14.7.2009 | 06:22
Tillaga að nýju Íslandi
Við lifum á viðsjárverðum tímum. Við höfum horft á þjóðfélagið taka kúfvendingu og allar forsendur fyrir lífi okkar hafa brostið. Þeir sem við höfum valið til að fara með okkar mál, virðast vanhæfari en enginn og allar aðgerðir ríkistjórnarinnar hafa miðast við að gæta hagsmuna allra annarra en almennings í landinu. Almenningur skal blæða fyrir bruðl og hugsunarleysi fárra. Og þetta er án þess að horfa á allt klúðrið í alþjóðasamskiptum, þar sem stjórnin er að falla að öllum kröfum án þess að velta því fyrir sér, að því er virðist, hvort við þurfum að standa undir þessum kröfum eða ekki. Hótanir og kúgun fær ríkistjórnina til að gefa eftir. Þetta er ekki ríkistjórn sem tekur slaginn. Hefði þessi ríkistjórn setið á þeim tímum er við deildum við Breta um fiskveiðilögsögu, þá væru breskir togarar enn að skrapa sjávarbotninn upp undir fjörum landsins.
Forsætisráðherra hefur sagt að það sé ekki til plan B. ESB aðild og eftirgjöf varðandi Icesave er bara eitthvað sem við verðum að taka á okkur. Kennum öðrum um og fáum svo vinnu í Brussel. Þetta virðist vera dagsskipunin. Fámenn klíka hefur tekið ákvörðun, þvert á vilja þjóðarinnar og henni skal fylgt eftir. En hvað ef það er til plan B, jafnvel C, D, E og allt upp í Ö. Hvað ef þetta væri nú ekki svo skítt og við þyrftum ekki alla þessa eftirgjöf. Það að ríkistjórnin sjái ekki hina farsælu leið, þýðir ekki að hún sé ekki til staðar.
Leiðin er til og hún er alveg ótrúlega einföld. Ef sú leið sem ég er að tala um, yrði tekin upp, þá værum við að horfa á nokkra mánuði í mesta lagi, þangað til þjóðfélagið væri farið að taka við sér. Leiðin kollvarpar hins vegar þeirri hugsun sem við höfum rekið þetta þjóðfélag á, allt frá 1904, er við tókum ráðherravaldið heim og hófum leiðin til frelsis. Leiðin er rótæk, en mun hafa í för með sér meiri hagsæld og minni sveiflur innan hagkerfisins. Hún mun verða til þess að við verðum þjóðfélag eignar en ekki skulda.
Þessi leið verður ekki kynnt í stuttum texta, þannig að ég hef ákveðið að brjóta þetta aðeins upp og mun þessi greinaflokkur minn birtast núna næstu daga. Ég mun byrja á að fjalla um eðli fjármagnsins og tilgang þess í samfélagi mannanna, þar sem það er nauðsynlegt að sjá lygina sem hefur verið haldið að okkur öll þessi ár. Ég mun svo koma að hinu nýja kerfi, lausninni sem mun leiða okkur fram á veginn.
Áfram deilt um ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.12.2009 kl. 09:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.