Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sekir um hvað?

Þegar þetta mál kom upp, þá velti ég því fyrir mér hvað þessir menn væru sekir um. Þeir eru ákærðir fyrir umboðssvik ef ég man rétt, en þetta er svona "ef við finnum ekkert annað á þá, þá notum við þetta" klausúla. Ef þessir menn verða dæmdir, þá er það rugl. Það að þeir skuli hafa skilað peningnum er líka rugl. Þeir eiga þennan pening, þeir versluðu hann samkvæmt útgefinni verðskrá og við því er ekkert að gera.

Málið er einfalt. Útgefin gjaldskrá gildir. Alveg sama hvort hún er mistök "verslunareigandans". Ef einstaklingur fer í Bónus eða Krónuna og sér á hillu að smjörið kostar 130 krónur, þá er það verðið sem hann á að borga. Ef hann er svo rukkaður um 230 krónur á kassanum, þá skiptir það ekki máli. Hilluverðið ræður, alveg sama þótt kallinn á kassanum haldi því fram að þetta séu mistök. Það er rekstraraðilans að hafa vit fyrir sjálfum sér, ekki viðskiptavinarins. Eins er hægt að halda því fram að ef viðskiptavinur kaupir vöru, sem við nánari athugun reynist vitlaust verðlögð þannig að hún er seld undir kostnaðarverði, þá sé farið heim til hans og hann rukkaður um mismuninn. Ég er ekki viss um að fólk tæki því bara sí svona. Viðskipti eru viðskipti. Bankaviðskipti líka. Það er í eðli sínu engin munur á að versla með smjör eða þúsundkalla, bara mismunandi vöruflokkur.

Það að ákæra þessa menn er eins og ef kaupandi smjörsins yrði kærður fyrir umboðssvik, þar sem hann borgaði verðið á hillunni, en ekki kassanum. Ég held að Neytendasamtökin yrðu ekki hrifin af því.

Þessi "mistök" bankans voru bankans og hann verður að standa með þeim, það er ekki hægt að hengja kúnnann sem sá tækifæri og nýtti sér það. Svona "mistök" eru kölluð arbitrage í útlöndum og eru alltaf að koma upp. Menn nýta sér þau, en um leið og þetta uppgvötvast er farið í að breyta fyrirkomulaginu.


mbl.is Halda fram sakleysi í netbankamálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

7 af 6 og franskur verkfallskúltúr

Var svolítið hissa á að lesa þetta, en ég er enginn stærðfærðingur og vil því ekki dæma þetta of hart. En er samt enn að reyna að reikna þetta á puttunum, ég bara næ ekki hvernig sjö af sex geti staðiðst, nema þá kannski að þeir hafi fengið aðstoð að handan.

Viðræður þokast í rétta átt í Frakklandi en þrátt fyrir það ákváðu sjö af sex verkalýðsfélögum innan lesta-og samgöngugeirans að lengja verkfallið til dagsins í dag

Annars er annað áhugavert í þessari frétt, en það eru mótmæli almennings. Hingað til hafa Frakkar verið mjög samheldnir í baráttum samlanda sinna, en nú er tónninn að breytast. Kannski hefur fjölgun almennra launþega, umfram þá á ríkisjötunni, aukið muninn í fríðindum. Franskir opinberir starfsmenn eru mjög dúðaðir af fríðindum og ekki í neinu samræmi við það sem gerist á almennum markaði. Enda er ekki að undra að í Frakklandi vilji flestir eyða ævinni sem opinberir starfsmenn, í stað þess að leita fyrir sér á almennum markaði.

Hins vegar er núna að koma í ljós að kerfið er að rotna að innan og getur ekki staðið undir þessum gríðalegu skuldbindingum, sem flestar komu til í tíð Mitterrands. De Villepin reyndi að brjóta upp heftandi löggjöf, en uppskar mótmæli ungmenna (sem voru reyndar keyrð áfram af verkalýðshreyfingunni). En þrátt fyrir að þessi mótmæli væru haldin í nafni réttinda og frelsis ungmenna, þá var verkalýðhreyfingin í raun að sinna hagsmunum umbjóðenda sinna. Verkalýðshreyfingin í Frakklandi er rekin sem "action force" eða framkvæmdahópur fyrir vinstrihreyfinguna og er iðulega beitt til að ganga gegn réttkjörnum fulltrúum, ef þeir eru ekki vinstrimenn eða gera það sem vinstrimenn vilja. Verkalýðshreyfingin er í raun helsta vopn vinstrimanna til að berjast gegn lýðræðislegum niðurstöðum kosninga. Félög opinberra starfsmanna eru síðan einn hlekkurinn í þessari hagsmunagæslusveit.

Frakkland er hins vegar í miklum vanda og afsal peningamálastefnunnar til ESB hefur gert þeim mjög erfitt fyrir að vinna að sínum málum. Það þarf að taka til, en sú tiltekt kemur til með að verða mjög óvinsæl meðal vinstrimanna, sem flestir eru á ríkisjötunni og vilja ógjarnan missa spón úr aski sínum. Vandi Frakklands liggur ekki í aðgerðum síðustu 10 ára, heldur stjórn vinstrimanna fyrir 20 - 25 árum.

Til að geta gefið, þarf maður að eiga. Þetta eru Frakkar að átta sig á nú, 20 árum of seint.


mbl.is Verkfallið framlengt í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með svona vini, hver þarf þá óvini?

Enn og aftur sannast það, að í pólitík er enginn vinur í oddastöðu. Maðurinn sem kallaður hefur verið "góði innflytjandinn", "góði músliminn" og ýmislegt annað, er að sýna enn og aftur að enginn er vinur í pólitík, sérstaklega þegar hann kemmst í oddastöðu.

Alveg óháð því hver hann er, eða hvað hann ætlar sér, þá er þetta alveg "týpískt". Dásamar lýklegasta kandidatinn og svo þegar hann hefur unnið sér traust hans og leitað er eftir stuðningi, þá kemur sprengjan. Gerðu það sem ég vil, eða þú getur gleymt allri samvinnu.

Það eru svona uppákomur sem gera það að verkum að maður vill helst sjá tvær fylkingar sem berjast um hreinan meirihluta og þurfa ekki að stóla á einstaklinga í oddastöðu. Oddastaða er ekki góð fyrir framgang réttláts samfélags, hvort sem um er að ræða Danmörku eða Ísland.


mbl.is Khader hótar að hætta viðræðum um aðild að nýrri stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer olíuverð lækkandi næstu mánuði?

Það kemur á óvart að olíufélögin lækki verðið áður en stórar lækkanir verða erlendis. Auðvitað er alltaf spurning hversu mikið olían muni lækka, en hugsanlega erum við að sjá fram á verulega lækkun olíunnar næstu sex til sjö mánuði. Gæti verðið verið á leið niður í 75 dollara áður en það rís aftur, 80 og 87 dollarar eru líka hugsanlegir viðsnúningspunktar á niðurleiðinni.

Á meðan markaðurinn var búinn að undirbúa sig, og sætta sig við, 100 dollara á tunnuna, þá var hann ekki kominn með hærri verð. Þeir sem hafa verið að fjárfesta í olíunni þurfa núna að losa stöðurnar sínar og er það gert með því að auglýsa hugsanlega 120 og jafnvel 150 dollara á tunnuna. Þá kemur nýtt blóð inn á markaðinn sem kaupir stöðurnar þeirra, en þessir aðilar munu svo tapa í niðursveiflunni.

Verðið mun að sjálfsögðu ekki lækka út í hið óendalega og kemur til með að hækka eftir þessa leiðréttingu sem hugsanlega er framundan, en það verður líklegast uppúr miðju næsta ári.

Annars er greining á olíuverðinu og hugsanlegum verðbreytingum hægt að sjá hér


mbl.is Eldsneytisverð lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað munu engin vopn verða til staðar, annað væri fáránlegt.

Hvers konar spurning er nú þetta. Ef maður væri ekki það skýr að átta sig á því að þarna er bara um hreinan populisma að ræða, þá gæti maður haldið að háttvirtur spyrjandi væri fífl. En þar sem maður vill ekki gera honum það, þá held ég mig við þá skoðun að þetta sé spurning um populisma.

Til hvers að fá orustuvélar til að verja landið ef ekki væru nein vopnin. Eiga þeir bara að vinka og segja "ab ba bab, ekki lengra vinur". Auðvitað er til sú hugmyndafræði að við ættum ekki að stunda neinar varnir, vera bara opinn fyrir sjógangi og trúa og treysta á að mannkynið sé í eðli sínu góðhjarta, nokkuð sem við getum svo vel séð á við sögulestur. Það er ekki spurning að VG telja að hér eigi ekki að vera til staðar varnir eins og þær sem felast í þessum flugvélum. Þeir hafa svo sem sagt það, en að koma með svona spurningu er náttúrulega bara ekki í lagi.

En ekki ætla ég að kenna mönnum að tjá sig, eða segja þeim til um hvert innihald slíkrar tjáningar eigi að vera. Menn verða bara að standa með því sem þeir segja, eins og ég mun þurfa að standa með því sem ég segji hér.

Svo er það myndin (þessi upprunalega, ef henni skildi verða skipt út). Þetta eru ekki F15 orustuflugvélar. Þetta er ein F15 vél og svo ný týpa sem ég bara man ekki númerið á, minnir að það sé F19.


mbl.is Vill vita hvort orrustuvélar muni bera vopn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll er nú dásemdin eins

ESB er yndislegt dýr, gerir miklar og að margra vitund ósangjarnar kröfur á aðra, en getur svo ekki haldið þannig um reksturinn að hægt sé að samþykkja reikningana.

Vanhæfni er eina skýringin á þessu, enda batterýið rekið af kerfiskörlum í draumaheimi, heimi þar sem enginn segir þeim fyrir verkum og ekkert yfirvald er til. Kafka hefði ekki getað sviðsett þetta betur. Kerfiskarlar allra landa (alla vega flestra í Evrópu) hafa fundið sér samastað sem er svo langt frá refsihendi lýðræðisins að nálgast það að vera Útopia, slík að vanhæfir kerfiskarlar, reglufargans elskandi lögfræðingar, afdankaðir pólitíkusar rúnir trausti og getulausir businessmenn í leit að styrkjum, slefa yfir tilhugsuninni. Almenningur verður hins vegar bara að éta sitt súra epli og búa sig undir enn einn kaflann í sögunni endalausu, sögu sem Kafka myndi slefa yfir að fá að skrifa.


mbl.is Endurskoðendur neita að skrifa undir reikninga ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olían mun hækka áður en hún lækkar

Olíuverð er komið á þann staðinn að það ætti að halda sér fyrir ofan 90 dollarana. Þetta var svo sem fyrirsjáanlegt eftir að allir fóru að tala um að verðið færi í 100 dollara. Tvær greinar fjalla um þetta, hér og hér . Þegar "markaðurinn" og tali maður ekki um "almenningur" er farinn að tala um olíuna í 100 dollurum, þá mun það gerars.

Af hverju mun það gerast? Það er einfallt. "Markaðurinn" er ekkert annað en samsafn einstaklinga sem stunda þar viðskipti. Þessir einstaklingar eru ekkert frábrugðnir "venjulegu" fólki, þar sem sama sálræna hegðunarmynstur á sér stað. Fólk er allt keyrt áfram af ákvæðinni hræðslu við mistök eða tap og þrá í hagnað eða gróða. Til að spara tíma, setjum við okkur ákveðna flýtilykla sem virka til dæmis á höft. Okkur finnst ákveðið verð of hátt, en með því að tala um hærra verð í tíma og ótíma, þá verðum við ónæm fyrir hækkuninni og hærra verðið verður nýtt þolmark.

Þess vegna mun olían fara nálægt 100 dollurunum, en þar mun að öllum lýkindum koma til verðfall sem mun lækka olíuna niður undir um 80 dollara, plús mínus. Þetta mun hugsanlega gerast eftir áramót, þegar fer að hlýna í Bandaríkjunum, en samt áður en þörfin fyrir loftkælibúnað hækkar verðið aftur. 

Ég er hins vegar hræddur um að olían mun haldast fyrir ofan 70 dollarana nokkurn tíma enn, allt í árum talið. Það fer ekki að lækka fyrr en vægi olíunnar minnkar á vesturlöndum.


mbl.is Olíuverð yfir 96 dali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er sjálftaka eðlileg?

FIT* kostnaður er eitthvað sem ég held að flest okkar hafi fengið í hausinn einu sinni eða oftar. Auðvitað eru til einstaklingar sem hafa aldrei "farið á FIT", en það eru þeir einstaklingar sem eru meðvitaðir um sín fjármál. Ég ætla ekkert að draga dul á það að ég hef farið á FIT. Það eru hins vegar ár og öld síðan það var eitthvað reglulegt og ófrávíkjanlegt, en síðast gerðist þetta fyrir helber mistök, þar sem ég tók upp vitlaust Debetkort þegar ég var að versla.

FIT kostnaður er auðvitað mikill, en þetta er ekki kostnaður sem maður ÞARF að borga. Þetta er bara borgað ef farið er yfir á reikningi. Fólk sem er meðvitað um sín fjármál og passar sig að fara ekki yfir á reikningi sínum, þ.e. eyðir ekki fjármunum sem það ekki á, borgar aldrei FIT. Ég tími ekki að borga FIT kostnaðinn, en það er einfalt að losna við það. Þetta er ekki skattur sem maður er skilyrtur til að greiða.

Nú er verið að kalla FIT sjálftöku bankanna, en hvað er það kallað þegar fólk fer yfir á reikningi. Er það ekki sjálftaka á láni. Af fara yfir á reikningi, er svipað og að taka lán án þess að spyrja nokkurn að því, eins konar sjálftaka láns. Af hverju á ég að geta tekið lán án samráðs við eiganda fjársins?

Það eru tvenns konar aðilar sem fara á FIT, þeir sem eiga engan pening og eru að taka sér lán, svo þeir sem eiga pening á öðrum reikningum, en ruglast kannski á Debet kortum. Bankarnir mættu taka meira tillit til slíkra mála, þannig að ef einstaklingur sem á pening í banka fer yfir á reikningi, þá millifærir bankinn sjálfkrafa upphæðina á milli reikninga. Þannig yrði hugsanlega hægt að fá lægri kostnað, bara þessar "tvær og fimmtíu" sem það kostar að stemma af villulistann.

Annars er margt annað í kringum bankaviðskipti sem þarf að laga mun frekar. Það er stimpilgjald og afnám verðbóta. Auðvitað eru verðbætur eitthvað sem reikningseigendur eru sáttir við, en skuldarara ósáttir. Svo kemur líka inn í þetta, að við afnám verðbóta, munu vextir hækka. Munurinn er hins vegar sá, að þá sér fólk hvað það borgar fyrir fjármagnið og getur gert átælanir í kringum það.

* Fyrir þá sem ekki vita, þá stendur FIT fyrir Færsluskrá Innistæðulausra Tékka.


mbl.is Björgvin berst gegn sjálftöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið í hnotskurn

Þarna er lýðræði ESB hnotskurn. Ákveðið er af fámennri klíku, hver á að vera forseti. Þetta embætti var eitt það heitasta í svo kallaðri stjórnarskrá og líklegast afdrífaríkast þegar fólk ákvað að afsala sér ekki þjóðerni sínu. Nú er búið að "hætta" við stjórnarskrána og nýr "sáttmáli" kominn í staðinn. En þar sem orðið "sáttmáli" er ekki "stjórnarskrá", þá þarf ekki að kjósa um þetta.

Kerfiskarlarnir í ESB, bæði skriffinnarnir og ekki síður afdankaðir stjórnmálamenn, eru ekki neitt sérlega hrifnir af lýðræði. Það truflar nefnilega svo rosalega hagsmunagæslupotið og spillinguna. Almenningur er óþægileg nauðsyn til skattpýningar, enda er hugmyndafræði ESB í þeim málum, meira er betra en minna. Fyrirtæki sem krefjast inngöngu í ESB væru alveg jafn gjaldgild inn í félag SMDB.

Annar þáttur í ESB, þessu tengt, er að þar hefur aldrei trúað á sjálft sig. Allar hugmyndir um framtíð ESB byggja á einhverri öfund til USA og drauma um að yfirfæra stjórnsýslukerfi þeirra yfir á Evrópu. Stór grundvallamunur er þó á þessum tveimur samfélögum, munur sem mun aldrei gera ESB kleift að verða USA. Bandaríkin urðu til í samfélagi þar sem allir voru af sama meiði, ríkin voru tilbúningur án sameiginlegrar sögu og sjálfsvitundar. Evrópa er ekki þannig, hún er samsafn samfélaga með sterka sögu- og sjálfsvitund. Bara það að Skotar, Baskar og Bretonar, auk fjölda annarra smáhópa, sækja í að auka sjálfsvitund sína, sýnir að blind trúa á eitthvað ESB verður aldrei til í sama mæli og sú blinda trúa á USA sem þar ríkir.

Framtíð ESB verður aldrei, nema þeir sjái að sér. Hins vegar er hæpið að sjálfhverfir hagsmunagæsluliðar muni nokkurn tíman sjá að sér. Þetta bákn er dæmt til dauða, en það sorglega við það, er að áður en af því verður, mun það eyðileggja Evrópu svipað og myglusveppur sem leggst í matvæli.

 


mbl.is Blair kann að verða fyrsti forseti Evrópusambandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villtu vera skattfrjáls?

Nú þegar þetta er orðið almenn vitneskja, þá er kannski allt í lagi að upplýsa um það hvernig hægt er að nota þetta til að vera skattfrjáls.

Aðili fæddur í landi A skráir sig til heimilis í landi B og tilkynnir skattayfirvöldum í A að hann sé fluttur. Þegar hann hefur verið par mánuði í landi B, tilkynnir hann þarlendum yfirvöldum að hann sé fluttur til lands C. Mjög gott er ef land C er ríki þar sem kerfið er í kerfi og erfitt er að fá upplýsingar. Yfirvöldum í landi C er svo tilkynnt um flutning til lands D, en eftir það er viðkomandi aðili "frjáls". Lönd B og C hafa engan áhuga á að eltast við þennan aðila þar sem hann er "útlendingur" og ekki þeirra "vandamál". Ríki A er eina ríkið sem gæti haft áhuga á að hafa uppi á viðkomandi. Komi hann síðan til lands A, þá má búast við því að reynt verði að "festa" hann þar inni, en sé þessi aðili þannig til fjárins vaxinn, að það skipti hann í raun engu máli hvar hann er staddur, tekjurnar bara koma inn, þá passar hann sig að vera með staðfestar ferðir á milli landsins sem sýna minna en sex mánaða dvöl í landinu. Finni hann að það er farið að hitna undir honum, þá tilkynnir hann bara til ríkis D að hann sé fluttur til X. Þar sem hann getur sýnt framá að hann hafi ekki búið nema mjög stutt í landi D, þá hefur ríki D engan áhuga á honum.

Það skal tekið fram að auðvitað er ætlast til að fólk standi sína pligt og borgi skatta. Þetta er bara sett svona fram sem samkvæmisleikur.


mbl.is Ekki fylgst með því hvert fólk fer í raun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband