Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fyrir hvað stendur Umbótahreyfingin?

Fékk athugasemd við síðustu færslu mína frá samfylkingarmanninum Helga Rúnari Jónssyni. Mér fannst hún svo góð að ég ákvað að skrifa heila færslu vegna hennar. En Helgi spyr eftirfarandi;

 Fyrir hvað stendur "umbótahreyfingin" fyrir..??, umbætur og frelsi  í viðskiptum og betri stjórnunar hætti eða afturhald, einangrunarstefnu og sömu stjórnunar hætti og verið hafa hér á landi í áratugi..??.

Ég ætla að koma með stutta svarið fyrst og fer svo út í smáatriðin;

Það segir sig sjálft að hópur sem kallar sig Umbótahreyfing hefur það að markmiði að fá hreyfingu á umbætur, þ.e. eitthvað sem bætir um. Það er því alveg kristal tært að Umbótahreyfingin stendur fyrir nýja tíma með nýja sýn á framtíðina.

Ef Helgi hefði skoðað vefinn hjá Umbótahreyfingunni, þá hefði hann séð að við viljum sjá miklu mun skýrari skiptingu hins þrískipta valds, en það er grundvallaratriði til að koma í veg fyrir þau einræðisvinnubrögð sem viðhöfð hafa verið á Íslandi í áratugi, og sjást einstaklega vel hjá núverandi ríkisstjórn.

Umbótahreyfingin stendur líka fyrir beint lýðræði og hefur sett fram tillögu að nýju Alþingi eða Alþingi 2.0 eins og það er kallað. Það að við afsölum okkur valdinu til einstaklinga sem eru fastir í sérhagsmaneti, gengur ekki lengur.

Það sem er þó kjarninn, eða hornsteinninn, í stefnu Umbótahreyfingarinnar, er nýtt fjármálakerfi.  En það er lykilatriði til þess að hægt sé að halda fram veginn til hagsældar almennings í þessu landi. Ef við höldum okkur við núverandi fjármálakerfi, býður okkar ekkert annað en örbyggð og vesæld.

Þetta segir sig allt sjálft ef menn bara skoða vefinn sem Helgi augljóslega hafði ekki tök á.

Hins vegar er alveg augljóst hvert stefnt var með þessari spurningu. Þar var kastað fram frelsi og umbætur ásamt nýjum og betri stjórnarháttum. En þetta eru allt frasar sem ESB aðildarsinnar hafa hengt á sjálfa sig. En á móti kom svo afturhald, enangrunarstefna og það sama gamla í stjórnarháttum, eitthvað sem ESB aðildarsinnarnir hafa ítrekað reynt að hengja á þá einstaklinga sem ekki eru fylgjandi aðild.

Þetta kemur heim og saman við frasana sem mætur fulltrúi í bæjarstjórn Kópavogs lét út úr sér í viðtali á Útvarpi Sögu í kjölfar þess að hann sagði sig úr Framsóknarflokknum. Þar var honum tíðrætt um "þjóðernissynnana" (Þá sem ekki eru fylgjandi aðild að ESB) og svo það sem hann kallaði "alþjóðasinnana" (Þá sem eru fylgjandi ESB aðild). Þessi staðalstimplun er mjög einkennandi fyrir málflutning ESB aðildarsinna, enda eru rökin engin tiltæk. En ég kem betur inn á það.

Að henda út frösum og staðalmyndum, er leið til að villa um fyrir fólki og gera andstæðinga sína tortryggilega. Afturhald og sérstaklega þjóðernisstimpillinn eru gott dæmi, en þeir sem henda þessu fram eru að segja að andstæðingar ESB séu svona Anders Behring týpur (það vill jú enginn umgangast svoleiðis fólk). Þetta er einfaldlega örvæntingarfull tilraun rökþrota einstaklinga til að koma höggi á þá sem þeim eru ekki þóknanlegir í skoðunum.

En skoðum spurninguna betur. Hvar liggur afturhaldið?

Ef við göngum inn í ESB, þá erum við að afsala okkur fullveldi og sjálfstæði, en með fullri gildistöku Lissabon sáttmálans, þá mun Ísland ekki verða sjálfstæðara en Kentucky innan Bandaríkjanna. Þarna erum við að horfa til þess að Ísland verður komið í sömu stöðu og fyrir 1904, hugsanlega hægt að tegja til 1918. Sameining Evrópu er gamall draumur í stíl við á Cesar, Napóleon og Hitler. Vopnin og aðferðirnar eru bara aðrar. Í stað stórskotaliðs og byssustinga, eru komin slægð og undirförli.

Eitt dæmið um það hvað þjóðir ráða litlu, er þegar Sarkozy og Merkel hittust til að ræða vanda euro svæðisins, en þar var ekki talað við aðrar euro þjóðir. Þeirra álit einfaldlega skipti ekki máli.

Frelsi í viðskiptum er líka einn brandarinn. Rétt, það eru minni höft milli landa ESB. En lengra nær frelsið ekki, því ESB er umlukið verndar og tollamúr. Og jafnvel innan þess er athafnafrelsið takmarkað. Til dæmis gæti Íslenskur bóndi ekki flutt til ESB og ræktað hvað sem er hvar sem er. ESB er búið að skilgreina svæði til ræktunar og þar er ekki hægt að vera með landbúnað sem ekki samsvarar kerfinu. Svo tekur Brussel upp á því til dæmis að hætta að mestu að framleiða eitthvað, eins og til dæmis sykurrófur, en þar með var hoggið stórt skarð í pólskan landbúnað.

Ég er fylgjandi frjálsum viðskiptum og horfi til heimsins, um 7 milljarða manna. En ég einskorða mig ekki við einhvern 500 milljón manna markað í Evrópu.

Loka hnykkurinn er svo brandarinn um betri stjórnhætti. Með inngöngu í ESB erum við algerlega laus við beint lýðræði og spillingin er slík að reikningar sambandsins hafa ekki verið samþykktir í um 15 ár (þegar bent var á þetta, var uppljóstrarinn rekinn). Íslensk spillingapólitík er brandari í samanburði við þá brusselísku.

Okkur var tjáð, við upphaf þessarar vegferðar Samfylkingarinnar, að ef við hefðum verið í ESB fyrir 2008, þá hefðum við ekki lent í "kreppunni". Síðan þá höfum við séð hvernig Grikkland og Írland hafa verið étin upp af euro-inu og sjálfsætði þeirra í raun verið algerlega afnumið. Við horfum líka upp á að restin af löndunum er í mjög vondum málum. Þessu hafa ESB aðildarsinnar svarað með því að aðild sé engin trygging fyrir slæmri stjórn heimafyrir. 

En ef aðild tryggir ekki neitt, afhverju þá vera að ganga inn. Ef við þurfum að vinna alla vinnuna sjálf hvort eð er, er þá ekki best að gera það sjálfstæð með allar dyr opnar, en vængstífð með fyrirfram ákveði val fyrir framan okkur.

Það er ekkert sem gerst hefur undanfarin ár, sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með aðild að ESB. Aðildin kemur heldur ekki til með að hjálpa neitt varðandi endurreisnina. Það er því tilgangslaust að sækja þarna inn, nema til að komast á jötuna, en almenningur verður að gera sér grein fyrir því að það er takmarkað plássið á jötunni, við komust ekki öll þar fyrir.

Það er óhjákvæmilegur fylgifiskur aðildar, að við töpum sjálfstæðinu við inngöngu í ESB. Það er einfaldlega þannig að þjóð sem ekki ræður löggjöf sinni, hefur ekki sjálfstæða utanríkisstefnu eða hefur forræði yfir fjámálum sínum og fjármagni, er ekki sjálfstæð og mun aldrei geta talist sjálfstæð. Spurningin er því hvort við viljum vera sjálfstæð eða ekki. Það er í raun eina raunverulega spurningin sem við stöndum frammi fyrir, því ekkert er hvort eð er í boði við inngöngu.

Umbótahreyfingin hefur hins vegar allt aðra sýn á framtíðina. Það er framtíð þar sem Íslendingar geta verið stoltir af landi sínu og þjóð, búa ekki við fátækt og hafa beinan og óhindraðan aðgang að stjórn sinna mála í formi beins lýðræðis. Þetta er framtíð sem hugnast okkur, en því miður ekki sérhagsmunahópunum.

Það er hins vegar almennings að taka af skarið og rísa upp gegn ofríkinu. Það er almennings að taka til sín aftur það vald sem hann með réttu á. Valdið til að ráða framtíð sinni.


Opið bréf til Össurar Skarphéðinssonar þann 24. ágúst 2011

 

Í gær sendi Umbótahreyfingin opið bréf á Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, en þar voru lagðar fram spurningar varðandi viðræður ESB og Íslands. Það er kominn tími til að almenningur verði upplýstur um það sem raunverulega er að gerast.

 

Það er alveg á hreinu að þjóð sem ekki ræður lögum sínum. Hefur ekki eigin utanríkisstefnu og ræður ekki gjaldmiðli sínum, er ekki fullvalda. Þegar svo litið er til þess að "lausn" Brussel á efnahagsörðuleikum ESB landanna fellst í auknum völdum ESB við fjárlagagerð þeirra, þá er allt tal um fullvalda þjóð, hjóm eitt.

 

Það er á hreinu að innganga í ESB þýðir tap á sjálfstæði landsins og því vaknar sú spurning óhjákvæmilega, erum við Íslendingar tilbúnir til að kasta sjálfstæðinu fyrir róða. Kannski er þjóðin orðin svo skini skorpin að henni er sama um sjálfstæðið, og þá ætti ekki að vera neitt mál að ganga í ESB.

 

Hins vegar á þjóðinn rétt á því að vita hið rétta eðli viðræðnanna og þannig að hún geti tekið umræðuna um það hvort hún sé tilbúin í þetta fullveldisafsal eður ei.

 

Hérna er bréfið sem sent var Össuri.

 

 

Utanríkisráðuneytið

b/t Össurar Skarphéðinssonar

Rauðarárstíg 25

IS-150 Reykjavík

 

Reykjavík 24. ágúst 2011

 

 

 

Herra utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að í gangi eru umræður milli Íslands og ESB. Hins vegar hefur verið erfitt fyrir almenning að átta sig á því hvort hér sé um að ræða samningaviðræður um hugsanlega aðild, sem svo verður borin undir ákvörðun almennings í almennum kosningum. Eða hvort hér sé um að ræða aðlögunartímabil þar sem Ísland verður að fara að öllum kröfum ESB og það sé í raun ekkert til að semja um.

 

Til að fá á hreint eðli viðræðanna og hvort hér sé um að ræða aðlögun eða ekki, óskar Umbótahreyfingin eftir því að þú svarir eftirfarandi spurningum:

 

  1. Samkvæmt bæklingnum Understanding Enlargement - The European Union's enlargement policy, sem útgefinn var 2007 kemur fram eftirfarndi í undirkaflanum "Accession negotiations" á blaðsíðu 9 (http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf);

 

First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules (also known as "acquis", French for "that which has been agreed") are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate's implementation of the rules.

 

Þarna kemur skýrt fram að það sé ekki um að ræða samningaviðræður við umsóknarlönd, heldur óumsemjanlega aðlögun að öllu regluverki ESB eins og það er á þeim tíma. Í ljósi þessa, getur þú staðfest að engin lög eða reglugerðir ESB, þ.e. ekki EES tengd, verði samþykktar fyrr en eftir að almenningur hefur kosið um "samninginn" í þjóðaratkvæði.

 

  1. Samkvæmt fréttatilkynningu ESB vegna loka samningsferlisins við Króatíu, kemur eftirfarandi fram (http://europa.eu/rapid/pressReleasesAction.do?reference=IP/11/824&format=HTML&aged=0&language=EN&guiLanguage=en);

 

Today's decision marks a successful end to six-years of negotiations during which Croatia has been asked not only to adopt new laws and regulations to comply with EU standards, but also to implement them, thus proving the reforms have taken an irreversible course of action.

 

Þarna kemur fram að á sex ára samningstímanum hafi Króatía ekki aðeins verið beðin um að taka upp lög og reglugerðir ESB, heldur einnig hrinda þeim í framkvæmd á óafturkræfan hátt. Þetta á sér stað áður en "samningurinn" verður samþykktur af ESB eða Króatíu. Við spyrjum því hvort Ísland standi frammi fyrir því að þurfa að taka upp öll lög og reglugerðir ESB áður en niðurstaðan verður borin undir almenning í þjóðaratkvæðisgreiðslu.

 

  1. Samkvæmt samningsmarkmiðum ESB Negotiation Framwork frá 2010 kemur eftirfarandi fram í grein 19 (http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/iceland/st1222810_en.pdf):

 

In the period up to accession, Iceland will be required to progressively align its policies towards third countries and its positions within international organisations with the policies and positions adopted by the Union and its Member States.

 

Samkvæmt þessu ákvæði þá ber Íslandi að aðlaga utanríkisstefnu sína að stefnu ESB áður en að innlimun kemur. Samkvæmt þessu hefur Ísland ekki sjálfstæða utanríkisstefnu, óháð því hver niðurstaða þjóðaratkvæðis verður. Umbótahreyfingin vill því að upplýst verði um það hvort Ísland hafi, nú þegar, tekið ákvarðanir í utanríkismálum samkvæmt stefnu ESB.

 

  1. Samkvæmt umboði Alþingis, þá á að bera niðurstöðu samninga undir almenning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvort er skilningur ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar, að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar sé ráðgefandi eða bindandi.

 

 

Umbótahreyfingin óskar þess að þessum spurningum verði svarað innan 14 daga frá dagsetningu þessa bréfs. Hafi ekki borist svar innan þess tíma, þá verður litið svo á að viðræður Íslands og ESB séu aðlögunarviðræður þar sem Íslandi beri að uppfylla öll skilyrði aðildar áður en að aðild verður og að ríkisstjórn Íslands líti svo á að þjóðaratkvæði um samninginn aðeins ráðgefandi, enda ekki ástæða til annars þar sem Ísland verður hvort eð er búið að skuldbinda sig ESB áður en að þjóðaratkvæðagreiðslunni kemur.

 

Virðingarfyllst,

 

 

Jón Lárusson

formaður Umbótahreyfingarinnar

 

  • Þetta er opið bréf og verður strax birt á heimasíðu félagsins www.umbot.org auk þess sem fjallað verður um það á blogsíðum og það sent fréttamiðlum. Bréfið er sent ráðuneytinu í tölvupósti á postur@utn.stjr.is auk þess sem frumrit er sent í almennum pósti.

 

Hér er hægt að kynna sér Umbótahreyfinguna nánar og vonandi sjá flestir sér fært að birta þetta á blogsvæðum sínum.

 


 

 

 


"í erfiðri fjárhagslegri stöðu"

Það eru áhugaverð viðbrögð enska aðstoðar fjármálaráðherrans. "Við sem land erum í erfiðri fjárhagslegri stöðu og þessir peningar kæmu sér vel", þannig að við níðumst á minni máttar svo við getum reddað okkur. Ef þetta er ekki hroki og yfirgangur, þá veit ég ekki hvað.

Þetta er svo sérstaklega áhugavert þegar það er staðreynd að Landsbankinn var með tryggingar hjá breska tryggingasjóðnum vegna Icesave og honum bar því að borga. Tryggingasjóðurinn breski þurfti að hækkja iðgjöld vegna Icesave og fjögurra annarra banka, en krafan á okkur er tilkomin svo ekki þurfi að rukka breska banka.

Talandi svo um alþjóðlega dómstóla, þá er það einfaldlega þannig að dómstóllinn sem tekur málið fyrir er við Lækjartorg og Hæstiréttur tekur við, verði menn ekki ánægðir með niðurstöðuna.

Hins vegar eru viðbrögð Jóhönnu og Steingríms fyrirsjáanleg. Þau geta ekki annað en talað niður Ísland og Íslendinga, eitthvað sem veltir upp þeirri spurningu, eru þau hæf til að stjórna landinu. Hroki þeirra er slíkur að nær ekki nokkurri átt.

Svo er það viðhorf Jóhönnu í sjónvarpinu í nótt, þegar hún sagði það hvergi tíðkast í hinum "siðaða" heimi, að almenningur kysi um fjárhagstengd efni eða alþjóðaskuldbindingar. Þegar henni var bent á Sviss, þá taldi hún það svo augljóst að það væri ekki tekið með??? Sviss er samt  eitthvert lýðræðislegasta ríki heims.

En það sem vakti sérstaka athygli mína var þetta með alþjóðlegu skuldindingarnar. Hvað em ESB, er það ekki einhver rosalegasta skuldbinding sem hægt er að hugsa sér og hún er alþjóðleg. Ætlar Jóhanna þá ekki að láta kjósa um inngögnuna þangað?

Almenningur er byrjaður að taka til sín valdið sem hann á með réttu. Nú er bara að sækja restina. Mæli með því að fólk kynni sér hugmyndir Umbótahreyfingarinnar um lausnir fyrir Ísland.


mbl.is Vonsvikinn vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauður eða steindauður

Nú er hamrað á því að við samþykkjum fyrirbærið Icesave III, vegna þess að þessi gjörningur er miklu betri en þeir sem á undan hafa komið. Vissulega er þessi betri, en hann er samt ekki góður. Munurinn á honum og þeim fyrri, er sá sami og að vera dauður eða steindauður. Maður er alveg jafn dauður fyrir.

Þetta ferli allt er þeim mun heimskara þar sem ekki er talinn lagalegur fótur fyrir þessum kröfum. Þegar það var ekki lengur svipan, þá var kastað framan í okkur einhverju sem hét "við berum siðferðislega ábyrgð" vegna þess að einhverjir Íslendingar voru að skúrkast út í heimi. Ef við eigum að bera siðferðislega ábyrgð á öllum fávitaskap Íslendinga í útlöndum, þá mun heldur betur verða sótt í budduna hjá okkur.

Núna er komin ný hótun, við fáum dóm. Ef þetta væri svona borðleggjandi fyrir Breta og Hollendinga, þá hefðu þeir farið í dómsmál fyrir löngu síðan. Þeir eru nefnilega ekkert vissir um að vinna. Hvorki ESB eða EFTA hafa lögsögu yfir okkur og því þyrftu Bretar og Hollendingar að fara með málið fyrir héraðsdóm Reykjavíkur og þar veit ég ekki til þess að þeir hafi neina sérstaka samúð.

Málið er einfallt við borgum ekki ótilneydd. Það er aðeins ein ástæða fyrir þessum aumingjaskap ríkisstjórnarinnar og hún er sú að Icesave I-III hefur verið notað sem lykill að ESB. Án Icesave, ekkert ESB og það vill ríkisstjórnin ekki. Ég hins vegar tel þetta vera ansi dýran verðmiða á inngöngu, sérstaklega þegar lunginn úr þjóðinn hefur engan sérstakan áhuga á að fara inn.

Ég bendi fólki á að skoða þetta mál vel. Þó þessi samningur sé betri, þá er hann samt slæmur. Það má ekki skoðan hann í samhengi við þann gamla, heldur verður fólk að meta hann einan og sér. Þá mun almenningur sjá að við erum jafn dauð fyrir hvort sem þessi eða fyrri hefðu verið samþykktir.

Og ef við erum jafn dauð fyrir, þá segi ég einfaldlega, tökum slaginn og berjumst!


mbl.is Áhættan af dómsmáli meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf til Guðbjartar Hannessonar

Við stöndum frammi fyrir því að lífskjör hafa minnkað hér á landi og ekki virðist vera nein merki um að það sé einhver raunveruleg breyting þar á. Vegna þessa höfum við nokkur ákveðið að skrifa bréf til að fá á hreint ákveðin atriði.

Hér er bréf sem sent var í gær til Guðbjartar Hannessonar. Það eru margir sem vilja einmitt fá svör við þessu, ekki vegna forvitni, heldur vegna lífsviðurværis.

Ágæti, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.

Viss hluti samlanda okkar þarf að lifa á lágmarkskjörum frá einum mánaðamótum til þeirra næstu. Til þessa hóps teljast: öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, félagsbótaþegar og starfsmenn á lágmarkslaunatöxtum. Flestallir sem koma að ákvörðun um hversu mikið einstaklingar í þessum hópum hafa úr að spila hafa margfalt hærri tekjur og eru sökum þess illa búnir til að meta aðstæður skjólstæðinga sinna rétt.

Heildartekjur upp á 160 þúsund krónur á mánuði er staðreynd fyrir stóran hóp Íslendinga. Bæði rannsóknir þinna eigin starfsmanna, sérfræðinga og hyggjuvit meðalmannsins benda ótvírætt til þess að nánast ómögulegt sé að ná endum saman með fyrrnefndri upphæð.

Eftir umfangsmikla vinnu á vegum velferðarráðuneytisins var nýlega lögð fram ákaflega gagnleg skýrsla um neysluviðmið (Sjá hér). Hún er vel unnin í alla staði og gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.

Vegna þessarar skýrslu var sett upp reiknivél (Sjá hér) á vef ráðuneytisins. Samkvæmt henni þarf einstaklingur í leiguíbúð 300.966 krónur í ráðstöfunarfé til þess að eiga fyrir nauðþurftum og öðru sem telst til mannréttinda eins og húsnæði og virkri þátttöku í samfélaginu.

Í ljósi alls þessa leitum við til þín með eftirfarandi spurningu:

Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?

Ráðleggingar þínar gætu orðið upphafið að bættri umræðu um núverandi vandamál þeirra einstaklinga sem glíma við þessa spurningu 12 sinnum á ári. 

Virðingarfyllst og með ósk um svör.

Ásta HafbergBjörk Sigurgeirsdóttir
Gunnar Skúli Ármannsson
Elías Pétursson
Jón Lárusson
Kristbjörg Þórisdóttir
Ragnar Þór Ingólfsson
Rakel Sigurgeirsdóttir 

Bréf með sömu fyrirspurn sent á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands.

Afrit sent á fjölmiðla.


Sættu þig bara við þetta, þú getur ekkert hvort eð er ... eða!

Þau undur og stórmerki hafa gerst, þingmenn hafa náð samkomulagi. En hvílíkt samkomulag, við skulum bara leggja árar í bát og gefast upp. Ég hins vegar neita slíku. Ég neita því alfarið!

Hvers konar heimska er það sem fær menn til að segja "Það er mat fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, að þó að áhættan á því að við töpum dómsmálum sé til staðar, sé hún ekki veruleg" og segja svo, við skulum samt borga.

Auðvitað eru þessar kröfur ekki eins stífar og þær sem á undan komu, en í mínum huga er lítill munur á að vera dauður eða steindauður. Við munum ekki geta staðið undir þessum samningi frekar en hinum og flóknara er það ekki.

Í gær sagði Mörður að við hefðum átt að sleppa því að belja okkur, þykjast vera eitthvað sem við megum ekki þykjast, þ.e. vera stolt þjóð í sjálfstæðu landi. Var þessu kastað fram vegna þess að ESB nefnd hefði ákveðið að klára ekki vinnuna sína vegna þess að Bretum gæti líkað illa niðurstaðan. Þessi undanlátssemi gagnvart Bretum var svo skilin sem slík að við ættum bara að pakka saman og halda kjafti. Láta vaða yfir sig og sætta sig bara við það.

Það er til texti sem segir "Ísland sé frjálst meðan sól gyllir haf" og í mínum huga hefur sólin ekki hætt þeirri iðju.

Okkur Íslendingum hefur síðustu misseri, verið innrætt að við séu aum eintök af einstaklingum sem ekki eigi skilið að sjá um okkur sjálf. Okkur er innrætt að við eigum að vera bjúg og beigja okkur undir útlendinga því þeirra sé valdið, mátturinn og dýrðin.

Ég segi hins vega Nei, Nei, Nei ... Það er ekki okkar að lúta í duftið og dásama útlendingana. Ég fell ekki fyrir "allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur við fætur mér og tilbiður". Sorrí ég bara get það ekki.

Við Íslendingar höfum ekkert að skammast okkar fyrir, við höfum sem samfélag ekki gert neitt rangt og það er ekki okkar sem samfélags að standa skil á óráðsíu einstakra skúrka, sem hafa snúið baki við landi og þjóð og sukka nú í þessum sömu útlöndum sem sækja að okkur.

Það er komið nóg af undanlátssemi við sérhagsmunahópa og kominn tími til að við sækjum okkur aftur það vald sem við aldrei afsöluðum okkur þó fámenn klíka á Alþingi haldi öðru fram. Við afsölum okkur ekki valdinu þó við veljum okkur fulltrúa til að vinna einhver afmörkuð verk. Þeirra er alltaf að gæta hagsmuna okkar og Icesave er ekki hagsmunir okkar.

Ég kalla til alla sanna Íslendinga og hvet þá til að láta þetta mál ekki sigla okkur í kaf þó starfsmenn okkar hafi svikið lit og hugsi meira um eigin hag og sérhagsmuni þeirra sem þeir tilbiðja og þiggja gjafir frá.

Það er kominn tími til að almenningur rísi upp og taki aftur til sín það vald sem hann á og standi saman um að móta hér samfélag sem við með réttu getum skapað. Samfélag þar sem hagsmunir heildarinnar eru nýttir einstaklingum þess til hagsbóta og framdráttar. Samfélags þar sem einstaklingurinn er styrktur en ekki barinn. Samfélags þar sem manngildi ráða umfram manvonskuna.

Ég trúi því að það sé hægt að breyta þessu og á meðan svo er, þá mun ég reyna. Dropinn holar steininn með þolinmæði og tíma. Ég trúi því að einstaklingarnir í þessu samfélagi séu byrjaðir að átta sig á því að breytinga er þörf og andstætt ráðandi forréttindastétt og stjórnmálamönnum þessa lands, þá tel ég fólk ekki fífl. Á endanum mun það rísa upp og þá munum við sjá hvernig þetta samfélag getur blómstrað í sameiginlegum styrk einstaklinganna sem mynda það.


mbl.is Þjónar hagsmunum að ljúka Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjavíkurhöfn

En hvað með Reykjavíkurhöfn, er ekki alltaf fullt af herskipum þar á hverju ári. Ætti ekki að stoppa það líka, enda þau búin mun öflugri vopnabúnaði en flugvélarnar. Það væri samkvæmt þessu æskilegt að þessi skip leggðu að við Helguvík, enda sú höfn ekki inni í miðjum bæ. Þetta væri líka brilliant fyrir Suðurnesin þar sem skipin væru þá að borga hafnagjöld í þurfandi sveitarfélagi, ásamt því sem kostkaupin styrktu smásöluverslun í plássinu. Örar heimsóknir danskra varðskipa gætu auðveldlega byggt upp góðan grunn hjá þeim á Suðurnesjunum.


mbl.is Þjóðhöfðingjar á herþotum lendi í Keflavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæfni til hagsmunagæslu

Ég hef talið það eitt helsta hlutverk seðlabankastjóra að gæta hagsmuna íslensku krónunnar, en þetta á til dæmis við þegar litið er til styrks hennar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

Þegar seðlabankastjóri gefur út að euro sé enn "góður kostur" fyrir Ísland, er þá ekki kominn upp vafi um hæfni hans til að geta gegnt skyldum sínum sem seðlabankastjóri. Hann er augljóslega á því að euro sé eitthvað sem eigi að koma í stað krónunnar.

Annað sem hann bendir á er líka áhugavert. Már segir að vandræðin á euro svæðinu séu ekki vegna sameiginlegs gjaldmiðils, heldur vegna þess að bankar voru ekki nægjanlega fjármagnaðir og eftirliti hafi ekki verið framfylgt.

Ef við lítum svo til þess að þetta eru sömu ástæður og hrunið á að hafa skollið á okkur, hvers vegna er þá alltaf verið að tala um að ef við hefðum haft euro á sínum tíma, þá hefði þetta ekki gerst.

Málið er einfaldlega þannig að það skiptir ekki máli gjaldmiðillinn þegar kemur að bólum og brotum í núverandi fjármálakerfi. Munurinn er hins vegar sá að með okkar eigin gjaldmiðil höfum við ákveðna stjórn á okkar málum.


mbl.is Evran enn þá góður kostur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýska fordæmið

Ég er harður fylgismaður þess að samfélagið sjálft framleiði það fjármagn sem þarf til að skiptast á þeim verðmætum sem framleidd eru innan samfélagsins. Ég tel það hreina fásinnu að eftirláta einkaaðilum þessa framleiðslu gegn greiðslu vaxta.

Það er almennt talið að samfélaginu sé ekki treystandi til að framleiða fjármagnið, því það muni leiða til óðaverðbólgu og því sé best að láta einkaaðila sjá um þetta, því þeir vita alltaf best. Þessu til stuðnings, þá er vísaði til þýsku verðbólgunnar fyrir seinni heimsstyrjöld.

Bent er á ofurframleiðslu þýska ríkisins á peningum sem hafi leitt til gífurlegrar verðbólgu. Þrengingarnar sem fylgdu í kjölfarið hafi svo verið eldsneytið sem fóðraði valdatöku nasista.

Vissulega er rétt að mikil verðbólga varð í Þýskalandi vegna offramleiðslu á fjármagni og var það eitt þeirra atriða sem leiddi til valdatöku nasista. Það er hins vegar einn grundvallar misskilningur í þessu öllu saman.

Árið 1967 kom út bókin "The Magic of Money" eftir Hjalmar Schacht, en hann var seðlabankastjóri þýska seðlabankans þegar peningaframleiðslan fór yfir strikið. Þar kemur fram að það var ekki þýska stjórnin sem stóð að framleiðslunni, heldur einkaaðilar.

Á þessum tíma var þýski seðlabankinn einkabanki og var peningaútgafan hluti af aðgerðum til "varnar" þýska markinu undan ágangi erlendra áhættufjárfesta. Það var því framleitt gífulegt magn fjármagns sem lagði þýskan efnahag í rúst, allt til hagsbóta fyrir erlenda fjárfesta.

Það voru því hinir "ábyrgu" einkaaðilar sem lögðu þýska efnahaginn á hliðina, ekki "óábyrg" hegðun ríkisins.

En hvers vegna minnast á þetta núna? Málið er að við erum að horfa upp á nákvæmlega sömu aðstæður eftir nokkra mánuði.

Samkvæmt fullyrðingum seðlabankastjóra, þá á að afnema gjaldeyrishöft um áramótin, enda búið að taka heljarinnar lán í erlendum gjaldeyri til að geta skipt út krónum fyrir útlendan pening.

Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að erlendir áhættufjárfestar, sem hafa verið með fasta peninga hér á landi, munu selja þær krónur og kaupa gjaldeyrir í staðinn. Það er því gífurleg hætta á að gjaldeyrisforðinn muni dragast verulega saman. Til viðbótar munu gjaldeyriskaupmenn skortselja krónuna og þá mun gengið falla enn frekar.

Þetta tvennt mun að öllum líkindum leiða til þess að gengið verði á gjaldeyrisforðann og við standa uppi með engan forða, en háar afborganir og vexti. 

Það er ekkert sem styður það að aflétta gjaldeyrishöft með öllu um áramót og hvað þá að setja krónuna á opinn markað.

Horfum til þýska fordæmisins og látum ekki áhættufjárfesta setja samfélagið á hliðina. Það er kominn tími til að ríkisstjórnin hætti að hlusta á hagsmunaðila, sem aðeins líta til persónulegs gróða, og fari að hlutast til þess að leysa hið raunverulega verkefni.

Það er kominn tími til að við sem samfélag tökum aftur til okkar peningaframleiðsluna, framleiðslu sem aldrei átti að gefa frá samfélaginu.


Rangar forsendur

Ég tel að kominn sé tími til að ríkisstjórnin átti sig á ákveðnum forsendum samfélag. Það er nefnilega ekki þannig að bankastarfsemi sé undirstaða samfélaga mannsins, heldur eru það einstaklingarnir sem mynda samfélagið. Einstaklingar geta búið í samfélagi án banka, en bankar geta ekki starfað í samfélagi án einstaklinga.

Það að bjarga bönkum, svo fyrirtækjum en láta einstaklingana "redda" sér sjálfum, kann ekki góðri lukku að stýra. Að halda því svo fram að með því að bjarga bönkunum, þ.e. gefa þeim pening og rukka almenning í formi skatta, þá geti bankarnir bjargað almenningi. Bankar bjarga engum, þeir bara lána peninga og þegar vandi almennings liggur í því að skulda of mikið, þá eru viðbætur við þær skuldir engin björgun.

Ríkið borgar um 100 milljarða í vexti samkvæmt því sem heyrst hefur af fjárlagafrumvarpinu. Væri ekki eðlilegra að hætta því og nota peningana til að greiða þjónustu við samfélagið.

Ríkið á að taka aftur til sín fjármagnsframleiðsluna og hætta að borga bönkunum fyrir eitthvað sem það getur gert ókeypis.

Varðandi núverandi stöðu, þá er þetta ekki flókið. Það á að skrá vísitöluna til byrjunar árs 2008 og festa hana þar. Þá leiðréttist höfuðstóll lánanna og verðtrygging verður aflögð í praksis. Kostnaðurinn er enginn, því þarna leiðréttist bara "hagnaður" sem kom til vegna hækkunarinnar.

Lífeyrissjóðirnir eiga líka að slaka á. Lækkun lána gerir ekki út af við lífeyrissjóðina, það gerir hins vegar óábyrg fjárfestingastefna og það er mannréttindabrot að láta félagsmenn ganga í ábyrgð fyrir slíku.


mbl.is „Þreytt á þessari leiksýningu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband