12 mánuðir max

Það er ekki í mannlegu valdi að laga lánastöðu almennings, einhvern vegin svona hljóðaði fullyrðing félagsmálaráðherra þegar hann var spurður hvort ekki ætti að byrja að hjálpa fólkinu í landinu. Núna er hann hins vegar farinn að tala um að ekki sé hægt að fara í almennar aðgerðir, heldur verði að einbeita sér að sérhæfðum aðgerðum, þ.e. hjálp til vina og vandamanna.

Þessi hugmynd um tekjutenginu afborgana er ákveðin lausn, en hvað með þá sem ekki geta "skaffað" sér laun og eru á töxtum, eða hafa ekki möguleika á að vinna svart. Þeir geta ekki lækkað lánin sín að neinu marki og því er þetta nokkuð sem er spurning hvort gangi almennt. Svo er ég líka hræddur um að þessi leið sé ekki hugsuð til handa almenningi, heldur bönkunum. Því ég geri ráð fyrir að í endan, þá verði þetta þannig að lánstíminn lengist bara með viðeigandi vaxtakostnaði.

Hins vegar hef ég verið að benda á leið sem ég tel miklu betri og hægt að láta ganga til allra á sömu forsendum. Það er reyndar minnst á það í fréttinni að niðurfelling skulda gæti verði skammgóður vermir, en ég velti því fyrir mér, fyrir hvern það væri skammgott. Mig rennur grun í að þarna sé verið að hugsa um hag bankanna.

Það sem á að gera, er að mínu mati eftirfarandi:

Færa lánskjaravísitöluna aftur til þess sem hún var í febrúar mars 2008, en við það lækkar höfuðstóll verðtryggðra lána og greiðslubyrðin lagast til muna. Sú hækkunarhrina sem varð á lánum á þessum tíma sem síðan er liðinn er, kemur fram sem pappírshagnaður bankanna og við lækkun væri því ekki um að ræða neitt raunverulegt tap. Þetta er svona eins og á hlutabréfamarkaði, bréfin hækka og lækka, en það er í raun ekkert raunverulegt tap. maður sem kaupir á 100, svo hækkar í 200 áður en það lækkar aftur í 100, hefur ekki tapað neinu, hann stendur einfaldlega í stað. Þetta er aðgerð sem kostar ekki neinn neitt. Annar kostur við hana er að þetta tekur ekki nema brot úr degi að fá í gegn og árangurinn kemur strax fram.

"Nýju" bankarnir hafa verið að taka yfir skuldabréf "gömlu" bankanna og sparisjóða á afföllum, en þessi afföll eru veruleg í sumum tilfellum. Það er réttlætismál að þessi afföll verði látin ganga til skuldaranna. Enn og aftur myndi þetta ekki kosta neitt fyrir þjóðfélagið, ríkið eða bankana, þar sem "tapið" er þegar komið fram hjá "gömlu" bönkunum. Þarna koma svo líka inn myntkörfulánin sem innihalda lán sem erlendir lánadrottnar eru þegar búnir að veita afslátt á. Enn og aftur enginn viðbótar kostnaður.

Þetta eru aðgerðir sem gæti verið hægt að ná fram á par mánuðum og í raun bull að ríkistjórnin skuli ekki hafa gripið til þeirra. Það er aðeins hagsmunagæsla til handa fjármálastofnunum og undirlátssemi IMF sem hefur komið í veg fyrir slíkar aðgerðir.

Svo til að áréttingar, þá er engin ástæða fyrir ríkið að dæla peningum í kviksyndi bankanna í þeim tilgangi að byggja hér upp þrjá sterka banka. Í fyrstalagi þá þurfum við bara einn banka og í öðru lagi, þá þarf hann ekki að vera neitt rosa stór. Hann þarf bara að geta þjónustað almenningi og fyrirtækjum í landinu. Það sem manni rennur grun í, er að með þessum þríhöfða aðgerðum ríkistjórnarinnar sé verið að gangast í ábyrgð fyrir erlenda áhættufjárfesta sem munu fá bankana gefins. Það er hins vegar stórhættulegur leikur þar sem nær allur atvinnurekstur og verðmæti eru skuld- eða veðsett bönkunum. Það væri lítið mál fyrir eigendur "nýju" bankanna að velja sér bestu bitana og fara svo á brott. Þetta er ekki bara spurning um einhverja þrjá banka, þetta er spurningin um allt hagkerfið eins og það leggur sig.

Ég hef verið að velta fram hugmyndum hér á blogginu mínu og ég fullyrði að væri þeim hrint í framkvæmd, þá værum við komin út úr þessu ástandi á 12 mánuðum.


mbl.is Grunnur að lausn á vanda heimila?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Eina, sem myndi bjarga hlutunum í bili væri að fólk tæki sig saman um að færa hagkerfið neðanjarðar. Vinna svart og greiða nótulaust eftir megni. Þetta myndi hjálpa fólki að eiga fyrir afborgunum, en á móti verða stjórnvöld að aflétta verðbótum þessa tímabils. 

Annars er ég á því að þetta sé gersamlega tapað spil, hvernig, sem á það er litið. Það er bara spurning um hvenær Jóhanna og Steingrímur Quisling sjá það.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.9.2009 kl. 08:56

2 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Þetta varðandi verðtryggðu lánin er borðleggjandi og myndi vera fyrsta skrefið í afnámi verðtryggingar, sem var kosningaloforð VG ef minnið svíkur mig ekki.

Skuldabréf bankanna er annað mál, ég er ekki viss um að það gangi upp að færa afföllin til skuldaranna sí svona.

Einn banki? Held ekki, aftur á móti væri sparisjóðakerfið heppilegt og síðan einn öflugur banki að auki. Hina má gefa erlendum lánardrottnum, þeir geta síðan rukkað inn, með sínum aðferðum, Bjöggana, Maggana og hvað þeir heita. Að auki gæti verið þeirra hagur að reka banka hér og ef svo væri þá er loksins komin grunnur að þeirri samkeppni sem átti að nást með einkavæðingunni á sínum tíma.

Frysting verðtryggingar væri aðgerð sem myndi virka um næstu mánaðamót og létta undir með lang flestum fjölskyldum í landinu. Bara þetta skref myndi laga þjóðarmóralinn verulega og ekki veitir af.

Sindri Karl Sigurðsson, 3.9.2009 kl. 11:03

3 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Jón Steinsson, lektor í hagfræði við Columbia háskóla í Bandaríkjunu eins og undirskriftin hljóðar, skrifar grein í Morgunblaðið í dag sem ber yfirskriftina "Hvað á að gera fyrir skuldsett heimili?", s. 19. Þar fer hann í almennum orðum yfir ráð sem komið hafa fram í umræðunni undanfarið um þessi mál. Ekki er hann hrifinn af þeim og líklega flokkar hann slík ráð sem þú reifar hér, Jón, sem dæmi um "vúdú-hagfræði". Ég tek fram að ég er ekki að taka undir það sem hann segir né hafna því, aðeins að benda á mótrök sem fram hafa komið í þessum dúr. Hann fjallar um þessi mál og hvað sé til ráða varðandi skuldsett heimili og fleiri, en í almennum orðum sem sett eru fram sem fullyrðingar. Jón S. bendir m.a. á að með t.d. bakfærslu verðtryggingar, þ.e. "afturvirkt afnám verðtryggingar" eins og hann kallar það, væri verið að framkvæma tekjutilfærslu frá þeim sem lítið skulda til þeirra sem skulda mikið. Það finnst Jóni óréttlátt, og lái ég honum það ekki; út af fyrir sig má það til sanns vegar færa.

Jón S. minnist hins vegar ekki á forsöguna fyrir þessu ástandi og hvað er búið að gerast varðandi eignatilfærslur hingað til. Eftir að verðbólgan fór á flug snemma árs 2008 og við verðbólgustökkið við bankahrunið áttu gífurlegar eignatilfærslur sér stað frá lántakendum til lánveitenda, reyndar á pappírnum og í tölum í tölvum  Það var heldur ekki hvorki réttlátt né sanngjarnt. Það er þetta óréttlæti sem þessi ráð sem Jón S. virðist kalla "vúdú"-hagfræði eru hugsuð til að leiðrétta. Með afturvirku afnámi verðtryggingar væri verið að skila lántakendum ofteknu bókfærðu fé vegna áfallinna verðtrygginga sökum hrunsins aftur til baka frá lánveitendum sem fengu þessar verðbætur færðar sér til eignar "ókeypis" í formi hækkana á höfuðstóli lána án þess að þeir væru að veita sömu lántakendum meiri lán í formi peninga né annarra raunverulegra eigna.

Lánveitendur eru ekki endilega sömu persónur og "þeir sem skulda lítið", í dæmi Jóns S. Hann virðist ekki gera greinarmun á þessu og það er yfirsjón í grundvallaratriðum þegar rætt er um réttlæti í þessu sambandi.

Kristinn Snævar Jónsson, 3.9.2009 kl. 14:20

4 Smámynd: Jón Lárusson

Öll leiðrétting til handa almenningi er sem eitur í beinum bankanna og fjármagnseigenda, eðlilega, þeir vilja halda sínu alveg óháð því hvernig það er tilkomið. Mér er sama hvað nafni minn S. kallar þessar hugmyndir, en frasar eins og "vúdú-hagfræði", "samsæriskenning", "útópíuhugmyndir" og fleiri í þessum dúr, eru settir fram af fólki sem hefur í raun engin rök fyrir andstöðu sinni. Fólki sem er bara að gæta hagsmuna annarra.

Staðreyndin í þessu er ósköp einföld. Ástæðan fyrir því að fólk er að fara yfirum er ofskuldsetning, sem meðal annars er tikomin vegna gífulegrar og í raun tilhæfulausrar hækkunar á vísitölunni. Með því að bakfæra þetta þá verður skuldastaða flestra mun bærilegri og hjól hagkerfisins geta farið af stað aftur. Þegar svo litið er til þess að hluti af þessari hækkun er tilkomin vegna aðgerða ríkistjórnarinnar, sem engöngu virtust vera til þess gerðar að hækka vísituöluna og þannig bæta "eignastöðu" bankanna, þá er þetta bara réttlætismál.

Varðandi það að verið sé að taka fé frá þeim sem lítið skulda til þeirra sem mikið skulda, er bara einfaldlega bull. Þeir sem skulda fá hlutfallslega jafn mikið og þegar litið er til þess að þessi "hagnaður" lánadrottna er pappírslegs eðlis og ekki með neinar undirliggjandi kostnaðarauka, þá er það bara fásinna og í raun dónaskapur að halda þessu fram til varnar núverandi ástandi.

Þeir einu sem gætu "tapað" á þessu eru þeir sem eiga fjármuni inni á verðtryggðum reikningum. En eins og með lánveitendurna, þá er hagnaður þeirra pappírshagnaður og bara jafn fallvaltur og hagnaður hlutabréfaeigenda. Árið 2001, þá bauðst mér að flytja séreignasparnað minn á verðtryggðan reikning með, þá 6% vöxtum. Þar sem ég treysti ekki sjóðsstjörum, enda taldi ég þá ekki hafa hugmynd um hvað þeir voru að gera, þá stökk ég á þetta. Þannig að í þessu árferði, þegar séreignasparnaður fólks hefur horfið, þá er ég búinn að vera að hala inn hagnað. Auðvitað er ég ekki ósáttur við það, en ég verð að horfa út fyrir mína persónulegu stundarhagsmuni. Ef ég stend frammi fyrir því að velja á milli þess að skapa framtíð á Íslandi þar sem allir hafa það gott og hagsæld ríkir en minni séreignasparnað, eða framtíð þar sem allt er í fjötrum og doði og aumingjaskapur ríkir, en séreignasparnaðurinn í slarkandi lagi, þá er ekki spurning að ég tek á mig tapið. Hagnaðurinn mun alltaf verða meiri í betra samfélagi, þó persónuleg peningaeign sé kannski eitthvað slakari.

Þetta er ekki spurning um hagsmuni einhverra sérhagsmunaaðila, þetta er spurningin um hagsmuni samfélagsins. Það er ekki flóknara en það.

Jón Lárusson, 4.9.2009 kl. 08:26

5 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Einmitt, amen.

Eftir því sem ég hugleiði það meir hallast ég að því að þessi umrædda grein Jóns Steinssonar í Morgunblaðinu í gær hafi hreinlega verið pólitískur pistill en ekki hlutlaus umfjöllun fræðimanns, eins og hann leit út fyrir að vera í ljósi fyrri greina Jóns. Þessi misvísandi framsetning hans um að að afturvirkt afnám verðtryggingar fram fyrir hrun sé árás á "þá sem skulda lítið" er fræðimanni ekki sæmandi nema honum hafi yfirsést svona hrapalega eða að hér sé um vísvitandi misvísun að ræða til að framkalla samúð með "egginu" en ekki "hænunni", þ.e. þeim sem verða fyrir óbeinum áhrifum en ekki þeim sem urðu strax fyrir beinum áhrifum, lántakendum. Eins og ég bendi á var skuldaklafa í formi "handrukkaðra" verðbóta skellt á varnarlausa lántakendur og eignasafn lánveitenda hækkað sem því svarar; á pappírnum og með tölum í tölvum samkvæmt snarvitlausri og brostinni vísitölu. Jón horfir alveg framhjá þessu atriði og því réttlæti sem um er að ræða við að bakfæra þetta óréttlæti með því að fjarlægja hruns-verðbæturnar af baki viðkomandi lántakenda.

Þá má velta fyrir sér hvers vegna fræðimaðurinn, þ.e. í hlutverki hins pólitíska skríbents í þessu tilviki, skautar svo áberandi fram hjá þessu grundvallaratriði. Er það vegna þess að bakfærsla á umræddum verðbótum myndi afhjúpa með greinilegri hætti slæma stöðu bankanna (og þar með ríkisins) og lífeyrissjóðanna? Jón hrósar aðgerðum ríkisstjórnarinnar hingað til í hástert, þegar ýmir aðrir virðulegir fræðimenn gera það ekki, þannig að deildar fræðilegar meiningar eru nú um ágæti þeirra. Það bendir því miður til þess að rit Jóns séu of lituð pólitískum skoðunum og virðist það hafa afhjúpast í þessari grein.

Lífeyrissjóðirnir hafa tapað óhemju fé á falli bankanna, t.d. Lífeyrissjóður verslunarmanna á Kaupþingi og Existu svo eitt dæmi sé nefnt, eins og Ragnar Þór Ingófsson rekur í grein sinni í Morgunblaðinu í dag 4. sept., "Brennt barn forðast eldinn", á s. 26. Það er hryllileg saga sem hann rekur þar um krosstengsl sjóðsins, banka og fyrirtækja og persónana og fjölskyldna þar að baki. Það er ekki furða að Evu Joly skuli hafa blöskrað persónu- og hagsmunatengslin í íslenska fjármálakerfinu. Afleiðingar af glötuðum fjárfestingum og vafasamri stjórn þeirra mála kæmu betur í ljós ef lífeyrissjóðir myndu neyðast til að horfa á eftir of-bókfærðum verðbótum á lánum heimilanna, eins og hér er til umræðu. Það er því ekki furða að andstaðan sé mikil við þessum hugmyndum.

Vonandi tekst ekki að viðhalda blekkingum gagnvart almenningi um vankanta á bakfærslu oftekinna verðbóta með því að færa misvísandi rök í fræðilegan búning virðulegra fræðimanna í háskólum hérlendis og erlendis sem almenningur kann ekki svör við.

Kristinn Snævar Jónsson, 4.9.2009 kl. 11:27

6 Smámynd: Jón Lárusson

Því hefur verið haldið fram að peningar séu orðin að trúarbrögðum í dag og hagfræðingarnir séu prestar þeirrar trúar. Það er að mínu mati ósköp einföld ástæða fyrir því að leið bakfærslunnar hefur ekki verið farin og það er eignastaða bankanna.

Það er búið að vera að spenna upp eignastöðu bankanna til að hægt sé að búa til þrjá nýja banka. Afhverju þrjá þegar einn meðalstór væri í lagi, veit ég ekki. En ef við skoðum þetta nánar, þá snarjókst skuldastaða einstaklinga og fyrirtækja í byrjun árs 2008, en þetta bætti eignastöðu "gömlu" bankanna. Síðan voru þessar skuldir "seldar" "nýju" bönkunum með verulegum afföllum, þannig að "nýju" bankarnir sitja uppi með dýr skuldabréf, en létu lítið fyrir þau. Svo hefur ríkistjórnin verið að setja á allskonar gjöld sem fyrirséð er að munu ekki skila neinum verulegum tekjum í ríkissjóð, en hækka hins vegar vísitöluna og þar með láni, sem svo aftur "bætir" eignastöðu "nýju" bankanna. Hver hefur til dæmis verið flutt inn mikið af nýjum bílum undanfarna mánuði, eða síðan ríkisstjórnin hækkað gjöld á innflutta bíla?

Málið er einfallt, það er verið að búa til "sterka" eignastöðu fyrir "nýju" bankana og það aðeins svo hægt sé að gefa þá til erlendra áhættufjárfesta sem hóta ríkisstjórninni öllu illu, bæti hún þeim ekki tapið af áhættusækinni fjárfestingastefnu sem keyrð var áfram af græðgi. Við eigum að láta að upplýsa þá um að aukinn hagnaðarvon felur venjulega í sér aukna áhættu og þar með er það búið. Það sem er reyndar ótrúleg skammsýni hjá ríkisstjórninni, er sú augljósa staðreynd að áhættufjárfestunum gæti ekki verið meira sama um einhverja banka á Íslandi. Ef við skoðum Kauping, sem er bankinn sem fyrst á að gefa, þá stöndum við frammi fyrir því að bankinn á gífurlegar eignir erlendis, bæði fjármálafyrirtæki og fasteignir. Þetta eru hlutir sem hinir erlendu fjárfestar sjá tækifæri í. Svo má ekki heldur gleyma að Exista er upp á náð og miskun Kaupþings komið, en bankinn getur með einu handbragði gert það félag upp og hirt allar eigur þess. Þá eru þessir fjárfestar komnir með öll fyrirtækin sem Exista á, án þess að borga svo mikið sem eina krónu fyrir. Mín tilfinning er sú að fljótlega eftir að kaupþing er komið í hendur útlendinganna, þá verði bankanum breytt í fjárfestingabanka og útibúum lokað. Síðan verða eignirnar og veðin "seld" fyrir lítið sem ekki neitt og þá er arðráninu lokið. Bankinn fær svo að deyja hægt og rólega, en tapið af því væri svo óverulegt að ekki tæki að nefna það.

Við eigum að loka á alla utanaðkomandi "aðstoð" IMF og fleiri. Svo eigum við að hæta að selja krónuna á markaði, festa gengið, en í kjölfarið losum við okkur við gjaldeyrinn sem við fengum að láni. Við byggjum upp gjaldeyrisvaraforða með raunverulegri tekjuöflun og hefjum að breyta fjármagnskerfinu okkar þannig að við hættum að taka hagsældina út í skuld og förum að eignast hana.

Jón Lárusson, 4.9.2009 kl. 14:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband