17.8.2009 | 08:32
Og hver væri skaðinn?
Var að hugsa um að sleppa því að blogga um Icesave ábyrgðina nú í morgunsárið, en gat ekki annað eftir að hafa hlustað á Bylgjuna núna áðan. Þar var hún VG Lilja að tala um það hvað þetta væri nú frábær árangur og niðurstaðan reyndar SÖGULEG (öllu má nú nafn gefa). Hún hamraði stöðugt á því að við ættum að borga, spurningin væri bara á hve löngum tíma. Hún sagði reyndar að það væri líka spurning hvort Bretar og Hollendingar teldu að þetta væri brot á samningnum og þá væri lag að gera stórar breitingar á þessum óréttláta samningi. Ég var mikið að velta fyrir mér hvoru megin hún stæði í þessu máli, enda virtist hún með samningnum í einu orðinu en á móti í hinu. Vandinn virðist vera sá að hún vill ekki þennan samning en hún mun samþykkja hann þar sem hún er ekki sjálfráð í pólitískum skilningi. Þetta er ósköp einfalt, ef þú villt ekki þennan samning, þá fellur þú ábyrgðina. Að standa í einhverjum leikaraskap í von um að Bretar og Hollendingar vinni verkið fyrir þig er ekki ábyrg hegðun.
Það sem svo toppaði allt hjá henni var, að hún sagði okkur verða að samþykkja þetta vegna þess að það hengi svo margt á þessu, eins og tildæmis lán IMF!!! Hún er semsagt tilbúin til þess að fórna þjóðinni svo við getum fengið lán sem við í raun þurfum ekki að taka. Því þetta lán á að liggja óhreyft á reikningi í BNA þar sem við fáum lægri vexti af upphæðinni en við borgum af láninu. Þetta lán setur okkur því í neikvæða eiginfjárstöðu strax við afhendingu og þá spyr ég mig hver væri skaðinn af því að fá ekki þetta lán?
Það er augljóst, með vísan í grein FT, að erlendir fjárfestar eru ekki að koma hingað sama þó við samþykkjum Icesave. Það er hæpið að þetta lán hafi eitthvað betri áhrif á gengið en lánin sem við höfum fengið hingað til, en gengið hefur gert allt annað en að batna síðustu vikur og mánuði, enda ekki furða þar sem þessi lánavitleysa í nafni "gjaldeyrisvaraforða" hefur ekki gert neitt annað en skaðað eiginfjárstöðu landsins.
Alþingismenn eiga að sjá sóma sinn í því að hætta að vinna fyrir erlenda áhættufjárfesta og fara að vinna fyrir fólkið sem kaus þá á þing. Að ætla að fara í herferð til að auka möguleika útlendinga til að samþykkja ábyrgð okkar, með fyrirvörum sem breyta engu hvort eð er varðandi dauðadómin yfir okkur, er bara tímaeyðsla. Allt þetta skal gert svo við getum tekið lán sem bara mun kosta okkur möguleikann á sómasamlegu lífi næstu áratugina.
Það er kominn tími til þess að Alþingi og ríkistjórnin fari að vinna í því að byggja hér upp samfélagið. Það þarf ekki langan tíma til að setja allt af stað hér innanlands, það þarf bara hugrekki til þess, vilja og þor. Ef Alþingi og ríkistjórnin telur sig ekki búa yfir getunni til þess að bretta upp ermarnar og vinna vinnuna sína, þá á þetta sama fólk að segja af sér.
Víðtæk kynning heima og erlendis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta Icesave klúður er með ólíkindum frá byrjun. Auðvitað hefði verið lang besta og réttasta lausnin að hafna samningnum 63-0, en því miður situr Ísland uppi með SAMSPILLINGUNA þarna upp í brú þjóðarskútunnar og þeir stíga ekki í vitið. Jafnvel þó þessir fyrirvara haldi, eitthvað sem maður efast rosalega út frá lagalegum atriðum, þá eru við að greiða allt of háa vexti 5,5% og einnig greiðum við of háa upphæð tilbaka. Eina jákvæða við þetta dæmi er að nú sjá allar erlendar þjóðir að vilji er hjá okkur til að axla ábyrgð, en ef við hefðum í byrjun sýnt þessum þjóðum kurteisi og ekki ætlað að hlaupa burt frá öllu saman, þá hefði okkur verið sýnt miklu meiri skilningur. En HROKI okkar stjórnmálamanna og ÞJÓFNAÐUR okkar útrásar skúrka með Óla grís sem hriðfípl útrásarinnar er búið að valda okkur rosalegu tjóni.
kv. Heilbrigð skynsemi
Jakob Þór Haraldsson, 17.8.2009 kl. 09:56
Það er náttúrulega algert bull að borga 5.5 % vexti, þegar stýrivextir þessara landa eru á hraðferð að nálgast núllið. Það er kannski huggun harmi gegn að þeir eru ekki settir 18% í nafni ofurvaxtakröfu IMF. Þetta Icesave mál er þannig að ekki er hægt að gera kröfu til þess að það verði leitt til lykta á einhverjum ofurhraða. Þessi hraðmeðferð lyktar svolítið sem leið til að koma í gegn einhverju sem ekki kæmist í gegn við eðlilega skoðun. Það á að bíða með að samþykkja þessa ábyrgð fyrr en búið er að kryfja þetta mál til mergjar og komið á hreint hver staða okkar í raun er. Það getur ekki skaðað Breta og Hollendinga að bíða í eitt ár eða svo meðan almenninlega er gengið úr skugga með þetta allt saman.
Ef nákvæm skoðun leiðir til þeirrar niðurstöðu að við eigum að borga þetta allt saman og allt Icesave bullið eigi 100% rétt á sér, þá verður náttúrulega ekki komist hjá því að standa undir því. Hins vegar veltir maður því fyrir sér, hvað ef nákvæm skoðun leiðir til þess að við þurfum þess ekki, þá er heldur kaldranalegt að vera búin að taka á okkur einhverjar skuldbindingar sem okkur ber ekki að taka á okkur.
Jón Lárusson, 18.8.2009 kl. 01:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.