25.1.2007 | 12:13
Hvað er lýðræði?
RUV frumvarpið og allt í kringum það á þingi fékk mig til að rifja upp það sem ég hafði lesið fyrir nokkrum árum eftir Hal Koch í bókinni Hvad er demokrati? sem útgefin var árið 1945 og svo endurútgefin 1960 nær óbreytt. Er bókin skrifuð í kjölfar styrjaldar þar sem einræði og skortur á lýðræði höfðu farið mjög illa með Evrópu.
Hugmyndir Hal og stjórnarandstöðunnar á þingi virðast um margt vera svipaðar. En eitt af því sem hann vill styrkja er það sem hann kallar minnihluta lýðræði. Nefnir Hal tvær aðferðir til að skera úr um málefni, átök og samræður, en samræður eru eina lýðræðislega leiðin. Vandamálið með lýðræðið er hins vegar það að hans mati að meirihlutinn getur kúgað minnihlutann. Nefnir hann í því sambandi dæmi um sóknarnefnd einhversstaðar í Danmörku þar sem hún skiptist í 7 og 4, en öll atkvæði í nefndinni falli alltaf á þessa leið. Það sé því ómögulegt fyrir minnihlutann að koma sínu á framfæri. Í nefndinni eru öll mál rædd og allir fá að tjá sig. Síðan eru málin borin undir atkvæði og falla þá alltaf 7/4. Þetta segir hann ekki vera lýðræði þar sem í raun sé atkvæðagreiðslan merki um átök og því ekki lýðræðisleg. Menn noti ekki sverð eða langspjót, heldur eru atkvæðaseðlar vopnin. Lýðræði verði engöngu til við það að menn gangi óbundnir til samræðu og að menn hlusti á rök hinna og taki ákvarðanir í samræmi við það, helst að ræða hlutina þannig að hugmyndir allra komi inn og úr verðið einhver svona íslensk þverpólitísk ákvörðun. Vill Hal meina það að þó að meirihlutinn vilji eitthvað og sé sammála um það, þá þýði það ekki að meirihlutinn hafi rétt fyrir sér. Þessar hugmyndir virðast endurspeglast í hugmyndum, hegðun og orðum Samfylkingarinnar.
Ef við skoðum þetta nánar, þá á minnihlutinn líka að fá að ráða. En við það er farið gegn meirihlutanum og þeim hagsmunum sem hann telur sig standa fyrir. Ég velti því þá líka fyrir mér af hverju á minnihlutinn að ráða. Erum við þá ekki að koma inn í kerfi þar sem sett verður upp fimm manna ákvörðunarnefnd sem telur sig vita allt betur en aðrir og á að koma vitinu fyrir okkur hin. Það að halda því fram að meirihlutinn hafi ekki alltaf rétt fyrir sér skiptir í raun ekki máli. Vilji meirihlutans hlýtur að skipta máli, sama hver sá vilji er í raun. Það er þannig að flest þau mál sem rætt er um eru hvorki rétt eða röng heldur spurning um smekk eða áherslur. Það að halda því fram að áherslur eða smekkur einhvers minnhluta séu réttari eða betri en heildarinnar getur ekki flokkast undir jafnrétti.
Uppákoman á þingi er gott dæmi um það þegar fólk beitir verkfærum lýðræðis í ólýðræðislegum tilgangi. Það að halda þinginu í gíslingu í marga daga hefur ekkert með lýðræði að gera, heldur er hér bara um hreina frekju að ræða, eins og hjá krakka sem ekki fær að kaupa nammi þegar verslað er í matinn. Ef krakkinn öskrar og gargar nóg í nammilandinu, þá eru alltaf líkur á því að foreldrarnir gefi undan og friðþægi krakkann með smá nammi. Þýðir samt ekki að krakkinn hafi haft rétt fyrir sér, eða að hér hafi verið um að ræða lýðræðislega framkvæmd.
Auðvitað verður að virða minnihluta í samfélaginu og ekki ganga á rétt þeirra. En minnihluti á þingi er ekki það sama og minnihluti í samfélaginu. Það sem vantaði í dæmi Hal var að sóknarnefnd er kosin reglulega og því geta sóknarbörn skipt um meirihluta ef þeir vilja og í því felst lýðræðið. Þeir sem eru á þingi eru kosnir fulltrúar heildarinnar sama hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Fulltrúarnir eru kosnir eftir að fólk hefur tekið afstöðu til málefna þeirra og velur þann sem það telur muni gæta hagsmuna sinna best. En sú ákvörðun byggist á því að hagsmunir fari saman. Ef kosnir fulltrúar eru ekki að gera það sem kjósendur vilja, þá kemur það fram í næstu kosningum og þeir verða því ekki kosnir aftur. Ef minnihlutinn á þingi er ekki sáttur við þessar aðferðir þá er hann ekki sáttur við framkvæmd lýðræðis hér á landi. Ef þeir ná ekki meirihluta á þingi, þá er það einfaldlega vegna þess að þeir og þeirra hugmyndir höfða ekki til fólksins.
Það er einfaldlega þannig í okkar lýðræðisþjóðfélagi, að við kjósum okkur fulltrúa og ef við berum ekki traust til fólks, þá er það einfaldlega ekki kosið. Ef menn eru ósáttir við það, þá er það þeirra vandamál en ekki okkar hinna. Hættið því að misbjóða greind okkar með fáránlegri hegðun.
25.1.2007 | 11:32
Er VG orðin uppiskroppa með fylgi?
Hugmyndir VG um að lækka kosningaaldurinn í 16 ára eru að mörgu leiti merki um frjótt ímyndunarafl. Þær eru hins vegar ekki merki um heilbrigða skynsemi. En afhverju 16, afhverju ekki 12, 10 eða bara 6. Einstaklingar verða sjálfráða 18 ára og var það hækkað úr 16 fyrir nokkrum árum og því spyr maður sig, ef einstaklingur er ekki nægjanlega þroskaður til að vera sjálfráða, hefur hann þá til að bera nægjanlegan þroska til að kjósa. Einnig spyr maður sig þá líka hvort foreldrar eigi ekki að bera kosningarétt hinna ósjálfráðu.
En þegar maður skoðar þetta aðeins betur, þá sér maður svo sem hvað VG er að leita eftir. Það er nú þannig að þegar fólk er ungt og óþroska, þá er það mjög oft öfgafullt í sínum skoðunum. Lítur á heiminn út frá svörtu og hvítu. Með aldrinum þroskast svo fólk og fer að hugsa rökrétt, en ekki í kennisetningum. Þar liggur nefnilega hundurinn grafinn. Mikið af ungu og óþroskuðu fólki er hallt undir öfgafulla vinstristefnu, en þetta má sjá víða á Norðurlöndunum eins og t.d. hjá hústökufólki og autonomum í Danmörku. Með því að lækka kosningaaldurinn, má gera ráð fyrir að hlutfallslega fleiri nýjir kjósendur komi til með að kjósa VG en aðra flokka.
Ef maður lítur á málið frá þessum sjónarhóli, þá er það náttúrulega eðlilegt að VG leiti til fólks sem sé líklegra til að fylgja öfgafullum vinstrihugmyndum og auðvelt er að hafa áhrif á.
![]() |
Vilja lækka kosningaaldurinn í 16 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2007 | 17:08
Er verið að redda statistik fyrir kosningar
Maður veltir því fyrir sér hvort kosnir verða Vinstri grænir eða Framsókn eftir að Hafnfirðingar verða sjálflýsandi grænir vegna aukaefna frá stækkuðu álveri.
Mín skoðun er einfaldlega þessi. Stóriðja á ekki að vera inn í miðjum bæ. Auðvitað var það svo að þegar þetta álver var byggt í upphafi, þá var það fyrir utan bæinn og ekki fyrir neinum. En nú hefur byggð tekið að færast nær álverinu og því ekki um sömu mengunarfjarlægð að ræða og áður. Ég er ekki að segja að fjarlægja eigi álverið, en það er út í hött að stækka það.
![]() |
Þynningarsvæði álversins í Straumsvík minnkað verulega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2007 | 23:03
Tepokinn
Fékk mér te í kvöld, sem er svo sem ekki til frásögu færandi, fyrir utan að á enda snærisins sem hangir við tepokann var miði með einhvers konar spakmæli. Textinn var eftirfarandi:
If you cannot see god in all, you cannot see god at all
Við það að lesa þetta, þá fór maður að velta fyrir sér umburðalyndi trúabragða. Þrjú stærstu trúarbrögðin, Gyðingdómur, Kristindómur og Íslam trúa í eðli sínu öll á sama guðinn. En einhverra hluta vegna, þá geta þau ekki komið sér saman um neitt hvað varðar þennan guð, nema þá helst að hann er guð Abrahams.
Síðan kristni varð til úr gyðingdómi og íslam kom í kjölfarið, þá hafa öfgahópar fylgismanna þessara trúarbragða verið að etja hvor öðrum saman. Ég hef stundum velt þessum deilum fyrir mér og ég get ekki séð að það sé mikið til að deila um. Stundum finnst manni eins og þarna séu þrír bræður að deila um það hvort kalla beri karl föður þeirra pabba, faðir eða með fornafni. Auk þess sem allt gengur út á það hver sé í besta sambandi við hann. Eins og það skipti máli hvort haft sé samband í gegnum GSM, SMS eða tölvupóst. Skiptir ekki öllu máli að vera í sambandi?
Ég velti því fyrir mér hvort tepokinn minn hafi hitt naglan á höfuðið og sé í raun gáfaðari en við þessi mannlegu, þ.e. ef tepoki getur þá yfir höfuð verið gáfaður.
Trúmál og siðferði | Breytt 22.1.2007 kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2007 | 09:12
EU og lýðræðið.
Var að lesa þessa færslu hjá Heimssýn hér á blogginu. Þar er vitnað í þessa grein hjá EUobserver. Lestur hennar er mjög áhugaverður fyrir þá sem eru að velta fyrir sér möguleikanum á að ganga í sambandið. Viðhorf Angela Merkel er mjög gott að fá fram, en hún er augljóslega á móti lýðræði í sambandinu. Þar kemur fram að hún vilji strax fá stjórnarskrána samþykkta eftir að sambandið sjálft er búið að gera þær breytingar sem það telur að þurfi, en varðandi almenna umræðu um málið er haft eftir henni:
"Broad general debate [on the constitution] is behind us," she said, adding that she is personally not in favour of further referendums on the treaty.
Það er semsagt hennar vilji að kýla þetta í gegn án þess að íbúar sambandsins fái nokkuð um það ráðið. Hér er vert að hugsa til þess að á meðan stjórnarskráin var felld í Frakklandi og Hollandi, þar sem vitað var um andstöðu. Þá var hún samþykkt í Þýskalandi, en almenn umræða þar var ekki síður andsnúin stjórnarskránni, nema síður væri. Þar var hins vegar dreginn sá lærdómur af kosningunum í Frakklandi, að best sé að hafa engar kosningar og láta þingið bara um þetta.
Ef þú telur að þú hafi lítil áhrif á það sem er að gerast á Alþingi, hvernig heldur þú að þér muni líða í sambandinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2007 | 08:50
Er ekki alveg að fatta þetta.
Ég hef verið að velta þessu fyrir mér og eftir því sem meira kemur í ljós, þá er maður að fatta minna, eða þannig. kaninn sagði samningnum upp einhliða, ég held að það sé á hreinu. Hann hefur engan viðbúnað hér á landi, en á samt rétt á að taka yfir alla flugumferð telji hann ástæðu til. Hann bara fór og skildi allt í drasli, en það er svo sem skiljanlegt þar sem hann var búinn að segja að hann myndi gera það. Var reyndar búinn að fá skilninginn á því samþykktan og undirritaðan í síðasta samningi.
Ég get bara ekki fyrir nokkurn mun skilið hvers vegna við vorum að skrifa undir nýjan samning við Kanann. Hann er með engan viðbúnað, en kemur ef þörf er á. Við erum í Nato og þar er gert ráð fyrir að komið sé til aðstoðar verði á okkur ráðist, engin þörf fyrir sérsamning þar, eða hvað? Það er ekki eins og Kaninn verði kominn hingað á korteri. Það tekur nokkra sólahringa að koma hingað. Það þarf að kalla út heimavarnalið Virginiu, koma þeim í flug og setja upp búnaðinn. Ísland herlaust verður það auðvelt til hertöku að það mun taka margar vikur fyrir "bandamann" okkar að safna liði og koma því til landsins án þess að það verði hrakinn út í sjó, í einhverri tilraun til landvarna.
Þegar Kaninn sagði bless, áttum við að segja bless líka.
![]() |
Ákvæði um yfirtöku á flugstarfsemi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2007 | 09:14
Bræður munu berjast ... og systur líka.
Frjálslyndi flokkurinn kom inn í síðustu kosningum og lofaði góðu að margra mati. Var litið til hans sem valkost fyrir sjálfstæðismenn og ekki síður "hægri krata" sem höfðu verið hálf fljótandi eftir sameiningu Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista. Frjálslyndi flokkurinn var talinn kominn til að vera.
Sá öldugangur sem flokkurinn hefur verið að fara í gegnum nú upp á síðkastið gæti hins vegar riðið honum að fullu. Í síðustu kosningum var flokkurinn einhuga um stóramálið, kvótann. En eftir að á þing var komið, þá hefur flokknum ekki tekist að gera neitt í því máli. Önnur mál hafa því tekið við og eftir að útlendingamálin komu fram, hefur stefna flokksforustunnar orðið mun sterkari. Kannanir sýndu að þarna var mál sem vakti athygli á flokknum og forustan hefur, að því er virðist, ákveðið að þangað skuli stefnan sett. Sá hluti flokksins sem fylgir Margréti hefur verið andsnúinn þessari áherslu og leitar nú uppgjörs við stefnuna.
Spurningin er hins vegar þessi. Mun þessi deila leiða til sterkari og samhentari flokks, eða mun Margrét halda á brott með sínum stuðningsmönnum. Fari Margrét, verður þá um að ræða mikinn flótta, eða mun hún halda á brott ásamt sex öðrum eins og Héðinn Valdimarsson á sínum tíma.
Hver svo sem niðurstaðan verður, þá er á hreinu að flokkurinn þarf að halda vel á spöðunum og mikil vinna er fyrirliggjandi þetta stuttu fyrir kosningar.
![]() |
Hefði viljað takast á við Magnús sem jafningja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.1.2007 | 21:11
Kemur einhvern vegin ekki á óvart.
Þetta kemur manni nú einhvern veginn ekki á óvart. Það var nú einu sinni þannig að Talibanarnir komust til valda með aðstoð pakistönsku stjórnarinnar á sínum tíma. Reyndar fengu þeir aðstoð frá Bandaríkjunum, en sú aðstoð fór svo sem til fleiri hópa andspyrnumanna.
Hinir öfgasinnuðu trúarskólar sem hafa verið að útskrifa Talibana og hryðjuverkamenn, eru einnig staðsettir í Pakistan. Þannig að tengslin og stuðningurinn við málstaðinn er sterkur þar.
Það er líka alveg á hreinu að maður eins og Mulla Ómar getur ekki falist nema í sterku öryggisneti. Hvernig var það annars með Osama, þarf hann ekki reglulega að komast í nýrnavél? Ætli hann sé nokkuð heima hjá pabba í Saudi?
![]() |
Leyniþjónusta Pakistans hýsir leiðtoga Talibana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.1.2007 | 08:55
Að skipta út lax fyrir ál.
Þegar ég var yngri og hlustaði á Óskalög sjúklinga og þess háttar þætti, þá hljómaði oft í eyrum lagið "Lax, lax, lax og aftur lax". Mér finnst nú stundum eins og við gætum hæglega tekið laxinn og skipt honum út fyrir ál (málminn, ekki fiskinn. Þannig að þetta sé á hreinu).
Ég er fylgjandi því að fjölga eggjunum í körfunni og horfi þá til efnahagssveiflanna sem urðu þegar fiskur var undirstaðan að öllu hér á landi. En ég sé ekki rökin fyrir því að skipta út einu vandamáli fyrir annað. Hvernig verða sveiflurnar hjá okkur, ef við erum orðin ál þjóð og allur efnahagurinn háður því. Ef við höldum þessari álvæðingu áfram, þá mun þetta verða reyndin.
Verð á áli hefur verið að hækka síðan um 1999 og hefur stigið hægt og bítandi þar til fyrir nokkrum árum að það rauk upp. Að tala um að þetta sé komið til að vera, er náttúrulega barnaskapur og verðfall mun koma. Reyndar er ýmislegt sem bendir til þess að það sé kominn toppur á verðið.
Ef verð á áli er skoðað, þá kemur í ljós að verðið hefur hækkað jafnt og þétt fram á árið 2006 að það náði topp og féll snarlega á eftir. Þegar svona gerist, er talað um viðnám. Ef verð á áli heldur áfram upp og nær að fara uppf yrir verðið sem toppað var í, þá má búast við að verð á áli haldi áfram að hækka. En nái verðið ekki upp fyrir það og fellur aftur, má gera ráð fyrir að toppnum sé náð og frekari hækkanir verði ekki næstu árin.

En hverjar eru líkurnar á því að verðhækkunin í áli sé komin og búast megi við lægra, eða í öllu falli stöðugra verði næstu ár. Hér kemur til framboð og eftirspurn og í frétt hjá Reuters sl. mánudag, er fjallað um stöðu málma og komið inn á verðfallið sem hefur orðið frá því að toppnum var náð fyrir nokkrum mánuðum. þar segir um álið:
"The world is now awash with alumina, there is absolutely no shortage of the raw material to make aluminium," said Stephen Briggs, analyst at SGCIB. "I don't believe there is a shortage of smelters to produce the metal either."
Þetta er mjög áhugaverð fullyrðing fyrir okkur sem erum að reisa hér fjöldann allan af álbræðslum (smelters), sem nóg virðist vera af.
Hafi menn áhuga á að fylgjast með verði á málmum, þá er það hægt hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.1.2007 | 21:06
Forvitnilegar kosningar, fyrir okkur líka.
Það er gaman að sjá hversu mjótt er á muninum á milli þeirra Royal og Sarkozy. Þessar kosningar eru um margt áhugaverðar, ekki bara fyrir Frakka, heldur líka þá sem fyrir utan sitja.
Ef Royal nær kosningu, þá er talið sjálfgefið að hún kalli til formann Sósíalistaflokksins og fái honum umboð til stjórnarmyndunar. Þetta mætti kalla eðlilegt í kjölfar sigurs vinstrimanna í kosningunum, en staða þeirra tveggja er samt nokkuð til að velta fyrir sér þar sem þau myndu bæði búa í sömu höllinni. Spurning hvort koddatalið "pillow-talk" þeirra verði að skrást formlega þar sem þar væru forseti og forsætisráðherra að ræða saman. Frakkland yrði þá svona svipað fyrirbæri og Póland þar sem tvíburabræður skipta með sér sætum forseta og forsætisráðherra.
Sarkozy er einnig nokkuð áhugaverður. Hann er einn fárra stjórnmálamanna sem ekki hefur farið í gegnum hefðbundinn menntaveg stjórnkerfisins, en þess utan er hann talinn vera félagi í Scientology og þar með góður vinur Tom Cruse, sem heimsótti hann reyndar þegar hann átti leið um París. Ef rétt reynist, þá er hér um að ræða mjög áhugaverða niðurstöðu og vert að fylgjast með Scientology hópnum í kjölfarið.
Svo gæti náttúrulega LePen náð ofurárangri eins og í síðustu kosningum, en það er náttúrulega bara kapituli út af fyrir sig.
![]() |
Sarkozy með meira fylgi en Royal samkvæmt könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2007 | 13:49
Rafsal
Er ekki kominn tími til að Landsvirkjun skipti um nafn og fari að kalla sig Rafsal. Ég hef á tilfinningunni að Landsvirkjun sé að misskilja nafnið sitt eins og einstaklingarnir með aðalféhirðis titilinn misskildu það nafn og hirtu allt fé.
Landsvirkjun virðist leggja mestan þunga í það að virkja í stað þess að selja afurðir þeirra virkjana sem þegar eru til staðar. Eða hvað á maður að halda þegar Brasilíumönnum er hótað með lokun álvera vegna þess að það sé svo ódýrt rafmagnið á Íslandi. Hugmyndafræði Landsvirkjunar virðist vera sú að lokka eins mikið af erlendum stóriðjum, álverum, svo þeir geti bent á þörfina fyrir að fara út í fleiri virkjanir. Væri ekki nær að nota það sem til er og fara að selja rafmagnið á sambærilegu verði og landsmenn þurfa að greiða.
En gæti legið eitthvað annað hér að baki en misskilningur á nafnagift. Gæti ástæða virkjunaræðis Landsvirkjunar verið sú að nú er frelsi til raforkusölu hluti af EES samningnum og því hugsanlegt að aðrir en Landsvirkjun, t.d. þýskir, franskir eða portúgalskir aðilar komi til. Er hugsanlegt að Landsvirkjun vilji drífa í því að virkja hverja einustu sprænu til þess að koma í veg fyrir að aðrir geri það?
Sé þetta pælingin þá ætti að benda Landsvirkjun á þá umræðu sem átti sér stað í upphafi EES, að hingað myndu streyma erlendir bankar með lækkuðum vöxtum og gleði. Reyndin var sú að hingað kom enginn banki og vextirnir eru engin gleði. Markaðurinn hér er bara svo lítill að það hefur ekki neitt uppá sig fyrir erlend fyrirtæki að fara út í stórar fjárfestingar hér, ekki frekar en í Eastbourne eða Randers.
Landsvirkjun á hins vegar að líta til íslensku bankanna og fara í útrás. Nýta sér EES á þann háttinn. Ég tel að þeirra bíði ekki síðri tækifæri til vaxtar þar en hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2007 | 11:57
Ábyrgð stjórnmálamanna
Þó margir slíkir hagi sér og tali eins og svo sé ekki, þá er það þannig að stjórnmálamenn bera ábyrgð. Þeirra ábyrgð er slík að hún er mun meiri og sterkari en okkar sem ekki erum með fjöregg þjóðarinnar á milli handanna.
Stjórnmálamenn hafa ekki sama frelsi og aðrir til að tjá sig um hvað sem er hvernig sem er. Þeirra orð hafa meira vægi en okkar hinna sem erum á götunni. Nú mætti koma með þau rök að stjórnmálamenn séu líka einstaklingar og sem slíkir búi þeir við sama frelsi og við hin. Rétt er það að stjórnmálamenn eru líka einstaklingar, en frelsi þeirra fólst í því að velja sér vettvang til starfs. Með vali sínu á vettvangi eru þeir um leið að samþykkja ábyrgð sem gerir þeim ákveðnar hömlur til tals og athafna. Einstaklingar sem velja sér stjórnmál sem starfsvettvang, en vilja ekki skilja þær hömlur sem því fylgja, eiga ekki erindi á þann vettvang.
Á meðan stjórnmálamenn þurfa að átta sig á sinni ábyrgð og þeim höftum sem þeir þurfa að gangast við, þá þurfum við sem kjósendur að átta okkur á þeirri ábyrgð sem við berum sem þegnar þessa lands. Við þurfum að gera okkar til þess að slíkir einstaklingar, sem ekki skilja sína ábyrgð, séu ekki kosnir til þeirra áhrifa sem þeir sækjast í, nema þeir hafi þann þroska til að bera að valda þeirri stöðu.
16.1.2007 | 09:14
Farþegi eða ökumaður?
Gaman að heyra menn tala vel um krónuna (nefni með nafni enda bera lofa það sem er gott). Í fréttinni er krónan nefnd sem hagstjórnartæki og er það með réttu. Evran væri líka hagstjórnartæki. En ef það tæki væri innleitt hér á landi, þá yrðum við aldrei neitt annað en farþegar. Krónan gefur okkur tækifæri til þess að vera ökumenn. Ég held að við séum öll sammála um það að þegar haldið er í ferð, að þá sé skemmtilegra að hafa eitthvað um það að segja hvert skal haldið.
Það að þetta komi frá stjórnanda í stæðsta banka á Íslandi, vekur líka hjá manni von um að nú fari að ljúka þessu gengisfellandi bulli sem loðað hefur við suma. Það er ekki óeðlilegt að þessi sami banki hafi tekið upp erlenda mynt í sínu bókhaldi, enda á hann mest viðskipti í erlendum myntum. Ef Kaupþing myndi loka allri starfsemi hér á landi, þá efast ég um að það hefði eitthvað að segja um reksturinn í heild. En fyrir þjóðarbúið, þá held ég að hentugara sé fyrir okkur að hafa hagstjórnartæki sem við höfum sjálf einhverja stjórn á.
Sú umræða hefur vaknað í Frakklandi, að upptaka Evrunnar hafi verið mistök. Jafnvel rætt að leita þurfi leiða til að taka Frankann upp aftur. Frakkland hefur átt við að stríða mikið atvinnuleysi og vill reyna að auka hagvöxt. Einnig er vilji til að laga til í skattkerfinu hjá þeim, eins og til dæmis að hafa sama VSK á mat, sama hvort hann er borðaður á staðnum eða tekinn heim. Þeim hefur verið bannað að breyta sköttum og þær leiðir sem þeim er leyfilegt að nota til að draga úr atvinnuleysi eru mjög takmarkaðar frá Brussel. Evrópa á við að etja allt önnur vandamál en við hér á Íslandi og þurfa þeir að beita allt öðrum aðferðum en við. Verandi hluti af Evrusvæði, þá værum við neydd til að fara í þá ferð sem hinir hafa ákveðið bæði með tilliti til ökuhraða og áfangastaðar.
PS. Ég vil þakka Kaupþingi fyrir að gleðja mitt súrealíska hjarta með því að birta auglýsingar með John Cleese. ... En hvað er ég að blogga um þetta, af hverju ekki bara hringja þetta út.
![]() |
Forstjóri Kaupþings: Horfur í hagkerfinu góðar og full ástæða til bjartsýni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Efnahagsmál | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2007 | 08:53
Af göngum í Vestmannaeyjum
Sérstaklega þegar litið er til þess að komið er fram yfir jól, þá mun þessi pistill ekki fjalla um göngur eða leitir. Ekki heldur um sauðfé, en aðeins komið inn á kanínur. Minkur mun hins vegar skipa sess í þessu spjalli.
Fyrir margt löngu komu upp hugmyndir um að grafa göng til eyja. Þessi umræða hefur magnast upp hægt og bítandi og nú virðist hún komin á það stig að þetta sé ekki spurning um hvort heldur hvenær. Menn hafa talið gangnagerðina skipta sköpum fyrir byggð í eyjunum og virðast menn ekki sjá neitt sem ætti að standa í vegi fyrir slíkri gangnagerð.
Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort vandi gæti skapast við gangnagerðina. Hingað til hafa eyjurnar verið lausar við minkinn, þó svo að ég hafi reyndar heyrt af því að einu sinni hafi minkur komist út í eyjar valdið þar miklum usla þar til hann var felldur. Vestmannaeyjar virðast vera það langt frá landi að minkurinn er ekki að synda út í þær, en frá Heimaey er stutt í allar hinar eyjarnar. Ég er hræddur um að með tilkomu gangna til eyja, muni minkurinn fara að herja á fuglalífið af slíkum krafti að kanínufárið sem var, verði ekki talið fár mikið lengur. Kanínurnar röskuðu fuglabyggð. En minkurinn kemur til með að drepa allt kvikt og þá mun ekki líða langur tími þar til fuglinn mun hverfa á brott í leit að hentugra svæði. Fuglarnir skipa það stóran sess í lífi eyjanna að landleið milli lands og eyja gæti verið meira böl en blessun.
Vandamál eyjanna liggur ekki í því að ekki sé hægt að aka þangað á sólríkum sunnudegi. Vandamálið liggur í atvinnu. Ef ekki er næg atvinna, þá mun eyjamönnum fækka. Alveg óháð því hvort þeir þurfi að fljúga eða geti ekið á brott. Ég man eftir eyjunum bullandi af mannlífi, en síðan þá hefur ekkert gerst að ráði nema atvinnan hefur horfið úr plássinu. Þá var eins og nú flogið og siglt til eyja. Orsakasamhengið er það að samdráttur hefur orðið í flugi og siglingum eingöngu vegna þess að fólkinu fækkar, en ekki að fólkinu fækki vegna þess að dregið hafi verið úr flugi og siglingum.
Það er nauðsynlegt að skilgreina verkefnin áður en farið er í að leysa þau.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.1.2007 | 15:02
Hægri eða vinstri?
Ég tel að í næstu kosningum verði aðeins um tvo flokka að ræða fyrir þá sem vilja skilgreina sig sem hægri eða vinstri.
Á hægri hliðinni er Sjálfstæðisflokkurinn sá eini sem kemur til greina, en Frjálslyndiflokkurinn tók ákveðið fylgi frá honum í síðustu kosningum. En í dag tel ég að þeir Sjálfstæðismenn sem telja sig eiga samleið með þeim flokki, séu komnir og ekki verði um frekari millifærslur þar á milli.
Samfylkingin hefur verið að gefa sig út fyrir að vera á vinstri hliðinni, en eftir því sem nær dregur kosningum virðist flokkurinn fjarlægjast sífellt þá hlið og nálgast miðjuna. Eina virkilega valið til vinstri er VG. Þeir sem vilja sterkan vinstri flokk, gera það ekki með því að kjósa Samfylkinguna.
Sjálfstæðisflokkurinn og VG, eru einu valkostirnir fyrir þá sem vilja skýra hægri eða vinstri stefnu.