1.6.2007 | 06:36
Er sigur spurning um markmið?
Í dag er 1. júní. Þennan dag árið 1794 háðu Bretar og Frakkar sjóorustu undan vesturströnd Frakklands.
26 ensk herskip komu að frönskum flota 26 herskipa og 130 kaupskipa sem voru að flytja korn frá Bandaríkjunum til Frakklands. Bretarnir höfðu hug á að hefta för skipanna, en franski flotinn hóf að sigla norður með það að markmiði að gefa kaupskipunum færi á að komast á leiðarenda.
Þann 1. júní, eins og fyrr segir, hófst orustan. Með aðeins sjö skipum náðu bresku skipin að hertaka sex frönsk skip og sökkva einu. Frakkarnir töpuðu orustunni sem slíkri, en þeim tókst samt að draga athygli breska flotans frá kaupskipunum, sem komust á leiðarenda. Þannig náði franski flotinn markmiði sínu að draga athyglina frá kaupskipnunum og koma þeim heilum í höfn. Bretinn vann orustuna, en Frakkarnir unnu líka þar sem þeir náðu markmiði sínu.
Þegar ég las þetta, þá komu upp í huga mér kosningar á Íslandi, en þar virðast allir vera að vinna. Kannski er það bara þannig að allir vinna. Fólk, félög og hópar setja sér markmið. Þetta eru mismunandi markmið sem gera það að verkum að flestir geta náð því sem lagt er upp með.
Oft hefur mér fundist íslenskt samfélag byggja of mikið á því að allir vilja vinna, á kostnað annarra. En kannski er mögulegt fyrir okkur öll að vinna. Við eigum að setja okkur markmið sem miðast við vonir okkar, þarfir og þrár. Það er ekki endilega markmið að mylja náungann.
Ef við setjum okkur sjálf markmið, óháð einhverjum óskilgreindum ytri þrýstingi, þá getum við öll unnið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.