Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Afhverju er euro ekki búið að lækka?

Er ég að missa af einhverju, en átti ekki allt að lagast, gengið að batna og allt. Bara við það eitt að sækja um inngöngu í ESB, hefja ferlið. Ég er ekki að sjá betur en að þetta hafi ekki haft nein áhrif á gengið.

Það var svo sem ekki við því að búast að nokkuð gerðist, enda getur hver sem raunverulega vill sjá það, séð að þessi innganga kemur ekki til með að gera neitt nema draga orku frá þeim verkefnum sem við ættum raunverulega að vinna að.

Þjóðin bíður eftir því að ríkistjórnin skakklappist í það að vinna vinnuna sem hún var kosin til að vinna.


mbl.is Engin viðskipti á millibankamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta hefði ekki átt að koma á óvart

Þetta ætti ekki að koma á óvart, enda er ESB ekki sveigjanlegt batterý, heldur gildir þar reglan um að allt skuli staðlað. Auðvitað erum við ekki að fá flýtimeðferð, en hins vegar er ljóst að við uppfyllum fjöldann allan af skilyrðum og þurfum því ekki að bíða þann tíma sem tekur okkur að breyta þjóðfélaginu. En sérmeðferð verður engin og því síður undantekningar frá ríkjandi reglum. Það hefur verið logið að þjóðinni til að koma þessu ferli í gang, allt tal um sérmeðferð er bull.

Meðferðin okkar núna er ekki ósvipuð meðferðinni sem Fídji búar fengu á 19. öldinni. Þeir féllu úr því að vera þjóðfélag hagsældar í að lifa við örbirgð og aumingjaskap í framhaldinu. Þeir einu sem græddu voru Englendingar og nokkrir bankamenn!!! Kannast einhver við þetta.

Enn og aftur vil ég benda á orð Bismark þegar hann sagði ríki ekki eiga vini heldur hagsmuni. Við verðum að átta okkur á því að hagsmunir okkar hafa stundum legið með þessum þjóðum, en oft er það nú svo að okkar hagsmunir eru þvert á þeirra. Ætlum við að festa okkur inni í netinu hjá þeim og geta aldrei varið okkar hagsmuni sökum smæðar innan kerfisins, eða standa fyrir utan og geta valið okkur félaga með breittum hagsmunum.

Sem ríki verðum við að búa við sveigjanleika. Innan ESB hverfur þessi sveigjanleiki.


mbl.is Ísland fær enga sérmeðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave hlekkurinn

Það er augljóst í þessari samantekt og var svo sem augljóst fyrir hana, að Icesave mun verða hlekkur um fót þegar kemur að ESB. Það þarf samhljóða ákvörðun Evrópuríkjanna að hefja inngönguferlið okkar, ekkert annað er mögulegt. Það er því alveg á hreinu að fái Hollendingar og Bretar ekki sitt fram, þá muni ekki verða að inngöngu. Þetta sýnir að þetta hlé sem er á þingi í bili, mun aðeins verða til þess að svipustjórn Jóhönnu mun berjast harðar fyrir samþykkt Icesave samningsins.

Við getum auðvitað reynt að fá betri samning með því að leita eftir því við Breta og Hollendinga, en þetta eru gömul nýlenduveldi og ekki mikið fyrir að semja við sér "óæðri" ríki. Svo er það náttúrulega hefndin hjá Bretum, en harkan hjá þeim er að mínu mati skýranleg með vísan í þorskastríðin sem við unnum. Bretar hafa aldrei verið sáttir við að tapa fyrir "óæðra" ríki, enda þeir gamalt (og halda enn) stórveldi og nýlenduveldi. Bretar vilja sýna okkur að það borgar sig ekki að vera að mótmæla þeim, þeir eru að slá á puttana á okkur. Farnist okkur vel samveran með þeim í ESB.

Það er ekki spurning að mínu mati, að innganga í ESB með Icesave hlekkjað við leggin, mun aldrei verða okkur til framdráttar eða hagsældar. Kostnaðurinn við það er bara of mikill og enginn, ég segi ENGINN, mögulegur hagur okkar af inngöngu í ESB mun bæta það upp. Spurningin er hversu miklu viljum við fórna. Þeim sem vilja meina að við eigum ekkert val, aðrir hafa komið okkur í þetta og þvingað á okkur "valið", vil ég segja eftirfarandi: Það er til val og það val mun leiða okkur til hagsældar. Við verðum bara að hafa hugrekki til að taka af skarið. Hvert það val er, er hægt að sjá með því að lesa bloggið mitt og þá sérstaklega greinaflokkinn um nýtt Ísland.

Veljum íslenska framtíð á íslenskum forsendum.


mbl.is Umsókn Íslands um ESB bíður afgreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er annar skellur framundan?

Síðustu mánuði hafa markaðir erlendis verið að taka örlítið við sér vegna væntinga um að efnhahagslífið sé að koma til eftir slæmt ástand undanfarna mánuði. Það er hins vegar ekkert sem hefur komið fram sem bendir til þess að þetta sé eitthvað að batna og þessi frétt styður það. Svipaða sögu mætti segja frá BNA, en þar hafa atvinnuleysistölur ekki staðið undir væntingum.

Heimurinn hefur sloppið vel hingað til, en þar sem menn hafa ekki tekið á raunverulegu meini þar frekar en hér, þá má búast við að þetta geti allt fallið saman og þá mun ástandið á Íslandi ekki verða talið neitt sérstakt, eða vekja neina athygli umfram aðrar þjóðir.

Ég óttast að jákvæð viðbrögð á mörkuðum erlendis sé svo kölluð "Bear-trap" en það er fyrirbæri sem kemur oft upp í niðursveiflum. Þá kemur jákvæðnisskot sem fær fólk til að hefja fjárfestingar. Svo þegar þetta er komið á ákveðinn skrið, er fótunum kippt undan væntingunum og annar skellur tekur við. Sé þetta rétt mat hjá mér, þá kemur ekki til neinnar aðstoðar að utan.

Besta lausn okkar liggur í því að vinna sjálf á rótum vandans hér heima og leita leiða sem munum byggja þjóðfélagið upp á forsendum eignar, en ekki skulda eins og óumflýjanlega mun verða ef við höldum okkur við sama fjármálakerfi.


mbl.is Enn eykst samdrátturinn í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hagvöxtur mögulegur?

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg að sjá hvernig þessi hagvöxtur á að koma til, þegar litið er til aðgerða ríkistjórnarinnar. Til þess að hagvöxtur komi til, þá þarf að vera hvati til þess í samfélaginu. Hagvöxtur er aukin framleiðsla á verðmætum og til þess að það geti komið til, þá þarf að vera til fjármagn til að skiptast á þessum verðmætum. Nái ríkistjórnin sínu fram, þá er hæpið að til verði fjármagn innanlands til að ýta undir hagvöxt. Allt fjármagn og öll orkan fer erlendis í formi skuldagreiðslna, fjármagn fer úr landi án þess að nokkuð annað komi í staðinn. Umhverfið hér innanlands mun ekki vera heillandi fyrir ungt fólk, sem mun í meira mæli halda erlendis til gæfuleitar. Þannig dregur enn frekar úr líkum á hagvexti og gerir spá bankans enn ólíklegri.

Hins vegar er áhugavert að heyra þá segja krónuna hafa dregið úr skellinum, ólíkt því sem gerist hjá Írum. Er þetta enn frekar ástæða þess að við eigum ekki að sækja til ESB, heldur vinna úr okkar málum sjálf.

Það að ég telji þessa spá bankans ekki muni ganga eftir, byggir á því að ríkistjórnin haldi áfram á sömu braut aðgerðarleysis í málefnum lands og þjóðar, með afglöpum í því litla sem hún þó gerir. Hins vegar tel ég mögulegt að spá Seðlabankans geti gengið eftir, en þá þarf að bretta upp ermarnar og taka rækilega til hendi.

Lausn vandans liggur ekki í þeim afleiðingum sem við höfum einblínt á, heldur rótinni. Rót vandans er það fjármálakerfi sem við höfum búið við nú í nokkur hundruðir ára. Núverandi fjármálakerfi er í eðli sínum gallað, þannig að það leitar til aukinnar skuldsetningar í stað eignar. Kaldhæðni kerfisins liggur í því að eftir því sem við framleiðum meira og aukum verðmæti samfélagsins, þá aukum við skuldsetninguna. Það er nefnilega þannig í núverandi kerfi að aukin hagsæld leiðir af sér aukna skuldsetningu. Það er í þessari áráttu kerfisins til skuldsetningar sem vandinn liggur, hvergi annarsstaðar. Það er því okkur lífsnauðsynlegt að skifta út núverandi kerfi skuldsetningar og taka upp kerfi sem leiðir til eignar með aukinni hagsæld.


mbl.is Hraður vöxtur eftir kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörfað í vörn

Skyldi Jóhanna vera að draga lið sitt saman í vörn svo hægt sé að sækja fram og fá samþykktan Icesave samninginn. Hún gerir sér nefnilega grein fyrir því að án hans er umsókn hennar í ESB tilgangslaus. Það verður því allt kapp sett á að fá þennan samning í gegn. Það skiptir ekki hagur lands eða þjóðar, heldur skal keyrt áfram af kappi en forsjá. Hins vegar er Icesave svo miklu stærra og meira en einhver ESB viðauki og má ekki samþykkja þennan samning sem nú er í umræðunni.

Afgreiðsla málsins hefur frestast og er hér aðeins um að ræða frest til að safna vopnum, ekki síst hjá þeim sem eru á móti. Nú er lag að þeir sem vilja aðrar lausnir láti í sér heyra og taki til máls. Við verðum að koma hugmyndum okkar á framfæri því þær eru til og margir með góðar hugmyndir en hafa ekki komið þeim út. Þetta er mál sem skiptir okkur öll máli og á ekki að bendla við neitt annað, hvorki flokka eða stjórnarsamstarf.

Hingað til höfum aðeins virkjað Ísland, nú er mál að virkja Íslendinga.


mbl.is Hlé gert á störfum þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfnum þá Icesave

Gott að heyra að Icesave muni ekki skipta máli varðandi umsóknina. Þá er ekki spurning að Alþingi getur hafnað samningnum. Annars er alltaf gaman að heyra þegar við erum kynnt inn sem góður kostur þar sem við erum norrænt lýðræðisríki. Hingað til hafa Norðurlöndin ekki stutt okkur nema það sé þeim til hagsbóta og svo spyr maður sig um þetta með lýðræðið. Hvers vegna er það kostur þegar verið er að ganga inn í samband sem hefur slíkan lýðræðishalla að slagar hátt í einræðisríki.

Haldi menn í barnaskap sínum að okkur verði tekið fagnandi og fáum allt upp í hendurnar, þá er voðinn vís. Framundan eru þungir og erfiðir tímar þar sem okkur verður gert að sæta alskonar vitleysu og spurningin verður ekki hvort við eigum að taka þetta upp, heldur hvenær. Með vísan til flýtivilja ríkistjórnarinnar, þá er ég hræddur um að ESB aðild muni verða frágengin með Icesave vinnubrögðum.


mbl.is Umsóknin á dagskrá á mánudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir hverra eiga að ráða

Nú er Össur búinn að "formlega" afhenda pappírinn. Þessi pappír mun líklega verða einn sá dýrasti í Íslandssögunni, enda vita tilgangslaus þegar litið er til þeirra verkefna sem bíða úrlausnar hér á landi.

Verkefnin sem þarf að leysa eru ærin, en mest um liggur að byggja upp nýtt efnahagsumhverfi þar sem þjóðin getur búið við betri kost og horfið frá kerfi skuldsetningar til þess sem leiðir til eignar. Við þurfum að græða sár og byggja upp, vinna að hagsmunum heildarinnar. Við þurfum ekki að rjúfa friðinn og sækja til sérhagsmuna.

Aðild að ESB mun ekki hjálpa okkur í þessum verkum, heldur þvert á móti. Umsóknarferlið mun krefjast krafta sem betur væru nýttir til innri uppbyggingar og friður mun ekki ríkja meðan ferlið er í gangi, sérstaklega þegar litið er til umgjörðarinnar í kringum umsóknina. Ef svo vildi til að umsóknin yrði samþykkt og við færum inn, þá er ekki fyrirséð að það muni á nokkurn hátt hjálpa okkur. Það er nefnilega þannig að samkvæmt relgunum sem gilda í þessum evrópska klúbbi, þá er bannað að hjálpa sérstökum ríkjum með beinum hætti. Þetta verður til þess að við fáum enga aðstoð þarna hvort eð er. Ef menn efast um þetta, þá er vert að skoða þá aðstoð sem Írar og Spánverjar hafa fengið frá klubbnum til að bjarga þeirra efnahagsástandi. Einnig mætti bæta við ýmsum austantjaldslöndum sem sóttu í klúbbinn fyrir stuttu.

Ef rökin fyrir inngöngu eru þau að hefðum við verið inni, þá værum við ekki að horfa slíkt ástand sem nú ríkir hér á landi, þá vil ég benda á Írland og Spán sem eru í ekki síðri vanda en við. Þar er reyndar um fleiri og breiðari flóru banka og því ekki allir komnir á hausinn. En fyrir hinn almenna borgara þessara ríkja, þá er framtíðin ekki að brosa við þeim. "Rökin" eru því ekki til staðar.

Við skulum líta til þess sem Bismark sagði, er hann benti á að ríki ættu ekki vini, heldur hagsmuni. við höfum horft upp á það síðustu misserin, að þó við höfum talið hin og þessi ríki vini okkar, þá hefur sá vinskapur rist grunnt þegar horft er á málið frá hlið þessara "vina" okkar. Nokkur dæmi væri kannski ummæli fyrrum forsætisráðherra Noregs um að við værum of vitlaust til að taka sæti í öryggisráðinu, yfirlýsingu sænsks ráðherra um að samþykkt þeirra á inngöngu Íslands í hvalveiðiráðið hefðu verið mistök, meðhöndlun Bandaríkjastjórnar á okkur í tengslum við varnarliðið eftir að fengið stuðning okkar fyrir árás á Írak, svo ekki sé minnst á "vini" okkar Breta og Hollendinga og klúbbsins góða sem við sækjum svo stíft í. Margt annað mætti taka til, en þetta ætti að vera nóg til að sýna okkur að við eigum enga "vini" svo lengi sem hagsmunir ganga ekki saman.

Það er því okkar að leysa úr þeim málum sem að okkur snúa og við verðum að gera það á þann hátt að komi okkur til góða. Við eigum ekki að líta til annarra þjóða nema hagsmunir leiði saman og þá aðeins meðan það ástand ríkir. Við verðum að átta okkur á því umhverfi sem við búum við, þar sem við höfum margsinnis verið stungin í bakið og mun verða það í framtíðinni. Við verðum að treysta á okkur sjálf og vera meðvituð, þannig náum við bestri framtíð. Framtíðin á að byggja á okkur á okkar forsendum.

Lítum til lausna sem hugnast okkur, ekki sækja í kistu ónýtra hugmynda. Íslandi er best borgið frjálst og fullvalda í getu til að velja sér samstarfsþjóðir. Íslandi er ekki best borgið í lokuðum klúbbi þar sem félagsmönnum er skipað til og frá, gegn hótunum verði þeir ekki við tilskipununum. Hafi mönnum þótt hótanastjórnun síðustu daga vera undarleg, þá er vert til þess að hugsa að sá flokkur sem þeim beitir, er sá flokkur sem best hugnast þessi aðild. Menn líkjast því sem þeir sækja.


mbl.is Afhenti Svíum aðildarumsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimskra manna ráð

Ekki veit ég hvaðan ríkistjórnin fær ráð, en að mínu mati þá eru það heimskra manna ráð. Verið er að gefa bankana til aðila sem ekki munu hafa neitt annað að leiðarljósi en gróða og eignarupptöku. Vinna með smáfólki mun ekki sitja ofarlega á lista þeirra.

Þjóðfélagið þarf að vinna úr ýmsum hlutum. Þeir eru flestir tilkomnir vegna skuldsetningar sem ekki er hægt að standa undir í dag. Hvað gerir þá ríkistjórnin? Fyrst segist hún þurfa að byggja upp bankana svo hægt sé að koma atvinnulífinu á stað og bjarga almenningi. En hvernig geta bankarnir "bjargað" fyrirtækjum og almenningi. Einfallt, eins og alltaf, með aukinni skuldsetningu.

Það er nefnilega þannig að leið ríkistjórnarinnar til "bjargar" í krafti bankanna, leiðir bara af sér aukna skuldsetningu og það er ekki leið. Við verðum að horfa út fyrir gamla kassan og finna nýja leið. Þjóðfélagið þarf ekki lausnir sem byggja á aukinni skuldsetningu, er ríkistjórnin ekki að átta sig á því.

Vandinn í dag liggur í kerfinu, ekki skuldunum sem slíkum. Því verðum við að breyta kerfinu og þá mun hitt lagast í kjölfarið. Höggvum að rótunum, en látum afleiðingarnar ekki villa okkur sýn. Lausnin sem við þurfum að taka upp hefur verið kynnt hér á blogginu mínu og ráðlegg ég öllum að lesa fyrri færslur (fjórar færslur) sem ég kalla nýtt Ísland.

Rísum upp og byggjum betra Ísland, almenningur á rétt á því.


mbl.is Þingmenn framsóknar áhyggjufullir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipustjórnin

Ég var að velta einu fyrir mér. Er Alþingi undirdeild í stjórnaráðinu? Hvernig stendur á því að það er forsætisráðherra sem ræður því hvort þingmenn sitji eða standi í sumar.

Nú á að keyra Icesave í gegn, en eins og kom fram hjá formanni utanríkismálanefndar, þá er engin ástæða til að draga þetta og allt tal um að menn þurfi að kynna sér gögnin í málinu vitleysa. Það sé svo mikið af gögnum að þingmenn komi aldrei til með að geta lesið þetta í tíma og því sé það eitt í málinu að samþykkja þetta svo halda megi áfram. Spurningin er bara hvert á að halda.

Því hefur verið haldið fram að lagatextinn vísi ekki til neinnar skildu ríkisins til að ábyrgjast innistæður banka, en textinn er byggður á ESB reglum og því staðlaður í öllu ESB. Ástæðan fyrir því að ríkið þarf að samþykkja ábyrgð sé einfaldlega vegna þess að það beri enga ábyrgð eða skylda til að greiða þessa upphæð. ESB vilji forðast að fólk átti sig á þessari brotalöm í reglunum og vilji þvinga íslenska ríkið til að borga eitthvað sem það þarf ekki að borga, til þess að hindra fólk í að sækja innistæður sínar í evrópska banka. Það gæti skapað gífurlegan glundroða í Evrópu.

Það er hins vegar ekki ólíklegt að svipan, sú sem notuð var á þingmenn í síðustu kosningu, verði tekin upp aftur, því það er augljóst að komi Alþingi til með að hafna Icesave, þá muni umsóknin um inngöngu í ESB (þessi sem augljóslega var send til Svíþjóðar áður en kosningu lauk á Alþingi) verða vistuð í bréfatæturum báknsins í Brussel. Það er því alveg á hreinu að þetta verður barið í gegn af Jóhönnu.

Þeir þingmenn sem samþykktu ESB aðildarumsóknina gegn betri vitund, geta því núna komið í veg fyrir, eða tafið ferlið, með því að hafna því að Alþingi eigi að bera ábyrgð á einhverju sem það yfir höfuð á ekki að bera ábyrgð á.

Það er kominn tími til að þingmenn hætti að hugsa um hagsmuni útlendinga og fari að hugsa um almenning. Þeir verða nefnilega að átta sig á því að það er almenningur sem hefur kosningaréttinn í næstu kosningum, ekki útlendingarnir. Það eru til aðrar lausnir á því ástandi sem hér ríkir og tími til komin að ráðamenn taki af skarið og fari að vinna fyrir þá sem þeir eiga að vinna fyrir.


mbl.is Engin vissa um meirihluta fyrir Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband