af skuld sinni endurgreidda. Það segir sig eiginlega sjálft að þeir sem skulda minnst, tóku minni þátt í uppsveiflunni en þeir sem skulda mest og ættu því að njóta þess eitthvað í dag. Svo má líka líta til þess að þeir sem skulda lán í erlendri mynt fái þá upphæð niðurgreidda af þeim lánum sem felld hafa verið niður erlendis. Til dæmis hefur því verið fleygt að Japanir hafi fellt niður öll lán til Íslendinga í jenum og því ætti ekki að vera erfitt að fella niður myntkörfulán sem innihalda jen.

Við komum ekki til með að ná okkur upp úr þessu ástandi fyrr en ríkistjórnin áttar sig á því að það verður að hlúa að einstaklingunum og það strax. Slíkt verður ekki leyst í gegnum ESB aðild, enda ekki tími til að bíða eftir henni. Ríkistjórnin hefur frá því í lok janúar ekki aðhafst neitt sem virkilega hjálpar einstaklingunum. Það er komin tími til að breyting verði þar á.


mbl.is Margir íhuga greiðsluverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt sem ætti að vera auðvelt

Miðað við að þessir flokkar hafa verið í stjórn einhverja 80 daga og helstu verkefnin framundan eru þau sömu og hafa verið síðan þeir tóku við, þá ætti þetta ekki að taka langan tíma. Nema það standi á einhverju stóru. VG og Samfylkingin voru einu flokkarnir með afgerandi afstöðu til ESB aðildar og því áhugavert að sjá hvernig þetta kemur út. Þetta verður ekki leyst nema annar flokkurinn svíki kjósendur sína.

Ég heyrði áhugaverða pælingu fyrir kosningar. VG gefur eftir ESB andstöðuna og Samfylkingin Forsætisráðuneytið. Steingrímur J. forsætisráðherra í ríkistjórn sem hefur aðildaviðræður við ESB. Hvað myndu kjósendur VG segja um afsalið á ESB andstöðunni og hvað myndu þeir kjósendur Samfylkingarinnar sem kusu "heilaga Jóhönnu" til forsætisráðherra segja. Áhugverð pæling alveg óháð hvað verður, enda ódýrt keypt.

Það er hins vegar ljóst að til að ná saman, verður annar flokkurinn að kyngja stoltinu.


mbl.is Hlé á viðræðum í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrískipting valds

Litið hefur verið til þess að Íslendingar búi við þrískiptingu ríkisvaldins, það er að segja löggjafar, framkvæmda og dómsvald. Raunin er hins vegar sú að við búum ekki við neina skiptingu. Íslendingar kjósa Alþingi og það er Alþingi sem velur ríkistjórnina, sem svo aftur stjórnar Alþingi í krafti meirihluta á þingi. Dómsvaldið er svo algerlega háð framkvæmdavaldinu þar sem dómarar eru valdir af ráðherra og málefni dómsstóla heyrir undir dómsmálaráðuneytið. Þetta er því allt í kross.

Það er hins vegar nauðsynlegt að kljúfa þetta allt í sundur til að styrkja lýðræðið og hef ég velt fyrir mér hvernig hentugast sé að gera það. Það er augljóst að kjósa þarf sérstaklega framkvæmdavald og löggjafarvald, en sökum eðli dómsvaldsins, þá tel ég ekki hentugt að kjósa það almennum kosningum. Dómarar sem byggja starf sitt á vilja almennings gætu tekið ákvarðanir út frá persónulegum forsendum og grunnað ákvarðanir sínar á lýðskrumi frekar en lagatúlkun. Ég tel að eftirfarandi fyrirkomulag gæti hentað okkur Íslendingum.

Framkvæmdavald

Ég sé fyrir mér að breyta þurfi eðli forsetaembættisins. Forsetinn á að vera í forsvari fyrir framkvæmdavaldið og kosinn sem slíkur til fjögurra ára í senn, ekki ósvipað og í Frakklandi og BNA. Forsetinn velur svo þá einstaklinga með sér í ríkistjórn sem hann telur hæfasta til starfans. Komi til þess að alþingismaður er valinn í ráðuneyti, þá á hann að fara af þingi þann tíma sem hann gegnir ráðherrastöðunni og varamaður koma í staðinn. Með því að skilja alveg að Alþingi og framkvæmdavald, þá hættir Alþingi að vera afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið. Forsætisráðherra bera svo loka ábyrgð á ráðuneyti sínu og sér til þess að reka menn, valdi þeir ekki starfanum. Einu tengsl framkvæmdavaldsins við löggjafavaldið er að geta lagt fram lagafrumvörp. En þar sem þingið er sjálfstætt framkvæmdavaldinu, þá fer lagaumræðan fram án þvingunar frá framkvæmdavaldinu.

Löggjafavaldið

Alþingi er kosið eins og nú er, en skipar ekki ríkistjórn. Æskilegt er að kosið sé til þings tveimur árum eftir forsetakosningar, en þannig hefur almenningur möguleika á að breyta samsetningu þingmanna, komi til þess að framkvæmdavaldið nái of miklum áhrifum innan þingsins. Með slíkum skilnaði þings og ríkistjórnar, þá munu þingmenn einnig fara út í það að ræða og samþykkja lög sem ekki eru framleidd í ráðuneytunum. Annað sem ætti að bæta starfshætti þingmanna, er að nú eru þeir ekki að eltast við goggunarröð flokka sinna í von um ráðherraembætti og því ættu þeir að geta sýnt einstaklingsbundnari vilja.

Dómsvaldið

Dómsvaldið er nokkuð sérstakt þar sem óæskilegt er að dómarar séu háðir vilja almennings þar sem það gæti haft áhrif á ákvarðanatöku þeirra. Dómarar verða að geta sýnt hlutleysi. Sú leið sem ég tel koma til greina við val á dómurum, er að dómarar í Hæstarétti séu kosnir af starfandi dómurum. Hæstiréttur sjái svo um að ráða dómara á önnur dómstig. Með þessu fyrirkomulagi ættu fagleg sjónarmið að ráða ferðinni varðandi val á dómurum.

Ríkisráð

Ég sé fyrir mér að forseti, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar skipi Ríkisráð, sem yrði þá samstarfsgrundvöllur hins þrískipta valds.

Með fullkomnum aðskilnaði eru slitin í sundur hagsmunatengsl þessara eininga, sem ætti að leiða til skilvirkari starfssemi. Núverandi skipulag er ekki að gera sig og því verður að breyta. Ég tel að umræddar breytingar gætu verið leiðin til þess.


Lítur vel út, en ...

Þetta varðskip lítur bara vel út og tími kominn á endurnýjun bátaflota gæslunnar, en hefðum við ekki getað byggt þetta sjálf? Velti þessu bara fyrir mér. Þetta hefur sjálfsagt verið eitthvað ódýrara, en einhver kostnaður hlýtur að vera fólginn í því að sigla þessu skipi heim, auk þess sem við erum ekki að sjá afleidda kosti við smíðina, svo sem atvinnu og veltu í þeim samfélögum okkar sem hefðu komið að smíðinni. Spurning hvort við ættum ekki að hugsa meira til þeirra þátta, en beins krónulegs sparnaðar, í framtíðinni.


mbl.is Sjósetning Þórs fréttaefni í Chile
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinna og velferð

Þessi frétt kemur mér svo sem ekki mikið á óvart, enda búinn að fylgjast lengi með frönsku þjóðlífi og var farinn að fá fréttir sem bentu til þessa og ég einmitt skrifað um 28. apríl. Ólgan í ESB löndunum skýtur svolítið skökku við þegar hugsað er til þess að ein af áherslum samfylkingar Jóhönnu var "vinna og velferð" með þátttöku í ESB. Málið er einfaldlega það að almenningur í Frakklandi, þar sem ég þekki til, hefur staðið frammi fyrir tveggja stafa atvinnuleysistölum í áraraðir og atvinnuleysi ungs fólks verið gífurlegt. Velferðakerfi ESB landanna eru líka byggð á háu skattastigi, en velferðakerfinu verður sífellt erfiðara að viðhalda vegna ört hækkandi lífaldurs íbúanna og hækkandi hlutfalls eftirlaunaþega. Er svo komið að einstaklingum í Frakklandi hefur verið gert að fara seinna á eftirlaun en margir áætluðu. Veit ég persónulega um einstakling sem þurfti að lengja hjá sér vinnutímann um nokkur ár. ESB er ekki lausn á efnahagsástandinu hérlendis, frekar en það er lausn á efnahagsástandinu innan ESB landanna. Við erum að horfa á efnahagsástand á alheimsvísu, ástand sem ekki verður leyst með skyndilausnum.

Það sem þarf til er breyting á viðhorfi okkar, einstaklinganna sem mynda þjóðfélögin. Ég hef áður skrifað að við Íslendingar höfum ekki gert neitt sem aðrir voru ekki að gera, þetta ástand sé í sjálfu sér ekki okkar verk, beinlínis. Er ég þá að meina að þetta hafi verið óumflýjanlegt ástand? Bæði og, það sem ég vill meina er að við hefðum alltaf staðið fyrir þessu alheimsástandi og því rótin að vandanum ekki beint okkur að kenna, en hins vegar er umfang afleiðinganna vissulega okkur að kenna.

Þegar ég lít yfir síðustu mánuði og ár, þá sé ég fyrir mér ákveðinn fjölda afleiðinga og afleiðingum getur maður aldrei breitt varanlega nema með því að horfa til orsakanna að þeim afleiðingum. Ég tel eina megin orsök þeirra afleiðinga sem við erum að fara í gegnum núna, vera þá að við sem einstaklingar vorum ekki samfélagslega meðvitaðir. Við vorum allt of sjálfhverf í hugsun og við bárum ekki virðingu fyrir því samfélagi sem við byggjum. Samfélagslega meðvitaður einstaklingur gerir sér grein fyrir því að allar gjörðir hans hafa áhrif á samfélagið og þar með hann sjálfan. Með því ætlast til að fá allt fyrir ekki neitt, veikir einstaklingurinn samfélagið og þar með sjálfan sig. Ég hef tekið eftir því að undanfarin ár, í sí auknu mæli, þá hafa einstaklingar hent fram fullyrðingunum ég á rétt á á meðan enginn þeirra virðist viðurkenna fullyrðinguna mér ber skylda til. Réttur einstaklinganna er nefnilega samgróinn skyldum þeirra. Réttindum fylgir ábyrgð.

Vinna og velferð Íslendinga liggur hjá okkur sjálfum. Það er staðföst trú mín að við getum allt sem við ætlum okkur, við verðum bara að framkvæma hlutina á réttan hátt, horfandi til heildarinnar. Sterk heild gefur af sér sterka einstaklinga og sterkir einstaklingar mynda sterka heild. Trúin á okkur sjálf og getu okkar mun leiða okkur áfram, en trúin á ölmusu frá öðrum leiðir okkur ekkert.


mbl.is Spenna í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk framtíð á íslenskum forsendum

Núverandi stjórnarmyndunarviðræður hafa að miklu leiti farið fram í Norræna húsinu, enda hefur Steingrímur sagt að nú sé lag að setja á stofn norræna velferðastjórn. Er ekki kominn tími til að við lítum til þess sem gerir okkur að okkur og hætta að reyna að finna eitthvað hjá öðrum sem við höldum að henti okkur eitthvað betur. Steingrímur hefur verið mjög hrifinn af Noregi, slíkt að hann kallaði til norskan einstakling til að reka Seðlabankann. Mér þykir harla ólíklegt að ekki hafi verið til hæfur Íslendingur til að taka að sér þetta mikilvæga verkefni. Svo kemur líka til þessi hugmyndafræði að taka upp norsku krónuna??? og þannig verða algerlega háð ákvörðunum norskra stjórnvalda í fjármálum okkar. Hvernig eigum við þá að ná árangri í samningum við Norðmenn, þegar þeir hafa hreðjartak á okkur. Ef einhver telur það ekki áhyggjuefni, þá skal bara benda á það að Norðmenn höfðu ekki fyrir svo löngu samband við Breta "vini okkar" og veltu upp samstarfi í aðgerðum gegn Íslendingum til þess að loka okkur frá makrílveiðum. Meiri vinskapurinn það.

Svo er það Samfylkingin. Núverandi stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi virðist ekki hafa neitt fram að færa í málefnum okkar nema aðild að ESB, aðild sem á að leysa allan vanda. Sagt er að hefji Íslendingar aðildaviðræður við ESB, þá muni fjármagn flæða inn í landið og fjárfesting aukast til muna. Hversa vegna ætti þetta að gerast þegar Írar og Spánverjar eru ekki að finna fyrir aukinni innkomu til sín en þeir eru þegar inni í sambandinu og aðilar að euro. Af hverju ættu menn að vilja frekar fjárfesta hjá okkur þegar við segjumst ætla inn, frekar en að fjárfesta strax hjá þeim sem þegar eru inni?

Við erum vissulega í vandræðum, en hvað höfum við til framtíðar? Ég tel að við getum vel komið okkur út úr þessum efnahagsaðstæðum á eigin forsendum, þar sem við erum lítið og lipurt hagkerfi sem hefur yfir að ráða miklum náttúruauðlindum. Ég tel til dæmis mun líklegra að erlent fjármagn fái áhuga á okkur ef við tilkynnum strax að við ætlum að hefja olíuleit og síðar vinnslu á Drekasvæðinu, heldur en að nefna einhvern ESB áhuga. Við erum 300.000 plús einstaklingar og það þarf ekki mikla olíu til þess að koma okkur slíkt til góða að við verðum öðrum óháð í efnahagslegu samhengi.

Við höfum margt til brunns að bera og tel ég nú tíma til kominn að við rífum okkur upp úr þessari neikvæðu hugsun og sjálfseyðingarhegðun, leggjum fyrir okkur hvernig þjóðfélag við viljum og hefjum svo ferðina til þess fyrirmyndaríkis sem við svo sannanlega getum orðið. Okkur vantar ekkert nema trú á sjálf okkur, festu til framkvæmda og einlægni í samskiptum okkar í millum.

Ég hef hug á að velta upp hugmyndum mínum að því Íslandi sem ég vil sjá til framtíðar og verða þær birtar hérna næstu daga. Við verðum að átta okkur hvert við viljum halda áður en við leggjum af stað.

Við Íslendingar höfum ekkert að skammast okkar fyrir. Við gerðum ekkert sem aðrar þjóðir voru ekki að gera. Við höfum, og eigum að fara yfir farinn veg til að læra af mistökunum og ekki síst viðurkenna þau. Ég tel þetta ekki vera spurninguna um það hvað við gerðum heldur hvernig við gerðum það. Hefjum för til framtíðar með heiðarleika og samfélagsmeðvitaða hugsun að leiðarljósi um leið og við höfnum óheiðarleika og sjálfhverfum hugsunarhætti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband