Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hægur dauðdagi, eða ekki

Aftökur er hægt að framkvæma á margan hátt, allt frá hnakkaskoti, sem tekur fljótt af og allt til þess að eyða mörgum dögum í verkið með kvalarfullum hætti.

Einhversstaðar þarna á milli erum við stödd með þetta samfélag okkar. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að við skulum búa við það í dag að geta ekki sinnt þjónustu við hafið í kringum okkur. Við erum með eitt skip og eina þyrlu. Ekki bara eina þyrlu, heldur virðist vera bara ein áhöfn.

En hvernig stendur á þessu ástandi? Hvernig gátum við áður haldið úti þremur skipum, jafnvel fleiri í þorskatstríðunum? Hvernig gátum við yfir höfuð haft ráð á þeim? Hvert fara peningarnir?

Ein stærsta ástæðan fyrir þessu veseni öllu er það fjármálakerfi sem við búum við. Á meðan nýtt fjármagn kemur til okkar í formi skulda, þá mun vaxtakostnaðurinn ávallt verða til þess að við getum ekki veitt samfélaginu þá þjónustu sem það á skilið.

Aukin hagsæld leiðir til þess að meira fjármagn þarf að fara í umferð. Þegar við svo búum við kerfi þar sem fjármagn verður bara til við skuldsetningu, þá leiðir aukin hagsæld óhjákvæmileg til aukinnar skuldsetningar. Þetta er fáránleg staðreynd, en staðreynd engu að síður. Þessi aukna skuldsetning leiðir svo til aukins vaxtakostnaðar, þannig að samfélagið getur minna og minna gert á meðan fjármálakerfið tútnar út. Fáránleikinn verður svo sífellt meiri þegar lánin eru tekin erlendis og allur vaxtakostnaðurinn fer úr landi með tilheyrandi samdrætti á innflutningi.

Núverandi fjármálastefna MUN leiða til dauða þessa samfélags. Þetta er ekki spurning um hvort heldur hvenær.

Hins vegar er til val og það er skylda okkar að ræða það val, afkomendum okkar til heilla. Hér er fyrirlestur sem ég hélt um fáránleika fjármálakerfisins og mæli ég með því að þeir sem ekki hafi séð hann geri það.


mbl.is Sóttu tvo menn út á sjó í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru ekki að átta sig á hlutunum

Það er alveg augljóst að almennt séð er ekki verið að átta sig á því hvað er að gerast hérna. Þegar menn segja hluti eins og ...

... að fólk eigi að vera ánægt með að stjórnmálamenn hafi bremsað kreppuna niður, áður en hún breiddi úr sér

... þá eru þeir ekki með hlutina á hreinu. Það að gefa að gefa manni með þynnku snafs, er ekki að laga neitt. Þynnkan bara frestast og kemur þeim mun stífar þegar hún svo óumflýjanlega kemur. Að eiga að vera ánægður með svona "reddingu" er í besta falli veruleikafyrring.

Þetta ástand er engöngu tilkomið vegna of mikillar skuldasöfnunar og að ætla sér að laga það með aukinni skuldasöfnun er bara heimska. Það skiptir engu máli hvað "sérfræðingar" segja, þetta er bara heimska og ekkert annað. Það er bara verið að fresta því óumflýjanlega.

Svo lengi sem ekki verður litið til raunverulegra orsaka þessa ástands, þá mun varanleg lausn ekki finnast.

Mæli svo með því að þeir sem ekki hafa séð fyrirlestur minn um fáránleika fjármálakerfisins og hvaða lausnir standi til boða, geri það núna.

 


mbl.is Danskir bankar tapað 2.200 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki kominn tími til að tengja

Það er alveg ótrúlegt hvað þetta fyrirbæri sem við köllum pening, er að valda miklum vandræðum. Þetta er sérstaklega kaldhæðnislegt þegar litið er til þess að peningarnir sjálfir eru í eðli sínu verðlausir, eða alla vega verð litlir.

Peningar eru og munu alltaf vera, ávísun á verðmæti. En í samfélög manna, því þetta er ekki sér íslenskt fyrirbæri þetta fjármálakerfi, hafa afsalað sér framleiðslu fjármagns til einstaklinga sem keyrðir eru áfram af græðgi. Það er ekkert að því að fólk auðgist í viðskiptum, en spurningin er hvort lotterý sem spilar með líf fólks eigi rétt á sér.

Það er alveg ótrúleg heimska samfélaganna að hafa afsalað sér þessum rétti til handa einstaklinum, í stað þess að samfélagið sjái sjálft um fjármagnsframleiðsluna samfélaginu til hagsbóta. Það er einu sinni þannig að við höfum sett upp samfélagið þannig að peningar eru notaðir til að skiptast á verðmætum og því nauðsynlegir samfélaginu. Að samfélagið afsali sér svo framleiðslunni er þá bara rugl.

Peningar eru nauðsynlegir fyrir samfélagið og samfélag sem hefur afsalað sér peningaframleiðslunni til einstaklinganna mun því alltaf verða háð þeim einstaklingum. Þetta verður til þess að þeir aðilar sem fara með stjórn samfélaganna munu ávallt taka hagsmuni peningaframleiðandanna framyfir hagsmuni samfélagsins sjálfs.

Sífellt kemur betur og betur í ljós að við vorum ekki ábyrg varðandi Icesave, en hangið er á einhverju sem kallast jafnræðisregla og við þvinguð með henni til að borga. Vísað er til ákvörðunar sem tekin var í upplausnarástandi þegar bankarnir voru að falla og eftir að Bretar höfðu tekið okkur í gíslingu með hryðjuverkalögnum og ekki hjálpar að þetta var allt gert eftir ráðleggingar frá útlendingum, eftir því sem manni skilst.

Ef þessi ábyrgð er tilkominn vegna yfirlýsingar sem meðal annars er afleiðing ákvörðunar breskra ráðamanna, þá er eðlilegt að þessir hlutir séu ræddir í samhengi og afleiðingar ákvörðunar Breta tekin með í reikninginn. Það er ekki eðlilegt að sú ákvörðun sé fjarlægð úr formúlunni samkvæmt kröfu Breta.

Svo er líka áhugavert að hugsa til þessarar jafnræðisreglu þegar litið er til deilna íbúa á eyjunni Mön við breska stjórnkerfið, þar sem Bretar hafa ábyrgst innistæður breskra íbúa í skoskum banka, en íbúar Mön fá ekkert. Skýringin, íbúarnir á Mön hafa ekki borgað skatta til Bretlands. Hvað borguðu margi Icesave reikningseigendur skatt til Íslands?

Það er ósköp einfaldlega verið að koma okkur í fjárhagslega vandræði til að auðvelda ásókn í auðlindir okkar. Þetta er aðferð sem notuð hefur verið út um allan heim og virkað vel, enda segir enginn neitt.

Mæli til þess að fólk horfi á þennan fyrirlestur um fjármálakerfið.

Það er kominn tími til að stjórnendur þessa lands fari að átta sig á eðli peninga og taki STRAX yfir peningaframleiðsluna á samfélagslegum forsendum, en láti hana ekki liggja hjá erlendum einkaaðilum. Þetta er einfaldlega spurningin um það hvort við ætlum að búa við mannsæmandi kjör á þessu landi eða ekki.


mbl.is Icesave er skaðabótamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með tapið?

Nú hefur komið í ljós að síðustu tvo mánuði hefur vísitalan lækkað um heil 0,66% og sé litið til 20 milljón krónu láns sem tekið var 2007, þá hefur höfustóll þess lækkað um heilar 268.207 krónur. Ef við gefum okkur að 10.000 heimili séu með svona lán, þá er þetta hvorki meira né minna en 2.682.070.000 eða rúmlega 2,6 milljarðar!!!

Þetta er gifurlegt tap fyrir bankakerfið og ég spyr mig því, hver á að borga tapið? Ekki getum við staðið aðgerðarlaus hjá þegar slíkt ógæfuhögg ríður á bankakerfinu.

En sem betur fer er höggið ekki meira en þetta og hugsanlega er hægt að finna einhverja einstaklinga sem hægt er að hirða þetta af, enda margir sem enn búa við þá auðlegð að hafa nettó tekjur á hverjum mánuði.

Þökkum bara fyrir það að vísitalan er ekki komin niður í 268 stig eins og hún var árið 2007, því þá væri tap bankakerfisins óhugnalegt. Ímyndið ykkur bara að höfuðstóll 20 milljóna lánsins hefði þá bara leiðréttst sí sona.


mbl.is Hefur lítil áhrif á afborganir lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers er sök og hvers að gjalda

Ég er ekki alveg að átta mig á þessu sem kemur fram í þessari frétt. Björgólfur segir að markmið einkavæðingarinnar hafi verið að koma með erlent fjármagn inn til landsins og það hafi Samson hópurinn gert. Hins vegar segir hann Búnaðarbankann hafa verið keyptan með einhverjum "skuldasúpupeningum".

Ég man ekki betur en að það hefði komið fram fyrir einhverju síðan að báðir bankarnir voru keyptir á sömu forsendum, þ.e. 30% út og rest lánuð, þar sem Búnaðarbankinn lánaði Landsbankanum og Landsbankinn lánaði Búnaðarbankanum. Hver er þá munurinn á fjármögnuninni.

Hins vegar ætla ég ekki að gagnrýna þennan hátt sem var á viðskiptunum, þetta bara tíðkaðist á þessum tíma og gerir enn. Hins vegar er þetta spurningin um að menn komi heiðarlega fram og segi rétt frá, en reyni ekki að skella allri skuldinni á aðstæður eða aðra einstaklinga. Ég velti líka fyrir afdrifum Straums, en þar held ég að óábyrg verslun með hrávöruafleiður hafi haft meira að segja um slæma stöðu bankans og afdrif hans en ákvörðun FME.

Það að halda því svo fram að einkavæðing Búnaðarbankans á sama tíma hafi verið ástæðan fyrir einhverjum skyndilegum vexti í bankakerfinu, er líka eitthvað sem hann hefði mátt sleppa því að koma inn á. Vöxturinn var vegna aukinnar útlánastarfssemi allra bankanna.

Það er aðeins ein ástæða fyrir því að athafnamenn síðustu ára lögðu svona mikið kapp á að eignast banka. Það var ekki vegna þess að þeir höfðu svo mikinn áhuga á bankastarfseminni sem slíkri, heldur vegna þeirrar einföldu ástæðu að þarna töldu þeir sig geta gengið í ótakmarkaða sjóði bankanna. Þetta var líka ástæðan fyrir því að tryggingarfélög voru svona eftirsótt.

Það sorglega við þetta allt saman er hins vegar það að þessir einstaklingar virðast ekki hafa haft hugmynd um það hvernig bankar virka yfir höfuð, því annars hefðu þeir hagað sér allt öðru vísi. Þessir einstaklingar blóðmjólkuðu kú sem þeir hefðu með alúð og umhyggju getað nýtt sér til ótakmarkaðrar peningaframleiðslu.

Ég vil meina það að það þurfi einstaklega vitgranna einstaklinga eða bara almennt þekkingarleysi á rekstri banka, til að setja þá á hausinn. Það er líka sömu eiginleikar sem eru þess valdandi að almenningur, sem á engan hátt kom að rekstri þessara sömu fyrirtækja, skuli rukkað um eitthvað sem þeir bera enga ábyrgð á.

Fjármálakerfið sem við búum við í dag byggir á misnotkun. Björgólfur var ekki stýriafl í þeirri misnotkun, heldur meira verkfæri. En vegna þessa stendur hann betur að vígi en við hin sem þurfum að bera meintan skaða af afleiðingum kerfisins.


mbl.is Gagnrýnir einkavæðinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagvöxtur leiðir alltaf til aukinnar skuldsetningar

Það að skuldir skuli aukast umfram eignir, þýðir bara að ástandið er ekki að batna, heldur hefur fólkinu verið gefinn afréttari. Vandamálið við það að gefa drykkjumanni snafs til að slá á þynnkuna, er að þynnkan kemur bara seinna og verður miklu mun verri.

Það er alveg ótrúlegt að við skulum nú vera að klára annað árið í þessu ástandi og engar raunverulegar lausnir verið bornar fram. Almenningi hefur verið réttur hver snafsins á fætur öðrum um leið og athyglinni er beint að einhverju sem ekki kemur til með að laga ástandið eitt né neitt.

Það sorglega við þetta allt, er að það er hægt að laga þetta ástand á um 12 mánuðum ef raunverulegur vilji væri til þess. Hugsið bara til þess ef almenninlega hefði verið unnið í því árið 2008 að vinna á rót vandans, þá værum við nú að horfa upp á fyrsta árið í jákvæðum aðstæðum. Í staðinn veit enginn hvað bíður. Almenningur vonar það besta, en um leið óttast mun meira hið versta.

Vandamálið liggur ekki í Magma, Icesave, verðtryggingu eða einhverju öðru afleiddu ástandi núverandi kerfis, heldur í kerfinu sjálfu. Við búum við fjármálakerfi sem óhjákvæmilega leiðir til glötunnar.

Það er nefnilega þannig að því meira sem við framleiðum, því meira komum við til með að skulda. Það mun ALDREI gerast í núverandi kerfi, að almenningur og ríkið verði skuldlaust. Ef allir hætta að taka lán þá mun samfélagið staðna. Við getum ekki einu sinni greitt upp lánin okkar, því ef við greiðum upp lánin, þá mun ekki verða til neinn peningur og þá er bara búið að borga höfuðstólinn, vextirnir eru eftir. Þeir verða "innheimtir" í formi eignarupptöku. Þannig að núverandi kerfi er dæmt til að gera almenning að öregum og hirða eignir þeirra.

Það er því út frá þessu alveg óskiljanlegt að stjórnmálamenn skuli halda áfram að vinna með núverandi kerfi, en hins vegar skiljanlegt þegar litið er til þess hvernig ríkið fjármagnar sjálft sig og þingmenn komast á þing (æ skal gjöf gjalda). Þeir einu sem hafa hag af núverandi kerfi eru fjármálastofnanir og aðilar þeim tengdum.

Það er því ekki skrítið að ríkið skuli hafa lagt allt í sölurnar til að bjarga fjármálafyrirtækjunum á kostnað almennings. Þetta er svona svipað og ef A brýst in til B og stelur sjónvarpinu, sem brotnar þegar A er að stinga af frá vettvangi. Í dómi er B svo dæmdur til að greiða A bætur vegna "tapsins" sem A varð fyrir þegar sjónvarpið eyðilagðist. Þetta er náttúrulega bara bull og engin skynsemi fólgin í þessu.

En til að skýra afstöðu ríkissins og gera hana "skiljanlegri", þá er það þannig að samfélagið og ríkið geta ekki verið án framleiðslu fjármagns og því ávallt vera háð þeim sem búa til fjármagnið. Þegar ríkið hefur svo afsalað sér fjármagnsframleiðslunni til einkaaðila, þá er eðlilegt að ríkið geri allt fyrir þessa einkaaðila. Ríkinu er nefnilega ekki stjórnað af samfélaginu, heldur þeim sem skaffa því fjármagn.

Það á því að vera krafa almennings að ríkið taki aftur upp framleiðslu fjármagnsins til hagsbóta fyrir samfélagið.

Hér er svo hægt að skoða nánar fyrirlestur um eðli fjármagnsins og leiðir til lausnar. (sum fyrirtæki eru með einhverskonar stillingar á kerfunum hjá sér sem hefta skoðun á myndbandinu, en þá ætti fólk að skoða þetta heima hjá sér, því þetta er eitthvað sem ALLIR verða að kynna sér)


mbl.is Skuldir hækka meira en eignir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær opna menn augun

Er ekki komið nóg af þessari vitleysu. Í ræðu Össurar kom fram að þetta ferli ætti að fara fram fyrir opnum dyrum og engin leynd að vera til staðar. Samt er haldið áfram að dæla í okkur frösum um samning og jafnvel hagstæða samninga.

Þarna spyr spænskur blaðamaður um hluti sem liggja þeim nærri, fiskveiðarnar. Össur svara í engu spurningunni, en segir að við búum við sérstöðu sem verði að taka tillit til. Þá bætir Füle því við að engar undanþágur séu veittar frá lögum ESB.

Það er alveg á hreinu og hefur alla tíð legið fyrir, að Spánverjar ætla sér að komast í fiskinn og það að við fáum enga sérmeðferð. Annað hvort förum við inn á forsendum ESB eða við erum úti.

Til viðbótar þessu, þá segir í ræðu Össurar að Íslendingar samþykki að grundvalla viðræðurnar á regluverki ESB, sem þýðir að ríkisstjórnin er í raun búin að samþykkja allan pakka ESB og frekari samningaviðræður því tilgangslausar.

Það er einfaldlega þannig að ekki verður samið um neitt varanlegt, eins og ítrekað hefur komið fram hjá ESB, heldur er þetta spurning um hvernig aðlögun Íslands verður háttað. Það er allt og sumt. Það er ekkert í poka ESB, það eru engin spil á hendi sem á eftir að sýna. Þetta liggur allt fyrir og hefur gert alla tíð.

Enn einn brandarinn í þessu öllu er svo greinin í upphafi ræðurnnar, þar sem því er haldið fram að þessi umsókn byggi á lýðræðislegri ákvörðun Alþingis þar sem Alþingi fari fram á það að þessar viðræður séu hafnar. Ég ætla ekki að fara út í það nánar hér, en bendi fólki bara á að kynna sér umræðu og kosningaferlið á Alþingi, ekki síst fréttirnar sem láku út á sama tíma.

En við hverju er að búast af ráðamönnum sem eru að þvinga þjóðina í ríkjasamband sem ekki ber virðingu fyrir lýðræðinu og byggir í raun alls ekki á lýðræði yfir höfuð. Er þetta ekki bara þannig að líkur sækir líkan heim.


mbl.is Engar varanlegar undanþágur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Iðnaður og ESB

Helstu stuðningsmenn ESB aðildar hafa löngum komið frá samtökum iðnaðarins, enda eins og segir í fréttinni, þá er ESB aðild og upptaka euro gamalt baráttumál þeirra.

Hins vegar veltir maður fyrir sér íslenskum iðnaði í dag.

Þegar ég var yngri að árum, þá var heljarinnar fyrirtæki í nágrenninu sem hét Héðinn. Í dag er þetta fyrirtæki ekki lengur með starfstöð á sama stað, reyndar held ég að það sé ekki með neina starfstöð yfir höfuð. Svo vann ég eitt sinn hjá fyrirtæki sem hét Kassagerðin og var heljar framleiðandi á kössum. Ég ætla ekki að halda því fram að EFTA eða EES aðild hafi breytt einhverju um rekstur þessara félaga, en mér liggur forvitni að vita hvernig iðnaði sé háttað núna.

T.d. langar mig að vita hvað séu margir fataframleiðendur á Íslandi, þá á ég ekki við félögu sem eru skráð á Íslandi og framleiða föt t.d. í austur Evrópu. Ef við lítum á 66 norður, sem er stórt íslenskt fataframleiðslu fyrirtæki, hvað vinna margir við fatagerð á þeirra vegum á Íslandi og hvað er það stór hluti heildar framleiðslunnar?

Auðvitað getur minningin truflað mann og allt litið betur út í "den", en ég get ekki annað en hugsað til þess að það hafi verið meiri innlendur iðnaður og fjölbreyttari þá en nú.

Svo veltir maður fyrir sér hver verður framtíðin innan ESB.


mbl.is Fagna samþykkt ráðherraráðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir einstaklinganna í samfélaginu

Einstaklingar búa í samfélögum vegna þess að þeir telja hag sínum betur borgið innan þeirra en utan. Komi hins vegar til þess að einstaklingarnir sjá ekki lengur hag sínum borgið innan samfélagsins, þá er óumflýjanlegt að samfélagið mun liðast í sundur og að einstaklingarnir leiti leiða til að skapa nýtt samfélag, eða aðlagast nýjum samfélögum þar sem þeir telja hag sínum betur borgið.

Ríkisstjórnir (stjórntæki samfélagsins) geta ekki verið án fjármagns. Vegna þessa, þá er sérhver ríkisstjórn háð þeim aðilum sem sjá um fjármagnsframleiðsluna. Ríkisstjórn getur því aldrei verið sjálfstæð eða án áhrifa frá þessum aðilum og munu allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar leitast við að gæta hagsmuna þeirra, þvert á hagsmuni einstaklinganna innan samfélagsins. Frelsið nær því ekki lengra en aðgengið að fjármagnsframleiðslunni.

Það er því lífsnauðsynlegt öllum samfélögum að fjármagnsframleiðslan sé í höndum samfélagsins sjálfs, en ekki einstaklinga innan þess eða utan og sem bera ekki samfélagslega ábyrgð.

Hér er myndband af fyrirlestrir sem ég hélt 23. júní sl og allir hættu að horfa á og bendir á orsök ástandsins og leiðir til lausnar.


Verðum að þekkja orsökina og vinna á henni

Hér er myndband af fyrirlestri frá 23. júní sl og ættu allir að kynna sér myndbandið.

http://www.umbot.org/fundur/myndband_af_fundi_umbothreyfingarinnar_23_juni_2010


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband