Samfélagsleg meðvitund

Ein helsta ástæðan fyrir því að ástandið á Íslandi er eins og það er, tel ég vera skort á samfélagslegri meðvitund. Íslendingar hafa fallið um of í gryfju sjálfhverfrar hugsunar, hugsunar sem hefur náð sífellt meiri tökum á mannskeppnunni.

En hvað er samfélagsleg meðvitund. Samfélagsleg meðvitund er í raun sú hugsun einstaklinga að þeir geri sér grein fyrir því að þeir eru aðilar að samfélagi þar sem sérhver einstaklingur skiptir máli varðandi styrk samfélagsins. Samfélagslega meðvitaður einstaklingur gerir sér grein fyrir því að allar gjörðir hans hafa áhrif á þá einstaklinga sem hann á samskipti við, eða búa í sama samfélagi og hann. Þannig leitar einstaklingur sem er samfélagslega meðvitaður ekki til þess að brjóta niður aðra einstaklinga, hvort sem það er í viðskiptum eða öðrum samskiptum. Hugmyndafræðin að fá allt fyrir ekki neitt er til dæmis eitthvað sem samfélagslega meðvitaður einstaklingur myndi ekki láta eftir sér, enda viðurkennir hann þá staðreynd að allir aðilar sem koma að samningum þurfa að fá sinn réttláta skerf af því verki sem þeir leggja til.

Ekkert samfélag getur orðið sterkara en einstaklingarnir sem byggja það en með sjálfhverfri hegðun, leitast einstaklingar við að "vinna" aðra meðlimi samfélagsins. Þannig verða einstaklingarnir veikari fyrir og stoðir samfélagsins um leið. Græðgin og öfundin sem gegnsýrir allt þjóðfélagið hefur stuðlað að því að samfélagsleg meðvitund er í lágmarki og því verður að breyta.

Við stöndum á tímamótum. Við tölum um að breyta þurfi lögum og reglugerðum um leið og herða þurfi eftirlit. Það skiptir hins vegar engur hversu "góð" löggjöfin er eða eftirlitið "sterkt", lögin og eftirlitið verður aldrei betra en einstaklingarnir sem eiga að fara eftir því. Eina leiðin til að koma í veg fyrir að núverandi ástand endurtaki sig í framtíðinni, er að breyta okkur sjálfum.

Margir gætu, og munu, halda því fram að það sé óvinnandi verk að breyta heilli þjóð og myndi ég samþykkja það ef um væri að ræða einhverja af stærri þjóðum heimsins. Við erum hins vegar ekki nema rétt rúmlega 300 þúsund og því í einhverri bestu aðstöðunni til að ná fram breyttu hugarfari. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að þetta gerist ekki yfir eina nótt, en við því fyrr sem við byrjum að breyta okkur, því fyrr verðum við búin og getum haldið stolt inn í framtíðina.

Breytt hugarfar er skilyrði fyrir því að við getum bætt þjóðfélag okkar í framtíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband