Endurmetum "aðstoð" AGS

Sagði hún vextina hærri en almennt gerðist og ríkið væri að greiða um fimm milljónir króna á dag vegna fyrstu greiðslunnar síðan í nóvember. Greiðslan væri geymd í Bandaríkjunum á umtalsvert lægri vöxtum og brýnt væri að nefna lækkun stýrivaxta við nefndina

 Hvers konar hjálp er þetta sem við erum að fá. Við fáum lán hjá AGS þar sem vextirnir eru hærri en almennt gerist (okurvextir) og peningurinn er geymdur á reikningi í Bandaríkjunum á umtalsvert lægri vöxtum. Fimm milljónir á dag hafa svo verið greiddir í vexti. Ég sé ekki betur en að við séum bara að fjármagna AGS. Það er léleg fjárfestingastefna að taka lán á vöxtum til þess eins að láta það liggja á reikningi með minni vöxtum. Það er eins og verið sé að halda okkur í skuldasúpu, bara til að halda okkur í skuldasúpu.

Við stöndum frammi fyrir lágu gengi krónunnar, sem gerir allar erlendar lántökur mjög dýrar. Hins vegar verður lágt gengi til þess að allur útflutningur gefur okkur fleiri krónur í vasann. Ég legg því til að við borgum þetta lán til baka og byggjum upp varasjóðinn okkar með eðlilegum hætti, þ.e.a.s. flytjum út vörur og fáum gjaldeyrir í staðinn. Auðvitað tekur það einhvern tíma að byggja sjóðinn upp þannig, en við erum þá alla vega ekki að borga fimm milljónir á dag á meðan.

Það er kominn tími til að stórnvöld, ríki og þing, fari að vinna vinnuna sína. Frá því að þessi stjórn tók við eftir hallarbyltinguna í vetur, þá hefur ekkert verið gert til að létta á heimilium landsins og koma í veg fyrir eignarupptöku fjölda fólks. Það væri nær að ganga í þessi mál, heldur en að eyða tímanum í að ræða bindisnotkun á Alþingi.

Ríkið á að fara strax út í það að lagfæra vísitöluna á lánum landsmanna, þ.e. færa hana aftur til febrúar, mars 2008 svo greiðslubyrðin lækki og síðan á að fara út í að færa afskriftir lána til neytenda. Þetta er heilbrigðara heldur en að "bjarga" fólki með því einu að lengja í hengingarólinni. Frestun afborgana og fáránleg hækkun vísitölunnar er bara til þess fallin að fóðra bankana.

Bankarnir komu sér og okkur í þetta ástand, væri ekki nær að þeir bara sæju um að koma sér sjálfir úr því og velta ekki vandanum yfir á aðra. Það er þannig að þeir sem taka áhættuna njóta arðsins, eins og bankarnir vissulega gerðu. Að losa þá undan ábyrgðinni og skella henni á þá sem engan ávöxtu báru, er náttúrulega bara rugl og alls ekki til þess fallið að kenna bankabatteríinu að fara varlegar í framtíðinni.

Ríkið verður líka að átta sig á því að bankarnir eru ekki lífæð þjóðfélagsins, það er fólkið í landinu sem er lífæð þjóðfélagsins.  


mbl.is Sendinefnd AGS í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband