Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.9.2009 | 11:02
Hvernig gerast góðir hlutir?
Hvernig gerast góðir hlutir? Gerast þeir með því að stofna nefndir sem ræða um allt og ekki neitt, eða gerast þeir við það að fólk rísi upp og vinnur þau verk sem þarf að vinna.
Ekki misskilja mig. Ég er rosa glaður fyrir hönd Dags að hann skuli vera kominn með vinnu til 2020 og veit að hann verður búinn að redda einhverju öðru þegar sá tími er liðinn. En samt.
Við stöndum frammi fyrir miklu verki. Þetta er ekki óvinnandi verk, en það vinnur sig ekki sjálft, sama hvað ríkisstjórnin reynir að fullvissa sjálfa sig um það. Við verðum aldrei "samkeppnishæf" ef við vinnum ekki í því að byggja hér upp samfélag þar sem einstaklingarnir lifa við hagsæld. Núverandi ríkisstjórn virðist ekki vera að ná þessu. Hvort ástæðan sé sú að hún hafi bara verið plötuð til að trúa þessu, veit ég ekki, en hún er ekki að gera neitt sem vinnur að hag samfélagsins.
Steingrímur Joð hefur sagt að ástandið hér sé líkt og ef um hefði verið að ræða náttúruhamfarir, í líkingu við jarðskjálfta eða eldgos. Svona til að það sé á hreinu, þá er það ekki svo. Í náttúruhamförum verður eigna og verðmætatjóna. Hér hefur ekki orðið neitt slíkt. Öll verðmæti eru óskemmd, þ.e. raunveruleg verðmæti. Við höfum vissulega orðið fyrir fjárhagstjóni, en það er eitthvað sem lítið mál er að laga. Nú kvá líklegast margir við og segja þetta vera helbert bull. Fjárhagslegt "tjón" sé mikið og við lögum það ekki bara sí sona. Ég vil hins vegar halda öðrum fram.
Peningar eru í eðli sínu verðlausir. Ég hef sagt þetta áður og mun halda því áfram. Þeir eru verðlausir. Þeir eru hins vegar ávísun á verðmæti sem samfélagið skapar og hafa í raun aðeins það eina verk að auðvelda skipti á þeim verðmætum. Ef við rífum peningaseðil, hvort sem það væri einnar krónu seðill eða milljónaseðill, þá hefur ekkert tjón orðið. Hin undirliggjandi verðmæti eru enn til staðar. Auðvitað get ég ekki fengið verðmæti í staðinn, en þetta eru samt bara pappírssnepplar. Svo lengi sem við höldum annað, þá mun okkur ekki takast að laga ástandið hér á landi.
Þar sem peningar hafa aðeins það eina hlutverk að auðvelda skipti á verðmætum, þá verða þeir að vera á hreyfingu. Að ríkið skuli dæla þeim í banka, sem svo liggja á þeim er út í hött. Það þarf að koma fjármagninu til fólksins, stoðarinnar í samfélaginu. Fólkið sér nefnilega um að halda peningunum á hreyfingu og þar með virkni hagkerfisins. En hvernig á að koma þessum pening til fólksins?
Vandi okkar í dag liggur í því að við tókum of mikið af erlendum lánum. Því liggur lausnin ekki í að taka meiri erlend lán. Við þurfum að hætta að taka lán. Það er aðeins eitt vandamál við þessa hugsun, þegar við horfum á núverandi kerfi. Núverandi kerfi lifir á lántökum og sparnaður drepur það. Þess vegna þurfum við að breyta um kerfi. Það að núverandi kerfi skuli vera í slíku lamasessi sem það er, einfaldar mjög þessa ákvörðun.
Það eina sem hafa verður í huga þegar litið er til fjármagns, er að jafnvægi sé á milli fjármagns og þeirra verðmæta sem eru í samfélaginu. Of mikið fjármagn leiðir til þennslu og of lítið til samdráttar. Það sem ríkið á að gera er að halda utan um þau verðmæti sem eru í samfélaginu og það fjármagn sem er til staðar og sjá til þess að bæta reglulega við því fjármagni sem upp á vantar. Þetta fjármagn á að fara út í hagkerfið á þann hátt að ríkið tekur helminginn til að fjármagna samneysluna og hinn hlutinn skiptist jafnt á alla þegna samfélagsins. Þeir fá einu sinni á ári, upphæð greidda inn á bankareikning. Þetta gæti verið smávægileg upphæð eða há, allt eftir hversu mikil verðmæta aukning er í samfélaginu. Ég geri mér vonir um að þetta gæti verið milljón á haus, eða fjórar milljónir á fjögurra manna fjölskyldu.
Dreifing sem þessi gerði það að verkum að fólk fengi nýtt fjármagn, fjármagn sem verður að koma út í samfélagið, í formi eignar en ekki skuldar.
Ef við tökum upp þetta nýja fyrirkomulag, þá mun hagsæld aukast og "samkeppnishæfni" landsins batna. Svo er aftur á móti spurning af hverju við eigum að hoppa í einhvern sandkassa og fara í keppni við önnur lönd. Er ekki markmiðið að hafa það gott á okkar eigin forsendum?
![]() |
Ísland verði eitt af samkeppnishæfustu ríkjum heims |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.9.2009 kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2009 | 09:46
Tími kominn til að fara vinna
Lausnin fyrir heimilin og þar með samfélagið í heild, er ekki flókin. Það þarf hins vegar hugrekki til þess að framkvæma hana. Eftirfarandi er að finna á vef Umbótahreyfingarinnar - Nýs samfélags, sem var stofnuð 11. september sl. En hún hefur það markmið að koma á bættu samfélagi hér á landi, þar sem einstaklingurinn er í fyrirrúmi.
Eftirfarndi þarf að gera og það strax:
1. Vísitala lána verði að minnsta kosti færð aftur til þess hún var í febrúar/mars 2008. Hin gífurlega aukning sem hefur orðið á vísitölunni hefur gert það að verkum að lán almennings hafa hækkað slíkt að margir eru á mörkunum með að standa undir þeim. Einnig hefur óábirg hegðun ríkisstjórnarinnar, með hækkunum á gjöldum og tollum, leitt til þess að vísitalan hefur hækkað verulega, án þess að séð verði að ríkið auki tekjur sínar að ráði. Hækkunin sem orðið hefur er bókhaldslegs eðlis og allar leiðréttingar á henni væru það að sama skapi líka. Það er því ekki um að ræða raunverulegar tilfærslur á fjármunum og því væri aðgerð sem þessi algerlega kostnaðarlaus fyrir samfélagið. Aðgerð sem þessa tekur aðeins brot úr degi að framkvæma, en hún getur skipt sköpum fyrir almenning í landinu.
2. Allar afskriftir á skuldum einstaklinga milli nýju og gömlu bankanna skulu færast beint til skuldara. Einnig skulu allar afskriftir sem bankar og aðrar lánastofnanir hafa fengið hjá erlendum lánadrottnum, yfirfærast á þá einstaklinga sem skulda umræddum fyrirtækjum í sambærilegri mynt.
3. Hætt verður við að byggja upp þrjá stóra banka og áhersla lögð á að til staðar sé meðalstór banki sem þjónað geti hagsmunum Íslendinga. Vinnan og fjármagnið sem nota átti í þessa banka verði í staðin nýtt til hagsbóta fyrir almenning í formi bættari þjónustu.
4. Hætt verður við erlendar lántökur sem hugsaðar eru til að "styrkja" krónuna. Peningar sem teknir eru að láni og geymdir inn á bankareikningum sem bera lægri vexti en kostnaðurinn við lántökuna, skilar aldrei neinni eignaraukningu og styrkingu fyrir krónuna. Þegar svo þetta er notað til mótvægis við áhættufjárfesta á opnum markaði með gjaldeyri, þá hefur þetta enn minni styrkingu í för með sér. Engin ný lán hafa komið til síðan í febrúar 2009, en sá tími sem liðinn er síðan, ætti að sýna öllum að þörfin er ekki slík fyrir þessi lán. Lán skal aldrei taka, nema þá í þeim tilgangi að fjármagna arðbærar framkvæmdir sem skila meiri tekjum en kostnaðurinn við lántökuna. Krónan verði strax tekin af markaði þar sem vera hennar þar er aðeins til hagsbóta fyrir erlenda áhættufjárfesta.
5. Vextir seðlabankans verði lækkaðir niður í 2%. Vextir eru mannleg hugmyndafræði og því í mannlegu valdi að breyta þeim. Allar helstu lánastofnanir eru núna ríkisreknar og því einfallt mál að hafa stjórn á útflæði lána. Auk þess er hæpið að einstaklingar sæki í auknar lántökur næstu vikur eða mánuði. Lækkun vaxta mun aðeins hafa í för með sér hagsbót fyrir almenning.
Þetta er ekki erfit og alls ekki "utan mannlegs máttar að framkvæma". Þetta ástand er mannanna verk og því minnsta mál að lagfæra með mannanna verkum.
Við eigum að gera kröfu til þess að ríkistjórnin fari að sinna hagsmunum fólksins í landinu, ella segja af sér.
![]() |
Holskefla uppboða verði frestur ekki framlengdur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.9.2009 | 18:02
Framtíðarsýn
Það er í einhverri kaldhæðni tungumálsins, að það skuli vera sama orð fyrir þrælabindingu skuldarans og góðrar lukku. Það liggur í því að lán er ekki endilega lán, heldur ólán.
Íslensk framtíð liggur ekki í lánum, heldur liggur hún í verðmætasköpun samfélagsins. Þar liggur lánið, svo að segja. Þjóðin stendur á krossgötum og það þarf að taka ákvörðun um það hvert á að stefna. Stærsti vandinn við þetta er sú staðreynd að ríkistjórnina og reyndar alla á þingi, skortir sýn á það hvert skal stefna. Það er þó annað sem vantar og skiptir meiru um það, en það er hugrekkið til að taka ákvörðun um það hvert skal stefnt. Það skortir sýn og hugrekki.
Það sem Íslendinga vantar er einstaklingur sem stendur upp og segir, hingað eigum við að fara og leggja svo af stað. Í rauninni er þetta ekki flókið, það þarf bara hugrekkið til þess og það er það grátlega við þetta allt saman, við stöndum uppi með huglausa ráðamenn. Þeir standa eins og sauðir án forystu og líta til slátrarans um leiðbeiningar. Þetta ástand minnir mig óþægilega á réttir, þegar smalað er inn í almenning, en sú ferð endar bara á einum stað.
Rollurnar eiga lítið val þar sem þær eru innigirtar og ekki með mikla rökhugsun. Við eigum hins vegar að heita verur með rökhugsun og því ber okkur að standa upp og mótmæla smöluninni. Við eigum að vita hvaða afleiðingar fylgja því að rollast inn í almenning.
Ég sé fyrir mér Ísland sem býr við hagsæld. Hagsæld sem ekki leiðir af sér skuldsetningu eins og núverandi kerfi og það kerfi sem "vinir" okkar vilja festa okkur í. Heldur hagsæld sem leiðir af sér aukna eign með aukinni hagsæld.
Lausnin er til staðar. Við eigum að standa upp og framkvæma það sem þarf. Við höfum hugrekkið, við þurfum bara að fara að nota það.
![]() |
Neikvæðar horfur Íbúðalánasjóðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2009 | 23:41
Er það lán að fá lán?
Ég hef verið að velta fyrir mér þessu lánaæði sem runnið er á ríkistjórnina, nokkuð sem hún fékk í arf frá þeirri síðustu enda kannski ekki skrítið þar sem helmingur þeirrar gömlu, er hluti þeirrar nýju.
Menn hafa verið að kveinka sér vegna lánaleysis, enda ekki fengist lán síðan IMF "sveik" okkur um febrúar lánið. Ég velti því hins vegar fyrir mér hversu mikið við þurfum þetta lán, þegar við erum enn lifandi núna, án þess að hafa fengið nein lán.
Þessi lántaka sem allir tala um að við þurfum, er að því mér skilst til þess ætluð að styrkja krónuna. Nú styrkist krónan aðeins með eignarmyndun og lán getur aldrei leitt til eignarmyndunar, nema fjármagnið sem fengið er að láni gefi af sér hærri arð en kostnaðurinn við lánið hljómar uppá. Við höfum hingað til haft lánin okkar á bankareikningi sem gefur minni vexti en kostnaðurinn við lánið er og því ekki um að ræða neina eignaraukningu þar, heldur þvert á móti erum við að tapa pening á þessu. Það hefur í raun verið lán að fá ekki þessi lán.
Svo hefur maður heyrt að það sé búið að eyða 100 milljörðum í að "verja" krónuna og þá spyr maður sig, hvers konar bull er þetta. Það er í raun alveg ótrúlegt að krónan skuli vera á einhverjum braskmarkaði. Af hverju er verið að nota allan þennan pening til að "verja" krónuna? Það einfaldasta í stöðunni er að taka krónuna af markaði og seðlabankinn ákveði sjálfur hvað gengið á að vera. Þá þarf ekki að eyða lánunum í "varnir" sem ekkert hafa haft að segja hingað til.
Krónan er komin í 182 euro og ekki verið hærri. Við áttum að sjá gengið á euro falla bara við það eitt að sækja um inngöngu í ESB, hvað þá við allar lántökurnar. Þetta hefur sýnt sig vera hreinasta bull frá A - Ö og ekki sjáanlegt að nokkuð annað sem kemur frá þessari ríkisstjórn sé mikið betra. Svo er nú Icesave að ganga aftur og allt í kringum það bullið farið að stökkbreytast til meiri fáránleika. Þegar Steingrímur Joð segir ekki ástæðu til að kalla saman þingið til að ganga frá Icesave, þá læðist að manni sá grunur að samþykkja eigi bullið með bráðabirgðalögum, en vonandi er þetta bara paranoja.
Við höfum, og reyndar allur heimurinn, búið við fjármagnskerfi sem leiðir aðeins til örbirgðar almennings til hagsbóta fyrir fáa útvalda. Það er ekkert val í stöðunni. Við verðum að breyta um kerfi, annars erum við að horfa upp á sambærilegt ástand eftir einhver 10 - 20 ár. Almenningur verður að átta sig á því að núverandi valdhafar og stjórnarandstaðan í raun líka, eru ekki að átta sig á þessari staðreynd.
Það eru ekki flóknar lausnir á vandamálum flestra fjölskyldna, það þarf hins vegar hugrekki til þess að framkvæma þær. Þetta hugrekki virðist ekki til staðar hjá ráðamönnum í dag og allt bendir til þess að þeir muni ekki leita þess heldur. Almenningur verður að rísa upp og láta í sér heyra, nú er komið nóg. Við getum ekki beðið lengur, ráðamenn verða að átta sig á því að þeir eiga að gæta hagsmuna almennings, ekki útlendra áhættufjárfesta. Ísland án Íslendinga er eyðiland.
![]() |
Rússalán innan seilingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.9.2009 | 10:30
Synt á móti strauminum
Það er ótrúlegt hvernig ríkistjórnin hefur gert allt vitlaust undanfarið. Það er dælt fjármagni í bankana svo þeir geti "hjálpað" almenningi og fyrirtækjum. Menn virðast hins vegar ekki átta sig á því að bankarnir geta ekki "hjálpað" neinum ef vandinn er yfirskuldsetning. Það er nefnilega þannig að bankarnir geta ekkert gert nema lánað pening og þegar vandinn er skuldsetning, þá er ekki verið að "hjálpa" neinum. Einu "lausnirnar" sem bankarnir hafa boðið uppá er frestun afborgana og lengin lánstíma. Þetta hjálpar ekki neitt, heldur frestar bara vandanum, en hvað bankan áhrærir, þá er þetta fyrirtaks "lausn" því hún felur í sér að þeir fá allt sitt til baka og meira til þar sem vaxtatekjur aukast með lengri greiðslutíma. Niðurfellingar skulda eru í raun eina leiðin til að hjálpa, en slíkar lausnir hafa stoppað hjá fyrirtækjum.
Það eina sem kemur til með að leysa ástandið í þjóðfélaginu er að sjá til þess að almenningur geti farið að nota launin sín í eitthvað annað en skatta og skuldagreiðslur. Við það fer fjármagnið að streyma til fyrirtækjanna, sem geta stækkað við sig og ráðið fólk. Fjármagnið kemur alltaf til með að enda í bönkunum og þá hafa þeir fengið "innspýtinguna" sem þeir þurfa, en á eðlilegum forsendum.
Það er nefnilega þannig að eðlilegt flæði fjármagnsins er frá einstaklingu til fyrirtækja til banka, en ekki frá banka til fyrirtækja og þaðan til einstaklinga. Svo lengi sem ríkistjórnin skilur þetta ekki, þá mun hún ekki vera neitt annað en hluti af vandanum.
![]() |
Aðgerða þörf fyrir fyrirtæki og heimili |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.9.2009 | 15:58
ríkisábyrgð fyrir áhættufjárfesta
Komi til þess að þetta gangi eftir, þá er ríkisstjórnin búin að láta plata sig í að vera með ríkisábyrgð til handa erlendum áhættufjárfestum. Fyrir utan 72 milljarða skuldabréf á ríkissjóð, sem í sjálfu sér er arfa vitlaust, þá erum við að leggja til handa þessum áhættufjárfestum eignarhald á helstu fyrirtækjum landsins í formi veðsetningar.
Það er ótrúlegt hvað þessi ríkisstjórn keyrir áfram á heimskunni.
![]() |
Kröfuhafar gætu eignast Kaupþing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.9.2009 | 08:30
12 mánuðir max
Það er ekki í mannlegu valdi að laga lánastöðu almennings, einhvern vegin svona hljóðaði fullyrðing félagsmálaráðherra þegar hann var spurður hvort ekki ætti að byrja að hjálpa fólkinu í landinu. Núna er hann hins vegar farinn að tala um að ekki sé hægt að fara í almennar aðgerðir, heldur verði að einbeita sér að sérhæfðum aðgerðum, þ.e. hjálp til vina og vandamanna.
Þessi hugmynd um tekjutenginu afborgana er ákveðin lausn, en hvað með þá sem ekki geta "skaffað" sér laun og eru á töxtum, eða hafa ekki möguleika á að vinna svart. Þeir geta ekki lækkað lánin sín að neinu marki og því er þetta nokkuð sem er spurning hvort gangi almennt. Svo er ég líka hræddur um að þessi leið sé ekki hugsuð til handa almenningi, heldur bönkunum. Því ég geri ráð fyrir að í endan, þá verði þetta þannig að lánstíminn lengist bara með viðeigandi vaxtakostnaði.
Hins vegar hef ég verið að benda á leið sem ég tel miklu betri og hægt að láta ganga til allra á sömu forsendum. Það er reyndar minnst á það í fréttinni að niðurfelling skulda gæti verði skammgóður vermir, en ég velti því fyrir mér, fyrir hvern það væri skammgott. Mig rennur grun í að þarna sé verið að hugsa um hag bankanna.
Það sem á að gera, er að mínu mati eftirfarandi:
Færa lánskjaravísitöluna aftur til þess sem hún var í febrúar mars 2008, en við það lækkar höfuðstóll verðtryggðra lána og greiðslubyrðin lagast til muna. Sú hækkunarhrina sem varð á lánum á þessum tíma sem síðan er liðinn er, kemur fram sem pappírshagnaður bankanna og við lækkun væri því ekki um að ræða neitt raunverulegt tap. Þetta er svona eins og á hlutabréfamarkaði, bréfin hækka og lækka, en það er í raun ekkert raunverulegt tap. maður sem kaupir á 100, svo hækkar í 200 áður en það lækkar aftur í 100, hefur ekki tapað neinu, hann stendur einfaldlega í stað. Þetta er aðgerð sem kostar ekki neinn neitt. Annar kostur við hana er að þetta tekur ekki nema brot úr degi að fá í gegn og árangurinn kemur strax fram.
"Nýju" bankarnir hafa verið að taka yfir skuldabréf "gömlu" bankanna og sparisjóða á afföllum, en þessi afföll eru veruleg í sumum tilfellum. Það er réttlætismál að þessi afföll verði látin ganga til skuldaranna. Enn og aftur myndi þetta ekki kosta neitt fyrir þjóðfélagið, ríkið eða bankana, þar sem "tapið" er þegar komið fram hjá "gömlu" bönkunum. Þarna koma svo líka inn myntkörfulánin sem innihalda lán sem erlendir lánadrottnar eru þegar búnir að veita afslátt á. Enn og aftur enginn viðbótar kostnaður.
Þetta eru aðgerðir sem gæti verið hægt að ná fram á par mánuðum og í raun bull að ríkistjórnin skuli ekki hafa gripið til þeirra. Það er aðeins hagsmunagæsla til handa fjármálastofnunum og undirlátssemi IMF sem hefur komið í veg fyrir slíkar aðgerðir.
Svo til að áréttingar, þá er engin ástæða fyrir ríkið að dæla peningum í kviksyndi bankanna í þeim tilgangi að byggja hér upp þrjá sterka banka. Í fyrstalagi þá þurfum við bara einn banka og í öðru lagi, þá þarf hann ekki að vera neitt rosa stór. Hann þarf bara að geta þjónustað almenningi og fyrirtækjum í landinu. Það sem manni rennur grun í, er að með þessum þríhöfða aðgerðum ríkistjórnarinnar sé verið að gangast í ábyrgð fyrir erlenda áhættufjárfesta sem munu fá bankana gefins. Það er hins vegar stórhættulegur leikur þar sem nær allur atvinnurekstur og verðmæti eru skuld- eða veðsett bönkunum. Það væri lítið mál fyrir eigendur "nýju" bankanna að velja sér bestu bitana og fara svo á brott. Þetta er ekki bara spurning um einhverja þrjá banka, þetta er spurningin um allt hagkerfið eins og það leggur sig.
Ég hef verið að velta fram hugmyndum hér á blogginu mínu og ég fullyrði að væri þeim hrint í framkvæmd, þá værum við komin út úr þessu ástandi á 12 mánuðum.
![]() |
Grunnur að lausn á vanda heimila? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.8.2009 | 09:45
Verkefni ríkistjórnarinnar
Í raun er hlutverk ríkistjórna aðeins eitt, en það er að sjá til þess að skapa umhverfi fyrir þegnana svo þeir geti öðlast þá hamingju sem þeir óska sér. Að stuðla að hamingju almennings er því grundvallar verkefni allra ríkistjórna.
Auðvitað munu einhverjir halda því fram það þetta sé allt of mikil einföldun, en það eru líka til einstaklingar sem trúa ekki á einfaldar lausnir og halda að aðrir viti allt betur en þeir og að þeim sé best að gera það sem aðrir boði. Því þeir viti best.
En skoðum þessa fullyrðingu aðeins betur. Hvað er markmið allra, jafnvel þeirra sem ekki segjast hafa nein markmið? Það er jú að vera hamingjusamur. Það frábæra við hamingjuna, er að hún býr í mismunandi hlutum, allt eftir því hver fjallar um hana. Það leiðir til þess að öllum ætti að vera mögulegt að sækja sér þá hamingju sem þeir óska sér. Það eina sem fólk þarf, er því að búa við umhverfi þar sem því er gert mögulegt að öðlast þá hamingju.
Ef við lítum til þess að það sé hlutverk kjörinna fulltrúa almennings að gæta hagsmuna þeirra, þá ætti það að vera jafn augljóst að þeirra er að sjá til þess að almenningur geti sótt til þeirrar hamingju sem hann óskar sér, enda er það líklegast það markmið sem allir geta verið sammála um. Auðvitað er hamingja manna fólgin í mismunandi hlutum, en það er rétturinn til þessarar hamingju sem þarf að vernda.
Getum við sagt að núverandi ríkstjórn hafi staðið sig í stykkinu hvað þetta varðar? Er það mögulegt fyrir einstakling að leita sér hamingju ef hann hefur áhyggjur af því alla daga hvort hann geti staðið undir greiðslum um næstu mánaðarmót, að hann haldi vinnunni, eða hvort hann yfir höfuð haldi heimilinu? Það hlýtur að vera verkefni þessarar ríkistjórnar að sjá til þess að þessar vangaveltur heyri til undantekninga og raun hverfi á öskuhauga sögunnar.
Við lifum á miklum umrótartímum. Tímum sem munu móta okkur eða brjóta. Í raun er allt hrunið og við okkur blasir gífurleg vinna til uppbyggingar, en það sem mest um skiptir er að nú stöndum við frammi fyrir því að ákveða hvernig umhverfi við viljum skapa okkur og hvernig framtíð við sjáum fyrir okkur.
Það er skiljanlegt að margir sjái fyrir sér dökka framtíð, enda hefur okkur ekki verið gefið mikið tækifæri til annars. Við erum umsetin gráðugum áhættufjárfestum sem heimta að við tökum á okkur ábyrgð fjárfestinga þeirra, borgi þeim tapið. Til að tryggja hagsmuni sína hafa þeir beitt okkur hótunum og alþjóðastofnunum. Það óhugnalega við þetta allt er svo að ríkistjórnin hefur látið beita sér gegn þjóðinni, þessum aðilum til hagsmunagæslu. Við erum tekin úr umhverfi öryggis og frelsis í leið fjötra og helsis, þar sem hamingja manna mun verða af skornum skammti. Þrællinn getur lifað þolanlegu lífi, en hamingjuna vantar og hún er grundvöllur góðs lífs.
En hvað með hlutverk ríkistjórnarinnar. Af hverju hefur hún ekki gert það sem henni ber, að gæta hagsmuna fólksins og sjá til þess að það geti öðlast þá hamingju sem það sækir sér? Ástæðan er einföld, ríkistjórnin er hrædd þar sem hún í raun veit ekki hvað hún á að gera. Hún hefur ekki neinar lausnir og hefur því látið erlenda handrukkara leiða sig frá sínum réttu verkefnum.
Ríkistjórnin þarf að ná áttum, ef hún getur það ekki, þá þarf hún að segja af sér. En hvað þarf að gera, hver eru verkefnin sem þarf að vinna? Það þarf að byrja á því að létta áhyggjum af almenningi svo hann geti hafið ferð sína til þeirrar hamingju sem hann óskar sér. Það þarf að losa spennu og byggja upp samfélag sem vinnur með fólki en ekki á móti.
Þau verkefni sem þarf að vinna eru nokkur, en þau eru í eðli sínu einföld og fljótleyst. Ríkistjórnin þarf að taka ákvarðanatökuna í eign hendur og laga fjárhagslegan grundvöll samfélagsins.
Ríkistjórnin þarf að byrja á því að endurgreiða þau lán sem tekin hafa verið til styrkingar krónunni, en þau lán hafa og munu hafa allt aðrar afleiðingar verði þeim haldið til streitu. Krónan verður aldrei styrkt með skuldasöfnun, aldrei. Að sama skapi þarf hún að losa sig undan ráðleggingum og aðstoð erlendra stofnanna. Það er aðeins ein leið til að styrkja krónuna og það er með verðmætasköpun og aukinn gjaldeyrisforði á að verða til við eignarmyndun í formi aukins útflutnings umfram innflutning.
Ríkstjórnin þarf að færa lánskjaravísitöluna aftur til þess sem hún var í kringum febrúar mars 2008, en það mun leiða til gífurlegrar lækkunar á greiðslubyrði almennings og auka kaupmátt hans. Þessi aðgerð mun ekki kosta neitt, þar sem aðeins væri um að ræða tilfærslu á pappírshagnaði, óraunverulegum hagnaði.
Bankarnir og aðrar lánastofnanir hafa fengið niðurfellingar á erlendum lánum, auk þess sem yfirfærsla lána úr gömlu bönkunum í þá nýju hafði í för með sér veruleg afföll skulda. Þessi afsláttur af lánum á að fara beint til einstaklinganna í formi lækkunar höfuðstóls. Með lægri höfuðstól lækkar greiðslubyrðin og kaupmáttur eykst. Þetta mun ekki heldur kosta neitt í dag, þar sem kröfuhafar gera ekki ráð fyrir frekari greiðslum. Almenningur á kröfu á að fá þessar leiðréttingar til sín.
Rótin að öllum vandræðunum liggur í því fjármálakerfi sem við búum við. Nú þegar allt er hrunið, er tilvalið að byggja upp nýtt kerfi í stað þess að endurbyggja það gamla. Í stað þess að láta bankana sjá um að fjármagna þá hagsæld sem við búum við, þá á ríkið að sjá um að standa að þeirri fjármagnsaukningu.
Núverandi kerfi byggir á því að við fáum lán frá bönkum sem við þurfum að greiða til baka með vöxtum. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að við þurfum í sífellu að hafa hagvöxt, við þurfum að framleiða meira í ár en í fyrra, svo við getum staðið undir vaxtakostnaði. Þetta leiðir til gífurlegs álags á auðlindir þar sem alltaf þarf að kreista meira og meira úr þeim. Í kerfi þar sem ríkið skaffar fjármagnið sem eign til einstaklinganna, þá er ekki lengur þörf á hagvexti.
Ef verðmætasköpun í samfélaginu er 100 milljónir, og árið eftir aðrar 100 milljónir, þá er ekki hagvöxtur á milli ára, en verðmætin hafa tvöfaldast. Jafnvel þó verðmætasköpun næsta árs verði bara 50 milljónir, þá er um aukningu að ræða þótt hagfræðin myndi skilgreina þetta sem samdrátt í samfélaginu. Það er vissulega minni framleiðsla, en samt er um að ræða verðmætaaukningu í þjóðfélagunu. Það er því ekki nauðsynlegt að keyra allt áfram í nafni aukins hagvaxtar. Það er nóg að verðmætasköpun sé til staðar.
Við verðum að vakna og byrja að horfa á hlutina eins og þeir eru. Við eigum ekki að vera þrælar fjármagnsins. Það var fundið upp til að vinna fyrir okkur, við eigum ekki að vinna fyrir það. Nú er tíminn til að stokka upp í kerfinu almenningi til hagsældar og aukinnar hamingju.
Ef ríkistjórnin er ekki að byggja upp kerfi sem leiðir til aukins möguleika almennings til að leita sér hamingju, þá er ríkistjórnin ekki að vinna vinnuna sína og henni ber því að segja af sér.
![]() |
Nærri 40 milljarða afgangur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2009 | 21:35
Hvað liggur í haustinu?
Ég hef komið inn á það áður, að ég tel þennan viðsnúning á hagkerfum BNA og nokkurra Evrópuríkja sem verið hefur síðustu mánuði, ekki byggðan á traustum grunni. Fjármálamarkaðir eru ekki keyrðir áfram af heilbrigðri skynsemi, heldur er samsafn einstaklinga sem eru keyrðir áfram af tilfinningasemi, tilfinningum sem stjórnast af ásókn í pening og hræðslunni við að tapa honum. Væntingar keyra þetta áfram og væntingarnar hafa verið til þess að hagkerfið sé að taka við sér. Þegar atvinnuleysistölur eru hins vegar skoðaðar, þá hafa þær ekki sýnt sig vera að dragast saman. Það þýðir að samdráttur í neyslu er væntanlegur. Neysla dregst ekki saman strax og atvinnuleysið skellur á, heldur eru nokkrir mánuðir í hliðrun. Samdrátturinn í neyslunni leiðir svo til þess að fleirum er sagt upp osfrv. Það sem hefur haldið þessum hagkerfum gangandi er gríðarleg innspýting fjármagns til fjármálastofnanna og fyrirtækja, fjármagn sem ríkistjórnir taka að láni og bæta þar með við þegar skuldsetta stöðu sína. Það er takmarkað hvað hægt er að halda þessu lengi áfram.
Markaðurinn stendur frammi fyrir þessu þegar hann metur væntingar sínar til framtíðar og á ákveðnum tímapunkti kemur hræðslan inn og yfirtekur vonina um hagnaðinn. Þá fara menn að draga saman seglin og þá má búast við gífurlegum skelli. Við Íslendingar erum vissulega heppnir hvað það varðar að við erum búin að taka þennan skell.
Það er þó ýmislegt í grein Wade sem bendir til þess að það séu nokkri mánuðir síðan hann var hér á landi, en hann talar þar um að Jóhanna sé vinsæl vegna þess að hún er talin standa fyrir ákveðinn heiðarleika og að Steingrímur sé staðfastur ESB andstæðingur.
Við verðum að átta okkur á stöðu okkar. Við erum í miklum vandræðum vegna ofskuldsetningar og það er þar sem við verðum að sjá aðgerðir, marktækar aðgerðir, til hjálpar heimilunum. Það er í raun einföld lausn á þessu öllu, en ríkistjórnin á að færa lánskjaravísitöluna aftur til þess sem hún var í febrúar mars 2008 og síðan á að láta ALLAR afskriftir og aföll á lánum ganga beint og óskert til almennings. Þannig er hægt að snarlækka greiðslubyrðina á almenning og auka veltuna í þjóðfélaginu. Þetta myndi ekki hafa nein áhrif á bankana þar sem þeir verða ekki fyrir neinu tjóni, enda eru þetta ný fyrirtæki og hafa fengið allt þetta skuldabréfasafn næsta gefins.
Í framhaldi af þessu á ríkistjórnin að þakka pent fyrir sig og senda IMF heim með lánið sem við fengum frá þeim. Svo eigum við að afþakka lánin sem aðrir hafa boðið. Öll þessi lán eru hugsuð til þess að byggja upp gjaldeyrisvaraforða til styrkingar krónunni. Það er tálsýn að halda það að þetta gangi upp. Það myndast aldrei eign með lántökum og þegar svo lánin eru látin sitja óhreyfð á bankareikningi með lægri ávöxtun en vaxtagreiðslurnar af lánunum, þá endar þetta bara á einn veg. Við sköpum enga eign, heldur byggjum upp tap og þá styrkist ekkert, hvorki krónan eða annað.
Icesave er hlutur sem við höfum ekki hugmynd um hvort við eigum að borga eða ekki. Við eigum að fresta ákvörðun Alþingis á ábyrgðinni og upplýsa Breta og Hollendinga um það að við munum fara nákvæmlega yfir Icesave málið áður en hún verði tekin. Ég tel að ástandið í þessum löndum eigi eftir að verða slíkt, þegar dregur að áramótum, að Icesave verði ekki ofarlega á forgangslistanum þeirra.
Við eigum að nota tækifærið núna þegar allt bankakerfið hrundi og bankarnir á fullu forræði ríkisins, að skipta um fjármálakerfi, í þá mynd sem ég hef fjallað um áður. Við eigum að líta til þess að skapa hér umhverfi sem leiðir til eignamyndunar en ekki skuldsetningar. Framtíðin er okkar og við eigum að leiða hana til þess sem er okkur til hagsbótar.
![]() |
Ástandið getur versnað hratt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.8.2009 | 08:58
Afskriftir til lántakenda
Allir bankarnir eru nýjir, fyri utan kannski einhverja litla sparisjóði úti á landi sem gleymdu að taka þátt í góðærinu. Húsnæðislánin eru hluti af þeim eignum gömlu bankanna sem færð voru yfir til þeirra nýju og ef ég þekki "systemið" rétt, þá hefur það verið gert með afföllum, en þannig "batnar" eignastaða nýju bankanna. Ég legg til að í stað þess að níðast á almenningi og hækka lánin þeirra með vísitölubrellum í nafni "styrkingar" bankakerfis með þrjá stóra banka, þá verði tekin ákvörðun um að stofna einn meðal stóran banka sem verði rétt temmilega stór til þess að geta þjónustað okkur hér innanlands. Við það myndi draga verulega úr fjáröflunarþörfinni og hægt að nýta það sem sparast til þess að hjálpa almenningi á eðlilegan hátt.
Við getum þá tekið til baka "eignaaukninguna" sem bankarnir fengu í gegnum vísitöluhækkunina sem ekki átti sér neinar raunverulegar forsendur, með því einu að færa vísitöluna aftur til þess sem hún var í febrúar mars 2008, þegar allt fór af stað. Svo er hægt að láta afföllin af lánayfirfærslunum ganga beint til almennings þannig að höfustóll lánanna lækki í samræmi við "kaupverðið" til nýju bankanna. Þetta myndi hafa gífurlegar kjarbætur í för með sér fyrir almenning í formi lækkaðrar greiðslubyrðar, en tap bankanna væri ekkert, akkúrat ekki neitt. Vístöluhækkunin hafði enga útgjaldaukningu í för með sér fyrir bankana og því ekki um tap að ræða þar og yfirtaka lánanna frá gömlu bönkunum var þannig að nýju bankarnir fengu láni inn til sín á undirverði og eignfæra á uppsprengdu vísitöluverði, engin fjárútgjöld þar. Sem sagt ekki tap fyrir einn einasta banka, en gífurlegt hagsmunamál fyrir allan almenning og fyrirtæki.
Svo á ríkið að taka yfir fjármagnsframleiðsluna af bönkunum og sjá til þess að allt það fjármagn sem þarf til að mæta verðmætaukningunni í landinu, fari til þegnanna í formi eignar en ekki skuldar eins og gert er í dag í krafti bankanna. Þá mun draga stórlega úr skuldsetningu landsmanna og við standa frammi fyrir því að búa í samfélagi þar sem fólk er verðlaunað fyrir aukna framlegð en ekki hegnt fyrir það eins og í dag.
Og fyrir þá sem bulla um gjaldeyrisvaraforða og styrkingu krónunnar og alskonar bull frá IMF. Þá vil ég fyrst benda á það að eignarstaða getur aldrei orðið til með skuldsetningu og styrking krónunnar verður aldrei nema við aukna eignarstöðu. Þannig að IMF er að ljúga að okkur og við eigum að þakka pent fyrir og senda þá heim til sín. Hvað varðar "styrkingu" krónunnar, þá velti ég því fyrir mér hvert verið sé að fara í þeim málum. Af hverju á krónan að vera einhver hrávara á braskaraskiptimarkaði. Er ekki hlutverk krónunnar að auðvelda okkur skipti á þeim verðmætum sem sköpuð eru í þjóðfélaginu? Af hverju á hún að skoppa eins og jójó í þeim EINA tilgangi að miðlarar geti hagnast á því. Auðvitað á ríkið að sjá um að ákveða gengi krónunnar út frá þeirri einföldu staðreynd að gengið á að endurspegla verðmætagildi undirliggjandi hagkerfa. Þ.e. gengið á að vera þannig skráð að við getum fengið sambærilega vöru á sambærilegu verði erlendis. Er það hlutverk gengisins að vera svo "hagstætt" almenningi að hann sé alltaf að "gera góða díla" þegar hann ferðast erlendis, eða á gengið að vera svo "hagstætt" innlendri framleiðslu að fyrirtækin séu að hagnast gífurlega á gengismun í útflutningi. Það hlýtur að vera tilgangur gengisskráningarinnar að hægt sé að fá sambærilega vöru á sambærilegu verði hvar sem er í heiminum.
Þá veltir maður fyrir sér eftirfarandi staðreyndum. Við erum með minna atvinnuleysi en ESB og helstu viðmiðunarríki. Við erum með gengisskráningu sem hefur í flestum tilfellum samræmt verðlag á Íslandi og erlendis (fyrir utan einhverjar verðskrár veitingahúsa). Við erum með jákvæðan vöruskiptajöfnuð og höfum ekki orðið fyrir neinum raunverulegum sköðum hvað verðmæti samfélagsins varðar. Það eina sem þarf að laga í þessu landi er skuldabyrði almennings og fyrirtækja. Ég hef nefnt hvað þarf til að laga það og erum við þá ekki bara í góðum málum. Lausnin á þessum ímyndaða vanda (segi ímyndaða, því hann er fabrikeraður af ríkistjórninni og erlendum fjármálaöflum í valdi IMF) er svo einföld og getur komið til á örfáum dögum.
Þegar svo kemur til nýtt fjármagnskerfi, þá erum við að horfa til gífurlegrar hagsældar næstu árin. Hagsældar sem byggir á eignamyndun og raunverulegum verðmætum, en ekki skuldsetningum og pappírsgróða.
Það þarf ekki alltaf að vera flókið að leysa mál. Stundum eru einföldu lausnirnar bestar.
![]() |
Bankarnir skoða leiðir til að skuldbreyta íbúðalánum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)