29.1.2007 | 22:36
Flóttinn mikli?
Jæja, þá er hún búin að segja sig frá Frjálslyndaflokknum. Það kom manni svo sem ekki á óvart eftir að fjöldainntökur Nýs afls komu til. Skondið samt að hugsa til þess að nú á að "taka á" skráningu nýrra félagsmanna, en þannig verður náttúrulega komið í veg fyrir að Margrét, eða aðrir leiki sama leik fyrir næstu kosningar.
Annars veltir maður því fyrir sér hvort brotthvarf Margrétar verði af þeirri stærðagráðunni að flokkurinn hljóti hnekki af, eða hvort þetta verði annar Héðins Valdimarssonar klofningur. Flokkurinn á uppruna sinn í óánægjuframboði Sverris og var kvótinn tekinn inn sem málefni sem sameinaði flokkinn umfram persónu Sverris. Með þessari niðurstöðu er orðið ljóst að fylgið á bak við Sverri er í minnihluta og þeir sem riðu með í upphafi hafa losað sig við þann reiðmanninn. Margrét er eflaust ekki hætt í stjórnmálum, en hún þarf að finna sér vettvang. Mér hugnast það best hjá henni að finna sér farveg í öðrum flokki, því að stofna nýjan flokk og komast áfram er ekki auðvelt. Sá flokkur þarf líka málefnið til að kjósa um. Ekki stoðir að vera á móti innflytjandastefnu Frjálslyndaflokksins, því val kjósenda er of mikið á þeim vettvangi. Margrét stendur frammi fyrir erfiðu vali, það eitt er ljóst.
En hvað varðar hennar gamla flokk, þá er spurning hvort núverandi forysta hafi hitt á rétta málefnið. Íslendingar eru að upplifa nú það sem Evrópa hefur verið að ganga í gegnum. Munurinn er bara sá að í Evrópu voru löndin mannmörg og það tók langan tíma fyrir erlenda aðila að verða eins áberandi og er í dag. Við erum bara lítið þorp og það sem skollið hefur á okkur er hlutfallslega mun stærra og hraðara en í Evrópu.
Frjálslyndiflokkurinn kemur til með að höfða til sama fylgis og danski þjóðarflokkurinn og franski FN með Le Pen í broddi fylkingar. Sú gífurlega fylgisaukning sem þar hefur komið fram er ekki endilega vegna þess að það er meira um kynþáttahatara eða nýnasista í þessum löndum. Fólk er einfaldlega bara hrætt. Tilvera fólks markast af uppruna þeirra og menningu, þ.e. hjá um 90% manna. Þegar þetta fólk verður fyrir ofurskammti af annarri menningu og straumum sem það á erfitt með að meðtaka, þá verður það hrætt. Breytingar eru alltaf að gerast, en þær þurfa að gerast hægt til að við getum tekið við þeim. Fólk verður að fá að aðlagast þeim.
Ef við lítum til þess fjölda einstaklinga sem hefur komið hingað til lands, þá eru þeir flestir frá vestur og austur Evrópu, lang flestir frá Pólandi. Þetta fólk kemur til með að hverfa inn í þjóðfélagið á einni til tveimur kynslóðum. Menningalegur bakgrunnur okkar er of líkur til þess að svo verði ekki. Þetta gerist bara of hratt og það hræðir fólk, fólk sem mun kjósa Frjálslyndaflokkinn svo hægt verði að bremsa af breytinguna, hægja á henni.
Hins vegar er það kómískt að flokkurinn sem kastar fram útlendingaspilinu skuli heita Frjálslyndi flokkurinn
Margrét telur sér ekki fært að starfa lengur í Frjálslynda flokknum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.