Vangaveltur um rétt og rangt. Hvað við höfum og hvað við viljum

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir í fréttatilkynningu: „Það er fagnaðarefni að Glitnir, í samráði við kröfuhafa, taki nú ákvörðun að eignast íslenskan banka. Þessi ákvörðun er skýrt merki um að erlendir fjárfestar sjá nú fyrir endann á þeirri alþjóðlegu fjármálakreppu sem við höfum glímt við undanfarið ár. Nú er verið að leggja lokahönd á endurreisn íslenska bankakerfins sem er að verða fullbúið til að þjónusta heimilin og styðja við uppbyggingu atvinnulífsins.

Þetta er um margt áhugaverð yfirlýsing hjá honum Steingrími Joð. Kemur tvennt fram sem vakti áhuga minn, í fyrstalagi sú fullyrðing að "erlendir fjárfestar sjá nú fyrir endann á þeirri alþjóðlegu fjármálakreppu ..." og svo í öðru lagi "... endurreisn íslenska bankakerfins sem er að verða fullbúið til að þjónusta heimilin og styðja við uppbyggingu atvinnulífsins".

Varðandi fyrra atriðið, þá kveður hér við annan tón. Hvar er ásökuninn á hendur hinum og þessum, nornaveiðarnar sem byggðust á því að þetta ástand væri allt verk einhverra skilgreindra Íslendinga. Raunveruleikinn er nefnilega sá að það sem við glímum við er afleiðing ástands í útlöndum, ástands sem allur heimurinn er að glíma við. Ég segi það ekki, ef sumir hefðu farið varlegar hér á Íslandi, þá hefði skellurinn ekki orðið eins stór og hann varð, en þetta segir mér að þessar nornaveiðar hafa leitt athygli okkar frá því sem við ættum að vera að gera. Ekki misskilja mig þannig að ég vilji þessum mönnum allt gott, ég tel að menn eigi að taka út sína refsingu hafi þeir brotið af sér. Hins vegar erum við með kerfi sem á að vinna að slíku, en almenningur og ekki síst ríkisstjórn á að vinna að því að byggja upp landið aftur. Það verður aldrei gert ef við erum of upptekinn af því að eltast við eitthvað sem við í raun vitum ekki alveg hvað er. Ríkisstjórnin hefur veifað ásökunarplagginu í gríð og erg til að kenna öðrum um, það sem í dag er að birtast sem getuleysi hennar sjálfrar.

Seinna atriðið er svo það sem toppar þetta allt saman og í raun skýrir vitleysuna sem er í gangi. Hvernig eiga bankarnir að þjónusta styðja við nokkurn skapaðn hlut. Þetta kerfi er jú orsökin fyrir öllu mabóinu og eina leiðin sem þetta fyrirbæri getur "unnið með" almenningi, er með því að auka á vandann. Bankarnir koma ekki til með að láta neinn fá fjármagn án þess að krefjast vaxta og þar með aukinnar greiðslubyrði. Þeir koma ekki heldur til með að "létta undir" með neinum án þess að lengja í hengingarólinni. Að láta bankana um aðkomuna að þessu, er bara til þess fallið að hirða af fólki eigur þeirra. Enn og aftur sannast það að ríkisstjórnin er ekki að vinna fyrir fólkið, heldur mun fólkið vinna fyrir kerfið.

Við stöndum á tímamótum og við verðum að fara að horfa til þess sem leiðir okkur út úr þessari vitleysu. Það er kominn tími til að við lítum inná við og ákveðum hvað við viljum okkur til handa, ekki á forsendum annarra, heldur okkar sjálfra.

Mér var bent á texta í bókinni Fjölmenning á íslandi sem gefin var út af Rannsóknarstofu í fjölmenningarfræðum KHÍ og Háskólaútgáfunnar árið 2007, þegar allt var í gúddí. Ég vil leyfa mér að vitna í innlegg Gérard Lemarquis á blaðsíðu 15, en letur breytingin er mín.

Upplifun Útlendings - Rótgróinn Nýbúi segir frá

Það sem ég dáðist að þegar ég kom: grænmáluð húsþök, malarvegir, sjónvarpslaus júlímánuður, fimm dagblöð fyrir svo örfáa lesendur.

Börn og unglingar sem unnu launavinnu sem augsjáanlega gaf þeim sjálfstæði og frelsistilfinningu.

Ótakmörkuð eyðslusemi í fátæku samfélagi sem upplifði sig ekki sem slíkt.

Allt þetta er horfið - nema eyðslusemin.

Ísland hefur breyst hraðar en ég - það nálgast Evrópu og þ.a.l. mig og mínar lífsvenjur.

Ég ætti að gleðjast en ég er oft pirraður: Allt þetta púl til þess að aðlagast nýrri menningu var tilgangslaus fjárfesting, þar sem íbúar landsins höfnuðu henni sjálfir.

Það sem var erfitt: Of hógvær tilfinningaskali, hvort sem var um að ræða gleði eða reiði. tilfinningin, sem ég fékk alltaf þegar ég var spurður um álit, var að Íslendingar hefðu meiri áhuga á sér en mér. Lágmarkskurteisi í umgengni, lútersk móralísering og sterk dýrkun vinnusemi, sem ég gat ekki skilið, en kannski mest félagsleg gætni (sem reyndar fyrirfinnst alls staðar í evrópskum sveitum) sem gerir það að verkum að maður forðast að tala hreinskilningslega um hina.

Að vera Útlendingur fyrir 30 árum var bæði auðveldara og líka erfiðara. Að læra íslensku var á þeim tíma talið nánast óeðlilegt og allavega ómögulegt. Útlendingar voru flokkaðir eftir fjarlægð heimalandsins frá Íslandi og sem Frakki hafði ég á tilfinningunni að tilheyra ystu mörkum menningarheimsins.

En á þeim tíma vorum við svo fá, að fæð okkar jók ekki bara á gildi okkar á Íslandi heldur líka í upprunalöndum okkar.

                                                                                            Gérard Lemarquis

Það er stundum sagt að glöggt sé gestsaugað og set ég þetta fram fyrir okkur að hugsa aðeins út í það hvernig við viljum sjá okkur í framtíðinni. Viljum við líta til baka og taka upp gömul gildi, eða ætlum við að kasta þeim á haug sögunnar og halda til nýrra gilda, sem kannski eru betri, en þau eru alla vega ekki okkar. Annars vonast ég til þess að þessi texti verði til þess að við lítum okkur nær og setjum fyrir okkur hvað við viljum og á hvaða forsendum.


mbl.is Segir yfirtökuna betri kost
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband