15.1.2007 | 10:43
Vonbrigði með viðtal
Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir smá vonbrigðum með viðtalið við hana Ingibjörgu í Mogganum á sunnudaginn. Ég hafði gert mér vonir um einhverjar krassandi tilkynningar eða málefnalegar sprengjur. Eftir að ég var búin að lesa viðtalið, þá var ég bara búinn að lesa viðtalið. Það sat einhvern vegin ekkert eftir.
Ef eitthvað var, þá var það að Samfylkingin virðist ætla að fara í ríkistjórn með þeim sem tekur við henni. Fyrir áramót var ýmislegt sem benti til þess að stjórnarandstaðan ætlaði að mynda lauslegt bandalag til stjórnarmyndunar. Í Kryddsíldinni hrikti hins vegar í þessu bandalagi og nú er svo komið að Samfylkingin er farin að opna á möguleikann á tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Í Kryddsíldinni skarst í odda með VG og Samfylkingunni út af leiðtogasætinu, Ingibjörg telur að eðlilegt sé að stærri flokkurinn í samstarfinu fá forsætisráðherrann. Ég velti því fyrir mér hvort hún sé tilbúin að ganga að því í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Ég hef það einhvern vegin á tilfinningunni að Ingibjörg eigi erfitt með að vera eitthvað annað en númer eitt.
Svo er það annað sem ég held að komi til með að draga úr líkunum á því að Ingibjörg verði vinsæl til samstarfs, en það er sú árátta hennar að hrauna yfir allt og alla. Það að taka þingflokkinn sinn fyrir og kenna honum um slæma stöðu flokksins, er náttúrulega bara dæmi um lélega diplomatik, eða hreinlega skort á henni. Þetta virðist sama viðhorfið og er í gangi hjá henni í tengslum við krónuna. Það væri athugandi að skoða hvenær fylgi flokksins fór að dala, samkvæmt skoðanakönnunum. Ef ég man rétt, þá jókst fylgi flokksins jafnt og þétt þar til í kringum síðasta landsfund flokksins. Spurning hvað gerðist þar.
Hvað er svo með stefnu Samfylkingarinnar. Það virðist sem sú stefna byggist á niðurstöðum kannanna, nema þá helst í Evrópuumræðunni. En þar virðist sem stefnan hafi verið sett á Evrópuaðild, þrátt fyrir að það sé ekkert sem segi að almenningur sé tilbúin í þá ferð. Ég sé heldur ekki að Samfylkingin sé eitthvað sérstaklega vinstri sinnuð heldur, að því leitinu til að hún hefur reynt að höfða mikið til stórfyrirtækja í útrás, eins og Evróputalið bendir til.
Það eina sem mér fannst ég geta lesið út úr þessu viðtali var að kosningabaráttan kemur til með að verða mjög áhugaverð. Hvort sem hún verður á persónulegum nótum eða hugmyndafræðilegum, sem ég tel reyndar minni líkur á.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.