Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
30.6.2009 | 12:02
Lán er engin lausn
Það er engin lausn að taka lán í því árferði sem er núna. Við tókum þessi lán til að byggja upp gjaldeyrisvaraforða. Einhversstaðar las ég að við værum með þennan gjaldeyrir liggjandi á bankabók í BNA á skítavöxtum á meðan við borgum umfram meðalvexti fyrir lánin. Í mínum huga eigum við að borga þessi lán til baka. Gjaldeyrisvaraforðann eigum við svo að byggja upp á eðlilegan hátt, með útfluttningi.
Við verðum að átta okkur á því að peningar hafa ekki verðgildi, það er undirliggjandi framleiðsla sem er verðmætið sem fjármagnið byggir á. Að ætla að gera fjármagn verðmætt með því að nota fjármagn til þess þ.e. annan gjaldmiðil, er ekki rétt leið, er hreinlega bara bull.
Í fáránleika tilverunnar í dag eru stjórnmálamenn all of uppteknir af gamla kerfinu, kerfinu sem hefur verið að éta okkur lifandi undanfarnar aldir. Nú er kominn tími til að hætta að hugsa í gamla þrælakerfinu og taka upp nýtt kerfi sem byggir á raunverulegum verðmætum og ekki lánaþrælkun fjármálakerfinsins.
Hefur fólk almennt pælt í því hversu vitlaust það er að láta bankana sjá um að dæla út fjármagni í formi lána? Ef bankarnir láta okkur fá fjármagn t.d. 100.000.000 á 6% vöxtum, þá vantar fjármagn fyrir 6.000.000 þannig getur það gerst að einn og einn aðili geti borgað upp allar skuldir sínar, en þjóðfélagið í heild getur aldrei borgað upp allar skuldir. Við erum föst í neti fjármálageirans.
Bankarnir eru ekki eitthvað sem er okkur lífsnauðsyn, við getum vel verið án þeirra í þeirri mynd sem þeir hafa starfað í dag. Við þurfum bara að sýna þor og breyta kerfinu og taka upp kerfi þar sem einstaklingurinn nýtur góðs af framleiðslu samfélagsins.
Við eigum að hætta að hugsa í þessum skuldum og fara að lifa lífinu á þann hátt að við séum frjálsir einstaklingar.
![]() |
200 milljarðar á gjalddaga 2011 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.6.2009 | 22:10
"I have in my hand a piece of paper"
Neville Chamberlain var mjög jákvæður þegar hann steig úr flugvélinni sinni eftir að hafa spjallað við Hitler í Munchen. Chamberlain hafði ekki hugmynd um hverju hann veifaði þarna um árið, annað en franski forsætisráðherran Édouard Daladier sem hafði verið með honum á þessum örlagaríka fundi. Þegar Daladier lenti í París og sá fjölda manns æða að flugvél sinni, hélt hann að múgurinn ætlaði að taka hann af lífi. Þegar honum var tjáð að fólkið væri að fagna honum vegna samningsins við Hitler á hann að hafa sagst vorkenna þeim þar sem það augljóslega vissi ekki hvað hann og Chamberlain höfðu gert.
Einhverja hluta vegna kemur þessi Munchenarsamingur og viðbrögð Chamberlains í huga mér þegar ég hlusta á Steingrím fjalla um IceSave. Hann talar eins og þetta muni tryggja okkur velsæld um komandi tíð, eða eins og Chamberlain sagði "peace in our times". Ég er hins vegar hræddur um að pappírinn hans Steingríms sé jafn verðlaus og pappírinn hans Chamberlain.
Ef tveir menn koma í banka og biðja um lán, annar segist ekki skulda neitt en hinn segist skulda slíkar upphæðir að allur peningur hans muni fara í það næstu árin að greiða vextina og síðan eftir sjö ár muni allur pakkinn, sem hugsanlega hefur ekki náðst að greiða upp með óskilgreindum eignum, falla á hann. Hver fær lánið. Örugglega ekki þessi sem getur ekki bætti við baun í afborgarnir.
Það að halda því fram meðal annars að lánshæfi ríkisins aukist við þennan samning er bara barnaskapur. Þessi samningur er eingöngu tilkominn til að þýðast Breta og Hollendinga svo þeir kjósi okkur ekki út úr ESB. Innganga með slíkum verðmiða mun gera það að verkum að það skiptir okkur engu framtíðin, innan eða utan ESB. Ráðamenn verða að hafa í huga orð Bismark þegar hann sagði ríki ekki eiga vini heldur hagsmuni. Svo lengi sem hagsmunir erlendra ríkja liggja með okkar, þá erum við látnir halda það að við séum vinir þeirra, en um leið og þar losnar á milli, þá er okkur sparkað svo um munar. Síðustu mánuðir ættu að vera okkur lexía í þeirri pólitíkinni.
Ríkistjórnin hefur mært þennan samning upp úr öllu og sagt þetta geta gengið eftir. Hins vegar verður þetta fólk að átta sig á einu, það er ekki hægt að gera áætlanir út frá forsendum dagsins í dag. Til dæmis má gera ráð fyrir að skattatekjur ríkisins verði ekki nærri þær sem gert er ráð fyrir því fólk mun einfaldlega ekki dvelja hér nógu lengi til að greiða þessa skatta. Bara með því að skoða til sölu dálkinn á Barnalandi, er hægt að sjá gífurlegan fjölda einstaklinga sem eru einfaldlega að yfirgefa landið. Þessi hópur mun stækka svo um munar verði að ráðabruggi þessarar ríkistjórnar.
Steingrímur spurði hvort við ætluðum að berjast eða gefast upp. Ég ætla að berjast og er því mótfallinn þessum samningi.
![]() |
Icesave-skuldbindingarnar ekki hættulegastar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.6.2009 | 21:00
Ný sýn fyrir nýtt Ísland
Íslendingar standi frammi fyrir því nú, hvort þeir vilji breytingar eða halda áfram á hinni gömlu þekktu braut. Auðvitað er gott að halda sig við það sem maður þekkir, en þá veit maður hvers er að vænta. Hver kynslóð kemur til með að fá sín efnahagsáföll, en vissan er samt svo góð.
Það er hins vegar spurning hvort þetta sé okkur fyrir bestu, hvort það sé ekki til betra kerfi, kerfi sem byggir á hagsmunum einstaklinganna innan samfélagsins, en er ekki eins og núverandi kerfi, þar sem við einstaklingarnir erum fæða fjármálakerfisins.
Fyrir þá sem eru tilbúnir til að taka "áhættuna", horfa út fyrir staðalmyndir og þær blekkingar sem haldið hefur verið að okkur, þá er til lausn. Það er til annars konar kerfi sem við getum tekið upp. Kerfi sem byggir á því að gæta hagsmuna einstaklinganna innan samfélagsins og er ekki hannað af bankamönnum þeim til handa. Við getum losað okkur undan þeirri ánauð sem við höfum þurft að þola allan þennan tíma og tekið upp nýtt fyrirkomulag okkur til heilla.
Til þess að gera betur grein fyrir því hvernig hið nýja kerfi virkar, þá er nauðsynlegt að fjalla aðeins um það gamla. Það er margt við það kerfi sem almennt er ekki vitað. Því hefur verið haldið leyndu til þess að villa okkur sýn. Einnig hefur okkur verið kerfisbundið innrætt sú hugmynd að við getum ekki án þess verið, að við verðum að bjarga bönkunum sama hvað. Það sé ekkert líf án bankanna. Sanleikurinn er hins vegar sá að við getum vel lifað án bankanna, bankarnir geta hins vegar ekki lifað án okkar. Við þurfum að fella vef blekkingarinnar og hefja vinnuna að nýju og betra samfélagi. Nú er tíminn, þegar við stöndum frammi fyrir brostnu kerfi, þá er ekki tíminn til að sparsla í sprungur og sölumála gamla kerfið, heldur verðum við að endurskipuleggja okkur og taka upp nýtt.
Ég mun næstu daga birta hér færslur þar sem hið nýja kerfi er kynnt og hvernig það er lausnin á okkar málum. Þetta kemur í nokkrum bútum þar sem textinn yrði of langur til að þola eina blog færslu. Ég læt fylgja með skjal sem ég og bróðir minn sendum á alla þingmenn og aðra hagsmunaaðila. Þar er farið yfir það helsta í hugmyndafræðinni sem boða er, auk þess sem við sendum frá okkur aðgerðaráætlun svo hrinda megi þessu í framkvæmd.
Ísland á sér framtíð, hún byggir á okkur sjálfum, ekki öðrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.12.2009 kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2009 | 08:03
Gengur þetta upp?
Ég er ekki viss um að það komi okkur best að draga saman útgjöld ríkissjóðs á þann hátt að minnka framkvæmdir sem veita atvinnu. Væri ekki nær að halda þeim áfram og spara þá á móti greiðslur úr atvinnuleysissjóði.
Svo er ég ekki að sjá að þessi ríkistjórn geti verið með hallalausan ríkissjóð árið 2012. Ég bara skil ekki hvernig hægt er að halda því fram þegar sú sama ríkistjórn er að hella okkur út í hrikalegar skuldir, skuldir sem við erum á mörkunum með að standa undir. Hvernig á þá að skila hallalausum rekstri án þess að skera starfssemi ríkisins í núll og skattpína almenning upp í hárrætur.
Við eigum að taka okkur smá tíma og hugsa málið. Við eigum að slá á frest öllum viðræðum um Icesave þangað til við vitum í raun hvað þetta er sem við þurfum að semja um og hver réttur okkar er. Við eigum svo að binda enda á "samvinnuna" við gjaldeyrissjóðinn og aðra aðila sem eru ekki að vinna fyrir okkur heldur gæta bara hagsmuna erlendra kröfuhafa og þeirra sem viðhalda vilja hinu gamla fjármálaumhverfi.
Gangi vilji ríkistjórnarinnar eftir, þá munum við búa í samfélagi þar sem er lítil sem engin þjónusta af hálfu ríkisins og mjög háir skattar. Fyrirtæki munu eiga erfitt uppdráttar vegna lítillar neyslu og erfiðra skilyrða auk þess sem fólk mun flýja land í umvörpum og það verður virkilega erfitt fyrir þá sem eftir verða. Sú framtíð sem mér birtist er ekki það nýja Ísland sem ég tel okkur geta skapað ef við höldum rétt á spöðunum.
![]() |
Vildu meiri niðurskurð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.6.2009 | 14:00
Þörf á gagngerum breytingum
Það hefur svo sem ekki verið launungamál að evrópskir bankar standa illa. Reyndar er ég persónulega undrandi á því hversu lengiþessir bankar hafa hangið saman. Hann er hins vegar mjög veikur grunnur þeirra og ástandið má ekki halda lengur sömu leið án þess að það komi til með að velta bönkunum.
Seðlabanki Evrópu er búinn að gefa 2010 upp sem árið sem lífgar eða lemstrar bankana. Þetta er ekki langur tími, næsta ár. Það er sífellt verið að klifa á að það þurfi að endurreisa bankana, en það er hins vegar ekki rétt nálgun. Við erum búin að lifa núna í nokkur hundruð ár þar sem núverandi kerfi hefur þróast í þá átt að einstaklingar sem reka bankana hafa náð til sínu flestum eignum og völdin eru svo mikil að einstaklingar og ríkistjórnir þora ekki að fara gegn þeim, haldandi það að bankarnir séu lífsnauðsynlegir samfélagi mannanna.
Þetta gæti ekki verið meira fjarri lagi. Bankarnir eiga að vera þjónustustofnanir ekki drottnandi stórveldi. Við þurfum að breyta hugsun okkar og taka inn alveg nýja hugsun. Hugsun þar sem þjóðfélagið stjórnar peningamálum en ekki einhver fámenn klíka sem stundað hefur einokun á fjármagnsframleiðslu, þrátt fyrir einkaleyfi ríkisins til slíks.
Breytingarnar eru einfaldar. Reyndar svo einfaldar að fólk heldur að þær geti ekki gengið upp sökum einfaldleikans. Það er hins vegar þannig að þegar virkilega þarf að taka til hendinni, þá eru það einföldu málin sem virka best.
Legg til að ríkistjórnin hætti að fleygja fram smjörklípum hægri og vinstri og fari að vinna vinnuna sína. Þá þurfum við ekki að velta fyrir okkur stöðu evrópskra banka, við verðum búin að snerta botnin og farin að vinna okkur út úr þessu ástandi.
![]() |
Óttast bankakrísu 2010 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.6.2009 | 10:23
Þýska vélin dregur úr hraðanum
Samdráttur í útfluttningi getur hæglega komi til án þess að nokkuð mikið sé að innanlands, enda útflutningur háður getu hinna erlendu kaupenda. Það sem hins vegar vekur athygli í þessari frétt, eru upplýsingarnar um minnkandi innflutning. Þetta bendir til þess að allt efnahagslífið sé að hægja á sér og þá spyr maður sig hvert mun þetta leiða.
Eftir því sem hagkerfi hægja á sér, því erfiðara er að koma þeim af stað aftur. Við horfum upp á þetta í Japan, en þar hefur lítið gengið að koma efnahagnum í gang frá því hann stöðvaðist á síðustu öld. Þýskaland hefur ekki almennilega náð sér á strik eftir að þýsku ríkin tvö voru sameinuð 1989, nokkuð sem vekur hjá manni ugg varðandi möguleikana á að það náist að koma kerfinu þeirra af stað í kjölfarið á þessu ástandi sem nú ríkir.
Þýskaland er kjarninn í ESB og ef illa gengur þar, mun það leiða til erfiðleika í hinum ríkjunum. Það er augljóslega ekki að koma í veg fyrir þrengingar, vera landsins í ESB. Hingað til hefur verið litið til vandræða Íra og Spánverja sem einhvers sérfyrirbæris sem ekki eigi við um sambandið í heild sinni. Þessar fréttir og aðrar svipaðar sem hafa verið að berast frá öðrum löndum ESB, sýna að ástandið þar inni er ekki eins gott og menn vilja vera að láta. Næstu mánuðir verða áhugaverðir að sjá, ekki síst þegar kemur að hausti. Fólk er almennt rólegra á sumrin, en þegar fer að hausta og fólk ætlast til að hlutirnir fari aftur í sama farið, þá má búast við mótmælum sjái fólk ekki breytingar.
Stjórnmálamenn þessara landa hafa nú undanfarnar vikur verið að tala um það að nú sé ástandið allt að fara batnandi. Hins vegar sýna tölur annað. Þetta vekur hjá manni þær spurningar hvort stjórnmálamenn viti ekki hvað þeir eru að segja, eða hvort þetta sé sagt til að draga athyglina frá raunverulegum aðstæðum. Ef aðgerðir þeirra hingað til hafa ekki dugað og gripið hefur verið til smjörklíputækni, hvað gerist þá ef þeir höndla ekki ástandið og það fer að vera meira áberandi.
![]() |
Samdráttur í útflutningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.6.2009 | 10:12
Lausnin liggur hjá okkur
Eins og fram kemur í þessari frétt og ég hef sagt áður, þá er þetta ástand hér á landi hluti af alþjóðlegu ástandi. Við getum ekki leyst neitt hér heima með því að sækja til lausna erlendis, heldur verðum við að leysa þetta sjálf á okkar eigin forsendum.
Nú er kominn tími fyrir nýja hugsun, hugsun sem hafnar þeim hugmyndum sem notast hefur verið til hingað til, hugsunum sem byrja upp á nýtt.
Landsframleiðsla er að dragast saman vegna þess að neysla er að dragast saman. Það er minna framleitt og dregið verið úr þjónustu vegna þess að gert er ráð fyrir því að ekki sé, eða verði til, fjármagn til að standa undir aukinni framleiðslu. Þetta er rangur hugsunargangur. Fjármagnið á ekki að ráða framleiðslunni, heldur á framleiðslan að ráða fjármagninu.
Eini tilgangur fjármagns er að aðvelda eignatilfærslu verðmæta. Fjármagnið sjálft er í eðli sínu verðlaust. Það er hlutverk ríkisins að sjá til þess að alltaf sé til fjármagn í réttu hlutfalli við þau verðmæti sem til staðar eru og að þessu fjármagni sé skilað til samfélagsins á sanngjarnan hátt svo auðvelda megi eignatilfærslu þeirra verðmæta sem til staðar eru.
Þetta er ekki flókið verk og tekur ekki langan tíma. það þarf hins vegar að hefja verkið og þá mun þetta ástand sem við höfum búið við, leysast. Tími er kominn til þess að ráðamenn hætti að hugsa í hugmyndafræði sem hefur sýnt sig að virkar ekki og fara að hugsa utan hins hefðbundna kassa.
![]() |
3,6% samdráttur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.6.2009 | 09:59
Tími komin fyrir nýja hugsun
Heildartekjur hins opinbera, sem námu 152,7 milljörðum króna á 1. ársfjórðungi 2009 samanborið við 164,4 milljarða króna á sama tíma 2008, lækkuðu um ríflega 7% milli ára. Þessi mikla tekjulækkun skýrist fyrst og fremst af verulega minni tekjum af vöru- og þjónustusköttum, en tekjuskattar skiluðu hins vegar svipaðri fjárhæð í krónum talið milli ára
Það ætti ekki að koma á óvart að tekjur ríkissins af neyslusköttum og gjöldum hafi dregist saman. Það er líka eðlilegt að tekjurnar séu enn þá svipaðar þegar litið er til tekjuskatts. Hins vegar má búast við því að tekjur vegna tekjuskatts komi til með að minnka þar sem ríkið er að ætlast til þess að fólk lækki við sig laun, svo ekki sé minnst á þá sem eru hreinlega að missa launin sína alfarið. Auðvitað kemur skattahækkun til að laga það eitthvað, en á móti kemur að tekjur vegna neysluskatta og gjalda mun dragast enn frekar saman með minnkandi ráðstöfunartekjum einstaklinga. Þessi vinnubrögð geta bara farið á einn veg. Það er nefnilega þannig að þegar skrúfað er fyrir súrefni til einstaklinga, þá endar það bara með því að þeir deyja.
Það er kominn tími á nýja hugsun hins opinbera þegar kemur að ráðstöfun fjármagns, framleiðslu þess og nýtingu. Eini tilgangur fjármagns er að auðvelda eignatilfærslu á verðmætum. Til þess að það geti gengið þá þarf að vera til fjármagn sem samsvarar þeim verðmætum sem eru til staðar í þjóðfélaginu. Það eru til verðmæti, en fjármagnið vantar. Það er því hlutverk ríkisins að sjá til þess að þetta fjármagn komist til einstaklinganna í landinu svo hægt sé að skiptast á þeim verðmætum sem til staðar eru. Þá mun þjóðfélagið fara að taka við sér og þetta efnahagsástand leysast.
Þetta er ekki flókið og tekur ekki langan tíma. Það þarf bara að hefja verkið.
![]() |
Mikill halli á rekstri hins opinbera |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.6.2009 | 15:58
Kraflað yfir skítinn
Allt átti að vera uppi á borðinu. Algert gegnsæi. Þetta er nú búið að vera meiri dellan hjá þessu fólki. Almenningur hefur ítrekað beðið eftir skýringum og upplýsingum um Icesave og enginn virðist hafa vitað neitt, ekki einu sinni ríkistjórnin sem bara ypti öxlum og sagði við vitum þetta ekki nákvæmlega.
Svo er allt í einu búið að semja. Hvernig getur verið hægt að semja um eitthvað sem enginn veit hvað er?
Ég legg til að kosið verði á þing í lok Júlí og að þeir sem eru og hafa verið á þingi fái ekki að bjóða sig fram. Það þarf nýtt fólk. Íslendingar hafa kallað eftir Nýja Íslandi frá því í fyrra og ég get sagt fyrir mitt leiti að þetta er ekki það Ísland sem ég er að óska mér.
![]() |
Blaðamannafundur kl. 16 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.6.2009 | 15:44
Og Bretar ekki látnir bera ábyrgð
Vissulega voru þarna háar upphæðir undir hjá bresku almenningi. Hins vegar er alveg ljóst að aðgerðir Breta í okkar garð og annarra "bandamanna" okkar í kjölfarið á þessum afdrifaríku október dögum, hafa kostað okkur mikið. Samkvæmt þessum samningi þá virðist sem við ætlum að borga allt og meira til í formi vaxta í sjö ár án þess að Bretar séu látnir koma til móts við okkur vegna þess tjóns sem aðgerðir þeirra sannanlega orsökuðu.
Þessi ríkistjórn hefur hagað sér ótrúlega og þessi ofsi hennar til að koma okkur í þrælakistu "bandamanna" okkar mun verða þess valdandi að hér mun fjöldi fólks líða fyrir næstu áratugina.
Nú tel ég kominn tími á að þetta fólk sem kosið var hætti að hugsa í skammtíma sérhagsmunum og fari að vinna að því að leysa málin sem þarf að leysa.
![]() |
Bretar fagna Icesave-samningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |