19.11.2007 | 09:36
7 af 6 og franskur verkfallskúltúr
Var svolítið hissa á að lesa þetta, en ég er enginn stærðfærðingur og vil því ekki dæma þetta of hart. En er samt enn að reyna að reikna þetta á puttunum, ég bara næ ekki hvernig sjö af sex geti staðiðst, nema þá kannski að þeir hafi fengið aðstoð að handan.
Viðræður þokast í rétta átt í Frakklandi en þrátt fyrir það ákváðu sjö af sex verkalýðsfélögum innan lesta-og samgöngugeirans að lengja verkfallið til dagsins í dag
Annars er annað áhugavert í þessari frétt, en það eru mótmæli almennings. Hingað til hafa Frakkar verið mjög samheldnir í baráttum samlanda sinna, en nú er tónninn að breytast. Kannski hefur fjölgun almennra launþega, umfram þá á ríkisjötunni, aukið muninn í fríðindum. Franskir opinberir starfsmenn eru mjög dúðaðir af fríðindum og ekki í neinu samræmi við það sem gerist á almennum markaði. Enda er ekki að undra að í Frakklandi vilji flestir eyða ævinni sem opinberir starfsmenn, í stað þess að leita fyrir sér á almennum markaði.
Hins vegar er núna að koma í ljós að kerfið er að rotna að innan og getur ekki staðið undir þessum gríðalegu skuldbindingum, sem flestar komu til í tíð Mitterrands. De Villepin reyndi að brjóta upp heftandi löggjöf, en uppskar mótmæli ungmenna (sem voru reyndar keyrð áfram af verkalýðshreyfingunni). En þrátt fyrir að þessi mótmæli væru haldin í nafni réttinda og frelsis ungmenna, þá var verkalýðhreyfingin í raun að sinna hagsmunum umbjóðenda sinna. Verkalýðshreyfingin í Frakklandi er rekin sem "action force" eða framkvæmdahópur fyrir vinstrihreyfinguna og er iðulega beitt til að ganga gegn réttkjörnum fulltrúum, ef þeir eru ekki vinstrimenn eða gera það sem vinstrimenn vilja. Verkalýðshreyfingin er í raun helsta vopn vinstrimanna til að berjast gegn lýðræðislegum niðurstöðum kosninga. Félög opinberra starfsmanna eru síðan einn hlekkurinn í þessari hagsmunagæslusveit.
Frakkland er hins vegar í miklum vanda og afsal peningamálastefnunnar til ESB hefur gert þeim mjög erfitt fyrir að vinna að sínum málum. Það þarf að taka til, en sú tiltekt kemur til með að verða mjög óvinsæl meðal vinstrimanna, sem flestir eru á ríkisjötunni og vilja ógjarnan missa spón úr aski sínum. Vandi Frakklands liggur ekki í aðgerðum síðustu 10 ára, heldur stjórn vinstrimanna fyrir 20 - 25 árum.
Til að geta gefið, þarf maður að eiga. Þetta eru Frakkar að átta sig á nú, 20 árum of seint.
Verkfallið framlengt í Frakklandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.