Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Tómarúm sem þarf að fylla.

Eftir innrás Bandaríkjamanna inn í Írak myndaðist ákveðið tómarúm á svæðinu. Svæði sem hafði verið í ákveðnu "jafnvægi". Brotthvarf Saddams og upplausnin í Írak hafa gert það að verkum að Íranir sjá sér færi á að verða ráðandi á svæðinu, en með því að senda inn flugumenn, hafa þeir náð að viðhalda óstöðugleikanum. Það er Íran í hag að þarna sé óöld og væringjar þar sem það heldur Bandaríkjamönnum uppteknum og dregur úr líkunum á því að þeir verði "næstir" í röðinni.

Ég er ekki í nokkrum vafa á því að Íranir eru að framleiða kjarnorkuvopn, hver myndi svo sem ekki gera það, hefðu þeir tækifæri á því. Sérstaklega þegar um er að ræða einræðisríki. Hugmyndafræði þeirra um að breiða út íslömsku byltinguna, hefur líka verið stór hluti aðlþjóðapólitíkur þeirra og kjarnorkuvopn auðvelda þeim bara það verk.

Svo er það þetta meinta mannrán. Hvers vegna er allt að verða vitlaust núna, var þetta ekki í janúar sem þeir voru teknir. Varla tók þá þetta langan tíma að komast að því hvað hafði gerst. Hins vegar er það þannig að margur heldur mig sig, en Íranir hafa stundað mannrán til að ná fram sínum kröfum eða beina atburðarás í þann farveg sem þeim hentar. Forsetinn Ahmadinejad mun hafa verið einn af forsprökkum gíslatökunnar í Teheran á sínum tíma, en mynd er til af honum sem ungum manni, fylgja gíslum úr sendiráðinu. Gíslataka bresku sjóliðanna var líka í þessum dúr. Hugmyndir um að sú gíslataka hafi verið framkvæmd til að fá fram sveiflur í olíu verði, eru nokkuð áhugaverðar, en með því að hækka verð og selja olíu hafi þeir hugsanlega náð að fjármagna kjarnorkuævintýrið sitt. Þá er ekki tekið inn í myndina verslun með framvirka samninga, en þar hefðu þeir getað keypt og selt, og því grætt bæði þegar verð hækkaði og lækkaði. En með því að stjórna gíslatökunni hafi þeir vitað fyrirfram hvenær ætti að kaupa og selja.

Ástandið er ekki síst Bandaríkjamönnum að kenna og hef ég alltaf talið þessa innrás og brotthvarf Saddams hafa verið eitt mesta klúður í vestrænni diplómasíu (nokkuð sem Bandaríkjamenn eiga erfitt með að tileinka sér). Hins vegar er ég ekki í nokkrum vafa um að Íranir ætli sér að nýta sér það tómarúm sem skapaðist við þetta og verða leiðandi afl á svæðinu. Kjarnorkuvopn eru nauðsynleg til að tryggja þau völd og á meðan þeir vinna að því að verða sér út um vopnin, er þeim nauðsynlegt að viðhalda óróa og stjórnleysi í Írak.

Bandaríkjamenn eru ekki saklausir í þessum málum, en það þýðir hins vegar ekki að Íranir séu það.


mbl.is Mottaki segir að Bandaríkin muni sjá eftir því að hafa fimm Írana í haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er einræði endilega svo slæmt.

Það er ótrúlegt hvað fólki getur líkað vel í einræði. Held að fólk tali meira um það í Rússlandi dagsins í dag, að því líði vel, heldur en það gerði á dögum Jeltsins. Rússar hafa aldrei búið við neitt annað en einræði, að frátöldum nokkrum mánuðum árið 1917 og svo á tímum Jeltsín. Írakar eru svona svipað keis. Hafa aldrei búið við neitt annað en einræði þar til Bush ákvað annað. Og nú er allt í háalofti þarna og engin hefur stjórn á neinu, allra síst Bandaríkjamenn.

Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort frelsi eða lýðræði, eins og við virðumst skilgreina það, sé eitthvað sem hægt sé að "flytja út". Við í Evrópu erum nokkuð stabíl í að nota þetta, þó svo að fyrir ekki lengra en rúmum 60 árum, virtumst við ekki alveg fatta hugtökin. Við höfum hins vegar haft þetta í kúltúrnum okkar frá því fyrir kristburð og því haft tímann til að taka þetta inn. Bandaríkjamenn hafa fengið þetta í arf frá okkur, en fjarlægðin frá Grikklandi virðist eitthvað hafa valdið þeim vandræðum með að túlka þetta.

Ég held að þessar hugmyndir, frelsi og lýðræði, séu svona svipaðar eins og framandi matur. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk svolgri honum í sig sí svona, heldur verður fólk að fá að venjast nýja bragðinu. Við getum reynt að kynna öðrum fyrir hugmyndum okkar um frelsi og lýðræði, en við getum ekki þvingað því upp á fólk.

Annað sem kemur þarna inn í, eru blessuð börnin. Er ekki sagt að börn þurfi aga, þeim líði hálf illa án hans. (NB: Agi er ekki endilega sama og harðræði).

En þar sem maður býr við allt annað umhverfi en Rússar og Írakar, þá er voðalega erfitt að koma með einhver búllettprúff svör.


mbl.is Pútín útilokar ekki framboð 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samanburður og staðan með tilliti til annarra.

Samkvæmt Seðlabankanum, þá er staðan betri nú en í fyrra. Hins vegar veltir maður fyrir sér hversu slæm/góð staðan sé. Mikið hefur verið bölsóttast út í háa verðbólgu og óhagstæðan viðskiptajöfnuð við útlönd. Bent er á að við stöndum verr að vígi en nágrannaríkin og að þetta sé allt lélegum gjaldmiðli að kenna.

En hversu slæm er staðan. Þessar Þáttatekjur velta upp ýmsum spurningum. Er eðlilegt að það sé flokkað sem skuldir við útlönd, hagnaður erlendra fyrirtækja af íslenskum arðgreiðslum, ef þessi erlendu fyrirtæki eru í eigu Íslendinga? Hver er staðan ef þessir þættir eru ekki teknir með?

Einnig veltir maður fyrir sér verðbólguútreikningum. Hef heyrt að í Bandaríkjunum séu verðbreytingar á olíu og húsnæði ekki teknar með inn í verðbólguútreikninga. Hér held ég að allt sé tekið með.

Vandamálið við samanburð á milli okkar og annarra landa, er að manni finnast forsendurnar ekki vera þær sömu. Hvernig væri staðan ef verðbólguforsendur væru þær sömu og eignir Íslendinga í útlöndum er ekki tekinn með?

Þegar maður skoðar grafið hjá Seðlabankanum, þá versnar jöfnuðurinn með aukinni útrás. Það væri því gaman að sjá hvernig þetta liti út með "breyttum" forsendum.


mbl.is Glitnir segir þáttatekjur óvenjumiklar á fyrsta ársfjórðungi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Púff, nú er farið að hlýna. Næstum eins heitt og þegar Ingólfur kom.

Nú er enn einn aðilinn kominn fram með efasemdir og hvað gerist. Hann er úthrópaður sem villitrúarmaður sem sé laus á geði. Það vakti athygli mína að ein rökin fyrir þessari hugmynd um að þetta sé allt "okkur" að kenna er setningin „Hann virtist ekki hafa hugmynd um að 170 ríki eru á einu máli um að loftslagsbreytingar séu alvarlegt vandamál sem geti haft ófyrirséðar afleiðingar og bitnað á fjölda manns ef ekkert verður að gert." En hvaðan fá þessi 170 ríki þessa hugmynd. Nú að sjálfsögðu frá sömu 100 einstaklingunum.

Þegar hópur t.d. 50 manna byggir skoðanir sínar allir á sömu heimildinni, þá er ekki um að ræða 50 mismunandi einstaklinga með mismunandi skoðanir. Heldur verður að skoða þetta sem eina heimild.

Afhverju má ekki hlusta á þá sem segja að þetta sé kannski ekki "okkur" að kenna. Gæti verið að það gæti dregið úr styrk heimildarinnar einu?


mbl.is Yfirmaður NASA ekki viss um að bregðast þurfi við loftslagsbreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er sigur spurning um markmið?

Í dag er 1. júní. Þennan dag árið 1794 háðu Bretar og Frakkar sjóorustu undan vesturströnd Frakklands.

26 ensk herskip komu að frönskum flota 26 herskipa og 130 kaupskipa sem voru að flytja korn frá Bandaríkjunum til Frakklands. Bretarnir höfðu hug á að hefta för skipanna, en franski flotinn hóf að sigla norður með það að markmiði að gefa kaupskipunum færi á að komast á leiðarenda.

Þann 1. júní, eins og fyrr segir, hófst orustan. Með aðeins sjö skipum náðu bresku skipin að hertaka sex frönsk skip og sökkva einu. Frakkarnir töpuðu orustunni sem slíkri, en þeim tókst samt að draga athygli breska flotans frá kaupskipunum, sem komust á leiðarenda. Þannig náði franski flotinn markmiði sínu að draga athyglina frá kaupskipnunum og koma þeim heilum í höfn. Bretinn vann orustuna, en Frakkarnir unnu líka þar sem þeir náðu markmiði sínu.

Þegar ég las þetta, þá komu upp í huga mér kosningar á Íslandi, en þar virðast allir vera að vinna. Kannski er það bara þannig að allir vinna. Fólk, félög og hópar setja sér markmið. Þetta eru mismunandi markmið sem gera það að verkum að flestir geta náð því sem lagt er upp með.

Oft hefur mér fundist íslenskt samfélag byggja of mikið á því að allir vilja vinna, á kostnað annarra. En kannski er mögulegt fyrir okkur öll að vinna. Við eigum að setja okkur markmið sem miðast við vonir okkar, þarfir og þrár. Það er ekki endilega markmið að mylja náungann.

Ef við setjum okkur sjálf markmið, óháð einhverjum óskilgreindum ytri þrýstingi, þá getum við öll unnið.


Elskar mig, elskar mig ekki, elskar mig, ...

Þetta hvalveiðiráð er nú orðið meira bullið. Nú hafa hvalverndarsinnar borgað einhverjum fjölda landa fyrir að taka þátt í ráðinu og kjósa á móti hvalveiðum, þetta var talið svar við aðgerðum hvalveiðisinna. Þeir áttu að hafa "smalað" fyrir síðasta þing og náð þannig inn mildara orðalagi. Hins vegar mun ráðið hafa ákveðið hvalveiðibannið eftir "smölun" nokkurra ríkja, sem sum lágu jafnvel ekki að sjó. Spurningin virðist bara vera sú, hver nær að "smala" flestum inn.

Einnig frábært að nú er farið að taka ákvarðanir fyrir aðrar samkomur sem "hugsanlega" gætu haft sjálfstæða skoðun og ákvarðað á eigin forsendum.

Þessi klúbbur er ekki til fyrirmyndar og ætti að skoðast sem það sem hann er. Slagsmálahringur hagsmunaaðila sem ekki hafa tíma fyrir rökstuddar ákvarðanir, heldur stunda hjartlægar ákvarðanir.


mbl.is Ályktun um að hvalveiðibann sé enn nauðsynlegt samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jamm, gott að fólk er ánægt.

Var samt að velta fyrir mér stóra deilumálinu, ESB.

Heyrði einu sinni sagt að vandamálið með fiskveiðistefnu ESB væri að sjávarútvegsmálin væru flokkuð með landbúnaðarmálum innan ESB, en væri sér málaflokkur á Íslandi. Þetta var talið sýna framá að á meðan sjávarútvegur skipti máli á Íslandi, þá væri því öfugt farið í ESB. Nú er búið að sameina landbúnaðinn og sjávarútveginn í eitt ráðuneyti, þannig að maður hlýtur að spyrja sig hvort þarna sé verið að aðlaga "kerfið" á Íslandi að ESB.

Það væri ekki í fyrsta skiptið að stór mál væru til umræðu, án þess að pöpullinn vissi af því. Annars væri bara gott ef þetta mál héldist í "nefnd".


mbl.is „Vonast til að ný stjórn leiði erfið deilumál til lykta"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var að spekúlera ...

Ef formaður segir af sér, á þá ekki að kjósa nýjan formann? Ég veit ekki til þess að Guðni hafi sagt af sér, en endilega upplýsið mig ef svo er.

Þegar formaður segir af sér, þá er eðlilegt að varaformaður taki við störfum hans þar til nýr formaður hefur verið kosinn. Varaformaðurinn er að sjálfsögðu ennþá varaformaður, hann stendur bara vaktina í brúnni. Svona svipað og þegar stýrimaður leysir skipstjórann af.

Einhver var að segja mér að þegar varaformaður leysir formann af, en verður svo sjálfkrafa formaður og dregur athyglina að varaformannsleysi, þá sé það kallað "kúdeta" á útlensku. En þar sem þetta er nú útlenska, þá ætla ég ekki að setja of djúpa merkingu í það.

Var bara að velta þessu svona fyrir mér. Formaðurinn farinn, á þá ekki að kjósa nýjan formann?


mbl.is Stingur upp á Valgerði í embætti varaformanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæti gengið, en með nokkrum fyrirvörum og smá efasemdum.

Nú þegar Famsóknarflokkurinn ætlar að draga sig út stjórnarsamstarfinu, þá er ekki óeðlilegt að stæðsti þingflokkurinn ræði við þann næst stæðsta. Þarna yrði vissulega um að ræða sterka stjórn reiknað í þingmannafjölda, en spurningin er hvort hún haldi hugmyndafræðilega.

Það er samt áhugavert að sjá hvernig Steingrímur J. og Guðjón A. bregðast við í Fréttablaðinu í dag. Steingrímur er svekktur, en það að stjórnarumboð til handa Geir sé "ótímabært" er náttúrulega bull. Það er augljóst að Framsóknarflokkurinn ætlar ekki að taka þátt í stjórn, heldur vinna að sínum innri málum. Án þeirra er fyrirséð um að hægt sé að mynda stjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokksins og því eðlilegt að hann, sem stæðsti flokkurinn á þingi, fái stjórnarmyndunarumboðið fyrst. Annað er bara veruleikafirring hjá steingrími. Guðjón A. er líka ekki alveg búinn að jafna sig á því að komast ekki í stjórn, en að halda því fram að þetta sé eitthvað plott um að ganga á bak Framsóknarflokknum er náttúrlega ekki alveg eins og virst hefur hingað til. Það virðist ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn var tilbúinn að gefa Framsókn tækifæri, enda ræddu flokkarnir saman og það var Framsóknarflokkurinn sem sagði skilið við stjórnarsamstarfið. Það að Geir segi að tæp stjórn sé ekki fýsileg er auðvitað rétt. Stjórn með tæpum meirihluta hlýtur alltaf að vera veik, en er samt ekki ómöguleg.

Það er ekkert óeðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn ræði fyrist við næst stæðsta þingflokkinn varðandi stjórnarsamstarf. Það að það hefur gengið fljótt eftir, þegar litið er til fyrstu frétta, er ekki óeðlilegt. Sjálfstæðisflokkurinn býður samstarf og það er ISG pólistískt lífsnauðsynlegt að fara í stjórn. Verði Samfylkingin ekki í stjórn næstu árin er að mínu mati pólitísk framtíð ISG í mikilli tvísýnu.

Stjórn þessara flokka gæti gengið, en maður hlýtur að spyrja sig nokkurra spurninga um afstöðu Samfylkingarinnar. Sú lang mikilvægasta er. Ætlar Samfylkingin að halda áfram að eyðileggja krónuna með blaðri og er flokkurinn tilbúinn að setja ESB aðild á ís? Sé flokkurinn tilbúinn að halda þessum málum sínum til baka, þá er möguleiki á samstarfi. Annað er ekki til heilla fyrir Ísland. Innan Samfylkingarinnar eru enn gamlir Alþýðuflokksmenn sem geta vel hugsað sér samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, en spurninginn er með vinstrisinnuðu flokksmennina. Hvar standa þeir? Samfylkingin er enn mörkuð af formannsátökunum og verður forvitnilegt að sjá hvort saminn verður friður, eða hvort þau muni opinberast í umræðuni um stjórnarsamstarfið og þau völd sem þar koma til útdeilingar.

Svo er það spurningin um ISG, er hyggilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að framlengja pólitískt líf ISG. Það mun líklegast koma í bakið á flokknum síðar. Þetta er stjórn sem mun geta gengið, en ég mun samt alltaf hafa vara á Samfylkingunni meðan núverandi einstaklingar fara fyrir henni.

Pólitík er undarleg tík, en mun þessi tík sem nú virðist vera að fæðast verða bitvargur?


mbl.is Guðjón A: Hraðinn kom á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bara komið nóg?

Þetta Eurovision er ekki miðja alheimsins, sem allt snýst um. Þessi söngvakeppni, sem kostar okkur helling í hvert skipti sem við tökum þátt, er ekki að gefa okkur neitt. Með auknum fjölda Austur Evrópuþjóða, hefur möguleiki okkar á árangri dvínað verulega.

Er ekki bara komin tími til að hætta þessu. Fólk getur þá farið að velja sér hin ýmsu lönd til að halda með og getur þá valið þau eftir gæðum lagsins. En neyðist ekki til að halda með Íslandi sama hversu lélegt lagið er.

Eiríkur hóf Eurovision ferðalagið okkar. Er ekki viðeigandi að hann endi það líka?


mbl.is Breskur þingmaður krefst þess að Evróvisjón-kosningunni verði breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband