Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
26.5.2009 | 11:38
Vantraust á bresk og þýsk stjórnvöld
Það er nokkuð athyglisvert að sjá í þessari frétt að skuldabréfaútboð Breta og Þjóðverja hafi ekki skilað sér. Þegar ríki gefa út skuldabréf og kaupendur finnast ekki, þá þýðir það einfaldlega að það er ekki borið traust til þeirra þjóðfélaga/ríkistjórna sem að þeim standa.
Það kemur mér svo sem ekki á óvart að bresk skuldabréf seljist illa, en að þýsk bréf seljist ekki, er nokkuð athyglisvert þar sem Þýskaland hefur verið talið sterka landið í ESB. Ef ekki er borið meira traust til Þýskalands en þetta, þá veltirmaður fyrir sér stöðunni í hinum löndunum. Þetta styrkir í raun þá tilfinningu mína að ESB ríkin standi á brauðfótum og hugsanlega megi búast við miklum tíðindum næstu vikur og mánuði.
Ég er reyndar á því að Bandaríkin standi á tímamótum hvað varðar stöðu samdráttarins hjá þeim. SP500 vísitalan er í þannig stöðu að hún verður annað hvort að hækka sig núna og þá fylgi því botninn á samdrættinum, eða þá að hún lækki og því muni fylgja mun meiri samdráttur og ástand í Bandaríkjunum sem ekki hefur þekkst lengi, ef þá nokkurn tíma. Falli Bandaríkin neðar, þá fylgir Bretland á eftir þeim og aðrar ESB þjóðir líklega í kjölfarið.
Framundan eru spennandi tímar. Kannski þurfum við ekki að nálgast hina, þeir bara koma til okkar.
![]() |
Þurfa 2.000 milljarða dala |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.5.2009 | 15:40
Gott að fá dagsetningar
Það er gott að fá þessar dagsetningar, þá veit maður allavega það. Hvernig væri svo að upplýsa aðeins meira um þetta fyrirbæri.
Einhvern vegin finnst manni að nú sé verið að halda til fundar þar sem við vitum ekkert nema nafnið á þessum reikningum sem eru til umræðu. Við vitum ekki hversu mikið við skuldum og við vitum ekki hversu mikið við eigum af eignum sem Bretar tóku frá okkur. Þannig að við vitum í raun ekkert sem við getum samið um. En við vitum þó hvenær við eigum að mæta til að semja um eitthvað sem við vitum ekki hvað er. Frábært.
Við verðum að fara varlega í þessar viðræður, því það gæti orðið okkur verulega dýrt að flýta okkur um of. ESB er ekki þess virði að við getum klúðrað þessu máli.
![]() |
Viðræður við Breta 2-3. júní |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.5.2009 | 15:33
Loksins, loksins, loksins
Þá er hún loksins komin fram. Tillagan um að gangast undir vald ESB. En sú sæla að þetta skref hafi verið stigið. Nú horfum við framá bjartari tíð með blóm í haga.
Það verður alveg frábært að fara inn í ESB. Samkvæmt því sem manni er tjáð þá munum við losna við þessar sveiflur í efnahaginum þar sem skiptast á rokkna uppgangur og svo plússandir niðurgangur. Svo erum við að tala um stöðugan gjaldmiðil, kannski eftir 30 ár og þá erum við alveg laus við vanda sem tengjast rangt skráðu gengi. Atvinnulífið mun rísa upp frá dauðum og allir dansa um í 100% plús vinnuhlutfalli og smjörið sem drjúpa mun af hverju strái, vellur inn um gluggana hjá okkur og beint á brauðið, sem að sjálfsögðu verður innflutt evrópskt gæðabrauð tollfrjálst og alle sammen. Þetta verður bara frábært.
Nú þurfum við bara að hringja í vini okkar á Írlandi og Spáni og upplýsa þá um þá gósentíð sem bíði okkar, en við verðum samt að minna þá á að þeir séu nú þegar í ESB og með euro svo þeir geti losað um þennan misskilning hjá sér að þeir standi í einhverri kreppu. Það getur nefnilega ekki verið að þeir séu í sama skít og við, því þeir eru í ESB. Þetta er bara tómur misskilningur hjá þeim. Það getur ekki verið að þeir eigi í lausafjárkrísu og vandræðum með útflutting vegna alltof hátt skrifaðs gengis. Það getur bara ekki passað.
Það er nefnilega spurning hvernig umsókn um ESB getur leyst vanda okkar, þegar ESB kom ekki í veg fyrir þennan vanda hjá aðildaríkjum. Svo veltir maður því fyrir sér þessum rökum sem segja að við fáum allan stöðugleikann og nópróblem umhverfi, þegar maður horfir á Írland og Spánn, en þar er allt að gerast það sem okkur hér heima er sagt að muni ekki gerast hjá okkur, verði að aðild okkar að ESB. Afhverju á það ekki að gerast hjá okkur ef það gerist hjá þeim? Það er eitthvað þarna sem ekki er að passa saman.
Annars óska ég ESB sinnum til hamingju með að hafa náð þessum áfanga, en hann mun að sjálfsögðu verða studdur af öllu batteríinu þannig að vinnan við lausn efnahagsvandans mun tefjast eitthvað í viðbót. En það verður örugglega ókey því við erum á leið í ESB.
![]() |
ESB-tillaga lögð fram á þingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.5.2009 | 09:01
Er ekki betra að vita hvað varan kostar áður en hún er keypt?
"Það er búið að vinna mjög mikið í þessu máli", en samt er ekki vitað hvað heildar skuldin er. Alskonar óvissuþættir eins og viðmiðunargengi osfrv. Samt erum við bara millimetra frá því að ná samningum um það að greiða þetta. Ég er hræddur um að dagsskipunin sé, samþykkja bullið frá Bretum svo við getum fengið þá til að ýta okkur inn í ESB. Þetta er ekki lengur spurning um eitthvað landráð, heldur lyktar þetta meira og meira af landsölu.
Við verðum að stíga varlega niður þegar kemur að IceSave. Við vitum augljóslega ekkert hvað þarna er í spilinu og verðum að fá staðreyndir upp á borðið áður en við tökum nokkrar ákvarðanir, hvað þá að ganga frá samningum.
Í mínum huga er þetta einfallt. Við, þ.e. bankarnir, áttum eignir þarna úti, eignir sem Bretar stálu. Þarna voru líka útlendingar sem áttu innstæður hjá bönkunum. Við verðleggjum eignirnar sem Bretarnir stálu og svo innlánin. Mismunurinn, ef hann er einhver, er það sem semja á um. Auðvitað ber okkur að standa við skuldbindingar, en við eigum ekki að ganga lengra en það. Bretar eiga ekki inni hjá okkur neinn greiða.
Að ganga frá IceSave í einhverjum undirlægjuhætti svo við getum skriðið inn í ESB er ekki rétta leiðin. ESB er ekki lausn á einu né neinu sem við þurfum að kljást við í dag. ESB kom ekki í veg fyrir að Spánn og Írland fóru á hliðina og það mun því ekki bjarga neinu hvað varðar það ástand sem við þurfum að kljást við núna. Við þurfum að laga okkar mál sjálf á okkar eigin forsendum. ESB er ekki að bjarga neinu í þeim ríkjum sem þar eru í vandræðum.
Frétti að það hefði verið fjallað um ástandið á Írlandi í frönskum fjölmiðli, þar var ástandið á Írlandi borið saman við það sem gerðist hjá okkur. Komist var að þeirri niðurstöðu að Írland væri á sömu leið og Ísland og jafnvel verri. Efnahagsástandið í þessum löndum hefur verið að hríðversna og það eru flest þeirra farin að berjast við mikinn vanda, aukið atvinnuleysi, sem var verulegt fyrir, fjármálavandræði fyrirtækja og slæmt ástand heimilanna. Ríkin standa ráðþrota vegna þess að þau geta ekki brugðist við ástandinu og bíða eftir miðlægu lausninni frá Brussel. Þar eru menn hins vegar tvístígandi þar sem löndin hafa öll sín vandamál og engin ein lausn til fyrir þau öll. Í staðin fyrir að hafa verið sjálfstæð ríki áður og getað unnið í sínum málum sjálf, þá eru ESB ríkin nú bundin saman og koma þau verst stöddu til með að draga hin niður með sér í leiðinni.
Flýtum okkur hægt í þessum IceSave málum. Það gæti komið okkur illa annars.
![]() |
Nær lausn á Icesave-deilu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.5.2009 | 22:56
Erum við ábyrg fyrir samdrætti í öðrum löndum?
Ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki að skilja þetta. Afhverju er Jim McColl í vandræðum út af hugsanlegu gjaldþroti Atorku. Ef Atorka fer á hausinn þá færist hlutur félagsins í þessum tveimur félögum í þrotabúið. Það ætti þá að vera auðvelt fyrir hann Jim að kaupa þetta á einhverjum niðurgreiddum prís.
Það eina sem gæti haft áhrif á félögin við gjaldþrotið, er ef Atorka er ekki búin að greiða hlutaféð. Það kemur hins vegar hvergi fram í fréttinni að svo sé, það verður að koma betri skýring á vanda þessara fyrirtækja. Hins vegar kemur fram að þessi fyrirtæki hafi "orðið fyrir barðinu á íslenska hruninu líkt og mörg önnur félög á Bretlandi". Án nú að kenna okkur um allan samdráttinn í Bretlandi?
Þetta hljómar eins og beint úr munni hr. Brán, allt Íslendingum að kenna. Það er fjöldinn allur af félögum í Bretlandi sem eru í eigu Íslendinga, að hluta til eða í heild. Það hefur hins vegar ekkert með samdráttin í Bretlandi að gera. Þessi samdráttur er tilkominn vegna misvitra bankamanna, eins og á Íslandi og hefur því ekkert með okkur að gera.
Ég velti því fyrir mér hvað þessir útlendingar eru að hugsa. Halda þeir virkilega að við höfum getað ýtt alþjóðasamfélaginu út í eitt alsherjar samdráttarskeið bara svona ein og sér. Ef svo er, þá velti ég því fyrir mér hvers megnum við erum ef við gerum hlutina meðvitað, fyrst okkur tókst þetta ómeðvitað. Engin furða að hinn upplýsti heimur vilji koma böndum á okkur.
![]() |
Íslenska hrunið hefur áhrif í Skotlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.5.2009 | 10:47
Endilega festa gengið núna
Þetta er ein af þessum fréttum þar sem maður fær svona rúsínu í endann.
Ríkisstjórnin, samtök á vinnumarkaði, Seðlabanki og AGS verði að setjast niður og meta, í ljósi áforma um að sótt verði um aðild að ESB, hvað menn geti leyft sér að gera til lengri tíma litið, ef gjaldeyrishöft verða áfram við lýði. Hefur jafnvel verið rætt um fastgengisstefnu á meðan beðið yrði niðurstöðu úr aðildarviðræðum við ESB
Það er um að gera að festa gengið núna, sérstaklega þar sem gengisskráningin er svo hagstæð!!! Hvers konar vitleysa er þarna í gangi. Festa gengið þar til niðurstöður aðildarviðræðna fást. Væri ekki nær að leyfa þessu að fljóta þannig að við getum notið þess þegar euro-ið fellur. Þessi ESB aumingjaskapur og þrælslund mun keyra þetta þjóðfélag niður í svaðið.
Höfum eitt í huga varðandi peninga. Hver er munurinn á 500 króna seðli og 500 euro seðli, hvor er verðmeiri. Ég ætla ekki að halda neinni spennu varðandi svarið. Verðmæti þessara seðla er í raun jafn mikið. Allur verðmunur byggir á huglægum þáttum sem hafa ekkert með seðlana sjálfa að gera. Pappírinn í þeim er sá sami, sá sami og er í klósettpappírnum. Peningar eru ekki auður, þeir eru tákn um auð, pappírssnepill sem við notumst við svo við þurfum ekki að dröslast um allt með hænur, mjólk eða aðrar hrávörur. Þeirra eini tilgangur er að einfalda millifærslu á verðmætum. Þetta er því spurningin um undirliggjandi verðmæti.
Við höfum fullt af undirliggjandi verðmætu, okkur vantar bara seðla til að geta skipst á þessum verðmætum. Hvernig væri að hugsa svolítið villt og út fyrir boxið. Hvernig væri ef ríkið myndi bara prenta þá seðla sem þarf. Verðbólga í tengslum við peningaframleiðslu verður til þegar seðlar í umferð eru umfram verðmæti í þjóðfélaginu. Núna er ekkert slíkt í gangi, það vantar seðla í umferð. Hvernig væri að greiða fólkinu þessi laun í staðin fyrir að dæla þeim í bankakerfið þar sem þeir bara festast í kjallarakompum.
Peningar eru ekki verðmæti, verðmætin liggja meðal annars í starfsfólki. Með þessu þrasi er ríkið að segja að verðmæti vinnuframlags sé ekki hátt skrifað. Með lækkun launa er verið að segja að vinnuframlagið núna sé minna en áður, ætti þá fólk ekki að vinna minna? Er einhver skynsemi sem segir að meira vinnuframlag eigi að koma fram í minni verðmætum.
Verðmæti þjóðfélagsins er sú framleiðsla sem þar á sér stað, hvaða eignaraukning er til staðar. Til þess að geta nýtt sér þessa eignaraukningu, þá þarf pening. Þennan pening verður því að búa til, þannig að hann samsvari þeirri eign sem er í þjóðfélaginu. Vandamálið er að þessi aukning á peningum hefur alltaf verið keyrð í gegnum bankakerfið, sem hirðir til viðbótar vexti. Bankarnir hafa búið til pening og lánað einstaklingum og ríki. Þetta ætti í raun að vera þannig að ríkið sæi um að koma þessum peningum í umferð, án þess að lána okkur þá eða rukka vexti fyrir. Verðmætin eru til staðar, við verðum bara að passa uppá að peningar í umferð séu nægir til að hægt sé að skiptast á þessum verðmætum.
Annað, hringdi í bankann og var tjáð af símsvara að allir "ráðgjafar" væru uppteknir. Hvaða ráðgjafar. Þessir einstaklingar eru ekki ráðgjafar, þeir eru sölumenn. Ráðgjafi ræður þér heilt, en sölumaður sér bara til þess að þú kaupir einhverja af þeim þjónustum sem vinnustaður hans selur. Við munum aldrei ná okkur út úr þessari peningavitleysu fyrr en við áttum okkur á því að bankar eru bara fyrirtæki sem hafa það eitt markmið að græða pening, alveg eins og hvert annað fyrirtæki. Þetta eru ekki stofnanir sem eru lífsnauðsynlegar lífi á jörðu og skulu meðhöndlaðar sem eitthvað heilagt. Þetta eru bara fyrirtæki eins og hver önnur og því fyrr sem við áttum okkur á því og förum að meðhöndla þá í samræmi við það, því fyrr munum við verða frjáls undan oki þeirra.
![]() |
Allt undir í Karphúsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.5.2009 | 08:14
Vantar ekki eitthvað í þennan reikning
Bankarnir eru með allt of mikið af eignum í erlendri mynt á lágum vöxtum en mikið skuldbindingum í krónum á háum vöxtum. Þetta mætti skiljast sem slíkt að bankarnir væru með öll útlánin sín í útlöndum þar sem þeir fá lága vexti, en innlánin öll í formi sparfjár Íslendinga á háum vöxtum.
Ef bankarnir hafa verið að taka lán (sparnaður einstaklinga) á háum íslenskum vöxtum, en svo verið að lána þennan pening til útlanda á lágum vöxtum, þá er augljóst að þetta fólk er ekki að kunna reikning og þá kannski bara ágætt að þessi fyrirtæki fari á hausinn. Hins vegar hefur mér sýnst þetta ekki vera svona einfalt. Bankarnir eru með fjöldan allan af útistandani lánum á klassískum íslenskum okurvöxtum og verðbótum, þannig að þetta hefur ekkert með vaxtamuninn að gera. Þetta er bara léleg stjórnun og fjárfestingaklúður bankann sem er að koma í ljós.
Það vekur hins vegar athygli að þeir eru að lækka innlánsvexti meira en útlánsvexti. Þ.e.a.s. þeir lækka vextina sem þeir þurfa að borga umfram það sem þeir fá greitt. Mikið væri gott ef við almenningur gætum bara ákveðið að lækka vextina sem við greiðum til bankanna.
Þessi grátkór er farinn að verða svolítið pirrandi. Það er grenjað og grenjað yfir því hvað þeir eiga bágt og að við almenningur verðum að sýna þeim skilning. Hins vegar ætlar enginn að sýna skilning þeim einstaklingum sem allt eru að missa. Bankarnir komu sér í þessi vandræði sjálfir og eiga stærstan þátt í því hversu hart ástandið hefur skollið á okkur. Það er kominn tími til að þeir fari að bera ábyrgðina.
Þrátt fyrir að því sé haldið fram í tíma og ótíma, þá er það einfaldlega þannig að við þurfum ekki að hafa stóra banka í kringum okkur. Lítill sparisjóður væri í raun alveg nóg. Einstaklingar geta lifað án banka, en bankarnir geta ekki lifað án okkar. Það er því ekki spurning hverjum á að hjálpa. Það á að beina athyglinni að því að hjálpa fólkinu í landinu og þá munu bankarnir og öll önnur fyrirtæki taka við sér. Fyrirtæki hafa engan rekstrargrundvöll ef ekki eru til staðar viðskiptavinir til að versla við þau.
Það er kominn tími á róttækar aðgerðir og ef ráðamenn eru ráðalausir, þá eiga þeir bara að segja af sér.
![]() |
Ríkisbankarnir reknir með tapi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.5.2009 | 07:55
Endurmetum "aðstoð" AGS
Sagði hún vextina hærri en almennt gerðist og ríkið væri að greiða um fimm milljónir króna á dag vegna fyrstu greiðslunnar síðan í nóvember. Greiðslan væri geymd í Bandaríkjunum á umtalsvert lægri vöxtum og brýnt væri að nefna lækkun stýrivaxta við nefndina
Hvers konar hjálp er þetta sem við erum að fá. Við fáum lán hjá AGS þar sem vextirnir eru hærri en almennt gerist (okurvextir) og peningurinn er geymdur á reikningi í Bandaríkjunum á umtalsvert lægri vöxtum. Fimm milljónir á dag hafa svo verið greiddir í vexti. Ég sé ekki betur en að við séum bara að fjármagna AGS. Það er léleg fjárfestingastefna að taka lán á vöxtum til þess eins að láta það liggja á reikningi með minni vöxtum. Það er eins og verið sé að halda okkur í skuldasúpu, bara til að halda okkur í skuldasúpu.
Við stöndum frammi fyrir lágu gengi krónunnar, sem gerir allar erlendar lántökur mjög dýrar. Hins vegar verður lágt gengi til þess að allur útflutningur gefur okkur fleiri krónur í vasann. Ég legg því til að við borgum þetta lán til baka og byggjum upp varasjóðinn okkar með eðlilegum hætti, þ.e.a.s. flytjum út vörur og fáum gjaldeyrir í staðinn. Auðvitað tekur það einhvern tíma að byggja sjóðinn upp þannig, en við erum þá alla vega ekki að borga fimm milljónir á dag á meðan.
Það er kominn tími til að stórnvöld, ríki og þing, fari að vinna vinnuna sína. Frá því að þessi stjórn tók við eftir hallarbyltinguna í vetur, þá hefur ekkert verið gert til að létta á heimilium landsins og koma í veg fyrir eignarupptöku fjölda fólks. Það væri nær að ganga í þessi mál, heldur en að eyða tímanum í að ræða bindisnotkun á Alþingi.
Ríkið á að fara strax út í það að lagfæra vísitöluna á lánum landsmanna, þ.e. færa hana aftur til febrúar, mars 2008 svo greiðslubyrðin lækki og síðan á að fara út í að færa afskriftir lána til neytenda. Þetta er heilbrigðara heldur en að "bjarga" fólki með því einu að lengja í hengingarólinni. Frestun afborgana og fáránleg hækkun vísitölunnar er bara til þess fallin að fóðra bankana.
Bankarnir komu sér og okkur í þetta ástand, væri ekki nær að þeir bara sæju um að koma sér sjálfir úr því og velta ekki vandanum yfir á aðra. Það er þannig að þeir sem taka áhættuna njóta arðsins, eins og bankarnir vissulega gerðu. Að losa þá undan ábyrgðinni og skella henni á þá sem engan ávöxtu báru, er náttúrulega bara rugl og alls ekki til þess fallið að kenna bankabatteríinu að fara varlegar í framtíðinni.
Ríkið verður líka að átta sig á því að bankarnir eru ekki lífæð þjóðfélagsins, það er fólkið í landinu sem er lífæð þjóðfélagsins.
![]() |
Sendinefnd AGS í heimsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.5.2009 | 22:25
Ekki séð fyrir endann erlendis
Það hefur lengi verið skoðun mín að Evrópa og Bandaríkin væru ekki búin að taka út botninn í efnahagsmálum. Bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur verið gífurlegu fjármagni dælt inn í bankakerfið, án þess að þeir fjármunir hafi leitað út á markaðinn og auðveldað fyrirtækjum fjármögnun. Peningarnir hafa einkum farið í að fylla upp í tap þessara fyrirtækja og greiða laun til stjórnenda. Nær hefði verið að láta peningana renna til einstaklinga, sem kæmu þeim svo beint út í hagkerfið.
Íslendingar hafa verið illa leiknir af ástandinu, það hefur skollið hvað harðast á okkur þegar litið er til nágranna okkar. Hins vegar tel ég að ekki séu öll kurl komin til grafar og sé Bretland sérstaklega viðkvæmt fyrir, en þeir gætu hugsanlega komist nálægt okkur á næstu vikum og mánuðum. Einnig eru ríki eurosævðisins mjög illa stödd mörg hver og er ég þá ekki að tala um Írland og Spán, heldur hin stóru svo sem Frakkland og Ítalíu. Vandamál þessara ríkja allra er mjög sterkt euro sem dregið hefur úr útflutningi og gríðarleg skuldasöfnun undanfarna áratugi.
Það sem kemur okkur hins vegar til góða er að við erum mun minna hagkerfi og höfum alla möguleika á að vinna okkur úr þessu ástandi mög fljótlega, þar sem minni hagkerfi eru alla jafna mun svegjanlegri en þau stóru. Einnig eru Íslendingar þannig gerðir að þeir eru mjög fljótir að taka sig til og ganga í verkin sem þarf að vinna. Við höfum því möguleika á að ná okkur út úr þessu, svo lengi sem þingmenn okkar hætta að hafa áhyggjur af bindisnotkun og öðru smávægilegu. Þeir þurfa að fara að sinna því sem öllu skiptir, að bjarga fólkinu í landinu. Ætli þeir að halda áfram á braut annarra vestrænna þjóða, að bjarga bönkunum, þá kemur ekki til bata hér í þjóðfélaginu á næstunni.
![]() |
Vanmat á vanda veldur skjálfta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.5.2009 | 07:04
Kominn tími á upplýsingar
Það er kominn tími á að almenningur verði upplýstur um það sem er í gangi hérna. Hérna í upphafi hafi okkur verið tjáð að við værum að horfa upp á fjárhagslegt þrælahald næstu aldirnar og vesöld og aumingjaskapur framtíð hins nýja Íslands. Nú er svo komin skýrsla sem segir að þetta sé bara allt í góðu og allt bara uppgreitt 2012.
Upphaf þessara vandræða bankanna var sú að þeir gátu ekki endurfjármagnað reksturinn. Ekki var spurningin sú að þeir væru á hausnum, heldur var þetta spruningin um að lausafjárstaðan væri tæp. Manni skildist því að bankarnir ættu eignir sem stæðu undir skuldum, en þeir áttu ekki lausafé til að greiða afborganir. Þessu var hafnað af mörgum og hryðjuverkalögin meðal annars sett á til að hægt væri að hirða of bönkunum eignir.
Er ekki kominn tími til þess að upplýsingar varðandi þessi mál verði birt okkur landsmönnum, þessum sem eigum að borga súpuna. Ég hef alltaf talið að við værum ekki í eins slæmum málum og margir vildu vera láta, þetta væri spurningin að skoða skuldastöðu bankanna og eignir. Mismunurinn, ef hann væri þá einhver, væri það sem við skulduðum. Það virðist vera að koma í ljós núna að þetta sé ekki svo fjarri lagi.
Ég mæli til þess að ríkistjórnin sjái til þess að allar skýrslur sem gerðar hafa verið um þetta erlendis og þau gögn sem til staðar eru, verði birt opinberlega t.d. á vefsíðu sem sett yrði upp sérstaklega til þess.
![]() |
Allt greitt til baka? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |