Vinna og velferð

Þessi frétt kemur mér svo sem ekki mikið á óvart, enda búinn að fylgjast lengi með frönsku þjóðlífi og var farinn að fá fréttir sem bentu til þessa og ég einmitt skrifað um 28. apríl. Ólgan í ESB löndunum skýtur svolítið skökku við þegar hugsað er til þess að ein af áherslum samfylkingar Jóhönnu var "vinna og velferð" með þátttöku í ESB. Málið er einfaldlega það að almenningur í Frakklandi, þar sem ég þekki til, hefur staðið frammi fyrir tveggja stafa atvinnuleysistölum í áraraðir og atvinnuleysi ungs fólks verið gífurlegt. Velferðakerfi ESB landanna eru líka byggð á háu skattastigi, en velferðakerfinu verður sífellt erfiðara að viðhalda vegna ört hækkandi lífaldurs íbúanna og hækkandi hlutfalls eftirlaunaþega. Er svo komið að einstaklingum í Frakklandi hefur verið gert að fara seinna á eftirlaun en margir áætluðu. Veit ég persónulega um einstakling sem þurfti að lengja hjá sér vinnutímann um nokkur ár. ESB er ekki lausn á efnahagsástandinu hérlendis, frekar en það er lausn á efnahagsástandinu innan ESB landanna. Við erum að horfa á efnahagsástand á alheimsvísu, ástand sem ekki verður leyst með skyndilausnum.

Það sem þarf til er breyting á viðhorfi okkar, einstaklinganna sem mynda þjóðfélögin. Ég hef áður skrifað að við Íslendingar höfum ekki gert neitt sem aðrir voru ekki að gera, þetta ástand sé í sjálfu sér ekki okkar verk, beinlínis. Er ég þá að meina að þetta hafi verið óumflýjanlegt ástand? Bæði og, það sem ég vill meina er að við hefðum alltaf staðið fyrir þessu alheimsástandi og því rótin að vandanum ekki beint okkur að kenna, en hins vegar er umfang afleiðinganna vissulega okkur að kenna.

Þegar ég lít yfir síðustu mánuði og ár, þá sé ég fyrir mér ákveðinn fjölda afleiðinga og afleiðingum getur maður aldrei breitt varanlega nema með því að horfa til orsakanna að þeim afleiðingum. Ég tel eina megin orsök þeirra afleiðinga sem við erum að fara í gegnum núna, vera þá að við sem einstaklingar vorum ekki samfélagslega meðvitaðir. Við vorum allt of sjálfhverf í hugsun og við bárum ekki virðingu fyrir því samfélagi sem við byggjum. Samfélagslega meðvitaður einstaklingur gerir sér grein fyrir því að allar gjörðir hans hafa áhrif á samfélagið og þar með hann sjálfan. Með því ætlast til að fá allt fyrir ekki neitt, veikir einstaklingurinn samfélagið og þar með sjálfan sig. Ég hef tekið eftir því að undanfarin ár, í sí auknu mæli, þá hafa einstaklingar hent fram fullyrðingunum ég á rétt á á meðan enginn þeirra virðist viðurkenna fullyrðinguna mér ber skylda til. Réttur einstaklinganna er nefnilega samgróinn skyldum þeirra. Réttindum fylgir ábyrgð.

Vinna og velferð Íslendinga liggur hjá okkur sjálfum. Það er staðföst trú mín að við getum allt sem við ætlum okkur, við verðum bara að framkvæma hlutina á réttan hátt, horfandi til heildarinnar. Sterk heild gefur af sér sterka einstaklinga og sterkir einstaklingar mynda sterka heild. Trúin á okkur sjálf og getu okkar mun leiða okkur áfram, en trúin á ölmusu frá öðrum leiðir okkur ekkert.


mbl.is Spenna í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GRÆNA LOPPAN

Mér þykir það leitt að hryggja þig en ástandið í Frakklandi hefur ekkert með ESB að gera.

GRÆNA LOPPAN, 1.5.2009 kl. 20:30

2 Smámynd: Jón Lárusson

Græna Loppa - Þú hryggir mig ekkert sérstaklega, enda veit ég að ástandið í Frakklandi er ekki til komið vegna þess að þeir eru í ESB. Það sem ég vil koma á framfæri er að ástandið í Frakklandi er ekkert betra þó þeir séu í ESB og því hæpið að það batni hjá okkur við að hefja viðræður um inngöngu. Margir Frakkar vilja samt kenna verunni í ESB um ýmis vandamál, eins og til dæmis franskir sjómenn sem telja ESB vera á góðri leið með að útrýma sjómannastéttinni í landinu. Við erum að horfa uppá alþjóðlegt fyrirbæri sem skellur á öllum löndum, mis harkalega þó. Frakkland mun að öllum líkindum, ásamt öðrum löndum, koma illa út úr þessu. Munurinn, okkur til hagsbóta, er þó sá að við erum lítið og sveigjanlegt hagkerfi, andstætt löndunum innan ESB sem eru hægari í breitingum, vegna stærðarinnar.

Annars er ég líka að benda á að skortur á samfélagslegri hegðun með ofuráherslu á sjálfhverfa hugsun, er að miklu leiti ástæðan fyrir umfangi ástandsins.

Jón Lárusson, 2.5.2009 kl. 08:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband