Færsluflokkur: Efnahagsmál

Það sem kannski skiptir mestu máli.

Það var bara tímaspursmál hvenær Hr. Hlið félli úr efsta sætinu, enda byggði auður hans nánast á eignum í einu fyrirtæki. Það sem ég tel hins vegar skipta meira máli og gæti verið ákveðinn fyrirboði, er að ríkasti maður heims er ekki Bandaríkjamaður, heldur frá miðamerísku ríki.

Maður veltir því fyrir sér hvort nú sé von á fleiri einstaklingum í hóp hinna ríkustu, sem koma frá "minna fínum" ríkjum. Þrátt fyrir áróður sumra, þá er auður heimsins að skiptast niður á fleiri aðila og fjölbreyttari þjóðerni. Ég yrði ekki hissa á að á næstu fimm til 10 árum verði meirihluti 20 efnuðustu einstaklinganna utan Bandaríkjanna.

Heimurinn er að taka breytingum, nokkuð sem mun koma okkur öllum til góða.


mbl.is Bill Gates er ekki lengur ríkasti maður heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EU og lýðræðið.

Var að lesa þessa færslu hjá Heimssýn hér á blogginu. Þar er vitnað í þessa grein hjá EUobserver. Lestur hennar er mjög áhugaverður fyrir þá sem eru að velta fyrir sér möguleikanum á að ganga í sambandið. Viðhorf Angela Merkel er mjög gott að fá fram, en hún er augljóslega á móti lýðræði í sambandinu. Þar kemur fram að hún vilji strax fá stjórnarskrána samþykkta eftir að sambandið sjálft er búið að gera þær breytingar sem það telur að þurfi, en varðandi almenna umræðu um málið er haft eftir henni:

"Broad general debate [on the constitution] is behind us," she said, adding that she is personally not in favour of further referendums on the treaty.

Það er semsagt hennar vilji að kýla þetta í gegn án þess að íbúar sambandsins fái nokkuð um það ráðið. Hér er vert að hugsa til þess að á meðan stjórnarskráin var felld í Frakklandi og Hollandi, þar sem vitað var um andstöðu. Þá var hún samþykkt í Þýskalandi, en almenn umræða þar var ekki síður andsnúin stjórnarskránni, nema síður væri. Þar var hins vegar dreginn sá lærdómur af kosningunum í Frakklandi, að best sé að hafa engar kosningar og láta þingið bara um þetta.

Ef þú telur að þú hafi lítil áhrif á það sem er að gerast á Alþingi, hvernig heldur þú að þér muni líða í sambandinu.


Að skipta út lax fyrir ál.

Þegar ég var yngri og hlustaði á Óskalög sjúklinga og þess háttar þætti, þá hljómaði oft í eyrum lagið "Lax, lax, lax og aftur lax". Mér finnst nú stundum eins og við gætum hæglega tekið laxinn og skipt honum út fyrir ál (málminn, ekki fiskinn. Þannig að þetta sé á hreinu).

Ég er fylgjandi því að fjölga eggjunum í körfunni og horfi þá til efnahagssveiflanna sem urðu þegar fiskur var undirstaðan að öllu hér á landi. En ég sé ekki rökin fyrir því að skipta út einu vandamáli fyrir annað. Hvernig verða sveiflurnar hjá okkur, ef við erum orðin ál þjóð og allur efnahagurinn háður því. Ef við höldum þessari álvæðingu áfram, þá mun þetta verða reyndin.

Verð á áli hefur verið að hækka síðan um 1999 og hefur stigið hægt og bítandi þar til fyrir nokkrum árum að það rauk upp. Að tala um að þetta sé komið til að vera, er náttúrulega barnaskapur og verðfall mun koma. Reyndar er ýmislegt sem bendir til þess að það sé kominn toppur á verðið.

Ef verð á áli er skoðað, þá kemur í ljós að verðið hefur hækkað jafnt og þétt fram á árið 2006 að það náði topp og féll snarlega á eftir. Þegar svona gerist, er talað um viðnám. Ef verð á áli heldur áfram upp og nær að fara uppf yrir verðið sem toppað var í, þá má búast við að verð á áli haldi áfram að hækka. En nái verðið ekki upp fyrir það og fellur aftur, má gera ráð fyrir að toppnum sé náð og frekari hækkanir verði ekki næstu árin.

price_charts_AL98-07

En hverjar eru líkurnar á því að verðhækkunin í áli sé komin og búast megi við lægra, eða í öllu falli stöðugra verði næstu ár. Hér kemur til framboð og eftirspurn og í frétt hjá Reuters sl. mánudag, er fjallað um stöðu málma og komið inn á verðfallið sem hefur orðið frá því að toppnum var náð fyrir nokkrum mánuðum. þar segir um álið:

"The world is now awash with alumina, there is absolutely no shortage of the raw material to make aluminium," said Stephen Briggs, analyst at SGCIB. "I don't believe there is a shortage of smelters to produce the metal either."  

Þetta er mjög áhugaverð fullyrðing fyrir okkur sem erum að reisa hér fjöldann allan af álbræðslum (smelters), sem nóg virðist vera af. 

Hafi menn áhuga á að fylgjast með verði á málmum, þá er það hægt hér.

 

 


Rafsal

Er ekki kominn tími til að Landsvirkjun skipti um nafn og fari að kalla sig Rafsal. Ég hef á tilfinningunni að Landsvirkjun sé að misskilja nafnið sitt eins og einstaklingarnir með aðalféhirðis titilinn misskildu það nafn og hirtu allt fé.

Landsvirkjun virðist leggja mestan þunga í það að virkja í stað þess að selja afurðir þeirra virkjana sem þegar eru til staðar. Eða hvað á maður að halda þegar Brasilíumönnum er hótað með lokun álvera vegna þess að það sé svo ódýrt rafmagnið á Íslandi. Hugmyndafræði Landsvirkjunar virðist vera sú að lokka eins mikið af erlendum stóriðjum, álverum, svo þeir geti bent á þörfina fyrir að fara út í fleiri virkjanir. Væri ekki nær að nota það sem til er og fara að selja rafmagnið á sambærilegu verði og landsmenn þurfa að greiða.

En gæti legið eitthvað annað hér að baki en misskilningur á nafnagift. Gæti ástæða virkjunaræðis Landsvirkjunar verið sú að nú er frelsi til raforkusölu hluti af EES samningnum og því hugsanlegt að aðrir en Landsvirkjun, t.d. þýskir, franskir eða portúgalskir aðilar komi til. Er hugsanlegt að Landsvirkjun vilji drífa í því að virkja hverja einustu sprænu til þess að koma í veg fyrir að aðrir geri það?

Sé þetta pælingin þá ætti að benda Landsvirkjun á þá umræðu sem átti sér stað í upphafi EES, að hingað myndu streyma erlendir bankar með lækkuðum vöxtum og gleði. Reyndin var sú að hingað kom enginn banki og vextirnir eru engin gleði. Markaðurinn hér er bara svo lítill að það hefur ekki neitt uppá sig fyrir erlend fyrirtæki að fara út í stórar fjárfestingar hér, ekki frekar en í Eastbourne eða Randers.

Landsvirkjun á hins vegar að líta til íslensku bankanna og fara í útrás. Nýta sér EES á þann háttinn. Ég tel að þeirra bíði ekki síðri tækifæri til vaxtar þar en hér.


Farþegi eða ökumaður?

Gaman að heyra menn tala vel um krónuna (nefni með nafni enda bera lofa það sem er gott). Í fréttinni er krónan nefnd sem hagstjórnartæki og er það með réttu. Evran væri líka hagstjórnartæki. En ef það tæki væri innleitt hér á landi, þá yrðum við aldrei neitt annað en farþegar. Krónan gefur okkur tækifæri til þess að vera ökumenn. Ég held að við séum öll sammála um það að þegar haldið er í ferð, að þá sé skemmtilegra að hafa eitthvað um það að segja hvert skal haldið.

Það að þetta komi frá stjórnanda í stæðsta banka á Íslandi, vekur líka hjá manni von um að nú fari að ljúka þessu gengisfellandi bulli sem loðað hefur við suma. Það er ekki óeðlilegt að þessi sami banki hafi tekið upp erlenda mynt í sínu bókhaldi, enda á hann mest viðskipti í erlendum myntum. Ef Kaupþing myndi loka allri starfsemi hér á landi, þá efast ég um að það hefði eitthvað að segja um reksturinn í heild. En fyrir þjóðarbúið, þá held ég að hentugara sé fyrir okkur að hafa hagstjórnartæki sem við höfum sjálf einhverja stjórn á.

Sú umræða hefur vaknað í Frakklandi, að upptaka Evrunnar hafi verið mistök. Jafnvel rætt að leita þurfi leiða til að taka Frankann upp aftur. Frakkland hefur átt við að stríða mikið atvinnuleysi og vill reyna að auka hagvöxt. Einnig er vilji til að laga til í skattkerfinu hjá þeim, eins og til dæmis að hafa sama VSK á mat, sama hvort hann er borðaður á staðnum eða tekinn heim. Þeim hefur verið bannað að breyta sköttum og þær leiðir sem þeim er leyfilegt að nota til að draga úr atvinnuleysi eru mjög takmarkaðar frá Brussel. Evrópa á við að etja allt önnur vandamál en við hér á Íslandi og þurfa þeir að beita allt öðrum aðferðum en við. Verandi hluti af Evrusvæði, þá værum við neydd til að fara í þá ferð sem hinir hafa ákveðið bæði með tilliti til ökuhraða og áfangastaðar.

PS. Ég vil þakka Kaupþingi fyrir að gleðja mitt súrealíska hjarta með því að birta auglýsingar með John Cleese. ... En hvað er ég að blogga um þetta, af hverju ekki bara hringja þetta út.


mbl.is Forstjóri Kaupþings: Horfur í hagkerfinu góðar og full ástæða til bjartsýni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband