Hvað er lýðræði?

RUV frumvarpið og allt í kringum það á þingi fékk mig til að rifja upp það sem ég hafði lesið fyrir nokkrum árum eftir Hal Koch í bókinni Hvad er demokrati? sem útgefin var árið 1945 og svo endurútgefin 1960 nær óbreytt. Er bókin skrifuð í kjölfar styrjaldar þar sem einræði og skortur á lýðræði höfðu farið mjög illa með Evrópu.

Hugmyndir Hal og stjórnarandstöðunnar á þingi virðast um margt vera svipaðar. En eitt af því sem hann vill styrkja er það sem hann kallar minnihluta lýðræði. Nefnir Hal tvær aðferðir til að skera úr um málefni, átök og samræður, en samræður eru eina lýðræðislega leiðin. Vandamálið með lýðræðið er hins vegar það að hans mati að meirihlutinn getur kúgað minnihlutann. Nefnir hann í því sambandi dæmi um sóknarnefnd einhversstaðar í Danmörku þar sem hún skiptist í 7 og 4, en öll atkvæði í nefndinni falli alltaf á þessa leið. Það sé því ómögulegt fyrir minnihlutann að koma sínu á framfæri. Í nefndinni eru öll mál rædd og allir fá að tjá sig. Síðan eru málin borin undir atkvæði og falla þá alltaf 7/4. Þetta segir hann ekki vera lýðræði þar sem í raun sé atkvæðagreiðslan merki um átök og því ekki lýðræðisleg. Menn noti ekki sverð eða langspjót, heldur eru atkvæðaseðlar vopnin. Lýðræði verði engöngu til við það að menn gangi óbundnir til samræðu og að menn hlusti á rök hinna og taki ákvarðanir í samræmi við það, helst að ræða hlutina þannig að hugmyndir allra komi inn og úr verðið einhver svona íslensk þverpólitísk ákvörðun. Vill Hal meina það að þó að meirihlutinn vilji eitthvað og sé sammála um það, þá þýði það ekki að meirihlutinn hafi rétt fyrir sér. Þessar hugmyndir virðast endurspeglast í hugmyndum, hegðun og orðum Samfylkingarinnar.

Ef við skoðum þetta nánar, þá á minnihlutinn líka að fá að ráða. En við það er farið gegn meirihlutanum og þeim hagsmunum sem hann telur sig standa fyrir. Ég velti því þá líka fyrir mér af hverju á minnihlutinn að ráða. Erum við þá ekki að koma inn í kerfi þar sem sett verður upp fimm manna ákvörðunarnefnd sem telur sig vita allt betur en aðrir og á að koma vitinu fyrir okkur hin. Það að halda því fram að meirihlutinn hafi ekki alltaf rétt fyrir sér skiptir í raun ekki máli. Vilji meirihlutans hlýtur að skipta máli, sama hver sá vilji er í raun. Það er þannig að flest þau mál sem rætt er um eru hvorki rétt eða röng heldur spurning um smekk eða áherslur. Það að halda því fram að áherslur eða smekkur einhvers minnhluta séu réttari eða betri en heildarinnar getur ekki flokkast undir jafnrétti.

Uppákoman á þingi er gott dæmi um það þegar fólk beitir verkfærum lýðræðis í ólýðræðislegum tilgangi. Það að halda þinginu í gíslingu í marga daga hefur ekkert með lýðræði að gera, heldur er hér bara um hreina frekju að ræða, eins og hjá krakka sem ekki fær að kaupa nammi þegar verslað er í matinn. Ef krakkinn öskrar og gargar nóg í nammilandinu, þá eru alltaf líkur á því að foreldrarnir gefi undan og friðþægi krakkann með smá nammi. Þýðir samt ekki að krakkinn hafi haft rétt fyrir sér, eða að hér hafi verið um að ræða lýðræðislega framkvæmd.

Auðvitað verður að virða minnihluta í samfélaginu og ekki ganga á rétt þeirra. En minnihluti á þingi er ekki það sama og minnihluti í samfélaginu. Það sem vantaði í dæmi Hal var að sóknarnefnd er kosin reglulega og því geta sóknarbörn skipt um meirihluta ef þeir vilja og í því felst lýðræðið. Þeir sem eru á þingi eru kosnir fulltrúar heildarinnar sama hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Fulltrúarnir eru kosnir eftir að fólk hefur tekið afstöðu til málefna þeirra og velur þann sem það telur muni gæta hagsmuna sinna best. En sú ákvörðun byggist á því að hagsmunir fari saman. Ef kosnir fulltrúar eru ekki að gera það sem kjósendur vilja, þá kemur það fram í næstu kosningum og þeir verða því ekki kosnir aftur. Ef minnihlutinn á þingi er ekki sáttur við þessar aðferðir þá er hann ekki sáttur við framkvæmd lýðræðis hér á landi. Ef þeir ná ekki meirihluta á þingi, þá er það einfaldlega vegna þess að þeir og þeirra hugmyndir höfða ekki til fólksins.

Það er einfaldlega þannig í okkar lýðræðisþjóðfélagi, að við kjósum okkur fulltrúa og ef við berum ekki traust til fólks, þá er það einfaldlega ekki kosið. Ef menn eru ósáttir við það, þá er það þeirra vandamál en ekki okkar hinna. Hættið því að misbjóða greind okkar með fáránlegri hegðun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband