Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Framtíðin liggjur hjá einstaklingunum

Þetta er skýrt dæmi um það hvað einstaklingarnir geta gert, fái þeir frelsi til þess. Höft og annar áætlunarbúskapur hefur ekki orðið til þess að bæta umhverfið fyrir þá sem stunda framleiðslu. Það á að veita þessu framtaki allan stuðning sem hægt er, ekki síst frelsinu til að framkvæma það.

Margt smátt gerir eitt stórt. Svona framtak kemur til með að veita meiri og dreifðari vinnu en ein stór verksmiðja. Þetta ýtir undir fjölbreytileikann í samfélaginu og vekur upp trúnna á okkur sjálf og getu okkar til að sækja fram.

Við getum, við þurfum bara að trúa á okkur sjálf og getuna til verksins.


mbl.is Sífellt fleiri selja vörur sínar beint frá býli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum er í raun verið að bjarga?

Allar aðgerðir ríkistjórnarinnar miða að því að bankarnir fái sitt og gott betur. Svo er því haldið fram að styrkja þurfi bankana til að þeir geti haldið efnahagslífinu gangandi. Gallin er bara sá að við erum að horfa upp á bankana nota þetta fjármagn til að stoppa upp í götin hjá sér, götin sem urðu til vegna þeirra eigin lélegu stjórnunar.

Það bjargar engum að lengja lánin og láta þá bara borga vexti. Heildar greiðslan hækkar og bankarnir fá bara meira. Öll "hagræðing" á lánum fyrir fólk hefur miðast við að lækka greiðslubirðina, en lengja lánin, nokkuð sem verður til þess að fólk borgar meira í vexti þar sem lánstíminn lengist.

Séreignasparnaðarleiðin er svo eitt hukkleríið í viðbót. Hverjum hagnast það að einstaklingar greiði um 60.000 krónur inn á lánin sín á mánuði. Þetta er í raun bara greiðsla á vöxtunum og litlu annað, þannig að þarna eru bankarnir að ná haldi á sparnaði fólks, án þess að það hjálpi í raun. Og hver kom svo með hugmyndina um að borga þetta út í litlum skömmtum? Jú auðvitað bankarnir og aðrar fjármálastofnanir sem tilfallandi eru líka handhafar lánanna sem þetta er notað til að greiða. Þjófnaðurinn bara heldur áfram.

Það sem svo kóronar vitleysuna í þessum aðgerðum, er að mikið af skuldum bankanna hefur verið afskrifað þannig að lánin sem bankarnir tóku til að áfram lána eru ekki lengur til greiðslu. Þar sem þeir ekki þurfa að greiða þau, þá er hér um hreinan hagnað að ræða og alveg forkastanlegt að ekki skuli farið út í að færa afskriftirnar áfram til skuldaranna.´

Við munum komast í gegnum þetta einhvern vegin, en það verður ekki ríkistjórninni að þakka. Það sem verður henni að þakka er að bankarnir sitja á feitum sjóðum, en einstaklingarnir skulda bara meira. Allar verða því ánægðir, svona næstum því.

Við verðum að beina fjárstuðningnum þannig að hann hjálpi sem flestum og þá veltir maður því fyrir sér hvort betra sé að láta hann renna til fyrirtækja sem halda honum eftir í innri styrkingu, eða láta hann renna til einstaklinga sem ná að koma ár sinni betur fyrir borð og hefja neysluna á ný. Neyslu sem gerir það að verkum að fyrirtækin fara að fá tekjur.

Mín skoðun er einföld. Hlúum að einstaklingunum og þá munu fyrirtækin fá sitt með aukinni neyslu.


mbl.is Aðgerðirnar eru taldar duga flestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru íslensku hagsmunirnir?

Ég velti því fyrir mér hverjir séu íslensku hagsmunirnir sem Össur talar um. Ég er ekki viss um að við séum sammála því, þar sem ég er andsnúinn því að ganga í ESB og vill frekar að við brettum upp ermarnar og byrjum að vinna okkur úr ástandinu, á meðan hann vill ganga í ESB og telur að þannig verði öll okkar vandamál úr sögunni.

Hvort slíta beri sambandinu við Breta má kannski deila um, þó svo að ég telji hæpið að vera stjórnmálasambandi við þjóð sem er í stríði við okkur (lýsir okkur hryjuverkamenn og hefur lýsti yfir stríði á hendur þeim sömu mönnum). Við verðum hins vegar að átta okkur á því að við getum ekki gefið eftir í þessu máli. Bara engan vegin. Það tjón sem lögin ollu okkur, hafa að mínu viti gengið langt til greiðslu þess sem Bretarnir heimta.

Við eigum að sjá til þess að hegðun Breta berist sem víðast, því ekki eru Bretar alstaðar auðfúsugestir. Að ætla að "leysa" þetta í "reykfylltum bakherbergjum" er ekki okkur til framdráttar. Við verðum að hafa þetta fyrir opnum tjöldum, galopnum og sjá til þess að það sé á vitorði allra. Bretar blaðra í aðra, hvað við séum slæm, en með því að láta það viðgangast, erum við að festa í sessi orðspor sem er bara rangt.

Við höfum ekkert gert sem við þurfum að skammast okkur fyrir, stöndum stollt og vinnum að velferð okkar á okkar eigin forsendum.


mbl.is Ekki í þágu íslenskra hagsmuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausnin liggur hjá okkur

Það er áhugavert til þess að hugsa, að Samfylkingin telur að upptaka euro hjálpi efnhag okkar, en Írar, sem hafa euro, telja að það þurfi að losna við euro til að hjálpa þeirra efnahag. Það er augljóslega ekki sami skilningurinn á gæðum þessarar myntar. Svo veltir maður fyrir sér hvort líklegra sé að sá hafi rétt fyrir sem þegar hefur notað hlutinn, eða sá sem langar til að nota hlutinn.

Það er niðusveifla í efnhag heimsins og kemur það jafnt við okkur sem aðra. Hins vegar höfum við komið verr út úr þessu en ella þar sem Bretar voru svo góðir vinir okkar. Gengi euro, punds og dollara getur fallið hvenær sem er, enda eru þessi ríki á mörkunum með að halda sér gangandi. Við megum ekki gleyma því að breska ríkistjórnin hefur verið að dæla peningum í bankakerfið, án þess að það hafi borið árangur hingað til. Þeir hafa bæði styrkt banka og ekki síður tekið þá yfir, nokkuð sem virðist í lagi hjá þeim en ekki okkur?

Þessi ríki gætu sloppið með skrekkin ef heimsefnahagurinn tekur sig til og byrjar að jafna sig. Það væri þá ekki vegna þess að ríkistjórnir heimsins hafa tekið svo vel á málunum, þó þær muni eflaust halda því fram að svo væri.

Komi ekki til þess að efnahagsmálin lagist, sem ætti að koma í ljós næstu vikur og mánuði, þá erum við að horfa upp á gríðarlegan hvell og þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af lágu gengi krónunnar, það lagast sjálfkrafa.

Við Íslendingar verðum að átta okkur á því að rótin að núverandi ástandi efnahagsmála hjá okkur, er ekki vegna þess að við gerðum eitthvað, eða gerðum ekki. Heldur er hér um að ræða afleyðingu sem á rót sína að rekja til ytri aðstæðna. Við verðum að ná okkur úr þessu sjálfsásökunar ástandi og byrja að byggja okkur upp. Sama hvað pólitíkusarnir segja okkur, þá liggjur lausn okkar mála hjá okkur sjálfum, ekki í biðstofum fjölþjóðasambanda.

Rísum upp úr volæðinu, brettum upp ermarnar og höldum til framtíðar. Styrkurinn til framtíðar liggjur hjá okkur. 


mbl.is Írar fleygi evrunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbragðsteymi

Það þykir eðlilegt að hér á landi starfi björgunarsveitir sem séu tilbúnar að bregðast við hamförum. Að ekki skuli vera til almannatengslateymi sem bregðist við svona óhróðri sem notaður er til að draga athyglina frá eigin getuleysi erlendra stjórnvalda, þýðir bara að við erum ekki að átta okkur á alvarleikanum.

Yfirlýsingar breskra stjórnvalda hafa valdið okkur miklum skaða, enda hefur ekkert verið unnið að því að leiðrétta það sem sagt hefur verið um okkur. Þetta svo smá síast inn í samfélagið og á endanum er þetta orðið að sannleika. Hið neikvæða álit í okkar garð er að nær öllu leiti tilkomið vegna fullyrðinga sem við höfum ekki haft fyrir því að leiðrétta.

Ríkistjórn Íslands á að leggja mun meiri áherslu á að koma leiðréttingunum á framfæri. Það á að koma þessum upplýsingum til erlendra fréttastöðva, ekki bara bíða eftir því að þær hafi samband. Sá brúni er ekki það vinsælasta sem þekkst hefur í breskri stjórnmálasögu og fullt af fjölmiðlum sem bíða eftir upplýsingum sem nýst geta til að troða upp í hann bullinu sem vellur úr honum. Nýtum okkum það.


mbl.is Íslendingar þurfa öfluga talsmenn erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svosum allt í áttina

Það er gott að sjá Össur ánægðan með dagsverkið. En ég er samt að velta því fyrir mér hvort nóg sé. Hvert sendi forsætisráðuneytið tilkynninguna? Fór hún bara í emailið hans Össurar, eða er þetta tilkynning sem send er út í fjölmiðla? Þessi tilkynning þarf að berast út í heild sinni og hún þarf að berast til bresku þjóðarinnar. Hún þarf að vita af lygunum og þá kannski breytist viðhorfið gagnvart okkur.

Konan mín var spurð að því fyrir nokkru, hvað væri eiginlega að gerast á Íslandi. Frönsk kona sem hún þekkir hafði verið að ræða við Englendinga sem hún þekkir og höfðu þeir sagt henni að efnahagsástandið í Bretlandi væri allt tilkomið vegna Íslendinga og andstöðu þeirra við að standa skil á sínu. Breska ríkistjórnin notar okkur markvist til að afsaka aumingjaskapinn hjá sér og við verðum að taka hart á þessu. Ég held að við almennt og ríkistjórnin gerum okkur ekki grein fyrir því hversu alvarlegt þetta er.

Það er ótrúlegt að þessu sé haldið svona fram og að sjálfsögðu ekki nokkur fótur fyrir því. Það að breskir þegnar skuli trúa þessu er svo aftur enn óskiljanlegra. Að við gætum komið heiminum í þessa kreppu með því að haga okkur óábyrgt. Ég velti því þá fyrir mér hvers við erum megn um að gera ef við gerum hlutina meðvitað. Það er augljóst að við getum unnið heimin.

Í grundvöllin þá tel ég málið standa þannig að við verðum að horfa til okkar sjálfra og átta okkur á því hvernig einstaklingar við viljum vera. Hvernig þjóðfélag við viljum byggja og hvaða framtíð við viljum börnunum okkar. Þessar ákvarðanir eigum við að taka á okkar forsendum, ekki annarra. Við þurfum að ákveða hvernig við viljum vera, ekki hvers lensk. Þjóðirnar í kringum okkur hafa sýnt sitt rétta andlit og það er andlit sem ég tel mig ekki eiga neina samleið með. Við getum orðið allt það sem við viljum, en við verðum bara að vita hvað við viljum. Við þurfum ekki að taka upp þrælslundina til að sætta einhverja útlendinga. Við þurfum bara að vera sátt við okkur sjálf.


mbl.is Ánægður með svör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara svona til áréttingar

„Það er fyrst og fremst skylda íslenskra stjórnvalda að borga og þess vegna erum við í samningaviðræðum við IMF og fleiri stofnanir um það hve hratt Íslendingar geti endurgreitt tapið,“ sagði ráðherrann.

Eins og maðurinn sagði, hver þarf óvini þegar maður á svona vini. Þetta er sérstaklega áhugavert þar sem um er að ræða breskan banka í íslenskri eign sem heyrði undir breska fjármálaeftirlitið. Annars var ég búinn að skrifa um þetta hér áður en fréttinn birtist á MBL.


mbl.is Bretar að semja við IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við gefumst ei upp ...

Enn og aftur er Ísland notað sem smjörklípa í vandræðum þess brúna. Ástæðan fyrir því að Singer and Friedlander fór yfirum var sú að Bretar stálu honum undan Kaupþingi í kjölfar neyðarlaganna. Þarna voru Edge reikningar Kaupþings, en ólíkt Icesave reikningunum, þá voru Edge reikningarnir hjá breskum banka og því á ábyrgð breskra stjórnvalda.

Brown talar tungum tveim þegar kemur að tryggingu sparifjár. Breska ríkið ætlar augljóslega ekki að standa skil við sína þegna, en krefst þess að Íslendingar geri það. Í tengslum við þetta, þá mun Brown hafa sagt að gengið yrði á Íslendinga til greiðslu Icesave innistæðna og að verið sé að ræða við AGS/IMF um það hvernig hann geti komið að því máli, þ.e. hvernig Bretar geti beitt sjóðnum í stríði sínu við Íslendinga. Sóðaskapur Brown er slíkur að nær ekki nokkurri átt. Lesa má betur um þetta hér á Vísi.

Komi til þess að AGS/IMF fari að þrýsta á okkur vegna þessa máls, þá vil ég meina að við ættum að hugsa alvarlega áframhaldandi samstarf við sjóðinn. Einnig veltir maður fyrir sér hugsanlegum viðbrögðum Samfylkingarinnar, sem í slíkri blindni á ESB aðild, gæti freistast til þess að líta framhjá hagsmunum Íslendinga í von um gott veður til handa okkur í aðildarferli. Bretar hafa líka upplýst um það að þeir séu tilbúnir að "hjálpa" okkur í viðræðunum.

Við erum ekki hátt skrifuð hjá ESB þessa dagana, en Brown á verulegan þátt í því þar sem hryðjuverkastimpillinn setti okkur í mun verri stöðu en þurft hefði, hefðu þau ekki komið til. Ég var að fá fréttir af því frá Frakklandi að bankaviðskipti við Ísland væru erfið og að Ísland væri skilgreint sem vanþróað ríki sem fara yrði varlega í samskiptum við. Með slíka skilgreiningu innan bandalagsins, þá spyr maður sig hvert viðhorfið til okkar yrði í samningum.

Íslenskir stjórnmálamenn verða að átta sig á því hvar hollusta þeirra eigi að liggja. Á hún að liggja hjá þjóðinni, eða í einhverjum skammtíma sérhagsmunum þeirra sjálfra. Bretar hófu stríð á hendur okkur og sem slíkir ekki líklegir til þess að vilja okkur alls hins besta, sem gerir alla "aðstoð" frá þeim varhugaverða. Við áttum í nokkrum "stríðum" við þá á síðustu öld og unnum við þau öll. Það er ekki ástæða til að breyta þar um núna. Við verðum bara að átta okkur á því að við ein erum fær um að gæta hagsmuna okkar. Við megum ekki láta þvoglukennda drauma um óskilgreinda himnasælu blinda okkur.

Við höfum verið skilin eftir af "vinum" okkar í Evrópu. Skilin eftir í höndum félaga þeirra sem misnotar okkur í þágu réttlætingar á efnahagslegu klúðri sínu. Ætlum við að sætta okkur við þessa misnotkun eða ætlum við að standa stolt og segja nei takk, hingað og ekki lengra.

Það er auðvelt að vera stóri tuddinn á skólalóðinni sem allir styðja í eineltinu, en það er ekki þar með sagt að fórnarlambið þurfi að sitja undir ofbeldinu. Mörg dæmi eru um það að sá "litli" hafi haft betur, jafnvel dæmi frá okkur sjálfum. Okkar er að skapa framtíðina, okkar einna.


mbl.is Vilja endurheimta söfnunarfé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi vikur framundan

Það eru venjulega kallaðar fram þrjár vísitölur, þegar fjallað er um hlutabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum. Það eru Dow Jones (sem inniheldur flest "hefðbundin" fyrirtækin), Nasdaq (sem eru helstu tæknifyrirtækin) og svo S&P500 (sem inniheldur 500 stærstu fyrirtækin, eða hálfgert meðaltal hinna tveggja vísitalnanna). Til dæmis hækkaði Nasdaq mikið í tæknibólunni sem sprakk um 2001, á meðan Dow Jones hækkaði núna í síðustu bólu. S&P500 vísitalan sýndi hins vegar mjög áhugaverða hegðun, en hún hækkað svotil jafn mikið nú í síðustu bólu og hún gerði í tæknibólunni. S&P500 sýndi því framá þolmörk bandaríska markaðarins, enda benti ég á það í fyrirlestri sem ég hélt í nóvember 2007 að búast mætti við djúpri leiðréttingu á markaðinum.

Niðursveiflan í kjölfar tæknibólunnar náði ekki 6% meðalávöxtunarlínunni árið 2004 þegar S&P500 vísitalan hóf að rísa á ný og benti það til þess að leiðréttingin í kjölfar tæknibólunnar hefði ekki verið tekin út að fullu. Því mátti búast við nokkuð skarpri niðursveiflu núna. Það sem er áhugavert í kjölfar síðustu bólu, er að 6% línan er núna í kringum 800 stigin, eða á svipuðum stað og botnin var í kjölfar tæknibólunnar. Þetta þýðir að markaðsstuðningurinn sem myndaðist við lok tæknibólunnar er sá sami og meðalávöxtun vísitölunnar.

S&P500 vísitalan hefur því náð ákveðnum þolmörkum og ef hún nær að fara uppfyrir 960 stigin að einhverju marki og halda sér þar í einhvern tíma, þá erum við líklega að horfa uppá bjartari tíma. Fari hins vegar svo að vísitalan taki að lækka aftur, tali maður ekki um ef hún fer mikið niður fyrir 800 stig, þá erum við að horfa á mjög neikvæða hegðun í markaðnum og því líklega frekari dýfur á Bandaríkjamarkaði.

Komandi vikur eru því mjög mikilvægar varðandi framtíð efnahagsástandsins í Bandaríkjunum. Heimurinn mun fylgjast með hvað verður og fari þetta á verri veginn, þá má búast við að Evrópa taki verulega dýfu. Við stöndum að vissu leiti á tímamótum núna, þar sem allt getur í raun gerst.


mbl.is Hlutabréf lækkuðu í verði vestanhafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB og litli maðurinn

61,2% þjóðarinnar vill, samkvæmt þessari könnun, hefja aðildaviðræður við ESB. Ég veit ekki hvort fólk sé að átta sig á hlutunum, þ.e. viðræður og umsókn um aðild. Hins vegar verða engar viðræður án þess að við sækjum um aðild fyrst. Nær væri að spyrja hvort fólk væri með eða móti aðildarumsókn að ESB.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna almenningur, eða litli maðurinn, ætti að vilja inn í ESB. Ég velti þessu fyrir mér vegna þess að ég hef bæði nokkra reynslu af bandalaginu og hef kynnt mér það nokkuð en mín skoðun er einfaldlega sú að við höfum ekkert þangað inn að gera. Nokkur dæmi hafa verið nefnd fyrir því að við ættum að fara þarna inn, svo sem:

við losnum við verðtryggingu lána og fáum lægri vexti.
Þetta er nokkuð sem við getum gert án aðildar. Það er bara spurning um pólitískan vilja til þess að afnema verðtrygginguna og lækka vexti.

- við förum í umhverfi sem kemur í veg fyrir öfgar í efnahagslífinu, sbr. það sem við erum að upplifa núna.
Nefni bara eitt nafn, Írland. Gæti nefnt annað, Spánn. Þessi lönd eru ekki beint laus við öfga eða slæmt efnahagsástand og eru þau samt búin að vera í bandalaginu í nokkurn tíma núna.

- við fáum stöðugleika í gengismálum.
Þetta á bara við ef við verslum ekki við nein önnur ríki en ESB ríkin. Strax í viðskiptum við Bandaríkin myndum við finna fyrir háu gengi euro gagnvart dollaranum.

- við fáum aðgang að 300.000.000 manna markaði.
Við lokum um leið á um nokkra milljarða manna markaði. Nær væri að viðhalda hlutleysi og geta verslað við þá sem vilja versla við okkur. Kínverjar vilja gera fríverslunarsamning við okkur, en í ESB væri okkur bannað að gera slíkan samning.

Fólk áttar sig kannski ekki á því að fyrir litla manninn hefur upptaka euro ekki verið farsæl. Í Frakklandi hefur verðlag hækkað gífurlega frá upptöku euro um leið og laun hafa ekki hækkað nokkuð að ráði. Nú er svo komið að fólk er farið að versla í búðum sem selja útrunna vöru, þar sem það hefur ekki efni á að kaupa sömu vöru sem ekki er komin á síðasta söludag. Atvinnuleysi er gífurlegt og hefur fjöldi fólks misst vinnuna undanfarna mánuði. Reyndar hefur atvinnustigið verið mjög lélegt til margra ára. Margir sem ég þekki segjast ekki myndu samþykkja inngöngu stæðu þeir frammi fyrir þeirri ákvörðun í dag. Það er vissulega hópur einstaklinga sem kemur til með að hafa hag af inngöngu í bandalagið, en það er ekki almenningur, litli maðurinn.

Það er ráð að fara að taka til hendinni og vinna þau verk sem mest ríður á að vinna til að bjarga heimilunum. Aðild að ESB mun ekki leysa nein vandamál og allra síst þau sem við þurfum að leysa núna strax.


mbl.is 61,2% vilja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband