Vonbrigði með viðtal

Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir smá vonbrigðum með viðtalið við hana Ingibjörgu í Mogganum á sunnudaginn. Ég hafði gert mér vonir um einhverjar krassandi tilkynningar eða málefnalegar sprengjur. Eftir að ég var búin að lesa viðtalið, þá var ég bara búinn að lesa viðtalið. Það sat einhvern vegin ekkert eftir.

Ef eitthvað var, þá var það að Samfylkingin virðist ætla að fara í ríkistjórn með þeim sem tekur við henni. Fyrir áramót var ýmislegt sem benti til þess að stjórnarandstaðan ætlaði að mynda lauslegt bandalag til stjórnarmyndunar. Í Kryddsíldinni hrikti hins vegar í þessu bandalagi og nú er svo komið að Samfylkingin er farin að opna á möguleikann á tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Í Kryddsíldinni skarst í odda með VG og Samfylkingunni út af leiðtogasætinu, Ingibjörg telur að eðlilegt sé að stærri flokkurinn í samstarfinu fá forsætisráðherrann. Ég velti því fyrir mér hvort hún sé tilbúin að ganga að því í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Ég hef það einhvern vegin á tilfinningunni að Ingibjörg eigi erfitt með að vera eitthvað annað en númer eitt.

Svo er það annað sem ég held að komi til með að draga úr líkunum á því að Ingibjörg verði vinsæl til samstarfs, en það er sú árátta hennar að hrauna yfir allt og alla. Það að taka þingflokkinn sinn fyrir og kenna honum um slæma stöðu flokksins, er náttúrulega bara dæmi um lélega diplomatik, eða hreinlega skort á henni. Þetta virðist sama viðhorfið og er í gangi hjá henni í tengslum við krónuna. Það væri athugandi að skoða hvenær fylgi flokksins fór að dala, samkvæmt skoðanakönnunum. Ef ég man rétt, þá jókst fylgi flokksins jafnt og þétt þar til í kringum síðasta landsfund flokksins. Spurning hvað gerðist þar.

Hvað er svo með stefnu Samfylkingarinnar. Það virðist sem sú stefna byggist á niðurstöðum kannanna, nema þá helst í Evrópuumræðunni. En þar virðist sem stefnan hafi verið sett á Evrópuaðild, þrátt fyrir að það sé ekkert sem segi að almenningur sé tilbúin í þá ferð. Ég sé heldur ekki að Samfylkingin sé eitthvað sérstaklega vinstri sinnuð heldur, að því leitinu til að hún hefur reynt að höfða mikið til stórfyrirtækja í útrás, eins og Evróputalið bendir til.

Það eina sem mér fannst ég geta lesið út úr þessu viðtali var að kosningabaráttan kemur til með að verða mjög áhugaverð. Hvort sem hún verður á persónulegum nótum eða hugmyndafræðilegum, sem ég tel reyndar minni líkur á.


Ert þú umferðaslys?

Það er kaldhæðnislegt til þess að hugsa að hægt er að gera umferðina 99,95% örugga. Það eina sem til þarf er að allir fari eftir umferðareglunum. Ástæðan fyrir því að ég nefni 99,95% en ekki 100%, er sú að alltaf má gera ráð fyrir óvita börnum eða öðrum einstaklingum sem ekki eru með fulla stjórn á sjálfum sér. Auk þess sem alltaf má gera ráð fyrir óvæntum atvikum sem engan vegin er hægt að koma í veg fyrir. Ein helsta ástæða þess að við erum að horfa uppá öll þessi slys, er því grundvölluð á sjálfselskum kvötum sem birtast í því að einstaklingar telja sig yfir aðra hafna.

Ég átti í samræðum við mann um þetta mál fyrir nokkrum árum og þegar ég sagðist vilja taka upp hertara eftirlit með umferðalagabrotum, þá sagði hann það óvinnandi að koma í veg fyrir öll brot. Ég spurði hann afhverju og sagði hann þá að það væri ómögulegt þar sem slíkt yrði til þess að engin umferðaslys yrðu. Þetta sló mig nokkuð og fór ég að velta því fyrir mér hvort þarna væri ástæðan komin. Við séu búin að festa okkur svo í þeirri hugsun að ekki verði komið í veg fyrir umferðaslys, að við neitum að viðurkenna það að hægt sé að koma í veg fyrir þau.

Er ekki mál til komið að hætta að hugsa um okkur sjálf og fara að hugsa um okkur öll.


Skattalækkun

Ég legg til að allur skattur af tekjum verði 10% og persónuafsláttur verði 30.000 kr. á mánuði. Við skattauppgjör verði ónýttur persónuaflsáttur greiddur út.

Þannig mun ekki gert upp á milli eðli teknanna, þ.e. fjármagnstekna eða launatekna. Ráðstöfunartekjur einstaklinga munu snaraukast og tekjulitlir einstaklingar fá ákveðna leiðréttingu í formi ónýtts persónuafsláttar.


Misheppnaðar gjafir

Er það bara ég, eða ert þú líka á því að verðlag fari hækkandi á ofur hraða? Ég hef einhvern vegin á tilfinningunni að frá því að ríkistjórnin ákvað að lækka virðisaukaskatt á matvæli og aðrar nauðsynjar, þá hafi allt farið úr böndunum.

Ég er nú reyndar þeirrar skoðunar að ákvörðunin um að lækka VSK hlutfallið hafi verið ákveðin panik viðbrögð til að bregðast við auknum áróðri frá Samfylkingunni. Þaðan hafði borist sá söngur að lækka bæri VSK hlutfall og önnur innflutningsgjöld. Þessi aðgerð átti að hafa í för með sér lækkun matvælaverðs og þar af leiðandi bæta hag neytenda/almennings. Gallinn er bara sá að verslunin virðist hafa ákveðið að taka til sín þessa lækkun með hækkandi verði. Með því að byrja að hækka vöruverð fljótlega eftir að ákvörðunin um lækkun var tekin, þá er virðist ætlunin að jafna út áhrifin þannig að þetta verði mildari verðhækkun en ella. Það kæmi mér ekki á óvart að þegar matvöruverð, frá því rétt áður en ákvörðunin er tekin, er borið saman við framkvæmdardag lækkunarinnar, að þá komi í ljós að verðlagið er svipað. Álagningin bara hækki.

Ég er fylgjandi skattalækkunum til að auka hag íbúanna. Ég tel reyndar að tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur eigi að vera sá sami. Samræming þeirra verði hins vegar á Þann hátt að tekjuskattur lækki í 10%. Með lækkuðum tekjuskatti eru ég og þú að fá meira í veskið við útborgun. Við getum síðan notað þennan pening eins og við viljum. Við getum eytt honum eða fjárfest. Ráðstöfunarvaldið er okkar. Með lækkun virðisaukaskattsins er hins vegar verið að takmarka ráðstöfunarmöguleika okkar. Við verðum að eyða pening til að geta nýtt þessi kjör, en það er svo í valdi verslunarinnar hversu lengi við fáum notið þessarar gjafar.

Ég er ósammála ákvörðuninni um lækkun virðisaukaskattsins af þeirri einföldu ástæðu að kjarabætur sem ríkið veitir almenningi í gegnum þriðja aðila, hafa tilhneigingu til að enda hjá þriðja aðilanum.


Er EU eitthvað til að sækja í

Samfylkingin hefur mikið spilað út Evrópu spilinu sínu og alveg ótrúlegt að horfa uppá frambjóðendur þar á bæ ýta undir aðild með þeim hætti sem þar er gert. Það undarlega er að aðild er aldrei talin kostur sem slík, heldur er alltaf rætt um það sem neikvætt er hér heima og hvað það gæti verið betra í Evrópunni.

En er þetta eitthvað til að sækja í? Ég var staddur í Evrópu þegar kosið var um þessa svokölluðu stjórnarskrá og var forvitnilegt að sjá hvernig stjórnmálamenn lofuðu hana í hástert, á meðan almenningur virtist almennt vera á móti henni. Reyndin var líka sú að þegar kosið var um hana í Frakklandi, þá var hún felld. Það sama átti sér stað í Hollandi. Bretar brugðu á það ráð að "fresta" kosningunum óákveðið. En í Þýsklandi var hún samþykkt, ekki af almenningi, heldur þjóðþinginu. Þjóðverjarnir þorðu ekki að bera hana undir íbúana, en margt benti til þess að andstaðan við hana væri enn meiri þar en í Frakklandi. Reyndar var því hótað að ef stjórnarskráin yrði felld í einu landi, þá væri hún búin að vera. Eftir kosningarnar í Frakklandi var hins vegar farið að tala um að þetta væri ekki búið heldur væri bara þörf á smá breitingum.

Niðurstaðan í stjórnarskrármálinu sýndi svo ekki var um að villast, að báknið hefur tekið ákvörðun um það hvert það vill stefna, en sú stefna virðist ekki vera í samræmi við vilja almennings. Tilgangur samvinnunnar getur hafa verið í upphafi sá að vinna að bættum hag almennings í Evrópu. Báknið virðist hins vegar verið farið að haga sér út frá hagsmunum þess sjálfs, óháð vilja almennings.

Einnig gerðist nokkuð annað um þetta leiti, en það var yfirlýsing tvíburanna í Póllandi að hækka virðisaukaskattinn þar í landi. Þessi ákvörðun hefði þýtt að hækka hefði þurft skattinn í öllum aðildarríkjunum. Það virðist nefnilega vera þannig að ríki geta hækkað skatta og þurfa þá hin ríkin að fylgja með, en ekki er hægt að lækka skatta nema með samþykki allra. Þær kjarabætur sem fylgt hafa skattalækkunum hér heima yrðu því að engu í Evrópu. Bræðurnir ákváðu hins vegar að fresta hækkuninni þar sem samkomulag náðist við önnur ríki um að draga þetta til baka. Samkomulagið var einfaldlega það að Pólland fékk stórar greiðslur til að fara ekki þessa leið. Pólland hafði því tekið öll hin löndin í gíslingu með þessari ákvörðun.

Það virðist vera svipað með Evrópusamrunann og ormana sem settir voru  á gull. Ormurinn sá um að gullið jókst hægt og bítandi, en um leið stækkaði ormurinn þangað til hann var farinn að halda gullinu frá eiganda þess. Eina leiðin til að stöðva hann var að stinga hann í hjartastað.

Er þetta það eftirsóknarvert umhverfi að öllu sé fórnandi fyrir það. Ég held ekki.


Evran vs. Dollar

Það er búið að vera gaman að fylgjast með hysteríunni sem er að byggjast upp í kringum evru umræðuna. Krónan búin að vera og því lengur sem við drögum það að taka upp evruna, því meiri verður katastroffan fyrir þjóðfélagið.

Það er sem ég hafi heyrt þennan söng ...

Á mínum yngri árum (fyrir sirka svona 20 slíkum), þá var þessi sama umræða í gangi. Reyndar var evran ekki til umræðu, enda ekki til sem slík. Heldur var rætt um dollar. Þjóðfélagið á fullu stími upp í fjöru og krónan, þá tveimur núllum fátækari, alger Mikka mús gjaldmiðill. Dollarinn var lausnin. Ef hann yrði ekki tekinn upp, þá værum við dæmd til eilífrar bölvunar í myrkum djúpum fátæktar. Slíkrar að hörmungar fyrri alda yrðu sem barnaleikur í samanburðinum.

Við tókum dollarann ekkert upp og hin myrku djúp hafa látið bíða eftir sér. Ég velti því fyrir mér hvað hefði gerst ef við hefðum tekið upp dollarann 1985 eða þar um kring. Hvernig væri þá umhorfs hér á skerinu. Hver væri umræðan, nú þegar allar þjóðir eru farnar að losa sig við dollarann úr myntkörfunum, í mismiklu mæli þó.

Ég legg til að við lokum munninum, öndum með nefinu og teljum upp á tíu.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband