9.6.2009 | 10:23
Þýska vélin dregur úr hraðanum
Samdráttur í útfluttningi getur hæglega komi til án þess að nokkuð mikið sé að innanlands, enda útflutningur háður getu hinna erlendu kaupenda. Það sem hins vegar vekur athygli í þessari frétt, eru upplýsingarnar um minnkandi innflutning. Þetta bendir til þess að allt efnahagslífið sé að hægja á sér og þá spyr maður sig hvert mun þetta leiða.
Eftir því sem hagkerfi hægja á sér, því erfiðara er að koma þeim af stað aftur. Við horfum upp á þetta í Japan, en þar hefur lítið gengið að koma efnahagnum í gang frá því hann stöðvaðist á síðustu öld. Þýskaland hefur ekki almennilega náð sér á strik eftir að þýsku ríkin tvö voru sameinuð 1989, nokkuð sem vekur hjá manni ugg varðandi möguleikana á að það náist að koma kerfinu þeirra af stað í kjölfarið á þessu ástandi sem nú ríkir.
Þýskaland er kjarninn í ESB og ef illa gengur þar, mun það leiða til erfiðleika í hinum ríkjunum. Það er augljóslega ekki að koma í veg fyrir þrengingar, vera landsins í ESB. Hingað til hefur verið litið til vandræða Íra og Spánverja sem einhvers sérfyrirbæris sem ekki eigi við um sambandið í heild sinni. Þessar fréttir og aðrar svipaðar sem hafa verið að berast frá öðrum löndum ESB, sýna að ástandið þar inni er ekki eins gott og menn vilja vera að láta. Næstu mánuðir verða áhugaverðir að sjá, ekki síst þegar kemur að hausti. Fólk er almennt rólegra á sumrin, en þegar fer að hausta og fólk ætlast til að hlutirnir fari aftur í sama farið, þá má búast við mótmælum sjái fólk ekki breytingar.
Stjórnmálamenn þessara landa hafa nú undanfarnar vikur verið að tala um það að nú sé ástandið allt að fara batnandi. Hins vegar sýna tölur annað. Þetta vekur hjá manni þær spurningar hvort stjórnmálamenn viti ekki hvað þeir eru að segja, eða hvort þetta sé sagt til að draga athyglina frá raunverulegum aðstæðum. Ef aðgerðir þeirra hingað til hafa ekki dugað og gripið hefur verið til smjörklíputækni, hvað gerist þá ef þeir höndla ekki ástandið og það fer að vera meira áberandi.
Samdráttur í útflutningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.