11.12.2009 | 13:47
Áhugaverð pæling
Þetta er mjög áhugaverð pæling. Einnig veltir maður fyrir sér hvernig verður með okkur. Þegar bent hefur verið á ástandið hjá sumum ESB ríkjunum, þá er því kastað fram að ástandið hér sé mun verra og það batni ekki nema með upptöku euro. Hvernig verður þetta þá hjá okkur, munum við geta tekið hana upp þegar reka á núverandi notendur í burtu. Eða verðum við að vera búin að laga efnahagsmálin hjá okkur áður en við getum tekið upp euro, til að hjálpa okkur við að laga efnahagsástandið. Ég veit að þetta hljómar sem hringavitleysa, en það er nú bara vegna þess að þetta er hringavitleysa. Og þá spyr maður sig hvers vegna taka upp euro?
Það yrði hins vegar dauðadómur yfir euro hugmyndafræðinni að reka þessi lönd út, enda væri það dæmi um að þetta gengi ekki. Það sem mér þætti líklegri niðurstaða, er að ESB tæki yfir stóran hluta efnahagsstjórnunar þessara landa, þetta litla sem eftir er. Það væri líka í stíl við Lissabon sáttmálann sem Írar voru þvingaðir til að samþykkja fyrir stuttu. Að reka þessi lönd úr euro samstarfinu væri nefnilega allt of stórt skref til baka í þessu sambandsríkjahönnunarferli sem búið er að leggja svo mikla vinnu í.
Næstu mánuðir verða áhugaverðir að fylgjast með. Ég er nefnilega hræddur um að fréttirnar úr evrópska sælubandalaginu komi til með að dökkna nokkuð eftir áramótin.
Írar og Grikkir gætu misst evruna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvers vegna að taka upp Evru? Það er í rauninni ekki rétta spurningin, nær væri að spyrja hvort við getum það yfir höfuð? Ísland hefur aldrei uppfyllt þau skilyrði sem sett eru fyrir upptöku Evru, ekki einu sinni þegar vel hefur árað. Ennþá síður munum við geta uppfyllt þau úr því sem komið er núna, og ólíklegt að það takist nokkurntíma á næstu áratugum vegna svimandi hárrar skuldastöðu ríkisins. Þeir sem halda Evrunni fram sem einhverri töfralausn við efnahagsvanda verða nú að fara að hugsa sinn gang alvarlega, því svoleiðis ranghugmyndir eru beinlínis varasamar fyrir framtíð Íslands. Ég er sammála þér, að það er mun líklega að Evrópusambandið muni nota þetta tækifæri til að grípa tangarhaldi á fullveldi viðkomandi ríkja frekar en að reka þau úr myntbandalaginu, enda samræmist það meginmarkmiðum sambandssinna.
Guðmundur Ásgeirsson, 11.12.2009 kl. 14:09
Nei, við þurfum ekki Evru eða ESB.
Það á að núllstilla hagkerfið. Taka krónuna úr sambandi við útlönd. Að halda uppi fljótandi gengi er brjálæði. Eins að vera með vísitölutryggða samningsokurvexti sem kynda undir verðbólgu. Óþarfi að vera með stóran gjaldeyrisvarasjóð. Losa sig við AGS sem fyrst. AGS hefur enga kosti en gífurlega galla . AGS hefur rústað hagkerfinu um gjörvalla Asíu,í Afríku og í Suður-Ameríku.
En við þurfum að hreinsa til svipað og svíar gerðu 1991. Þá var eiginlega allt slæmt tekið út úr bankakerfinu og ástandið stöðugt síðan.
Árni Þór Björnsson, 11.12.2009 kl. 14:23
Þetta er sennilega rétt hja þér Jón, ríkin verða varla rekin út úr evrusvæðinu þó það væri vafalaust skynsamlegast út frá hagfræðilegum sjónarhóli. En evrusvæðið er hins vegar pólitískt fyrirbæri fyrst og fremst eins og ófáir forystumenn Evrópusambandsins hafa viðurkennt opinberlega. Ef hagfræðileg sjónarmið hefðu ráðið för hefði það aldrei orðið til, a.m.k. ekki í þeirri mynd sem við þekkjum það í dag. Þá hefðu í mesta lagi Þýzkaland, Frakkland og Benelúx ríkin myndað það. Þannig að sennilega verður tekin pólitísk ákvörðun í þessum efnum frekar en hagfræðileg. Allt getur þó auðvitað gerzt.
Hjörtur J. Guðmundsson, 11.12.2009 kl. 15:18
Þessir Evru-draumar ESB sinna eru óraunhæfir eins og Jón bendir á. Við eigum langt í land með að uppfylla Maastricht skilyrðin, en m.a. þurfum við að hafa sýnt fram á stöðugleika í efnahagsmálum í x mörg ár til að geta tekið upp evruna. Kannski er ég svona vitlaus en ég hélt einmitt að ef við gætum sýnt fram á stöðugleika með krónunni í x mörg ár, að þá væri einmitt forsendan fyrir evrunni farin? Til hvers þurfum við að skipta um gjaldmiðil ef við getum viðhaldið stöðugleika með okkar eigin íslensku krónu?
Eins benda ESB sinnar á að við hefðum ekki lent í svona djúpri hagsveiflu ef við hefðum verið í ESB og með Evru. Hugsanlega er það rétt og hugsanlega ekki. Það eru ekki góð rök fyrir ákörðun í dag að benda á hugsanlega kosti sem sú ákvörðun hefði haft í fyrra.
Það sem fyrst og fremst klikkaði hjá okkur var það að við fórum allt of hratt í einkavæðingarferli bankanna og eftirlit með þeim var lélegt, m.a. þar sem hendur okkar voru að mörgu leyti bundnar af reglum EES og þar með hins heittelskaða ESB. Þetta er eitthvað sem við höfum tækifæri á að laga núna, við getum nýtt okkur það sem við höfum lært af slæmu reynslu og bætt okkur. Við eigum ekki að ráfa eins og rófulausir hundar Brussel og biðja þá að stjórna hérna "af því að okkur mistókst", eins og ESB sinnar jarma um. Slík hugsun jaðrar við landráð í mínum huga.
Muddur, 11.12.2009 kl. 15:52
Afsakið, í textanum átti að standa "... af slæmri reynslu okkar..." og "... til Brussel."
Muddur, 11.12.2009 kl. 15:55
Þakka innlitið. Auðvitað er bull að taka upp erlenda mynt til að styrkja "hagkerfið" þegar grunnkrafan fyrir slíkri upptöku er að það sé búið að styrkja hagkerfið. Hver sem vill sjá það, sér að þetta er ekki lausn fyrir okkur.
Bendi á það sem kemur fram hjá Árna, en þar bendir hann á brjálæðið að halda uppi fljótandi gengi. Spurningin er nefnilega, hvers vegna halda uppi fljótandi gengi. Rökin eru þau að þannig skapist "rétt" gengi sem stjórnað sé af verðmætamati markaðarins. Þetta gengi bara upp ef markaðurinn væri byggður á rökum og réttum forsendum. Hann er hins vegar ekki þannig, heldur er þessi svo kallaði markaður samansettur af einstaklingum sem allir eru keyrðir áfram af tilfinningum, tilfinningum sem reknar eru áfram að hræðslu og græðgi.
Krónan er gjaldmiðill sem við notum til að skiptast á verðmætum sem sköpuð eru innanlands, eða fengin eru til landsins í skiptum fyrir innlend verðmæti. Það er út í hött að gera þennan gjaldmiðil af einhverri hrávöru svo spekulatorar geti grætt á hækkun eða lækkun hennar. Það er nefnilega þannig að markaðurinn hugsar ekki rökrétt, hann keyrir áfram af verðsveiflum. Fljótandi gjaldmiðill verður því aldrei stöðugur.
Tilgangur gengisskráningar er að endurspegla verðmæti á milli gjaldmiðilssvæða. Það hlýtur að vera markmiðið að einstaklingar geti fengið sambærilegar vörur á sambærilegu verði óháð því hvar þeir eru staddir. Þetta næst ekki fram á taugaveikluðum tilfinningamarkaði. Flot krónunnar er bull.
Ég er fylgjandi því að við setjum alla alþjóðasamninga á bið, losum okkur úr AGS/IMF og breytum efnahagskerfinu í stíl við það sem kemur fram hjá www.umbot.org.
Jón Lárusson, 14.12.2009 kl. 08:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.