Verkefni ríkistjórnarinnar

Í raun er hlutverk ríkistjórna aðeins eitt, en það er að sjá til þess að skapa umhverfi fyrir þegnana svo þeir geti öðlast þá hamingju sem þeir óska sér. Að stuðla að hamingju almennings er því grundvallar verkefni allra ríkistjórna.

Auðvitað munu einhverjir halda því fram það þetta sé allt of mikil einföldun, en það eru líka til einstaklingar sem trúa ekki á einfaldar lausnir og halda að aðrir viti allt betur en þeir og að þeim sé best að gera það sem aðrir boði. Því þeir viti best.

En skoðum þessa fullyrðingu aðeins betur. Hvað er markmið allra, jafnvel þeirra sem ekki segjast hafa nein markmið? Það er jú að vera hamingjusamur. Það frábæra við hamingjuna, er að hún býr í mismunandi hlutum, allt eftir því hver fjallar um hana. Það leiðir til þess að öllum ætti að vera mögulegt að sækja sér þá hamingju sem þeir óska sér. Það eina sem fólk þarf, er því að búa við umhverfi þar sem því er gert mögulegt að öðlast þá hamingju.

Ef við lítum til þess að það sé hlutverk kjörinna fulltrúa almennings að gæta hagsmuna þeirra, þá ætti það að vera jafn augljóst að þeirra er að sjá til þess að almenningur geti sótt til þeirrar hamingju sem hann óskar sér, enda er það líklegast það markmið sem allir geta verið sammála um. Auðvitað er hamingja manna fólgin í mismunandi hlutum, en það er rétturinn til þessarar hamingju sem þarf að vernda.

Getum við sagt að núverandi ríkstjórn hafi staðið sig í stykkinu hvað þetta varðar? Er það mögulegt fyrir einstakling að leita sér hamingju ef hann hefur áhyggjur af því alla daga hvort hann geti staðið undir greiðslum um næstu mánaðarmót, að hann haldi vinnunni, eða hvort hann yfir höfuð haldi heimilinu? Það hlýtur að vera verkefni þessarar ríkistjórnar að sjá til þess að þessar vangaveltur heyri til undantekninga og raun hverfi á öskuhauga sögunnar.

Við lifum á miklum umrótartímum. Tímum sem munu móta okkur eða brjóta. Í raun er allt hrunið og við okkur blasir gífurleg vinna til uppbyggingar, en það sem mest um skiptir er að nú stöndum við frammi fyrir því að ákveða hvernig umhverfi við viljum skapa okkur og hvernig framtíð við sjáum fyrir okkur.

Það er skiljanlegt að margir sjái fyrir sér dökka framtíð, enda hefur okkur ekki verið gefið mikið tækifæri til annars. Við erum umsetin gráðugum áhættufjárfestum sem heimta að við tökum á okkur ábyrgð fjárfestinga þeirra, borgi þeim tapið. Til að tryggja hagsmuni sína hafa þeir beitt okkur hótunum og alþjóðastofnunum. Það óhugnalega við þetta allt er svo að ríkistjórnin hefur látið beita sér gegn þjóðinni, þessum aðilum til hagsmunagæslu. Við erum tekin úr umhverfi öryggis og frelsis í leið fjötra og helsis, þar sem hamingja manna mun verða af skornum skammti. Þrællinn getur lifað þolanlegu lífi, en hamingjuna vantar og hún er grundvöllur góðs lífs.

En hvað með hlutverk ríkistjórnarinnar. Af hverju hefur hún ekki gert það sem henni ber, að gæta hagsmuna fólksins og sjá til þess að það geti öðlast þá hamingju sem það sækir sér? Ástæðan er einföld, ríkistjórnin er hrædd þar sem hún í raun veit ekki hvað hún á að gera. Hún hefur ekki neinar lausnir og hefur því látið erlenda handrukkara leiða sig frá sínum réttu verkefnum.

Ríkistjórnin þarf að ná áttum, ef hún getur það ekki, þá þarf hún að segja af sér. En hvað þarf að gera, hver eru verkefnin sem þarf að vinna? Það þarf að byrja á því að létta áhyggjum af almenningi svo hann geti hafið ferð sína til þeirrar hamingju sem hann óskar sér. Það þarf að losa spennu og byggja upp samfélag sem vinnur með fólki en ekki á móti.

Þau verkefni sem þarf að vinna eru nokkur, en þau eru í eðli sínu einföld og fljótleyst. Ríkistjórnin þarf að taka ákvarðanatökuna í eign hendur og laga fjárhagslegan grundvöll samfélagsins.

Ríkistjórnin þarf að byrja á því að endurgreiða þau lán sem tekin hafa verið til “styrkingar” krónunni, en þau lán hafa og munu hafa allt aðrar afleiðingar verði þeim haldið til streitu. Krónan verður aldrei styrkt með skuldasöfnun, aldrei. Að sama skapi þarf hún að losa sig undan “ráðleggingum” og “aðstoð” erlendra stofnanna. Það er aðeins ein leið til að styrkja krónuna og það er með verðmætasköpun og aukinn gjaldeyrisforði á að verða til við eignarmyndun í formi aukins útflutnings umfram innflutning.

Ríkstjórnin þarf að færa lánskjaravísitöluna aftur til þess sem hún var í kringum febrúar mars 2008, en það mun leiða til gífurlegrar lækkunar á greiðslubyrði almennings og auka kaupmátt hans. Þessi aðgerð mun ekki kosta neitt, þar sem aðeins væri um að ræða tilfærslu á pappírshagnaði, óraunverulegum hagnaði.

Bankarnir og aðrar lánastofnanir hafa fengið niðurfellingar á erlendum lánum, auk þess sem yfirfærsla lána úr “gömlu” bönkunum í þá “nýju” hafði í för með sér veruleg afföll skulda. Þessi “afsláttur” af lánum á að fara beint til einstaklinganna í formi lækkunar höfuðstóls. Með lægri höfuðstól lækkar greiðslubyrðin og kaupmáttur eykst. Þetta mun ekki heldur kosta neitt í dag, þar sem kröfuhafar gera ekki ráð fyrir frekari greiðslum. Almenningur á kröfu á að fá þessar leiðréttingar til sín.

Rótin að öllum vandræðunum liggur í því fjármálakerfi sem við búum við. Nú þegar allt er hrunið, er tilvalið að byggja upp nýtt kerfi í stað þess að endurbyggja það gamla. Í stað þess að láta bankana sjá um að fjármagna þá hagsæld sem við búum við, þá á ríkið að sjá um að standa að þeirri fjármagnsaukningu.

Núverandi kerfi byggir á því að við fáum lán frá bönkum sem við þurfum að greiða til baka með vöxtum. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að við þurfum í sífellu að hafa hagvöxt, við þurfum að framleiða meira í ár en í fyrra, svo við getum staðið undir vaxtakostnaði. Þetta leiðir til gífurlegs álags á auðlindir þar sem alltaf þarf að kreista meira og meira úr þeim. Í kerfi þar sem ríkið skaffar fjármagnið sem eign til einstaklinganna, þá er ekki lengur þörf á hagvexti.

Ef verðmætasköpun í samfélaginu er 100 milljónir, og árið eftir aðrar 100 milljónir, þá er ekki hagvöxtur á milli ára, en verðmætin hafa tvöfaldast. Jafnvel þó verðmætasköpun næsta árs verði bara 50 milljónir, þá er um aukningu að ræða þótt hagfræðin myndi skilgreina þetta sem samdrátt í samfélaginu. Það er vissulega minni framleiðsla, en samt er um að ræða verðmætaaukningu í þjóðfélagunu. Það er því ekki nauðsynlegt að keyra allt áfram í nafni aukins hagvaxtar. Það er nóg að verðmætasköpun sé til staðar.

Við verðum að vakna og byrja að horfa á hlutina eins og þeir eru. Við eigum ekki að vera þrælar fjármagnsins. Það var fundið upp til að vinna fyrir okkur, við eigum ekki að vinna fyrir það. Nú er tíminn til að stokka upp í kerfinu almenningi til hagsældar og aukinnar hamingju.

Ef ríkistjórnin er ekki að byggja upp kerfi sem leiðir til aukins möguleika almennings til að leita sér hamingju, þá er ríkistjórnin ekki að vinna vinnuna sína og henni ber því að segja af sér.


mbl.is Nærri 40 milljarða afgangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband