Hagsæld í formi eignar - Nýtt Ísland 4

Það er nauðsynlegt að samræmi sé á milli verðmæta samfélagsins og fjármagns í umferð. Einhver verður að sjá til þess að með auknum verðmætum, aukist fjármagn í umferð, spurningin er bara hver það er og hvernig það er gert. Ætlum við að fá það í umferð í formi skulda, eða eigna.

Ef verðmætasköpun í samfélagi er 100.000.000, þá þarf að skaffa pening fyrir þessum sömu verðmætum. Eins og staðan er í dag, þá skaffa bankarnir peninginn í formi skulda og rukka okkur um vexti. Þannig að til að vera skuldlaus við bankann, þá þarf samfélagið að borga til baka 106.000.000, en allir ættu að sjá að það er einfaldlega ekki hægt. Það er nefnilega ekki hægt að borga 106.000.000 ef það er aðeins til 100.000.000 í peningum.

Í nýju kerfi, þá myndi ríkið jafna magn peninga og verðmæta. Allur munur yrði svo tekinn og honum skipt upp. Til að byrja með myndi ríkið taka 50% og skipta því milli ríkis og sveitafélaga til að standa undir samneyslunni. Hinum 50% yrði svo skipt upp á milli allra borgara samfélagsins. Þannig kæmi hagsældin til samfélagsins í formi eignar en ekki skuldar.

Eins og staðan er í dag, þá má gera ráð fyrir að það vanti um 600 – 700 milljarða til þess að samræmi sé á milli peninga og verðmæta. Þessi tala gæti hafa breyst þar sem nokkrir mánuðir eru síðan ég heyrði hana nefnda, auk þess sem upplýsingar frá hinu opinbera eru frekar gloppóttar nú á dögum. Höldum okkur hins vegar við töluna svona til að klára reikninginn, en þá erum við að sjá ríkið fá um 300 til 350 milljarða og restin sem færi til almennings væri í kringum 940 – 1.100 þúsund, eða í kringum eina milljón á mann. Þennan pening fengu einstaklingarnir án þess að skuldsetja sig og myndi hann þá koma í veg fyrir neyslulán. Þessar tölur er settar fram til skýringar og gætu hafa breyst. Þær eru hins vegar ekki fjarri sanni og sýna hvernig hlutirnir geta auðveldlega verið.

Hægt og bítandi myndu svo lán hverfa, en í staðinn ætti fólk hlutina sem það notar og húsin sem það býr í. Aukin hagsæld myndi sýna sig í auknum eignum, ekki skuldum.

Auðvitað eru margar spurningar sem vakna við þetta, enda um að ræða hugsun sem ekki samrýmist því sem okkur hefur verið innrætt í gegnum árhundruðin. Hvernig getur staðið á því að fólk fær peninginn „ókeypis“? Hvaðan kemur peningurinn? Getur þetta gengið upp? Eru þetta ekki bara draumórar?

Við sjáum ekkert athugavert við það að hluthafar í fyrirtækjum fái greiddan arð, þó þeir leggi ekkert til framleiðslunnar eða komi nálægt rekstrinum að öðru leiti. Afhverju á þá ekki almenningur rétt á arði vegna aukinna verðmæta samfélagsins?

Hvaðan kemur peningurinn og hvers vegna á almenningur tilkall til hans frekar en þeir sem vinna við að búa til verðmætin beint? Framleiðsla þjóðfélagsins samanstendur af nokkrum þáttum og er beint vinnuframlag einn þeirra. Fyrir það fá einstaklingarnir sem koma að framleiðslunni greitt. Hins vegar byggir verðmætasköpunin á öðrum þáttum líka svo sem sameiginlegri þekkingu samfélagsins og ekki síst nýtingu sameiginlegra auðlinda. Það er eðlilegt að allir njóti góðs af því sem verður til við nýtingu þeirra. Við megum heldur ekki gleyma að þeir sem standa beint að framleiðslunni fá líka greiddan arð og fá því bæð greidd laun og arðinn. Þannig fá þeir í raun meira í sinn hlut en þeir sem fá aðeins arðinn greiddan.

Eins og áður hefur komið fram, þá er peningur verðlaus og aðeins hugsaður til að auðvelda skipti á verðmætum. Ríkið á að búa hann til eins og bankarnir gera í dag, en í stað þess að bankarnir láni þennan pening gegn vöxtum, til þeirra sem eru bönkunum þóknanlegir, þá er réttlátt að borgarar samfélagsins fái þennan pening greiddan beint sem eign.

Getur þetta gengið upp svona? Já, ekki síður en það gengur upp að fá peningana í gegnum bankakerfið. Þessir peningar þurfa að komast út í samfélagið og það er réttlátara að allir fái jafnt í staðin fyrir að fáir einstaklingar, sem stjórnast af græðgi, deili honum til þeirra sem þeim eru þóknanlegir og rukki fyrir það vexti.

Þá er það síðasta spurningin sem sett var fram, eru þetta ekki draumórar. Þetta er vissulega draumur nú um stundir, en órar eru þetta ekki. Þetta hefur ekki verið prófað áður í því mæli sem það þyrfti að gerast í dag, en það er ekki þar með sagt að það sé ómögulegt. Það er nefnilega þannig að allt sem gert hefur verið, hafði áður aldrei verið gert fyrr. Það er að segja, þó eitthvað hafi ekki verið gert áður, þýðir ekki að það sé ekki hægt.

Við vitum fyrir víst að núverandi fyrirkomulag er ekki að ganga upp og þjónar engan vegin hagsmunum almennings. Ef við viljum sjá alvöru lausnir, þá verðum við að höggva að rót vandans, en einblína ekki á afleiðingar hans. Með því að skipta um kerfi, þá erum við að höggva á rót vandans og byggja upp réttlátara samfélag þar sem einstaklingarnir eignast verðmæti, en ekki skuldir.

Hér er hægt að lesa síðasta pistil í sama greinarflokki.


mbl.is Mikil óvissa um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband