Er VG orðin uppiskroppa með fylgi?

Hugmyndir VG um að lækka kosningaaldurinn í 16 ára eru að mörgu leiti merki um frjótt ímyndunarafl. Þær eru hins vegar ekki merki um heilbrigða skynsemi. En afhverju 16, afhverju ekki 12, 10 eða bara 6. Einstaklingar verða sjálfráða 18 ára og var það hækkað úr 16 fyrir nokkrum árum og því spyr maður sig, ef einstaklingur er ekki nægjanlega þroskaður til að vera sjálfráða, hefur hann þá til að bera nægjanlegan þroska til að kjósa. Einnig spyr maður sig þá líka hvort foreldrar eigi ekki að bera kosningarétt hinna ósjálfráðu.

En þegar maður skoðar þetta aðeins betur, þá sér maður svo sem hvað VG er að leita eftir. Það er nú þannig að þegar fólk er ungt og óþroska, þá er það mjög oft öfgafullt í sínum skoðunum. Lítur á heiminn út frá svörtu og hvítu. Með aldrinum þroskast svo fólk og fer að hugsa rökrétt, en ekki í kennisetningum. Þar liggur nefnilega hundurinn grafinn. Mikið af ungu og óþroskuðu fólki er hallt undir öfgafulla vinstristefnu, en þetta má sjá víða á Norðurlöndunum eins og t.d. hjá hústökufólki og autonomum í Danmörku. Með því að lækka kosningaaldurinn, má gera ráð fyrir að hlutfallslega fleiri nýjir kjósendur komi til með að kjósa VG en aðra flokka.

Ef maður lítur á málið frá þessum sjónarhóli, þá er það náttúrulega eðlilegt að VG leiti til fólks sem sé líklegra til að fylgja öfgafullum vinstrihugmyndum og auðvelt er að hafa áhrif á.


mbl.is Vilja lækka kosningaaldurinn í 16 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Ef einstaklingur er ekki nægjanlega þroskaður til að vera sjálfráða, hefur hann þá til að bera nægjanlegan þroska til að kjósa?"

 Í fyrsta lagi er margt 16 ára fólk fullkomlega fært um að ráða sínum málum sjálft og gerir það í raun, í fullri sátt við foreldra sem hafa ekki ástæðu til að vantreysta unglingnum sínum. Lögin voru ekki sett til að hindra málfrelsi unglinga heldur verndar þeim hópi sem er ekki ekki fær um að stjórna lífi sínu hjálparlaust og eins til að auka réttindi ungs fólks til verndar og framfærslu (enda normið í dag að fólk ljúki framhaldsskóla).

Fjölmargir einstaklingar sem ekki hafa þroska til að sjá um sig sjálfir hafa kosningarétt nú þegar. T.d. þroskaheftir og gamalmenni með minnisglöp. Aldurinn segir ekki allt. Eins má benda á að fólk er talið fært um gangast undir athöfn sem felur í sér formlega yfirlýsingu um lífsafstöðu þess um aldir alda aðeins 14 ára og skýtur því skökku við að sama fólki sé ekki treyst til að segja til um hvaða stefnu það vilji láta reyna á fyrir eitt smáríki til aðeins fjögurra ára. 

Ég hygg nú líka að ef meðalmaður á fertugsaldri tæki próf í þekkingu sinni á þeim málum sem kosningar snúast um, yrði útkoman sú að hann væri gjörsamlega vanhæfur til þess að nýta atkvæðið sitt.

Þeir sem stíga fram og óska eftir auknum réttindum fyrir minnihlutahópa hafa oftar en ekki einhverra hagsmuna að gæta. Það gerir málstaðinn ekki rangan. Með sömu rökum og þú berð á borð mætti segja að öfgafullir hægrimenn vilji fyrir alla muni þagga niður í æsku landsins og koma í veg fyrir að fólk með fersk sjónarmið fái tækifæri til að kjósa vegna þess að þannig lækki hlutfall þeirra sem vilja fleiri stríð, meiri stóriðju og stærra bil milli ríkra og fátækra. 

Mér þætti gott mál ef ungt og þroskað fólk (það eru nenfilega bráðgerir, upplýstir og hugsandi unglingar sem hafa áhuga á pólitík en ekki þeir óþroskuðu) fengi tækifæri til að hafa áhrif á stjórnmál. Hér er nefnilega enginn vinstri flokkur, hvað þá öfgafullur, heldur eingöngu miðjumoðarar. Vinstri grænir komast kannski næst því að geta talist á vinstri vængnum en það sem þeir leggja megináherslu á eru umhverfisstefna og andúð á hernaðarbrölti. Við erum auðvitað í vondum málum ef nokkrir óþroskaðir unglingar taka undir slíkt ábyrgðarleysi.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 12:22

2 Smámynd: Jón Lárusson

Auðvitað eru til ábyrgðafullir einstaklingar á 16. ári, eins og það eru til eldri einstaklingar sem eru með minni þroska en almennt gerist hjá jafnöldrum þeirra. En þeir eru undantekningin og almennt er fólk þroskaðra eftir því sem það er eldra, það segir sig sjálft. En þegar miða á kosningarétt við aldur (allra kynja og kynþátta), þá verður að ganga út frá heildinni þó svo að innan hennar séu einstaklingar sem skera sig úr.

Öfgastefnur. Já, það er spurning um vinstri liðið. Ég get verið sammála þér með að hér eru flokkar almennt mun nær miðjunni en öfgum hægri eða vinstri. Hins vegar er það nú svo að á meðan einstaklingar sæki hægri stefnu til Sjálfstæðisflokksins, þá sækja þeir vinstri stefnuna til VG. Ég nefni öfgafulla vinstrimenn þar sem ég hef kynnst því að ungt fólk er almennt hallar undir vinstri vænginn en þann hægri. Það er kannski ekki óeðlilegt þar sem þetta unga fólk er upp fullt af kennisetningum og það er nú einfaldlega þannig að kennisetningar vinstri vængsins um algeran jöfnuð og formfestu í samfélaginu þar sem alllir eru öruggir, hljómar mjög vel. Hægri vængurinn, sem oftar er tengdur gróðabraski, svikum og stríðsmangi, höfðar bara minna til þeirra. Ég er hins vegar ekkert hlintur því að ungt fólk verði fyrir áróðri um bjarta framtíð þúsundára ríkja, hvort sem það er svokallað hægri eða vinstri sem þara fara fram. Á meðan fámennur hópur vel upplýstra unglinga gæti kosið "rétt", þá er það nú þannig að megnið væri óharðnaðir unglingar sem auðvelt væri að draga á asnaeyrunum þar sem þau hreinlega vita ekki betur.

Maður veit það bara af eigin reynslu að maður veit meira í dag en þá.

Jón Lárusson, 25.1.2007 kl. 21:01

3 identicon

Með sömu rökum má segja (og hefur verið sagt) að fólk hafi ekki þroska til að kjósa fyrr en um þrítugt.

Þeir sem telja þroska auðsynlega forsendu kosningaréttar, hljóta að vera því fylgjandi að þroskaheftir, fólk sem er mjög veikt á geði, alsheimersjúklingar og fólk sem er illa farið af neyslu vímuefna verði svipt kosningarétti. Á meðan þessir hópar fá að kjósa halda þroskarökin einfaldlega ekki. 

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 22:41

4 Smámynd: Jón Lárusson

Vandamálið með kosningar er að einhvers staðar verður að draga mörkin. Aldur hefur verið notaður sem viðmið og þá gengið út frá almennum þroska þeirra sem eru á þeim aldri. Auðvitað eru til undantekningar á þessu eins og öllu öðru, en við verðum einhvers staðar að draga mörkin. Þú nefnir alsheimersjúklinga og þroskahefta og er það rétt. En maður veltir því samt fyrir sér þegar einstaklingur er ófær um að taka eigin ákvörðun, hvort hann sé þess bær að kjósa. Ef hann getur ekki tekið eigin ákvörðun, þá hlítur alltaf einhver annar að taka hana fyrir hann.

Maður veltir því stundum fyrir sér afhverju sumt fólk hefur réttindi. T.d. alsheimersjúkt fólk sem ekur bifreiðum. Nú veit ég það af eigin reynslu að slíkt getur verið stórhættulegt viðkomandi og ekki síst öðrum í umferðinni. Í slíkum aðstæðum grípa aðstandendur oftast inní og sjá til þess að viðkomandi komist leiðar sinnar með aðstoð. Einnig er það þannig að hér á landi hefur það ekki almennt tíðkast að vanþroska einstaklingar séu dregnir á kjörstað til að kjósa. Okkar siðferðislegi þroski er bara slíkur að við gerum þetta ekki, þ.e.a.s flest okkar, undantekningar eru að sjálfsögðu til.

Málið er einfaldlega þannig að við verðum að draga mörk sem eru sem almennust.

Jón Lárusson, 26.1.2007 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband