15.1.2010 | 21:44
Mjög áhugavert hjá VG
Þetta er mjög áhugavert þarna hjá VG. Nú eru félögin farin að tala um að standa við kosningaloforðin. Ég fagna því ef þeir samþykkja þessar ályktanir, en yrði ekki hissa þó það yrði ekki gert. Hugsanlega settar í nefnd.
En hvað sem því líður, þá verður forvitnilegt að heyra rökin verði þetta ekki samþykkt.
Vilja hvorki ESB né AGS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.1.2010 | 10:14
Kemur ekki á óvart
Það kemur mér ekki á óvart þetta mat, en ég var að skoða SP500 vísitöluna fyrir nokkrum dögum og tel að það komi skellur innan næstu tveggja mánaða. Það er ekki hægt að afskrifa þennan samdrátt á heimsvísu fyrr en í fyrsta lagi eftir sex til 12 mánuði.
Næstu vikur og mánuðir skipta því verulega miklu máli. Eitt af því sem kemur til með að hafa áhrif, er sú staðreynd að það er ekkert að gerast í bandarísku efnahagslífi sem ýtir undir jákvæða framtíð.
Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er ekki að minnka, það sem hefur verið bent á er að það eykst minna en áður. Hins vegar er vert að hafa í huga að þegar fólk gefst upp á atvinnuleit, þá fellur það af skrá og er ekki lengur talið með. Þannig að þegar einn gefst upp og annar verður atvinnulaus, þá er ekki talað um tvo atvinnulausa, heldur bara einn. Þetta skekkir myndina verulega.
Fjármálakreppa yfirvofandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.1.2010 | 07:57
Eitthvað þarf að breytast
Ég held ekki að venjulegt fólk í Bretlandi geri sér fulla grein fyrir hlutföllunum í deilunni og hvaða áhrif Icesave-skuldbindingarnar myndu hafa á venjulega Íslendinga.
Ég held að ef almenningur í Bretlandi gerði það myndi það leiða til aukinnar samúðar með Íslendingum
Ég held einhvern vegin að það hafi verið gerð mistök varðandi stöðu okkar vegna Icesave kröfu Breta og Hollendinga. Reyndar held ég að ekkert hafi verið gert rétt. "Okkar" fólki hefur tekist að klúðra þessu alveg ótrúlega ef miðað er við þessa fullyrðingu breskrar konu sem ekki hefur nokkra ástæðu til að taka okkar málstað, nema vegna skynsemi.
Þegar svo litið er til þess að sífellt fjölgar þeim erlendu aðilum sem telja okkur yfir höfuð ekki eiga að borga krónu í þessu máli, þá er alveg augljóst að einhverjir hafa ekki verið að vinna vinnuna sína. Raunar hafa þeir klúðrar svo stórt að hæpið er að þeir væru við störf lengur ef allt væri eðlilegt.
Ég held að það sé kominn tími til að núllstilla þetta mál og byrja upp á nýtt, eins erfitt og það getur verið.
Reyndar virðist ákveðinn vilji nú vera kominn upp á þingi þar sem stjórn og stjórnarandstaða eru farin að vinna saman. Hver átti von á því, ekki ég. En ég er ekki par hrifinn af ástæðu þess að þessir hópar hafa dregið sig saman, en ástæðan er gífurleg hræðsla þessara hópa við almenning. Þessi samvinna er engöngu tilkomin vegna verka Ólafs Ragnars, en fjórflokkunum gömlu hryllir við þá tilhugsun að almenningur í landinu fái eitthvað að segja um vinnu þessa fólks, eða hafa nokkuð með framtíð sína að gera. Það nefnilega dregur úr völdum þessara einstaklinga og það virðist vera eini tilgangur þeirra með þessu starfsvali.
Fínt að þetta fólk sé farið að vinna saman, en það á að vera vegna vilja þeirra til að vinna fyrir almenning, ekki gegn honum.
Skýri hina hliðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.1.2010 | 18:29
Enn um orðsporið
Eins og ég hef minnst á í tengslum við þennan atburð þá eru viðbrögð okkar eitthvað sem styrkja orðspor okkar mun frekar en undirgefni við ESB.
Íslendingar hafa engan ástæðu til neins annars en að vera stoltir af því sem við erum og hvernig við bregðumst við þegar félagar okkar á þessum hnetti lenda í vandræðum og þurfa hjálp okkar.
Bendi á þessa frétt sem mér var bent á, en hún segir ýmislegt.
http://www.msnbc.msn.com/id/26315908/vp/34854161#34854161 bendi þá sérstaklega á síðustu 30 sekúndurnar eða svo.
Fleirum bjargað úr húsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.1.2010 | 15:07
Sameiginleg utanríkisstefna
Margir hafa velt því fyrir sér hvers vegna norrænu "vinaþjóðir" okkar styðji ekki betur við bakið á okkur. Ég held að þarna sé að koma fram nýja ESB, en eftir áramót gengust aðildaríkin undir sameiginlega utanríkisstefnu.
Það er kannski ekki undarlegt að Danmörk, Svíþjóð og Finnland standa fast með Bretum og Hollendingum, en Norðmenn og Færeyjingar hafa lýst mun sterkari stuðningi við okkur. Fyrri hópurinn er innan ESB og heyrir undir sameiginlega untanríkisstefnu sambandsins, á meðan síðari tvö löndin gera það ekki.
Þetta vekur hjá manni spurninguna um raunverulegt sjálfstæði ESB landanna.
Reinfeldt: Ákvörðun AGS forsenda fyrir láni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.1.2010 | 22:31
Orðspor
Fátæka Ísland fyrst til Haítí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.1.2010 | 08:53
Réttur almennings
Það er skilyrðislaus réttur almennings að fá að kjósa um þetta frumvarp. Þegar forsetinn hafnaði að skrifa undir, þá sagði hann ástæðuna vera þá að hann vildi vísa þessu máli til þjóðarinnar. Hann sagði ekki að hann væri ósáttur og vildi nýtt frumvarp.
Þeir sem hafa gagnrýnt þetta "gerræðisvald" forseta hafa bent á að það sé óeðlilegt að einn maður geti stoppað frumvarp sem Alþingi hefur samþykkt. En hvað ef við höfum hins vegar fengið til valda einstaklinga sem svíka almenning og vinna í anda fasískra og kommúnískra einræðisstjórna þar sem hagur almennings er látinn liggja í láginni til hagsbóta fyrir "vini" stjórnarinnar eða þeirra sem í henni eru. Þingræðið okkar hefur breyst og er nú mun fremur ráðhærraræði en þingræði. Vegna þess að ríkisstjórn hefur alltaf meirihluta á þingi, þá er nauðsynlegra en áður að til staðar sé öryggisventill sem getur brugðist við, enda þingið í þessu umhverfi nánast valdalaust. Það er ekki eins og forsetin segi bara stopp og ekkert meir. Hann er að vísa frumvarpinu til fólksins, þeirra sem eiga að hafa valdið. Hann er ekki að taka sér einræðisvald, hann er að gefa almenningi kost á að hafa eitthvað með framtíð sína að gera.
Hins vegar er kostulegt að horfa upp á viðbrögðin við höfnuninni. Bæði sjálfstæðis og framsóknarmenn fóru að tala um það að ekki væri nauðsynlegt að kjósa, þingið þyrfti bara að komast að samkomulagi um nýtt frumvarp eða jafnvel semja upp á nýtt. Allt í einu voru næstum allir þingmenn sammála, ekki láta fólkið hafa sitt að segja.
Mín tilfinning er sú að sjálfstæðismenn og framsókn hafi ekki reiknað með öðru en að forsetinn myndi samþykkja þetta frumvarp, enda hverjar voru líkurnar á að hann gerði það ekki? "Komma forseti og komma stjórn", hann hlaut að samþykkja þetta. Þess vegna var stjórnarandstaðan svona "hörð" í að biðla til forsetans, hún átti ekki von á því að hlustað yrði. Það er nefnilega þannig að ráðandi öfl vilja ekki setja fordæmið, þjóðaratkvæðagreiðslur veikja vald þingmanna.
Nú er allt í einu farið að vinna saman, bara til að við almenningur fáum ekki að segja okkar skoðun. Allt í einu hefur opnast "gluggi" sem hins vegar mun lokast fljótt ef við bregðumst ekki við, eða það segir Össur, maðurinn sem leggur alla áherslu á að koma okkur í ESB sama hvað okkur finnst um þá hugmynd.
Ég hef bara eitt að segja um þetta allt saman. Það er skilyrðislaus réttur almennings að fá að kjósa um þetta frumvarp. Ef flokkarnir á þingi ætla að meina þjóðinni um það, þá má búast við að allt verði vitlaust, fólkið er að fá nóg og ráðamenn ættu að hafa það í huga næst þegar þeir velta fyrir sér hvernig þeir geti komist hjá því að gera það sem þeim ber að gera, gæta hagsmuna almennings.
Torsótt sátt um Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.1.2010 | 09:01
Svona snýr þetta að mér
Það virðist sem svo að:
Mér sé straffað fyrir eitthvað sem ég gerði ekki,
með því að heimta að ég borgi eitthvað sem óvíst er að ég þurfi að borga,
á kjörum sem ég get ekki staðið undir.
Er ekki kominn tími til að við stöndum upp og neitum að láta níðast á okkur trekk í trekk.
Fjármögnun sett í uppnám | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.1.2010 | 15:46
Afhverju
Ég mun kjósa gegn lagasetningunni, verði okkur boðið að kjósa um hana. Afhverju? Jú, það er einfaldlega þannig að við eigum að standa við skuldbindingar okkar, en það munum við aldrei geta samþykkjum við þessi lög, byggð á þessum samningi. Það getur ekki verið Bretum og Hollendingum í hag að þvinga okkur til að greiða þannig að við lifum það ekki af, þ.e.a.s. ef markmið þeirra er að fá peninginn aftur. Hafi kröfur þeirra annan tilgang, þá getur vel verið að það henti þeim að eyðileggja lífsmöguleikana hér.
Hvort við eigum að borga eða ekki, er svo önnur spurning sem vert er að hafa í huga. Vissulega eigum við að standa við skuldbindingar okkar, en við eigum ekki að greiða eitthvað sem okkur ber ekki að greiða. Það er vafi á því hvað og jafnvel hvort við eigum yfir höfuð að borga. Þeir einu sem ekki sjá neinn vafa eru Samfylkingar og ESB sinnar sem vilja bara borga sig inn í sambandsríkið.
Auðvitað vitum við ekki hvað bíður okkur ef við samþykkjum ekki lögin og óttinn varðandi það kannski skiljanlegur. Hins vegar vitum við hvað gerist ef við samþykkjum pakkann. Það verður ekki búandi á landinu. Þetta er ekki hræðsluáróður, heldur birting þess sem framundan er.
Þegar við kjósum verðum við að velta því fyrir okkur hvort við séum tilbúin að samþykkja eitthvað sem við getum ekki staðið við, því þá fyrst er hægt að ásaka okkur um að standa ekki við skuldbindingar okkar.
Íslandi ber ekki að borga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.12.2009 | 08:29
Gamall vani í nýjum fötum
Það eina sem virðist alveg ljóst í þessu Icesave máli, er að ekkert virðist á hreinu. Ég persónulega tel okkur eiga að borga það sem okkur ber að borga, hins vegar eigum við ekki að borga það sem okkur ber ekki að borga, jafnvel þó Bretar og Hollendingar segi okkur annað. Ég tel líka að við komum aldrei til með að geta staðið undir greiðslunum verði frumvarpið samþykkt. Þá spyr maður sig, hvað munu Bretarnir og Hollendingarnir vilja fá upp í greiðslur.
Þetta er svo sem ekki fyrsta skiptið sem nýlenduþjóðir hafa reynt að traktera litlar eyjar og varnalausar, þetta er bara gamall vani í nýjum fötum. Bendi ég á frásögn Tolstoy því til samanburðar, en það er holl lesning okkur Íslendingum að sjá hvernig Fidji búar voru trakteraði af "æðri" þjóðum fyrir um 150 árum. Hef svo sem bent á þetta áður, en tel ekki vanþörð á að benda á þetta aftur.
Það er kominn tími til að ráðamenn fari að hugsa um hag Íslendinga og hætti að ganga erinda fjármálastofnanna. Það er í raun alveg ótrúlegt hvernig farið hefur verið með fjármuni sem framleiddir hafa verið til að "bjarga" ástandinu. Það hefur verið kastað til hundruðum milljarða inn í fjármálakerfið í þeim tilgangi að bjarga því svo það geti "bjargað" almenningi. Málið er hins vegar þannig að fjármálakerfið "bjargar" engum. Það eina sem fjármálakerfið gerir er að lána pening og ef vandi almennings er fólginn í yfir skuldsetningu, þá mun aukin skuldsetning ekki bjarga neinum.
Vil kasta fram smá vangaveltum, en hvernig hefði verið ef ríkið hefði, í stað þess að fóðra fjármálakerfið beint, notað þessa peninga til að fóðra almenning. Svona til að skýra þetta nánar. Segjum að ríkið hefði búið til pening, 319.000.000.000 og sent hverjum einstaklingi eina milljón króna. Hvað hefði einstaklingurinn gert?
Mjög skuldsettir einstaklingar hefðu borgað skuldir - peningarnir farið í bankakerfið.
Meðal settur einstaklingur hefði notað peninginn til að kaupa vörur og þjónustu sem hann þarfnast, en hefur dregið vegna fjárskorts - Fyrirtæki, atvinnulífið hefði fengið peninginn og getað ráðið fólk, eða bara hætt við að reka það. Peningarnir hefðu svo ratað inn í bankakerfið í kjölfarið þegar fyrirtækin og einstaklingarnir borga skuldirnar sínar.
Vel stæður einstaklingur - Hann hefði lagt peninginn inn í banka eða fjárfest í atvinnulífinu. Í öllu falli hefði fjármagnið farið inn í bankana.
Ef ríkið hefði látið einstaklingana fá fjármagnið, þá hefði það ratað inn í fjármálakerfið af sjálfu sér, en í leiðinni bjargað almenningi (fjögurra manna fjölskylda hefði t.d. fengið fjórar milljónir). En í staðinn er fjármagnið sett beint inn í bankana sem ekkert gera fyrir almenning, en eru þess í stað farnir að velta því fyrir sér hversu mikinn arð eigi að greiða.
Þetta eru vangaveltur sem vert er að hugsa um, sama hvaða skoðun menn svo sem hafa á þeim. það er að mínu viti þannig að einföldu lausnirnar virka oft best, en þær flóknu leiða okkur bara í enn meiri flækju.
Mér er svo sem nokk sama hver lagar þetta ástand sem nú ríkir, ég geri eiginlega bara eina kröfu. Að það verði farið að vinna að hag fólksins.
Lagalegur vafi og ágreiningur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.12.2009 | 08:32
Að sökkva eða stökkva
Það eru margir óvissuþættirnir varðandi Icesave, alveg sama hvað ESB sinnar og pressulið Breta og Hollendinga halda fram. Það sem er þó á hreinu, er að við erum ekki í stakk búin til að standa undir þeim skuldbindingum sem Icesave hefur í för með sér. Það er einnig út í hött að halda það að við getum byggt eitthvað upp eftir Icesave. Allar tekjur landsins munu fara í að greiða þessa skuldbindingu og þá skiptir ekki máli þó að landsstjóri IMF/AGS segi okkur geta staðið undir þessu, þó önnur ríki gætu það ekki.
En spuringin er hvort það sé til líf eftir að hafa hafnað Icesave?
Í mínum huga er það ekki spurningin, við þurfum ekki að samþykkja þetta. Við búum við ástand sem er tilkomið vegna fjármagnskerfis sem hannað er til að hirða eigur almennings með reglulegu millibili. Það er hannað til þess að koma verðmætum samfélagsins á sífellt færri hendur. Lausnin liggur í því að breyta um kerfi. Sumum þykir það kannski allt of róttækt og ekki rétti tíminn til þess, en er ekki tíminn akkúrat núna.
Við erum búin að eyða allt of löngum tíma í að vinna að því að endurvekja ónýtt kerfi. Við eigum að losa okkur undan þessum sjálfhverfa hugsunarhætti sem hefur dregið okkur allt of langt frá þeim gildum sem við eigum að láta okkur annt um. Við eigum að hætta að hugsa um það hvernig við getum sogað út úr samfélaginu og frá nágrannananum allt sem við getum og líta til þess hvernig við getum gefið af okkur samfélaginu til góða. Við eigum að byggja upp samfélag sem byggir á virðingu fyrir náunganum, trúnni á okkur sjálf og vissunni til þess að við getum byggt hér upp samfélag sem gott er að búa í. Ég er fullviss um að við getum það. Við eigum að horfa til þess sem byggir upp þetta samfélag, en ekki þess sem brýtur það niður. Lausnin er til staðar og ég hef bent á hana ítrekað núna til nokkurra mánaða og hægt er að sjá hana setta fram á www.umbot.org/ .
Við eigum ekki að láta undan þrýstingi útlendinga sem ekki hugsa um neitt annað en skinnið á eigin afturenda. Ég er ekki að sjá að Bretar og Hollendingar hefðu hoppað til aðstoðar okkur ef við hefðum lent í vandræðum með inneignir hjá IMG eða öðrum netbanka evrópskum. Það mun ekki allt frjósa yfir þó við höfnum Icesave, nema við viljum það sjálf og högum verki okkar þannig að ekkert komi til nema vesöld og aumingjaskapur. Við höfum lent í erfileikum vegna þessa efnahagsástand sem til komið er vegna brenglaðs fjármálakerfis, en ekki vegna þess að við Íslendingar gerðum eitthvað rangt. Við berum ekki ábyrgð á bulli sem búið er að viðgangast á alþjóðavísu til hundruða ára.
Ég mæli með því að við hættum þessu bulli og fylgispekt við gjaldþrota kerfi og tökum höndum saman um að byggja upp samfélag sem byggir á virðingu fyrir einstaklingnum og rétti hans til að skapa sér mannsæmandi líf. Rísum upp og höfnum því fjármálakerfi sem heggur nú að hag heimilanna, ekki bara á Íslandi, heldur út um allan heim. Rísum upp og sýnum heiminum að það sé til val, val sem leiðir til gæfu en ekki glötunnar.
Útiloka ekki að Icesave verði hafnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.12.2009 | 13:47
Áhugaverð pæling
Þetta er mjög áhugaverð pæling. Einnig veltir maður fyrir sér hvernig verður með okkur. Þegar bent hefur verið á ástandið hjá sumum ESB ríkjunum, þá er því kastað fram að ástandið hér sé mun verra og það batni ekki nema með upptöku euro. Hvernig verður þetta þá hjá okkur, munum við geta tekið hana upp þegar reka á núverandi notendur í burtu. Eða verðum við að vera búin að laga efnahagsmálin hjá okkur áður en við getum tekið upp euro, til að hjálpa okkur við að laga efnahagsástandið. Ég veit að þetta hljómar sem hringavitleysa, en það er nú bara vegna þess að þetta er hringavitleysa. Og þá spyr maður sig hvers vegna taka upp euro?
Það yrði hins vegar dauðadómur yfir euro hugmyndafræðinni að reka þessi lönd út, enda væri það dæmi um að þetta gengi ekki. Það sem mér þætti líklegri niðurstaða, er að ESB tæki yfir stóran hluta efnahagsstjórnunar þessara landa, þetta litla sem eftir er. Það væri líka í stíl við Lissabon sáttmálann sem Írar voru þvingaðir til að samþykkja fyrir stuttu. Að reka þessi lönd úr euro samstarfinu væri nefnilega allt of stórt skref til baka í þessu sambandsríkjahönnunarferli sem búið er að leggja svo mikla vinnu í.
Næstu mánuðir verða áhugaverðir að fylgjast með. Ég er nefnilega hræddur um að fréttirnar úr evrópska sælubandalaginu komi til með að dökkna nokkuð eftir áramótin.
Írar og Grikkir gætu misst evruna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.12.2009 | 23:40
Með von um endurmat
Einn fyrirvarinn sem settur var við Icesave hið fyrra, var að greiðslur yrðu aldrei það íþyngjandi að við gætum ekki staðið undir þeim. Nú er sá fyrirvari á brott, en í staðinn kemur ákvæði, að ef allt fer til and... þá munum við geta tekið málið aftur upp. Ég hef áður sagt það og endurtek nú, afhverju ættu Bretar og Hollendingar að breyta samningi sem þeir mala gull á.
Því hefur verið kastað fram að við þurfum ekki að hafa áhyggjur, þetta sé bara plat allt saman. Hið rétta sé að ESB löggjöfin sé svo götótt að ef ekki yrði "pressað á greiðslu" myndi bankakerfi ESB hrynja. Þessi samningur verði settur inn og svo bara beðið í sjö ár og þá verði þessu bara eytt, enda við þá orðin fullgild í ESB og allir rosalegir vinir. Þetta sé bara gert til að gefa sambandsríkinu tækifæri á að laga ónýtu lögin sín. Þetta er náttúrulega rosa flott plott og bara frábært að stökkva á Icesave vegna þessa. Hins vegar er nokkuð sem vert er að hafa í huga.
Mér var bent á þessa grein á vald.org, en þar er fjallað um stríðsskaðabætur Þjóðverja 1919. Þar segir um bæturnar (upphaflega mun þetta hafa birtst í Bild)
Þegar Versalasamningurinn var samþykktur 1919, þá gengust Þjóðverjar við að bera ábyrgð á styrjöldinni og samþykktu að greiða 226 billjónir Reichsmarka, upphæð sem var árið 1921 lækkuð í 132 billjónir Reicsmarka. Fram að árinu 1952 hafði Þýskaland greitt 1.5 billjón Reichsmarka, en árið 1953 var veittur greiðslufrestur þangað til þýsku ríkin yrðu sameinuð á ný.
þann 3. október 1990 hófust greiðslur á ný með greiðslum til 20 ára. Þýskaland gerir ráð fyrir að greiða stríðsskaðabætur vegna heimstyrjaldarinnar fyrri þann 3. október 2010.
Viðhorfið er einfaldlega þetta. Þú tekur á þig ábyrgð, hvort sem þú hefur gert eitthvað rangt eða ekki, og verður bara að borga það sem þú samþykkir. Ef Þjóðverjum var ekki gefinn nein grið með greiðslur, afhverju ættum við þá að fá einhverja sér meðferð eftir sjö ár, Þjóðverjar hafa verið gott lengur en það í þessu bandalagi.
Málið er ósköp einfallt. Við eigum ekki að samþykkja þetta nema við ætlum okkur að borga. Þú samþykkir ekki svona greiðslur í þeirri von um að þurfa ekki að borga síðar. Það gengur bara ekki upp. Innganga í ESB mun ekki heldur bæta stöðuna neitt, festir okkur bara frekar í netinu.
Við þurfum breytingar og við þurfum þær á nýjum forsendum. Kerfið hefur enn á ný sýnt sitt rétta eðli og ef við viljum ekki standa aftur í þessum sömu sporum eftir einhver 20 ár eða svo, þá verðum við að koma með nýjar lausnir sem ekki byggja á gamla kerfinu.
Það er kominn tími til breytinga. Við getum ekki ætlast til þess að verkið verði unnið fyrir okkur, við verðum að vinna það sjálf. Við verðum að hætta að tala okkur niður og byrja að byggja með okkur trúna á að við getum þetta sjálf og munum standa okkur í því. Ég veit að mörgum þykir þetta bjartsýnishjal, en við getum þetta. Ef við skoðum hvað við gátum áorkað á aðeins 100 árum, þá verður framhaldið ekki mikið mál. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá höfum við það betra nú en þá og við höfum alla möguleika á að halda góðum lífsgæðum.
Lausnin er sára einföld og hef ég verið að benda á hana í marga mánuði núna. Ég hvet þá sem vilja raunverulegar breytingar til að líta á vefinn www.umbot.org þar sem lesa má ýmsilegt um það hvað er að gerast og hvað við eigum að gera til að koma okkur út úr þessu bulli.
Það er komið nóg af volæði. Það er kominn tími til að framkvæma.
27.11.2009 | 11:19
Frábær smjörklípa
Maður getur ekki annað en dáðst að þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar að afnema sjómannaafsláttinn. Það tók ekki langan tíma fyrir viðbrögðin að koma fram og nú má búast við því að umræðan í þjóðfélaginu fari á hliðina vegna þessarar ákvörðunar, eins og alltaf þegar hún hefur komið upp. Í kjölfarið mun svo auðlindaskatturinn smjúga í gegn án þess að fá neina sérstaka umfjöllun.
Davíð Oddsson á nafnið smjörklípa, en hann er ekki höfundur aðferðarinnar, eða með einkarétt á því að framkvæma hana. Núverandi ríkisstjórn hefur verið mjög virk í að beita þessri aðferð og þetta mál núna gott dæmi um það.
Alveg óháð því hvaða afstöðu fólk hefur til sjómannaafsláttarins, þá er þetta mál sem hefur alltaf verið mjög viðkvæmt í samfélaginu. Ég yrði ekki hissa þó að fallið yrði frá þessari ákvörðun eftir einhverja daga eða vikur, en aðrar skattabreytingar látnar halda sér.
Ég legg til að við látum ekki villa okkur sín og draga athyglina frá því sem skiptir ekki síður máli, auðlindaskattinum. Þessi skattlagning kemur til með að fara öll út í þjóðfélagið og verður enn einn bagginn sem almenningur þarf að bera. Fyrirtækin koma ekki til með að bera hann. Þessu til viðbótar mun svo vísitalan taka annað flug og við vitum hvað það þýðir.
Við þurfum að taka upp nýtt fjármálakerfi og við verðum að standa að því saman. Ég mæli til þess að fólk lesi www.umbot.org og kynni sér þær hugmyndir sem þar eru settar fram, en þær byggja á því að finna varanlega lausn, ekki einhverja þynnku reddingu.
Afþakka boð ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.11.2009 | 08:45
Ekki neitt sem á að koma á óvart
Það ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart að gert sé ráð fyrir því að þetta ástand komi til með að versna úti í hinum stóra heimi. Allar aðgerðir sem farið hefur verið í vegna ástandsins hafa bara gert illt verra. Við verðum að hætta að láta draga okkur á asnaeyrunum og fylgja í blindni skammsýnum stjórnmálamönnum sem virðast ekki hafa hugmynd um hvernig á að leysa þessi mál.
Það eru til lausnir, en þær eru ekki þóknalegar hagsmunaaðilunum og því er þeim haldið frá ráðamönnum í formi "ráðgjafar" sem leiða í allt aðra átt, það er til hagsbóta fyrir sérhagsmunaaðila.
Þeir sem búnir eru að fá nóg af ríkjandi ástandi og vilja sjá lausnir sem byggja ekki á því að við skuldsetjum okkur upp í skorstein og látum svo hirða allt af okkur, ættu að skoða vefinn www.umbot.org. Þeir sem hins vegar eru sáttir við að láta ljúga sig fulla, geta að sjálfsögðu sleppt því.
Alheimshrun yfirvofandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |