5.6.2009 | 11:52
Förum varlega í samningana
Ég hef ekki talið Samfylkinguna besta til þess að leiða til lykta samningana við Breta og Hollendinga vegna Icesave. Ástæðan er einfaldlega sú að ESB vilji Samfylkingarinnar er slíkur að hún gæti samið af sér til þess eins að fá gott veður inn í ESB.
Alltaf er talað um brúttó skuldir okkar, en aldrei reynt að fá fram nettó. Bretar stálu af okkur fjöldanum öllum af eignum og það er ekki hægt að skuldbinda ríkið áður en að búið er að fá á hreint hverjar þær voru. Við verðum að vita nettó stöðuna áður en að samið er.
Bretar og Hollendingar, sem og allur hinn vestræni heimur hefur þurft að taka á sig meiri skuldir. Það er hins vegar ekki okkar vandamál. Auknar skuldir Breta og Hollendinga er þeirra mál, svo fremi að ekki sé um að ræða skuldir sem eru tilkomnar vegna beinna aðgerða íslenska ríkisins.
Við þurfum að hugsa um að bjarga okkar hag. Það er það eina sem gildir. Ríkistjórnin þarf að fara að sinna einstaklingunum í þessu landi, einstaklingunum sem eru kjarninn í samfélaginu. Án þessa kjarna verður ekkert samfélag.
Hugmyndir um lausn Icesave-deilu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.6.2009 | 11:39
Afvegaleidd ríkistjórn
Ég get alveg verið sammála Jóhönnu með vaxtalækkunina sem næsta engin var. Hins vegar veltir maður fyrir sér hver ræður för. Var ekki Davíð rekinn vegna þess að hann vann ekki í samræmi við vilja ríkistjórnarinnar meðal annars?
Það er líka spurning þetta með stýrivextina. Þeir eru ekki sagðir geta farið neðar þar sem verðbólgan bjóði ekki upp á það. Hins vegar spyr maður sig um ábyrgð ríkistjórnarinnar í þeim málum með tilliti til síðustu gjörða hennar. Það eru settar fram hækkanir á gjöldum til ríkissjóðs, gjöldum sem vafasamt eru að skili nokkru í kassan, sbr. hækkun á gjöldum á nýja bíla þegar engir nýjir bílar eru hvort eð er fluttir inn. Hækkanirnar koma hins vegar með fullum þunga inn í vísitöluna sem hækkar verðbólguna.
Svo segist Jóhanna vonast til að endurreisn bankanna taki við sér. Auðvitað gengur betur að bæta höfuðstól bankanna þegar verðbætur eru keyrðar upp úr öllu valdi með ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Það virðist nefnilega vera þannig að bönkunum skuli bjargað hvað sem kostar og sérstaklega með því að slíta af einstaklingum sem mest fjármagn. Heimilin skuli blæða fyrir sukkið í bönkunum. Staða bankanna er tilkomin engöngu vegna lélegs rekstur þeirra og ætla að fjármagna þá með álögum á almenning, bæði beint og óbeint, nær ekki nokkurri átt.
Ríkistjórnin á að leita leiða við að endurreisa fjölskyldurnar í landinu, ekki bankana. Ef einstaklingum er ekki gert kleift að lifa, koma bankarnir ekki til með að gera það heldur hvort eð er. Ríkistjórnin er blinduð af þeirri villu að halda það að allt komi til með að blessast ef bankarnir verði endurvaktir í gömlu myndunum og við göngum í ESB. Þetta er hugmyndafræði sem kemur ekki til með að bjarga neinu núna.
Ríkistjórnin þarf að hætta að hlusta á þessa sérfræðinga sem vilja setja upp gamla kerfið aftur og fara að leita nýrra leiða. Almenningur hefur verið að tala um nýja Ísland og vill sjá það. Almenningur vill ekki sjá gamla Ísland með gamla ruglinu, í nýjum umbúðum.
Jóhanna og aðrir þingmenn eiga að gæta hagsmuna þeirra sem kusu þau í þessi hlutverk, ekki erlendra fjármagnseigenda og bjúrokrata í Brussel.
Allar forsendur fyrir lækkun vaxta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.6.2009 | 21:03
Sko Kínverjana
Það er ekki nóg með að Kínverjar séu búnir að vera duglegir að fjármagna stríðin fyrir BNA nú upp á síðkastið, með kaupum á ríkisskuldabréfum, heldur virðast þeir núna vera farnir að framleiða fyrir þá hergögnin.
Hvað kemur næst hjá þeim?
Kínverjar kaupa Hummer | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.5.2009 | 18:23
Hættum að lufsast
Það kemur manni svo sem ekki á óvart að ekki skuli vera upplýst um neitt það sem þarna er á ferðinni. Það er nú bara þannig að ekkert er gert á hinu háa Alþingi nema það komi að einhverju leiti til með að hjálpa okkur inn í ESB.
Hvers konar félagsskapur er það sem við erum að sækjast í, félagsskapur sem hótar að eyðileggja vinnu með AGS og umsóknarferli í ESB nema við lufsum út í horn og látum misnota okkur. Ég persónulega tel okkur ekkert hafa þarna inn að gera.
Það er líka alveg augljóst að það er enginn að hjálpa okkur baun. Við fáum úrræði sem aðeins sökkva okkur dýpra í fenið og eru aðeins ætluð til bjargar fjármálastofnunum hér heima og erlendis. Ég tel okkur engu hafa að tapa. Hættum að daðra við ESB eins og tík á lóðaríi og sendum AGS heim með þessi lán sem hann hefur hent til okkar á okurvöxtum. Lán sem við erum hvort eð er ekkert að nota.
Hættum að horfa til útlanda, enda er þar enga hjálp að fá. Horfum hingað innanlands og lítum til þeirra verka sem þarf að vinna. Útlendingarnir, sem ekkert gera nema hóta okkur, geta bara átt sig. Það eru líka fleiri útlendingar til en þessir evrópsku, útlendingar sem ekki eru að hóta okkur.
Förum núna að gera hlutina sem hjálpa okkur í stað þess að fórna öllu hér innanlands í von um eitthvað sem í raun virðist ekki vera til staðar. Ég spyr mig hreinlega, hvers virði er að lufsast inn í ESB ef landið er auðnin ein. Þeir sem ekki vilja, eða hafa trú á þessu landi og þessu samfélagi, geta bara keypt sér miða með Flugleiðum og farið. Ekki er ég að syrgja þá.
Ísland býr yfir miklum auðlindum og harðduglegu fólki. Við getum leyst okkar mál sjálf, við verðum bara að hafa trúnna á okkur til þess. Ég persónulega er ekki í nokkrum vafa um getu okkar og hæfni. Við verðum bara að gera hlutina á okkar forsendum ekki annarra. Við erum Íslendingar, en þeir sem telja sig vera eitthvað annað og betra, geta bara farið og leitað uppi sína líka.
Þingmenn fá ekkert að vita | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.5.2009 | 17:57
Fjármögnun bankakerfisins
Alveg yndisleg þessi ríkisstjórn. Það á að hækka skatta og lækka laun, þannig að ríkisjóður fær í sinn vasa næsta það sama og áður. Eina breytingin er að fólk hefur minna á milli handanna.
Svo eru það þessar hækkanir á gjöldum. Nú þegar enginn kaupir nýja bíla, þá þýðir það ekki heldur neinn pening í ríkiskassan. Svo er fólk farið að spara við sig aksturinn þannig að minni akstur þýðir minni tekjur til ríkissjóðs og áfengið, jæja fólk fer bara að brugga aftur. Ríkissjóður er að fá næsta ekkert út úr þessu.
Það sem hins vegar gerist er að vísitalan hækkar og verðbæturnar á lánin fara upp aftur. Með vísan til þess að ríkið fær lítið sem ekkert út úr þessu, en verðbæturnar hækka, þá spyr maður sig hvort ráðamenn séu svona arfa heimskir eða hvort það liggji eitthvað annað þarna að baki.
Ég sé ekki betur en að verið sé að nota hækkanirnar til þess að fjármagna bankakerfið. Það hagnast enginn á þessum breytingum nema bankarnir sem fá hærri verðbætur til sín, því ekki er þetta kostnaðarauki fyrir þá. Sem sagt þetta er ekki gert vegna heimsku stjórnvalda, heldur er þetta meðvituð leið til að fjármagna bankana á kostnað almennings.
Þessi ríkistjórn er að gera allt vitlaust, eins og sú síðasta. Það hrikalega við þetta allt er að lausnin á vanda okkar er í raun mjög einföld. Það er hins vegar í andstætt hagsmunum ákveðinna þrýstihópa og því ekki framkvæmt. Áhættufjárfestingar eru ekki lengur áhættufjárfestingar, nema þegar kemur að þeim sem stunda ekki fjárfestingar. Þeir gjalda áhættunnar sem stóðu hjá á meðan allt er gert til að bjarga þeim sem tóku þessa meintu áhættu.
Ráðamenn verða að átta sig á því að lífið í landinu byggir á þeim einstaklingum sem þar búa, ekki þeim fjármálafyrirtækjum sem eru til staðar.
Lýsa furðu á skattahækkunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.5.2009 | 10:28
Taktik hjá Samfylkingunni?
Össur fagnar því að Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn ætli að koma með sína eigin tillögu. Auðvitað, því nú eru báðar fylkingar á þingi að biðja um sama hlutinn, aðild að ESB. Spurning hvort það hafi verið taktik hjá Samfylkingunni að koma með tillögu sem væri þannig gerð að stjórnarandstaðan kæmi fram með "betri" tillögu. Þá er erfitt að hafna henni á þingi og Samfylkingin búin að ná sýnu fram. Henni er sama um textann í tillögunni, hún vill bara fara inn. Það er hvort eð er hægt að semja af sér allar kröfur þegar við samningaborðið er sest. Hins vegar rennur mig grunur til að Bjarni sé ekki svo fjarri hugmyndinni að ESB þó flokkurinn sé á annarri skoðun. Spurning hvort hann gefi eftir og komi með eitthvað sem gæti hjálpað til við inngönguna.
ESB kemur ekki til með að hjálpa eitt né neitt hvað varðar þau mál sem leysa þarf núna. Þetta er ákvörðun sem hefur með framtíð Íslands að gera og má ekki vera keyrð áfram á einhverjum ofurhraða.
Þegar litið er til inngöngu í ESB er ekki hægt að horfa til þess sem þetta samband er í dag, hvað þá fyrir tuttugu árum þegar þetta var einhverskonar tolla- og viðskiptabandalag. Innganga er ákvörðun til framtíðar og óafturkræf hvað það varðar. Við verðum því að líta til þess hver sé stefna þeirra sem öllu ráða og framtíðarsýn. Lissabon sáttmálinn gefur fyrirheitin um framtíðina.
Lissabon sáttmálinn var gerður til að koma í veg fyrir lýðræðislega ákvörðunartöku í sambandinu. Þetta var staðfest af verkstjóra áætlunarinnar sem sagði hana einfaldlega stjórnarskrána sem einginn vildi, í nýju formi sem ekki þyrfti að bera undir þjóðaratkvæði. Stjórnarskráin var svo fyrirbæri sem átti að festa í sessi hugmyndina um Bandaríki Evrópu, fyrirbæri sem ætti að lýkjast BNA.
Það er framtíðarsýn ESB elítunnar að stofna alríkissamband með stjórnina í Brussel þar sem lýðræðið er fótum troðið. Hér heima erum við að fá smjörþefinn af þessu þar sem keyra á þetta mál í gegn undir hótunum um eilífa vítisvist á jörðu, samþykkjum við ekki aðild.
Ég persónulega vill frekar búa hér heima í landi sem er frjálst og fullvalda þrátt fyrir gallanan sem því fylgir, heldur en í einhverju andlitslausu bákni þar sem lýðræðið er fótum troðið og hótunum beitt ef maður hlýðir ekki.
Hægt að ná samstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.5.2009 | 16:28
Af gengi og erlendum áhættufjárfestum
Nú er gengið að lagast, í gær versnaði það. Það fer svona upp og niður í þessum gjaldeyrishöftum, en það undarlega við þetta allt saman eru áhyggjur ríkistjórnarinnar.
Ekki er mikið verið að hafa áhyggjur af því hvernig þetta liggur á almenningi, en áhyggjurnar eru verulegar gagnvart þeim erlendu áhættufjárfestum sem fjárfestu í íslenskum krónubréfum eða skuldabréfum. Það er allt gert til þess að þeir komi sem best frá þessu.
Þetta eru áhættufjárfestar sem stunduð áhættufjárfestingar og verða bara að bera þá áhættu. Þeir selja bréfin sín eða innleysa og fá krónur fyrir það. Annað er ekki okkar vandamál. Ef þeir telja gengið ekki nógu gott, þá bara sleppa þeir að skipta þessum krónum sínum og ef þeir vilja euro eða dollara, þá bara sorrý það eru gjaldeyrishöft í gangi hérna. Ef þeir eru eitthvað ósáttir, þá á bara að benda þeim vinsamlegast á að þetta var áhættufjárfesting og ef þeir eru ekki tilbúnir til þess þá bara eiga þeir að gera eitthvað annað við peninginn sinn.
Við skulum hætta að hafa áhyggjur af þessum mönnum og hvernig við getum bætt þeim þennan "skaða" og fara í staðinn að skoða hvernig við getum hjálpað Íslendingum sem standa illa vegna gengisskráningarinnar.
Svo er kannski ekki slæmt að hafa lágt skrifað gengi, þar sem við fáum meira fyrir útflutninginn okkar.
Gengi krónunnar styrktist um 1% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.5.2009 | 15:48
Er það nokkur furða?
Við höfum verið alin upp við það að bankar séu eitthvað sérstakt fyrirbæri, þegar í raun þeir eru ekkert annað en fyrirtæki sem veita fjármálaþjónustu í þeim tilgangi að hagnast á henni. Þeir eru í raun ekkert heilagari en hvert annað fyrirtæki og ætti ekki að vera litið á það neitt öðruvísi.
Ég hringdi í fyrir stuttu í bankann minn og eftir að ég var búinn að fara í gegnum innganginn á símsvaranum, þá var mér tilkynnt, vélrænt að sjálfsögðu, að allar línur væru uppteknar, en ég yrði settur í samband við ráðgjafa strax og þeir losnuðu. Ráðgjafi er nokkuð sem maður heyrir notað í tengslum við banka og tryggingafélög, en tryggingafélag er reyndar líka svona "spes" fyrirtæki. Þetta hugtak í tengslum við starfsmenn banka, er náttúrulega bara eitt þessara atriða sem notuð eru til að villa okkur sýn. Starfsmenn banka eru ekki ráðgjafar, þeir eru einfaldlega sölumenn. Í Bónus eða Krónunni er ekki talað um afgreiðsluráðgjafa, heldur starfsmann á kassa.
Ráðgjafi er einstaklingur sem upplýsir viðskiptavininn um það sem sé honum fyrir bestu, óháð hagsmunum vinnuveitanda ráðgjafans. "Ráðgjafar" í bönkum eru hins vegar bara sölumenn sem eru að reyna að fá viðskiptavinina til að kaupa einhverja af þjónustum bankans. Ég efast stórlega um að einhver hafi fengið þau ráð í Íslandsbanka að best væri að leggja peningana inn á bók í Kaupþing. Bankar eru ekki með ráðgjafa, þeir eru með sölumenn, svo einfallt er það.
Nú þegar almenningur hefur verið upplýstur um það hvernig kompaní þessir bankar raunverulega eru, þá er ekki furða að það skuli vera borið lítið traust til þeirra. Nú er kominn tími til að taka allt kerfið hjá okkur til gagngerar endurskoðunar. Við erum lítið samfélag sem erum fljót að taka nýjar hugmyndir og framkvæma þær. Verum fyrst til að koma með bankakerfi sem þjónar okkur í staðin fyrir að ríghalda í kerfi sem við þjónum.
Fáir treysta fjármálakerfinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.5.2009 | 11:49
En tóku þeir ekki lánin og gerðu samningana við gömlu bankana?
Þetta er ótrúlegt, menn bara viðurkenna ekkert nema það sé þeim til góða. Það var ekki mikið vandamál hjá þeim þegar þeir tóku lánin og gerðu þessa samninga, einmitt við gömlu bankana og þá helst Kaupþing, sem vildi svo heppilega til að þeir áttu megnið í.
Ég er að hugsa um að viðurkenna ekki bankana, bæði gömlu og nýju auk þess sem ég viðurkenni ekki ríkistjórnina. Þannig ætti ég að losna við að borga lánin mín og skattar heyra sögunni til. Frábært.
Það er ótrúlegt hvað þessir menn eru að gera. Ég legg til að almenningur taki þá til fyrirmyndar, en þá mun líklegast eitthvað gerast í þeim málum sem almenningi stendur næst.
Exista viðurkennir ekki gömlu bankana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.5.2009 | 11:43
Hvað gerist í BNA
Það verður forvitnilegt að sjá hvað gerist í BNA, en bandarískir markaðir hafa ekki mikið svigrúm fyrir neikvæðar fréttir. Bandaríkin eru á mjög mikilvægum punkti þegar litið er til SP500 vísitölunnar og geta lækkanir núna næstu daga orðið til þess að bandaríkst efnahagslíf fellur mun neðar í samdráttinn sem þegar er farinn að hafa gífurleg áhrif á alla í landinu.
Komi hins vegar til þess að vísitalan fari að hækka verulega, þá er markt sem bendir til þess að botninum sé náð í BNA, spurningin er bara hvora leiðina markaðurinn fer.
Það eru áhugaverðir tímar framundan.
Lækkun á hlutabréfamörkuðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.5.2009 | 11:38
Vantraust á bresk og þýsk stjórnvöld
Það er nokkuð athyglisvert að sjá í þessari frétt að skuldabréfaútboð Breta og Þjóðverja hafi ekki skilað sér. Þegar ríki gefa út skuldabréf og kaupendur finnast ekki, þá þýðir það einfaldlega að það er ekki borið traust til þeirra þjóðfélaga/ríkistjórna sem að þeim standa.
Það kemur mér svo sem ekki á óvart að bresk skuldabréf seljist illa, en að þýsk bréf seljist ekki, er nokkuð athyglisvert þar sem Þýskaland hefur verið talið sterka landið í ESB. Ef ekki er borið meira traust til Þýskalands en þetta, þá veltirmaður fyrir sér stöðunni í hinum löndunum. Þetta styrkir í raun þá tilfinningu mína að ESB ríkin standi á brauðfótum og hugsanlega megi búast við miklum tíðindum næstu vikur og mánuði.
Ég er reyndar á því að Bandaríkin standi á tímamótum hvað varðar stöðu samdráttarins hjá þeim. SP500 vísitalan er í þannig stöðu að hún verður annað hvort að hækka sig núna og þá fylgi því botninn á samdrættinum, eða þá að hún lækki og því muni fylgja mun meiri samdráttur og ástand í Bandaríkjunum sem ekki hefur þekkst lengi, ef þá nokkurn tíma. Falli Bandaríkin neðar, þá fylgir Bretland á eftir þeim og aðrar ESB þjóðir líklega í kjölfarið.
Framundan eru spennandi tímar. Kannski þurfum við ekki að nálgast hina, þeir bara koma til okkar.
Þurfa 2.000 milljarða dala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.5.2009 | 15:40
Gott að fá dagsetningar
Það er gott að fá þessar dagsetningar, þá veit maður allavega það. Hvernig væri svo að upplýsa aðeins meira um þetta fyrirbæri.
Einhvern vegin finnst manni að nú sé verið að halda til fundar þar sem við vitum ekkert nema nafnið á þessum reikningum sem eru til umræðu. Við vitum ekki hversu mikið við skuldum og við vitum ekki hversu mikið við eigum af eignum sem Bretar tóku frá okkur. Þannig að við vitum í raun ekkert sem við getum samið um. En við vitum þó hvenær við eigum að mæta til að semja um eitthvað sem við vitum ekki hvað er. Frábært.
Við verðum að fara varlega í þessar viðræður, því það gæti orðið okkur verulega dýrt að flýta okkur um of. ESB er ekki þess virði að við getum klúðrað þessu máli.
Viðræður við Breta 2-3. júní | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.5.2009 | 15:33
Loksins, loksins, loksins
Þá er hún loksins komin fram. Tillagan um að gangast undir vald ESB. En sú sæla að þetta skref hafi verið stigið. Nú horfum við framá bjartari tíð með blóm í haga.
Það verður alveg frábært að fara inn í ESB. Samkvæmt því sem manni er tjáð þá munum við losna við þessar sveiflur í efnahaginum þar sem skiptast á rokkna uppgangur og svo plússandir niðurgangur. Svo erum við að tala um stöðugan gjaldmiðil, kannski eftir 30 ár og þá erum við alveg laus við vanda sem tengjast rangt skráðu gengi. Atvinnulífið mun rísa upp frá dauðum og allir dansa um í 100% plús vinnuhlutfalli og smjörið sem drjúpa mun af hverju strái, vellur inn um gluggana hjá okkur og beint á brauðið, sem að sjálfsögðu verður innflutt evrópskt gæðabrauð tollfrjálst og alle sammen. Þetta verður bara frábært.
Nú þurfum við bara að hringja í vini okkar á Írlandi og Spáni og upplýsa þá um þá gósentíð sem bíði okkar, en við verðum samt að minna þá á að þeir séu nú þegar í ESB og með euro svo þeir geti losað um þennan misskilning hjá sér að þeir standi í einhverri kreppu. Það getur nefnilega ekki verið að þeir séu í sama skít og við, því þeir eru í ESB. Þetta er bara tómur misskilningur hjá þeim. Það getur ekki verið að þeir eigi í lausafjárkrísu og vandræðum með útflutting vegna alltof hátt skrifaðs gengis. Það getur bara ekki passað.
Það er nefnilega spurning hvernig umsókn um ESB getur leyst vanda okkar, þegar ESB kom ekki í veg fyrir þennan vanda hjá aðildaríkjum. Svo veltir maður því fyrir sér þessum rökum sem segja að við fáum allan stöðugleikann og nópróblem umhverfi, þegar maður horfir á Írland og Spánn, en þar er allt að gerast það sem okkur hér heima er sagt að muni ekki gerast hjá okkur, verði að aðild okkar að ESB. Afhverju á það ekki að gerast hjá okkur ef það gerist hjá þeim? Það er eitthvað þarna sem ekki er að passa saman.
Annars óska ég ESB sinnum til hamingju með að hafa náð þessum áfanga, en hann mun að sjálfsögðu verða studdur af öllu batteríinu þannig að vinnan við lausn efnahagsvandans mun tefjast eitthvað í viðbót. En það verður örugglega ókey því við erum á leið í ESB.
ESB-tillaga lögð fram á þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.5.2009 | 09:01
Er ekki betra að vita hvað varan kostar áður en hún er keypt?
"Það er búið að vinna mjög mikið í þessu máli", en samt er ekki vitað hvað heildar skuldin er. Alskonar óvissuþættir eins og viðmiðunargengi osfrv. Samt erum við bara millimetra frá því að ná samningum um það að greiða þetta. Ég er hræddur um að dagsskipunin sé, samþykkja bullið frá Bretum svo við getum fengið þá til að ýta okkur inn í ESB. Þetta er ekki lengur spurning um eitthvað landráð, heldur lyktar þetta meira og meira af landsölu.
Við verðum að stíga varlega niður þegar kemur að IceSave. Við vitum augljóslega ekkert hvað þarna er í spilinu og verðum að fá staðreyndir upp á borðið áður en við tökum nokkrar ákvarðanir, hvað þá að ganga frá samningum.
Í mínum huga er þetta einfallt. Við, þ.e. bankarnir, áttum eignir þarna úti, eignir sem Bretar stálu. Þarna voru líka útlendingar sem áttu innstæður hjá bönkunum. Við verðleggjum eignirnar sem Bretarnir stálu og svo innlánin. Mismunurinn, ef hann er einhver, er það sem semja á um. Auðvitað ber okkur að standa við skuldbindingar, en við eigum ekki að ganga lengra en það. Bretar eiga ekki inni hjá okkur neinn greiða.
Að ganga frá IceSave í einhverjum undirlægjuhætti svo við getum skriðið inn í ESB er ekki rétta leiðin. ESB er ekki lausn á einu né neinu sem við þurfum að kljást við í dag. ESB kom ekki í veg fyrir að Spánn og Írland fóru á hliðina og það mun því ekki bjarga neinu hvað varðar það ástand sem við þurfum að kljást við núna. Við þurfum að laga okkar mál sjálf á okkar eigin forsendum. ESB er ekki að bjarga neinu í þeim ríkjum sem þar eru í vandræðum.
Frétti að það hefði verið fjallað um ástandið á Írlandi í frönskum fjölmiðli, þar var ástandið á Írlandi borið saman við það sem gerðist hjá okkur. Komist var að þeirri niðurstöðu að Írland væri á sömu leið og Ísland og jafnvel verri. Efnahagsástandið í þessum löndum hefur verið að hríðversna og það eru flest þeirra farin að berjast við mikinn vanda, aukið atvinnuleysi, sem var verulegt fyrir, fjármálavandræði fyrirtækja og slæmt ástand heimilanna. Ríkin standa ráðþrota vegna þess að þau geta ekki brugðist við ástandinu og bíða eftir miðlægu lausninni frá Brussel. Þar eru menn hins vegar tvístígandi þar sem löndin hafa öll sín vandamál og engin ein lausn til fyrir þau öll. Í staðin fyrir að hafa verið sjálfstæð ríki áður og getað unnið í sínum málum sjálf, þá eru ESB ríkin nú bundin saman og koma þau verst stöddu til með að draga hin niður með sér í leiðinni.
Flýtum okkur hægt í þessum IceSave málum. Það gæti komið okkur illa annars.
Nær lausn á Icesave-deilu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.5.2009 | 22:56
Erum við ábyrg fyrir samdrætti í öðrum löndum?
Ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki að skilja þetta. Afhverju er Jim McColl í vandræðum út af hugsanlegu gjaldþroti Atorku. Ef Atorka fer á hausinn þá færist hlutur félagsins í þessum tveimur félögum í þrotabúið. Það ætti þá að vera auðvelt fyrir hann Jim að kaupa þetta á einhverjum niðurgreiddum prís.
Það eina sem gæti haft áhrif á félögin við gjaldþrotið, er ef Atorka er ekki búin að greiða hlutaféð. Það kemur hins vegar hvergi fram í fréttinni að svo sé, það verður að koma betri skýring á vanda þessara fyrirtækja. Hins vegar kemur fram að þessi fyrirtæki hafi "orðið fyrir barðinu á íslenska hruninu líkt og mörg önnur félög á Bretlandi". Án nú að kenna okkur um allan samdráttinn í Bretlandi?
Þetta hljómar eins og beint úr munni hr. Brán, allt Íslendingum að kenna. Það er fjöldinn allur af félögum í Bretlandi sem eru í eigu Íslendinga, að hluta til eða í heild. Það hefur hins vegar ekkert með samdráttin í Bretlandi að gera. Þessi samdráttur er tilkominn vegna misvitra bankamanna, eins og á Íslandi og hefur því ekkert með okkur að gera.
Ég velti því fyrir mér hvað þessir útlendingar eru að hugsa. Halda þeir virkilega að við höfum getað ýtt alþjóðasamfélaginu út í eitt alsherjar samdráttarskeið bara svona ein og sér. Ef svo er, þá velti ég því fyrir mér hvers megnum við erum ef við gerum hlutina meðvitað, fyrst okkur tókst þetta ómeðvitað. Engin furða að hinn upplýsti heimur vilji koma böndum á okkur.
Íslenska hrunið hefur áhrif í Skotlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |