23.5.2009 | 10:47
Endilega festa gengið núna
Þetta er ein af þessum fréttum þar sem maður fær svona rúsínu í endann.
Ríkisstjórnin, samtök á vinnumarkaði, Seðlabanki og AGS verði að setjast niður og meta, í ljósi áforma um að sótt verði um aðild að ESB, hvað menn geti leyft sér að gera til lengri tíma litið, ef gjaldeyrishöft verða áfram við lýði. Hefur jafnvel verið rætt um fastgengisstefnu á meðan beðið yrði niðurstöðu úr aðildarviðræðum við ESB
Það er um að gera að festa gengið núna, sérstaklega þar sem gengisskráningin er svo hagstæð!!! Hvers konar vitleysa er þarna í gangi. Festa gengið þar til niðurstöður aðildarviðræðna fást. Væri ekki nær að leyfa þessu að fljóta þannig að við getum notið þess þegar euro-ið fellur. Þessi ESB aumingjaskapur og þrælslund mun keyra þetta þjóðfélag niður í svaðið.
Höfum eitt í huga varðandi peninga. Hver er munurinn á 500 króna seðli og 500 euro seðli, hvor er verðmeiri. Ég ætla ekki að halda neinni spennu varðandi svarið. Verðmæti þessara seðla er í raun jafn mikið. Allur verðmunur byggir á huglægum þáttum sem hafa ekkert með seðlana sjálfa að gera. Pappírinn í þeim er sá sami, sá sami og er í klósettpappírnum. Peningar eru ekki auður, þeir eru tákn um auð, pappírssnepill sem við notumst við svo við þurfum ekki að dröslast um allt með hænur, mjólk eða aðrar hrávörur. Þeirra eini tilgangur er að einfalda millifærslu á verðmætum. Þetta er því spurningin um undirliggjandi verðmæti.
Við höfum fullt af undirliggjandi verðmætu, okkur vantar bara seðla til að geta skipst á þessum verðmætum. Hvernig væri að hugsa svolítið villt og út fyrir boxið. Hvernig væri ef ríkið myndi bara prenta þá seðla sem þarf. Verðbólga í tengslum við peningaframleiðslu verður til þegar seðlar í umferð eru umfram verðmæti í þjóðfélaginu. Núna er ekkert slíkt í gangi, það vantar seðla í umferð. Hvernig væri að greiða fólkinu þessi laun í staðin fyrir að dæla þeim í bankakerfið þar sem þeir bara festast í kjallarakompum.
Peningar eru ekki verðmæti, verðmætin liggja meðal annars í starfsfólki. Með þessu þrasi er ríkið að segja að verðmæti vinnuframlags sé ekki hátt skrifað. Með lækkun launa er verið að segja að vinnuframlagið núna sé minna en áður, ætti þá fólk ekki að vinna minna? Er einhver skynsemi sem segir að meira vinnuframlag eigi að koma fram í minni verðmætum.
Verðmæti þjóðfélagsins er sú framleiðsla sem þar á sér stað, hvaða eignaraukning er til staðar. Til þess að geta nýtt sér þessa eignaraukningu, þá þarf pening. Þennan pening verður því að búa til, þannig að hann samsvari þeirri eign sem er í þjóðfélaginu. Vandamálið er að þessi aukning á peningum hefur alltaf verið keyrð í gegnum bankakerfið, sem hirðir til viðbótar vexti. Bankarnir hafa búið til pening og lánað einstaklingum og ríki. Þetta ætti í raun að vera þannig að ríkið sæi um að koma þessum peningum í umferð, án þess að lána okkur þá eða rukka vexti fyrir. Verðmætin eru til staðar, við verðum bara að passa uppá að peningar í umferð séu nægir til að hægt sé að skiptast á þessum verðmætum.
Annað, hringdi í bankann og var tjáð af símsvara að allir "ráðgjafar" væru uppteknir. Hvaða ráðgjafar. Þessir einstaklingar eru ekki ráðgjafar, þeir eru sölumenn. Ráðgjafi ræður þér heilt, en sölumaður sér bara til þess að þú kaupir einhverja af þeim þjónustum sem vinnustaður hans selur. Við munum aldrei ná okkur út úr þessari peningavitleysu fyrr en við áttum okkur á því að bankar eru bara fyrirtæki sem hafa það eitt markmið að græða pening, alveg eins og hvert annað fyrirtæki. Þetta eru ekki stofnanir sem eru lífsnauðsynlegar lífi á jörðu og skulu meðhöndlaðar sem eitthvað heilagt. Þetta eru bara fyrirtæki eins og hver önnur og því fyrr sem við áttum okkur á því og förum að meðhöndla þá í samræmi við það, því fyrr munum við verða frjáls undan oki þeirra.
Allt undir í Karphúsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.5.2009 | 08:14
Vantar ekki eitthvað í þennan reikning
Bankarnir eru með allt of mikið af eignum í erlendri mynt á lágum vöxtum en mikið skuldbindingum í krónum á háum vöxtum. Þetta mætti skiljast sem slíkt að bankarnir væru með öll útlánin sín í útlöndum þar sem þeir fá lága vexti, en innlánin öll í formi sparfjár Íslendinga á háum vöxtum.
Ef bankarnir hafa verið að taka lán (sparnaður einstaklinga) á háum íslenskum vöxtum, en svo verið að lána þennan pening til útlanda á lágum vöxtum, þá er augljóst að þetta fólk er ekki að kunna reikning og þá kannski bara ágætt að þessi fyrirtæki fari á hausinn. Hins vegar hefur mér sýnst þetta ekki vera svona einfalt. Bankarnir eru með fjöldan allan af útistandani lánum á klassískum íslenskum okurvöxtum og verðbótum, þannig að þetta hefur ekkert með vaxtamuninn að gera. Þetta er bara léleg stjórnun og fjárfestingaklúður bankann sem er að koma í ljós.
Það vekur hins vegar athygli að þeir eru að lækka innlánsvexti meira en útlánsvexti. Þ.e.a.s. þeir lækka vextina sem þeir þurfa að borga umfram það sem þeir fá greitt. Mikið væri gott ef við almenningur gætum bara ákveðið að lækka vextina sem við greiðum til bankanna.
Þessi grátkór er farinn að verða svolítið pirrandi. Það er grenjað og grenjað yfir því hvað þeir eiga bágt og að við almenningur verðum að sýna þeim skilning. Hins vegar ætlar enginn að sýna skilning þeim einstaklingum sem allt eru að missa. Bankarnir komu sér í þessi vandræði sjálfir og eiga stærstan þátt í því hversu hart ástandið hefur skollið á okkur. Það er kominn tími til að þeir fari að bera ábyrgðina.
Þrátt fyrir að því sé haldið fram í tíma og ótíma, þá er það einfaldlega þannig að við þurfum ekki að hafa stóra banka í kringum okkur. Lítill sparisjóður væri í raun alveg nóg. Einstaklingar geta lifað án banka, en bankarnir geta ekki lifað án okkar. Það er því ekki spurning hverjum á að hjálpa. Það á að beina athyglinni að því að hjálpa fólkinu í landinu og þá munu bankarnir og öll önnur fyrirtæki taka við sér. Fyrirtæki hafa engan rekstrargrundvöll ef ekki eru til staðar viðskiptavinir til að versla við þau.
Það er kominn tími á róttækar aðgerðir og ef ráðamenn eru ráðalausir, þá eiga þeir bara að segja af sér.
Ríkisbankarnir reknir með tapi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.5.2009 | 07:55
Endurmetum "aðstoð" AGS
Sagði hún vextina hærri en almennt gerðist og ríkið væri að greiða um fimm milljónir króna á dag vegna fyrstu greiðslunnar síðan í nóvember. Greiðslan væri geymd í Bandaríkjunum á umtalsvert lægri vöxtum og brýnt væri að nefna lækkun stýrivaxta við nefndina
Hvers konar hjálp er þetta sem við erum að fá. Við fáum lán hjá AGS þar sem vextirnir eru hærri en almennt gerist (okurvextir) og peningurinn er geymdur á reikningi í Bandaríkjunum á umtalsvert lægri vöxtum. Fimm milljónir á dag hafa svo verið greiddir í vexti. Ég sé ekki betur en að við séum bara að fjármagna AGS. Það er léleg fjárfestingastefna að taka lán á vöxtum til þess eins að láta það liggja á reikningi með minni vöxtum. Það er eins og verið sé að halda okkur í skuldasúpu, bara til að halda okkur í skuldasúpu.
Við stöndum frammi fyrir lágu gengi krónunnar, sem gerir allar erlendar lántökur mjög dýrar. Hins vegar verður lágt gengi til þess að allur útflutningur gefur okkur fleiri krónur í vasann. Ég legg því til að við borgum þetta lán til baka og byggjum upp varasjóðinn okkar með eðlilegum hætti, þ.e.a.s. flytjum út vörur og fáum gjaldeyrir í staðinn. Auðvitað tekur það einhvern tíma að byggja sjóðinn upp þannig, en við erum þá alla vega ekki að borga fimm milljónir á dag á meðan.
Það er kominn tími til að stórnvöld, ríki og þing, fari að vinna vinnuna sína. Frá því að þessi stjórn tók við eftir hallarbyltinguna í vetur, þá hefur ekkert verið gert til að létta á heimilium landsins og koma í veg fyrir eignarupptöku fjölda fólks. Það væri nær að ganga í þessi mál, heldur en að eyða tímanum í að ræða bindisnotkun á Alþingi.
Ríkið á að fara strax út í það að lagfæra vísitöluna á lánum landsmanna, þ.e. færa hana aftur til febrúar, mars 2008 svo greiðslubyrðin lækki og síðan á að fara út í að færa afskriftir lána til neytenda. Þetta er heilbrigðara heldur en að "bjarga" fólki með því einu að lengja í hengingarólinni. Frestun afborgana og fáránleg hækkun vísitölunnar er bara til þess fallin að fóðra bankana.
Bankarnir komu sér og okkur í þetta ástand, væri ekki nær að þeir bara sæju um að koma sér sjálfir úr því og velta ekki vandanum yfir á aðra. Það er þannig að þeir sem taka áhættuna njóta arðsins, eins og bankarnir vissulega gerðu. Að losa þá undan ábyrgðinni og skella henni á þá sem engan ávöxtu báru, er náttúrulega bara rugl og alls ekki til þess fallið að kenna bankabatteríinu að fara varlegar í framtíðinni.
Ríkið verður líka að átta sig á því að bankarnir eru ekki lífæð þjóðfélagsins, það er fólkið í landinu sem er lífæð þjóðfélagsins.
Sendinefnd AGS í heimsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.5.2009 | 22:25
Ekki séð fyrir endann erlendis
Það hefur lengi verið skoðun mín að Evrópa og Bandaríkin væru ekki búin að taka út botninn í efnahagsmálum. Bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur verið gífurlegu fjármagni dælt inn í bankakerfið, án þess að þeir fjármunir hafi leitað út á markaðinn og auðveldað fyrirtækjum fjármögnun. Peningarnir hafa einkum farið í að fylla upp í tap þessara fyrirtækja og greiða laun til stjórnenda. Nær hefði verið að láta peningana renna til einstaklinga, sem kæmu þeim svo beint út í hagkerfið.
Íslendingar hafa verið illa leiknir af ástandinu, það hefur skollið hvað harðast á okkur þegar litið er til nágranna okkar. Hins vegar tel ég að ekki séu öll kurl komin til grafar og sé Bretland sérstaklega viðkvæmt fyrir, en þeir gætu hugsanlega komist nálægt okkur á næstu vikum og mánuðum. Einnig eru ríki eurosævðisins mjög illa stödd mörg hver og er ég þá ekki að tala um Írland og Spán, heldur hin stóru svo sem Frakkland og Ítalíu. Vandamál þessara ríkja allra er mjög sterkt euro sem dregið hefur úr útflutningi og gríðarleg skuldasöfnun undanfarna áratugi.
Það sem kemur okkur hins vegar til góða er að við erum mun minna hagkerfi og höfum alla möguleika á að vinna okkur úr þessu ástandi mög fljótlega, þar sem minni hagkerfi eru alla jafna mun svegjanlegri en þau stóru. Einnig eru Íslendingar þannig gerðir að þeir eru mjög fljótir að taka sig til og ganga í verkin sem þarf að vinna. Við höfum því möguleika á að ná okkur út úr þessu, svo lengi sem þingmenn okkar hætta að hafa áhyggjur af bindisnotkun og öðru smávægilegu. Þeir þurfa að fara að sinna því sem öllu skiptir, að bjarga fólkinu í landinu. Ætli þeir að halda áfram á braut annarra vestrænna þjóða, að bjarga bönkunum, þá kemur ekki til bata hér í þjóðfélaginu á næstunni.
Vanmat á vanda veldur skjálfta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.5.2009 | 07:04
Kominn tími á upplýsingar
Það er kominn tími á að almenningur verði upplýstur um það sem er í gangi hérna. Hérna í upphafi hafi okkur verið tjáð að við værum að horfa upp á fjárhagslegt þrælahald næstu aldirnar og vesöld og aumingjaskapur framtíð hins nýja Íslands. Nú er svo komin skýrsla sem segir að þetta sé bara allt í góðu og allt bara uppgreitt 2012.
Upphaf þessara vandræða bankanna var sú að þeir gátu ekki endurfjármagnað reksturinn. Ekki var spurningin sú að þeir væru á hausnum, heldur var þetta spruningin um að lausafjárstaðan væri tæp. Manni skildist því að bankarnir ættu eignir sem stæðu undir skuldum, en þeir áttu ekki lausafé til að greiða afborganir. Þessu var hafnað af mörgum og hryðjuverkalögin meðal annars sett á til að hægt væri að hirða of bönkunum eignir.
Er ekki kominn tími til þess að upplýsingar varðandi þessi mál verði birt okkur landsmönnum, þessum sem eigum að borga súpuna. Ég hef alltaf talið að við værum ekki í eins slæmum málum og margir vildu vera láta, þetta væri spurningin að skoða skuldastöðu bankanna og eignir. Mismunurinn, ef hann væri þá einhver, væri það sem við skulduðum. Það virðist vera að koma í ljós núna að þetta sé ekki svo fjarri lagi.
Ég mæli til þess að ríkistjórnin sjái til þess að allar skýrslur sem gerðar hafa verið um þetta erlendis og þau gögn sem til staðar eru, verði birt opinberlega t.d. á vefsíðu sem sett yrði upp sérstaklega til þess.
Allt greitt til baka? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.5.2009 | 14:14
Hægri eða vinstri
Síðan konungssinnar settust hægra megin í franska þinginu, hafa hugtökin hægri og vinstri verið notuð. Hægri oftast um íhaldssemi og sterkt ríkisvald og vinstri um þá sem stóðu fyrir félagslegum þáttum, þ.e. valdinu til fólksins. Reyndar hefur þetta með sterka ríkisvaldið einhvern vegin orðið ofan á hjá báðum fylkingum og fólkið svona dottið til hliðar sem einhvers konar "hráefni".
Síðan þessi hugtök komu fram, hafa breytingar á þjóðfélagsháttum orðið mjög miklar og skilningur fólks á þessum hugtökum breyst til að aðlagast ríkjandi hugarfari, þó í grunni sé þetta spurninginn um það hversu nálægt grasrótinni valdið á að liggja. Reyndin er hins vegar sú að grasrótin hefur aldrei í raun fengið valdið. Hátindur "vinstri" hugsjóna verður að teljast hugmyndin um sovétin, en þar varð hins vegar raunin sú að sterkt ríkisvald myndaðist.
Ég hef hins vegar verið að velta þessum hugtökum nokkuð fyrir mér nú í nokkur ár þar sem ég hef í raun átt erfitt með að samþykkja mig sem annað hvort hægri eða vinstri. Í mörg ár taldi ég mig hægri mann og flestir sem þekkja mig telja svo vera. Hins vegar hef ég á stundum komið fólki í vandræði þar sem ég hef ekki verið alveg fastur í skilgreiningunni. Þegar fólk skilgreinir sig sem hægri eða vinstri, þá er ætlast til þess að það standi vörð um allar hugmyndir sem tengjast þessari flokkun, þannig að hægri maður á að vera fylgjandi nær valdalausu ríkisvaldi, fullu frelsi í viðskiptum og lítilli sem engri félagslegri þjónustu. Vinstrimenn eiga svo að vera þannig að þeir vilja sterkt ríkisvald sem sér um að stjórna verslun og viðskiptum til þess að geta fjármagnað miðstýrða félagslega þjónustu. Auðvitað er þetta nokkur einföldun, en í grófum dráttum er þetta skilgreiningin.
Hvað þá með þá sem eru fylgjandi því að einstaklingurinn eigi að vera frjáls til að sækja sér þá hamingju sem hann óskar sér, án þess að ríkisvaldið stýri því hvernig hann gerir það. Fylgjandi því að ríkið eigi að sjá til þess að til staðar sé félagslegt öryggisnet sem gæti hagsmuna þeirra sem þurfa aðstoð. Að ríkisvaldið sjái um ákveðna samfélagslega þætti á meðan einstaklingurinn sjái um að styrkja og stækka samfélagið.
Málið er að núverandi samfélag er of flókið til þess að hægt sé að setja það í einfallt hægri og vinstri steypumót. Einstaklingarnir verða að geta tekið afstöðu til mála án þess að það þurfi að stimpla þá hægri eða vinstri. Margir vinstrimenn greiða atkvæði gegn málum sem flokkuð eru sem hægri mál, ekki vegna þess að þau telja þetta ekki ganga upp, heldur vegna þess að þetta er ekki "vinstri" hugmyndafræði. Það sama á við hægrimenn, þeir standa gegn því sem skilgreint er sem "vinstri".
Oft hefur verið notuð skilgreiningin "þverpólitísk mál", svo hægt sé að réttlæta það að hægri og vinstri geti verið sammála, en eru ekki öll mál þannig séð þverpólitísk. Eða bara pólitísk.
Mín skoðun er sú að við eigum að hætta að skilgreina allt eftir hægri og vinstri, en fara í staðin að skilgreina hlutina út frá þeirri samfélagslegu þörf sem þeir eiga að uppfylla. Til dæmis þá eru til einstaklingar í samfélaginu sem ekki eru færir um að bjarga sér sjálfir að öllu eða einhverju leiti. Þess vegna er félagslegur stuðningur samfélagslega nauðsynlegur og á þá ekki að skipta máli hvort þetta er skilgreint sem hægri eða vinstri málefni. Einstaklingur sem er fygljandi frelsi einstaklinsins getur líka verið fylgjandi því að ríkið haldi utan um félagslegan stuðning. Það er ekkert sem segir að fólk verði að velja annað og hafna hinu.
Við stöndum núna frammi fyrir því að hugmyndafræði sem kennd er við hægri hefur skapað ákveðna erfiðleika í samfélaginu og krafan um vinstri stjórnmál hefur vaxið. Þarna erum við föst í þessu hægri vinstri. Vandamálið liggur ekki í hægri eða vinstri, heldur þeirri trú okkar að við verðum að velja annað hvort. Af hverju alltaf að hoppa öfgana á milli. Hvor hreyfingin fyrir sig hefur kosti og galla. Við verðum að fara að líta til þess að taka það góða frá báðum vængjum og sameina það í því sem kalla mætti samfélagslega uppbyggjandi þætti. Einstaklingsfrelsi og félagslegt stuðningsnet getur alveg keyrt saman. Þetta er ekki spurningin um annað hvort eða.
Ástandið sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir núna er slíkt að því verður ekki breytt ef við ætlum að halda okkur við fast hægir eða vinstri. Því verður aðeins breytt með því að setjast niður og ákveða hvernig samfélag við viljum og hvaða þættir eigi að vera grunnurinn í því samfélagi. Til dæmis tel ég að við eigum að byggja samfélag þar sem einstaklingurinn fær fullt frelsi til að leita sér þeirra hamingju sem hann æskir, svo lengi sem hann skaði ekki þriðja aðila. Einnig vil ég sjá samfélag þar sem ríkisvaldið heldur úti, eða sér til þess að til staðar sé félagslegt öryggisnet sem hjálpar þeim sem á þurfa að halda.
Við verðum að fara að hugsa fyrir utan boxið og hætta að merkja okkur einhverri hægri/vinstri hreyfingu. Svo lengi sem við gerum það, þá munum við aldrei ná að standa saman að þeim breytingum á samfélaginu sem við óhjákvæmilega verðum að gera.
Við Íslendingar verðum að rísa upp úr meðalmennsku hægri og vinstri vængja stjórnmálanna. Við verðum að horfa til þeirra verkefna sem við þurfum að leysa og leysa þau á þann hátt að henti samfélaginu sem best. Við verðum að nota þætti sem heyra undir báða vængina, ekki bara annan. Það er ekki til sá fugl sem flýgur með bara annan vænginn, hann þarf þá báða. Með báða vængi nær fuglinn hæðstu hæðum og ekkert getur stoppað hann.
Sameinumst um það sem þarf að gera. Þannig og aðeins þannig náum við árangri.
15.5.2009 | 18:39
Hugsanlega tvö ár, mjög líklega lengur
Ekki veit ég hvort Samfylkingin hafi verið í einhverju númerakapphlaupi vegna aðildarinnar, en það allavega viriðst vera einhver keppni í gangi þarna úti. Það er ljóst að þegar verið er að ganga jafn langt skref og ESB aðild er, þá á ekki að vera flýta sér svo maður sé á undan hinum eða þessu.
Það sem mér finnst athyglisverðast við þessa frétt er hins vegar ártalið 2011, árið sem Króatía/Croatia fer inn. Olli Rehn, sem hefur mikið talað um góðvild í garð Íslendinga varðandi aðild, segir hér að Ísland muni EKKI fara inn á undan Króatíu/Croatia. Það er meira að segja orðað þannig að "jafnvel þó að sá fræðilegi möguleiki komi upp" að Ísland færi inn á sama tíma. Þarna eru orðin "jafnvel" og "fræðilegur möguleiki" notuð sem segir manni að þetta sé mjög langsótt.
Þá er það komið á hreint. Við förum ekki inn fyrir 2011 og að öllum líkindum síðar. Við erum því að horfa upp á minnst þrjú ár þangað til við erum komin inn í ESB og Guð einn veit hvenær við svo fáum að taka upp euro. Það er því hryllilegt til þess að vita að þeir sem hafa litið til ESB sem lausn okkar mála, eru að horfa til þriggja ára af bulli þangað til hugsanlega, kannski, jafnvel eitthvað gerist.
Við getum ekki litið til ESB sem einhverjar lausnar á því ástandi sem nú er að herja á landsmenn. Við verðum að líta okkur nær, líta til okkar sjálfra. Við erum þau einu sem getum unnið verkið sem þarf að vinna svo við getum losnað undan þessu ástandi sem er nú í þjóðfélaginu. Við verðum að taka höndum saman og hætta að leita að patent lausnum frá útlöndum, lausnum sem hreinlega eru ekki til staðar. Við höfum kraftinn, getuna og segluna til að koma okkur út úr þessu ástandi og við verðum að hefja verkið núna. Við verðum að fylkja okkur saman um það markmið að hjálpa þeim sem hjálpar eru þurfi og koma í veg fyrir að aðrir lendi illa í málunum síðar.
Það er tími kominn til þess að við Íslendingar rísum upp og vinnum verkið saman. Hagur sérhvers okkar er samofinn hvort öðru. Við verðum að átta okkur á þeirri samfélagslegu staðreynd að sterkt samfélag verður aldrei til nema einstaklingarnir sem mynda samfélagið eru sjálfir sterkir. Sterkir einstaklingar sem eru samfélagslega meðvitaðir byggja sterkt samfélag, engir aðrir. Nú er tíminn fyrir Íslendinga að sækja fram til betra samfélags, þar sem hagur heildarinnar er hafður í fyrirrúmi og sjálfhverfur hugsunarháttur og hagsmunapot heyra sögunni til.
Við Íslendingar höfum allt sem til þarf, við verðum bara að byrja að nota það. Við verðum að byrja að nota það NÚNA.
Króatía á undan Íslandi í ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.5.2009 | 13:31
"Stóru" málin enn í forgangi sé ég
Mér væri svo sem alveg sama þó gos yrði skattlagt, enda búinn að vera að draga úr drykkjunni núna undanfarið. Hins vegar tókst mér það án þess að einhver hækkunarpakki væri í gangi.
Það sem menn verða að gæta að, er að núna þarf að gæta að öllu sem hækkað getur vöruverð og þar af leiðandi verðbólgu og verðbætur lána. Ef skattleggja á sykur, þá verður Ögmundur að átta sig á því að sykur er stór hluti af fjöldanum öllum af matvörum, svo sem mjólkurvörum og tilbúnum réttum. Smá skattahækkun á sykur gæti því haft veruleg áhrif á aðra þætti sem kannski virka ekki nálægir svona í fljótu bragði.
Varðandi lýðheilsu, þá held ég að meira skipti góður áróður gegn drykkjunni heldur en hækkandi verðlag. Ofurskattar á áfengi er gott dæmi um það að háar álögur minnka ekki sérstaklega drykkjuna. Reykingar á hinn bóginn sýna vel hvað áróður getur skipt miklu máli í því að breyta um hegðunarmynstur fólks.
Svo er það annað, drykkir eins og appelsínusafi eru líka hættulegir tönnunum og kemur þar til annað en sykurinn. Þess utan er sykur stórt hráefni í appelsínudrykkjum líka.
Það er að mörgu að gæta varðandi svona hækkanir og verður að stíga varlega niður. Hins vegar hélt ég að það væru önnur og viðameiri mál sem lægju fyrir?
Sykurskattur fyrir lýðheilsu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.5.2009 | 13:06
Gengi krónunnar að ná jafnvægi
Í kjölfar októberkrísunnar myndaðist verulegur munur á gengi krónunnar þar sem t.d. euro var nær 300 krónum á meðan hér heima var hún sett í um 160. Nú er farið að draga saman með þessum skráningum og því að komast á jafnvægi á milli krónunnar og erlendra gjaldmiðla.
Þetta jafnvægi er nauðsynlegt til þess að krónan geti farið að styrkjast, en hún mun gera það. Það sem mun spila sterkt inn í þetta er fyrirsjáanleg veiking annarra mynta eins og til dæmis euro. Sumir hluti þurfa að fá sinn tíma til að jafna sig. Krónan er einn þessara hluta, en hún mun jafna sig og ég geri mér vonir um að það verði fyrr en síðar. Ég geri ráð fyrir að í lok sumars verði komið jafnvægi á og styrking krónunnar hafin, svo fremi sem ríkistjórnin klúðri þessu ekki. Því fyrr sem þetta jafnvægi kemur, því fyrr fer krónan að styrkja sig. Hins vegar verðum við að leyfa þessu ferli að hafa sinn gang, því allar þvínganir koma til með að veikja það.
Ástandið á Íslandi er slæmt, en það er ekki svo slæmt að við getum ekki bætt það. Það tekur tíma og vinnu, en við getum komið okkur á lygnari sjó. Við þurfum bara að vinna markvisst að því. Núna er tíminn til að vinna verkið, ekki á morgun eða hinn. Því fyrr sem við förum að vinna að alvöru málum, því fyrr getum við slakað á. Við höfum kraftinn, getuna og segluna, við þurfum bara að endurvekja trúnna á okkur sjálf og hefja verkið.
Krónan styrkist mikið í útlöndum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.5.2009 | 12:44
ESB aðildarumsókn tafði endurreisn en var ónauðsynleg
Íslenskt þjóðlíf er í ákveðinni mótun núna. Kosningarnar síðustu voru nauðsynlegar til að hræra upp í því umhverfi sem var. Niðurstaða þeirra var hins vegar ekki nægjanleg breyting til þess að hún dugi. Eina aflið sem kom nýtt inn hefur fylkt sér í kringum stjórnina sem 100% jáflokkur og það að hið nýja afl skuli sitja með ríkistjórnarflokkunum í nefndarúthlutun segir ýmislegt. Maður veltir því fyrir sér hvort allar breitingarnar muni felast í því að karlarnir á þingi geti mætt með skyrturnar hnepptar niður á miðja bringu eins og einhverjir miðjarðarhafs húlíóar sem bjóða glingur á "special price for you my friend".
Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þetta þing, reyndar hafði ég ekki miklar væntingar til þess en vonaðist til þess að einhver vilji væri til þess að taka á málum heimilanna í landinu. Það eina sem ríkistjórnin hefur gert er að sækja um aðild að ESB og þannig sundrað möguleikanum á samstöðu í þjóðfélaginu. Samstöðu sem er nauðsynleg til þess að við náum að komast áfram.
ESB umsókn kemur til með að tefja endurreisnina, það er óumflýjanlegt. Hún er hins vegar ekki nauðsynleg eins og staðan er núna. Núna þurfum við Íslendingar að taka höndum saman og vinna í sameiningu að því að bjarga þeim sem þarf að bjarga og styrkja þá sem þarf að styrkja. Þannig og aðeins þannig munum við ná okkur upp úr þessum öldudal.
Núverandi ríkistjórn hefur komið í veg fyrir möguleikann á samstöðu til verka og fyrir það mun hún ávallt verða þekkt. Stjórnin sem allir bundu vonir við að myndi hefja björgunaraðgerðir, virðist ætla að bregðast.
Verkefnin eru ærin til úrlausnar og við verðum að hefja endurreisnina strax. Sú endurreisn sem er framundan verður að vera unnin af okkur og okkur einum. Allt sem dregur athygli okkar frá því starfi er því ónauðsynlegt með öllu. Við meigum ekki láta villa okkur sýn með sýndarmennsku og sérhagsmunapoti, því ESB umsóknin núna er ekkert annað. Hún kemur ekki til með að hjálpa með eitt né neitt hér innanlands. Það hefur líka marg oft komið fram hjá svona fólki eins og honum Kaarlo Jännäri, að inngangan í ESB verður ekki þannig að við mætum og fáum rauða dregilinn og kóngameðferð. Þetta verður mikil vinna og tímafrek. Eitthvað sem við þurfum ekki í dag.
Íslendingar eiga að krefjast þess að ríkistjórnin hætti öllum óþarfa og hefji strax vinnu við það að hjálpa fólkinu í landinu. Það þarf að einbeita sér að þeim verkum sem koma að gagni og allt þingið getur verið sammála um. Það hefur enn ekki verið gripið til aðgerða til hjálpar heimilunum, það hefur aðeins verið gripið til aðgerða sem hjálpa fjármálastofnunum til að stoppa upp í götin hjá sér á kostnað landsmanna. Allar aðgerðir sem eiga að vera fólkinu til góða hafa engöngu miðað að því að fjármálastofnanirnar fái sitt og gott betur en það.
Eitt af því sem þarf að gera er að leiðrétta þá hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána sem kom í kjölfar október krísunnar, þeirrar óeðlilegu hækkunar vísitölu sem ekkert gerði nema hækka höfuðstólinn hjá fólki. Þessi hækkun byggir ekki á neinum grunni sem slíkum, heldur hækkuðu lánin án þess að aukin gjöld komu til hjá lánadrottnum. Þetta eru tölur á tölvukerfum sem ekki hafa raunverulega peninga á bak við sig. Það þarf að taka vísitöluna og frysta hana í sömu stöðu og hún var fyrir krísuna og leiðrétta höfuðstólinn sem því nemur. Það mun létta gífurlega á heimilunum og bjarga mörgum sem nú eru í vandræðum. Þetta mun að vísu minnka hagnað fjármálastofnana, en ég er ekki að sjá að þetta sé útgjaldaaukandi fyrir þær. Ég legg til að ríkistjórnin byrji á þessu.
Við Íslendingar erum þeir einu sem getum hjálpað okkur út úr þessu ástandi. Við höfum kraftinn, getuna og segluna til að koma okkur út úr þessu og við verðum að hefja verkið NÚNA. Við þurfum bara að endurheimta trúnna á að við getum þetta og þá er okkur allir vegir færir.
Þingkosningar töfðu endurreisn en voru nauðsynlegar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.5.2009 | 07:09
Gætum okkar hagsmuna sjálf
Með AGS gefandi skipanir hægri og vinstri og norskan seðlabankastjóra, heldur fólk þá að hagsmunir okkar séu hafðir í fyrirrúmi þegar kemur að efnahagsmálum. AGS er að gæta hagsmuna Breta og Norðmenn eru að gæta sinna.
Vextir hafa verið að lækka út um allt sem viðbragð við þeim samdrætti sem átt hefur sér stað út um allan heim. Afhverju er eðlilegt að lækka þar en ekki hér. Verðbólga er komin í næstum ekki neitt og því ekkert því til fyrirstöðu að lækka vextina. Það ætti í raun að vera búið að lækka þá fyrir þó nokkru síðan.
Nú er komið nóg af þessum erlendu "sérfræðingum" sem gera allt annað en að gæta okkar hagsmuna. Tökum málin í okkar hendur. Losum okkur við norska bankastjórann og ef AGS hættir ekki að gæta breskra hagsmuna umfram okkar, þá held ég að nær væri að losa okkur við þá líka.
Við verðum að átta okkur á því að það eru við sjálf sem erum best til þess fallin að gæta hagsmuna okkar. Við þurfum að grípa til aðgerða strax og hefja vinnuna sem þarf að framkvæma til þess að við getum náð okkur út úr þessu ástandi.
Við Íslendingar erum fullfærir að leysa okkar mál sjálfir, án einhverra misvitra útlendinga. Við höfum dugnaðinn, kjarkinn og segluna til að vinna verkið. Hættum að láta ráðamenn villa okkur sýn og tökum til hendinni sjálf. Ef ríkistjórnin er ekki tilbúin að hefja verkið, þá hefjum við það sjálf og losum okkur við stjórnina í leiðinni. Fjarlægð langtímamarkmið er ekki eitthvað sem við eigum að líta til. Við verðum að bregðast við núna og hefja verkið. Tíminn er núna, ekki á morgun, næstu viku, næsta mánuði eða næsta ári.
Það er fólk í landinu sem þarf aðstoð og við verðum að veita hana strax áður en ástandið versnar. Það er kominn tími á að fólkinu í landinu verði bjargað. Rísum upp og sameinumst um að vinna verkið sem þarf að vinna. Við höfum allt sem til þarf, við verðum bara að styrkja trúnna á okkur sjálf.
Sitjum ekki undir tilskipunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.5.2009 | 17:47
Ekki fer nú mikið fyrir þessu hjá þeim, opið í báða enda
Lögin sem samþykkja á, eru ekki upp á marga fiska og hægt að túlka hægri og vinstri, sérstaklega þegar kemur að fyrirvörum.
Þó er minnst á fyrirvara í þessu og þeir nefndir:
- Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir vatns- og orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra
Samkvæmt Lissabon sáttmálanum, sem við verðum að samþykkja líka í ferlinu, þá er fullt forræði yfir þessum hlutum ekki á hreinu.
- Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar og hlutdeild í deilistofnum og eins víðtækt forsvar í hagsmunagæslu í sjávarútvegi í alþjóðasamningum og hægt er.
Við komum til með að þurfa að lúta sameiginlegri fiskveiðistefnu og þó svo hið ótrúlega gerðist og við fengum einhverjar undanþágur, þá er öruggt að alþjóðasamningar og samstarf heyrir undir Brussel en ekki okkur.
- Að tryggja öflugan íslenskan landbúnað á grundvelli fæðuöryggis og matvælaöryggis
Hæpið að þetta fáist í gegn, en gæti gengið sem eitthvert útkjálkaákvæði. Verður gaman að sjá hvað fengist úr því.
- Að tryggja lýðræðislegan rétt til að stýra almannaþjónustu á félagslegum forsendum
Þetta heyri undir grundvallarboðvald Brussel og ekki miklar líkur á að þarna fáist eitthvað sérstakt í gegn.
- Að standa vörð um réttindi launafólks og vinnurétt.
Annað af þessu fjórfrelsisdæmi og því hæpið að einhver sérstaða fáist fyrir það.
Þá er það semsagt komið á hreint fyrir þá sem vildu ekki sækju um aðildild að bandalaginu, heldur bara fara í aðildarviðræður og sjá til. Við erum semsagt korter frá aðildarumsókn.
Það sem vekur hjá manni sorglega kátínu er þó fullyrðingin:
Ísland sem Evrópuþjóð vill leggja sitt af mörkum við uppbyggingu lýðræðislegrar Evrópu sem grundvallast á félagslegu réttlæti, jafnrétti og virðingu fyrir manngildi og umhverfi. Hlutverk Evrópu er að vera hornsteinn mannréttinda í heiminum og ýta undir stöðuleika, sjálfbær þróun, réttlæti og velmegun um allan heim
Það er nefnilega þannig að lýðræðið er ekki í hávegum haft innan stjórnkerfisins og ef þeir mættu ráða, þá væri það ekkert. En meðan verið er að koma þessu sambandsríki á, þá verða þeir að þola það um sinn að lýðurinn fái einhverju ráðið. Eina vandamál Brussel er þegar samþykkja á nýja sáttmála, en þeir hafa samt fundið leið með Lissabon. Aðrar kosningar vegna ESB eru svo ekki vandamál þar sem fólk almennt er svo áhugalaust um þetta, sökum þess að það áttar sig á valdaleysi sínu.
Þetta eru háleitar hugmyndir, verst að þær eru ekki dýru verði keyptar í Brussel.
ESB-tillagan birt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.5.2009 | 10:39
Nú var tími til að sameina, ekki sundra
Við Íslendingar stöndum á krossgötum. Við búum við efnahagsástand sem hefur komið mjög illa við marga samlanda okkar. Heilu fjölskyldurnar eru að glata öllu sínu og sundrung og fátækt bíður þeirra sem ekki verður veitt aðstoð. Aðrir eru á mörkunum með að bjargast.
Á tímum þegar mestu skiptir að við Íslendingar stöndum saman og vinnum saman að lausn þeirra verkefna sem bíða okkar sem þjóðar, þá skellir ríkistjórnin fram slíkri sprengju að ekki var neitt annað mögulegt en að hún myndi kljúfa þjóðina í herðar niður. Íslensku þjóðina þurfti að sameina til verka, ekki sundra.
Við stöndum frammi fyrir því að koma til bjargar heimilunum og einstaklingunum í þessu landi. Við verðum að sameinast um það eins og flest annað sem gera þarf hér og nú. Aðild að ESB er ekki eitthvað sem þarf að gerast hér og nú þar sem afleiðingar þess munu ekki koma fram fyrr en að mörgum árum liðnum. Hér erum við að sjá verk ríkistjórnar sem kærir sig kollótta um hag einstaklinganna í landinu, heldur leggur í verk sem þjónar þeim eina tilgangi að þóknast einhverri evrópskri sósíal demókratískri Útópíu. Hafi þau svona mikinn áhuga á þessu bákni, þá legg ég til að þau flytji bara þangað og láti okkur hin í friði til þess að vinna þau verk sem þarf að vinna.
Ég geri kröfu til þess að ríkistjórnin hætti þessu rugli og fari að vinna vinnuna sína. Ég krefst þess að það sé gætt hagsmuna einstaklinganna í þessu landi, einstaklinganna sem eru grunnurinn að tilveru þess. Án einstaklinga verður ekkert, hvorki kerfiskarlar eða bankar. Fólkið í landinu á rétt á því að það sé unnið í þeirra málum á sanngjarnan hátt, ekki þannig að þau séu skiptimynt í einhverjum "lausnum" til handa fjármálakerfinu og öðrum fyrirtækjum svo þau geti reddað klúðrinu sínu. Fólkið á rétt á því að tekið sé tillit til þess
Þessi áhersla Samfylkingarinnar á inngöngu í ESB sem lausn okkar mála, sýnir bara þá vantrú sem hún ber til fólksins í landinu. Samfylkingin hefur sýnt að hún telur fólkið í landinu ekki hafa þá gáfu sem þarf til að stjórna sér sjálft.
Nú er kominn tími til þess að fólkið í landinu rísi upp og sýni þessum ráðamönnum að við erum fullfær um að bjarga okkur sjálf. Við Íslendingar þurfum ekki einhverja útlendinga, sem ekki geta sjálfir tekið til í sínum garði, taka til í okkar. Þau verk sem þarf að vinna þurfum við Íslendingar að vinna sjálfir og getum ekki gert kröfum til þess að aðrir vinni fyrir okkur.
Ert þú tilbúinn að horfa framan í aðra eftir að þú hefur skriðið til þeirra í ölmusuvon, þiggjandi af þeim það sem ÞEIR telja að þér beri. Ég er ekki tilbúinn til þess. Ég vil vinna verkið sjálfur.
Ekki hvíli leynd yfir samkomulagi stjórnarflokka um ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.5.2009 | 10:21
... og þá Davíð líka
Og Steingrímur sagði
Nútímasamfélag þrífst ekki án fjármálaþjónustu og því var til þeirra aðgerða gripið, sem gert var í haust. Nauðsynlegt þótti að tryggja áframhaldandi bankaþjónustu og greiðslumiðlun og með miklu átaki Seðlabanka og fjármálafyrirtækja og starfsmanna tókst það. Eiga þeir hrós skilið fyrir það
Semsagt bankarnir og Seðlagankinn héldu bankalínunum opnum og Steingrímur hrósar þeim fyrir það. Var Davíð ekki seðlabankastjóri á þessum tíma? Á hann þá líka hrós skilið.
Ég man eftir að hafa horft á viðtal við Davíð fyrir kosningar þar sem hann sagði Seðlabankann hafa staðið sig vel í eftirmála októberklúðursins, hann hafi til að mynda séð til þess að Íslendingar gátu flutt fjármagn til og frá landinu og þannig ekki lent í vandræðum erlendis. Menn bauluð á þetta hjá Davíð og sögðu hann vera að slá sig til riddara, en núna kemur Steingrímur og segir þetta. Maður á erfitt með að skilja þessa menn.
Það hefði átt að vera búið að bregðast við fyrir löngu síðan. Þeir sem fóru með völdin, kerfiskarlar, ráðherrar og þingmenn áttu að hafa þrýst á aðgerðir. Þeir vissu allir hvað var í gangi. Ég vissi það og því finnst mér ólíklegt að þessir aðilar skuli ekki hafa vitað það líka. Málið er að þeir voru bara svo blindaðir af bjarma góðærisins að þeir neituðu að bregðast við því. Þetta var allt of gott fyrir pólitíkusana, þeir þurftu svo lítið að hafa fyrir hlutunum.
Enn sem fyrr þá stendur það á fólkinu í landinu að taka á sig klúðrið. En það er líka fólkið í landinu sem kemur til með að laga ástandið. Við höfum kraftinn, getuna og segluna til að vinna þau verk sem vinna þarf og við verðum að gera það núna. Við þurfum að endurvekja hjá okkur trúnna á okkur sjálf og getu okkar til að standa sama til að leysa þessi verkefni.
Það er komið nóg af sjálfsvorkun, minnimáttakennd og reiði. Þessar tilfinningar leysa ekkert. Rísum upp til verka og komum okkur út úr þessu ástandi og sýnum heiminum hvers Íslendingar eru megnugir. Það er okkar að leysa úr okkar málum og okkar einna. Byrjum að vinna.
Hrunið eins og Eyjagosið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.5.2009 | 09:55
... og svo komu erlendu "sérfræðingarnir"
Það er ótrúlegt hvernig þessir erlendu "sérfræðingar" tala um okkur hérna á Íslandi. Við erum með allt í rugli og þurfum að gera hitt og þetta, sérstaklega gang ESB og taka upp euro. Ég veit ekki betur en það sé allt í rugli út um allan hinn vestræna heim og þá spyr maður sig hvað voru þessir erlendu "sérfræðingar" að gera heima hjá sér. Þeir hafa líklegast verið of uppteknir af því að stúdera Ísland, gerir ég ráð fyrir.
Íslenskir bankamenn höguðu sér eins og vitleysingar og þess vegna erum við í þessum vandræðum. Ríkistjórnin lét þá svo komast upp með þetta þar sem hún hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast og vildi í raun ekki vita það þar sem henni hentaði ágætlega þessi uppsveifla. Málið er hins vegar að íslenskir banka- og ráðamenn voru ekkert að stunda neitt frumkvæði þegar að þessu kom, heldur voru þeir að gera nákvæmlega það sama og allir aðrir í hinum vestræna heimi. Þess vegna er búið að þjóðnýta banka í svo til öllum löndum hins vestræna heims og dæla peningum í hina sem klúðruðu minna, en þó helling. Þetta var í gangi allstaðar og að láta það út úr sér að við höfum verið eitthvað öðruvísi en aðrir, er bara flótti frá því sem er að gerast. Okkar menn klúðruðu þessu, en klúðrið var bara út um allan heim.
Ástæðan fyrir því að þetta fór svona miklu verr hjá okkur á undan hinum, má að mestu kenna viðbrögðum Breta og hryðjuverkalögunum. Svo hjálpaði ekki "vinskapur" Evrópuríkjanna "vina" okkar þegar þeir höfðu í hótunum til þess að standa með Bretum. Það er hins vegar mér til huggunar, að ég tel okkur hafa komið verr út en aðrir, ekki vegna þess að við vorum eitthvað verri, við fengum skellinn bara fyrr. Ég hef á tilfinningunni að þegar skellurinn komi í Evrópu og Bandaríkjunum, þá muni staða okkar ekki verða svo slæm í samanburði við hina. Við erum búin að taka skellinn, þeir eiga eftir að fá hann.
Kostur okkar er hins vegar sá að við erum lítið hagkerfi sem á mun auðveldara með að ná sér á strik aftur heldur en hin stærri og þyngri. Til dæmis er Írland og Spánn að súpa seyðið af því að hafa tengt sig stærra hagkerfi ESB landanna og mun það koma í veg fyrir að þau geti brugðist við á snöggan og lipran hátt. Þegar hratt þarf að vinna, þá er betra að vera minni og sneggri, heldur enn stærri og þyngri.
Nú er málið fyrir okkur Íslendinga að taka höndum saman og fara að vinna að því að leysa þau verkefni sem bíða okkar. Þegar því er lokið getum við dundað okkur við eitthvað annað, svo sem umsókn að ESB.
Verkin sem þarf að vinna verðum við að vinna sjálf. Við höfum kraftinn, getuna og segluna til þess að vinna þessi verk. Við verðum bara að endurvekja trúnna á að við getum það. Það er engin skömm að því að hafa gert mistök. Það er hins vegar skömm að því að gangast ekki við þeim, laga þau og læra af þeim. Við Íslendingar eigum núna að hefjast handa við að vinna verkið, standa saman og styðja hvort annað í þeirri vinnu sem framundan er. Sum okkar eru að koma mjög illa út úr þessu ástandi og við sem samfélag verðum að standa saman og hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi. Við eigum einnig að vinna að lausnum sem koma í veg fyrir að aðrir lendi verr í því en komið er. Þetta er eitthvað sem við verðum að gera sjálf og enginn getur gert fyrir okkur.
Tími 70% reglunnar er liðinn á Íslandi, rísum upp og vinnum okkur út úr þessu ástandi. Við erum fullfær um að gera það, við verðum bara að trúa því.
Hefðu hrunið fyrr eða síðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |