Þrískipting valds

Litið hefur verið til þess að Íslendingar búi við þrískiptingu ríkisvaldins, það er að segja löggjafar, framkvæmda og dómsvald. Raunin er hins vegar sú að við búum ekki við neina skiptingu. Íslendingar kjósa Alþingi og það er Alþingi sem velur ríkistjórnina, sem svo aftur stjórnar Alþingi í krafti meirihluta á þingi. Dómsvaldið er svo algerlega háð framkvæmdavaldinu þar sem dómarar eru valdir af ráðherra og málefni dómsstóla heyrir undir dómsmálaráðuneytið. Þetta er því allt í kross.

Það er hins vegar nauðsynlegt að kljúfa þetta allt í sundur til að styrkja lýðræðið og hef ég velt fyrir mér hvernig hentugast sé að gera það. Það er augljóst að kjósa þarf sérstaklega framkvæmdavald og löggjafarvald, en sökum eðli dómsvaldsins, þá tel ég ekki hentugt að kjósa það almennum kosningum. Dómarar sem byggja starf sitt á vilja almennings gætu tekið ákvarðanir út frá persónulegum forsendum og grunnað ákvarðanir sínar á lýðskrumi frekar en lagatúlkun. Ég tel að eftirfarandi fyrirkomulag gæti hentað okkur Íslendingum.

Framkvæmdavald

Ég sé fyrir mér að breyta þurfi eðli forsetaembættisins. Forsetinn á að vera í forsvari fyrir framkvæmdavaldið og kosinn sem slíkur til fjögurra ára í senn, ekki ósvipað og í Frakklandi og BNA. Forsetinn velur svo þá einstaklinga með sér í ríkistjórn sem hann telur hæfasta til starfans. Komi til þess að alþingismaður er valinn í ráðuneyti, þá á hann að fara af þingi þann tíma sem hann gegnir ráðherrastöðunni og varamaður koma í staðinn. Með því að skilja alveg að Alþingi og framkvæmdavald, þá hættir Alþingi að vera afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið. Forsætisráðherra bera svo loka ábyrgð á ráðuneyti sínu og sér til þess að reka menn, valdi þeir ekki starfanum. Einu tengsl framkvæmdavaldsins við löggjafavaldið er að geta lagt fram lagafrumvörp. En þar sem þingið er sjálfstætt framkvæmdavaldinu, þá fer lagaumræðan fram án þvingunar frá framkvæmdavaldinu.

Löggjafavaldið

Alþingi er kosið eins og nú er, en skipar ekki ríkistjórn. Æskilegt er að kosið sé til þings tveimur árum eftir forsetakosningar, en þannig hefur almenningur möguleika á að breyta samsetningu þingmanna, komi til þess að framkvæmdavaldið nái of miklum áhrifum innan þingsins. Með slíkum skilnaði þings og ríkistjórnar, þá munu þingmenn einnig fara út í það að ræða og samþykkja lög sem ekki eru framleidd í ráðuneytunum. Annað sem ætti að bæta starfshætti þingmanna, er að nú eru þeir ekki að eltast við goggunarröð flokka sinna í von um ráðherraembætti og því ættu þeir að geta sýnt einstaklingsbundnari vilja.

Dómsvaldið

Dómsvaldið er nokkuð sérstakt þar sem óæskilegt er að dómarar séu háðir vilja almennings þar sem það gæti haft áhrif á ákvarðanatöku þeirra. Dómarar verða að geta sýnt hlutleysi. Sú leið sem ég tel koma til greina við val á dómurum, er að dómarar í Hæstarétti séu kosnir af starfandi dómurum. Hæstiréttur sjái svo um að ráða dómara á önnur dómstig. Með þessu fyrirkomulagi ættu fagleg sjónarmið að ráða ferðinni varðandi val á dómurum.

Ríkisráð

Ég sé fyrir mér að forseti, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar skipi Ríkisráð, sem yrði þá samstarfsgrundvöllur hins þrískipta valds.

Með fullkomnum aðskilnaði eru slitin í sundur hagsmunatengsl þessara eininga, sem ætti að leiða til skilvirkari starfssemi. Núverandi skipulag er ekki að gera sig og því verður að breyta. Ég tel að umræddar breytingar gætu verið leiðin til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Þetta er nánast það sama og ég hef verið að hugsa.  Meira um það síðar.

Axel Þór Kolbeinsson, 6.5.2009 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband