16.3.2010 | 08:20
Erum ekki í verstu málunum
Þó okkur sé talin trú um að við séum verst stadda þjóð á vesturhveli jarðarinnar, þá er það nú ekki svo. Að skulda 78% af landsframleiðslunni er náttúrulega allt of mikið, en þetta er ekki það versta og í raun ekki svo langt frá því sem gerist hjá öðrum þjóðum.
Ástandið hjá okkur er nefnilega ekki svo slæmt. Það er í gangi ótrúlegur lygavefur sem hefur verið settur fram í þeim tilgangi að fá okkur til að samþykkja eitthvað sem okkur ber ekki að samþykja. Því er haldið fram að við þurfum einhver heljarinnar ósköp af lánum til að lifa af. Þetta gæti ekki verið fjarri lagi.
Við þurfum engin frekari lán. Við erum með gjaldeyrir sem stendur undir þeim "risa" skuldbindingum sem bíða okkar og því ekki ástæða til að taka meiri lán. Við eigum ekki að taka lán til að bjarga erlendum áhættufjárfestum, þeir verða bara að átta sig á því að hvað áhætta er. IMF/AGS hefur gert hér meiri skaða en góðu hófi gegnir og því eigum við að senda þá heim, en hingað til hafa þeir gætt hagsmunna allra annarra en okkar almennings.
Það er einhver mesta lygin í þessu öllu, að við þurfum að taka öll þessi lán til að byggja upp gjaldeyrisvaraforða. Forði er eign sem maður á til hörðu áranna. Að taka lán til að byggja hann upp er eins vitlaust og hægt er að hugsa sér. Við ættum að vera búin að sjá það nú, eftir lánabullið sem gekk hér yfir síðustu misseri, að lán skapar ALDREI eign.
Við eigum að byggja upp gjaldeyrisforða með því að selja meira en við kaupum erlendis frá. Við erum búin að vera að gera þetta síðan gengið féll og við eigum bara að halda því áfram.
Við verðum að venja okkur við samfélagslega hugsun, þ.e. að við verðum aldrei sterkari en samfélagið. Það er því nauðsynlegt að leggja til hliðar sérhagsmuni og frekju svo samfélagið geti styrkst.
Við höfum það mjög gott. Vandræði okkar liggja ekki í óyfirstíganlegum þáttum, þau eru öll tengd peningum og peningamálum er hægt að bjarga.
Hættum að hlusta á barlóminn og aumingjaskapinn. Við getum losað okkur út úr þessu ástandi á mjög skömmum tíma. Það er ekki allt búið, þetta er í raun allt að byrja núna.
Lofa að aðstoða Grikki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mér sýnast sem upplýsingar sem vitnað er til skilgreini erlendarskuldir ríkisins mjög þröngt og nái upplýsingarnar ekki til; skulda fyrirtækja hins opinbera sem ríkið bera á og heldur ekki erlendra skulda Seðlabankans. Auk þess eru ótaldar skuldir sveitarfélaga og fyrirtækja sem eru í eigu sveitarfélaganna.
Sigurjón Þórðarson, 16.3.2010 kl. 09:29
Fyrsta innlit mitt á síðuna þína. Vil lýsa yfir mikilli ánægju með nálgun þína í flestum pistlanna sem ég hef þegar komist yfir. Ánægjulegt að sjá slík viðhorf/skoðanir.
Átt þakkir skyldar. Takk
Guðmundur Karl Snæbjörnsson, 16.3.2010 kl. 10:02
Auðvitað er þetta alltaf spurning um forsendur tölunnar Sigurjón, en það er nú "kosturinn" við tölfræðina, þú notar hana bara til að fá þá niðurstöðu sem þér hugnast. Hins vegar gerir maður ráð fyrir því að í samanburði, eins og í þessari frétt, þá séu sömu forsendur notaðar hjá öllum. Þannig að ástandið væri enn verra hjá hinum ríkjunum líka.
Jón Lárusson, 16.3.2010 kl. 10:29
Þakka kveðjuna Guðmundur, vonandi líkar þér líka það sem þú átt eftir að lesa .
Annars er það nú þannig að ég er búinn að vera að kalla eftir breyttu viðhorfi til þeirra verkefna sem við stöndum frammi fyrir, þar sem núverandi framkvæmd mun ekki skila okkur neinum raunverulegum lausnum. Það sem við þurfum að gera er að skoða verkefnin hlutlægt, skoða þau út frá skynseminni og láta ekki hræðslu eða hótanir annarra villa okkur sýn. Við eigum að taka okkur tíma í að leysa þessi mál, en stökkva ekki á einhverjar skyndilausnir, sem eru í raun ekki lausnir.
Að mínu mati er hægt að fara út í breytingar, sem geta breytt miklu varðandi niðurstöðuna, en í framkvæmd eru þær samt mjög einfaldar. Við höfum byggt okkar samfélag þannig upp að við getum gert mjög róttækar breytingar án þess að vinna mikið fyrir þeim. Nokkuð sem aðrar þjóðir búa ekki við. Það væri því ábyrgðarlaus hegðun af okkar hálfu að nýta ekki tækifærið.
Jón Lárusson, 16.3.2010 kl. 10:35
Við Íslendingar höfum tilhneigingu til þess að þykja annað hvort allt bezt hér á Fróni eða allt verst.
Hjörtur J. Guðmundsson, 16.3.2010 kl. 13:07
Meðalhófið hefur reyndar verið okkur svolítið erfitt viðureignar, enda það kannski ástæðan fyrir því að við fengum þennan skell eins og var. Hins vegar hefur þrjóskan í okkur haldið okkur lifandi hérna og því spurning hvort við ættum ekki að nýta þrjóskuna um leið og við keyrum meira í átt til meðalhófsins.
Jón Lárusson, 16.3.2010 kl. 13:13
Mikið til í þessu.
Verðtryggingin sem er hálfgerð eignaupptaka á húsnæði fólks, hefur hækkað húsnæðislánin um milljónir á 1 og hálfu ári. Tala nú ekki um lánin í erlendri mynt.
Einnig hvað hrun gengisins hefur haft hörmuleg áhrif á verðlagið hér á landi. Sem er erfitt að sætta sig við, nú þegar hefur komið fram að bankar og fjármálafyrirtæki hér á landi tóku ítrekað stöðu gegn krónunni.
En það er án efa rétt hjá þér, það eru önnur lönd sem eru verra stödd en við íslendingar.
kv.
ThoR-E, 16.3.2010 kl. 17:01
Verðtrygging er bara annað orð yfir breytilega vexti. Síðan er búin til formúla sem uppfærð er daglega til þess að hægt sé að afsaka óeðlilega hátt vaxtastig og í raun eignarupptöku, sé viljinn til þess. Hvernig verðtryggingin hefur síðan verið notuð til að bæta eignarstöðu bankanna er náttúrulega bara bilun.
Jón Lárusson, 17.3.2010 kl. 09:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.