2.10.2009 | 22:52
Horfum til þess sem skiptir máli
Ég hef verið þeirra skoðunar að við eigum ekki að borga, alla vega ekki fyrr en það er komið á hreint hvað við yfir höfuð eigum að borga. Eitt af því sem hefur talið mér trú um að við ættum ekki að borga, var krafa Breta og Hollendinga um að við færum ekki með málið fyrir dómstóla. Þegar þeir svo höfnuðu fyrirvörum sem gáfu okkur möguleika á að fara með málið fyrir dóm, þá fullvissaðist ég um að okkur bæri ekki að borga þetta eins og Bretar og Hollendingar gera kröfu til. Svo getum við heldur ekki litið framhjá bresku neyðarlögunum, en með því að við höfnum öllum skaðabótum vegna þeirra, þá erum við að skjóta okkur algerlega í fótinn. Bretar beittu þessum lögum á okkur og ollu þjóðfélaginu slíku tjóni að allt tjón þeirra vegna Icesave er smámál. Að við getum ekki sótt rétt okkar vegna þess er náttúrulega slíkt sjálfsákvörðunarafsal að slíkt á aldrei að verða til umræðu. Svo veltir maður fyrir sér, þegar menn vilja meina okkur um dómsleiðina, er þá ekki líklegra að þeir séu að fela eitthvað, heldur en við.
Feluleikurinn er svo líka eitt í þessari ríkisstjórn, en ekkert má vera uppi á borðinu. Það er alveg sama hvað það er, allt þarfnast slíkrar leyndar að landráð virðast liggja við. Hvar er gegnsæið sem alltaf var talað um. Steingrímur Joð getur ekki hætt að tönglast á hinum og þessum ógnum sem okkur bíða, en ekkert má segja. Þetta vekur ekki traust, heldur vantraust.
Þá er komið að fjárlagafrumvarpinu. Þar eru gert ráð fyrir miklum tekjum af aukinni skattheimtu, en þegar spurt er um skattaprósentur og hvað þetta þýði fyrir hinn almenna borgara, þá er einfaldlega svarað þannig að þetta komi fram í nánari útfærslu skattanna í lok október, það er svo mikið að gera hjá okkur!!! Fjárlagafrumvarpið er afleiðing, það er afleiðing þess að menn hafa sest niður og skoðað fjárþörf og ekki síst tekjuliði. Það eru fengnar tölur sem settar eru í fjárlagafrumvarpið og það á að samþykkja. Tölurnar í fjárlagafrumvarpinu eru fengnar af gefnum forsendum, en þessar forsendur verða að vera gefnar ÁÐUR en niðurstöðurnar birtast. Ef Steingrímur Joð segir að það sé ekki búið að ganga frá undirliggjandi forsendum, þá er hann annað hvort að ljúga að fólki, eða þá að fjárlagafrumvarpið byggir á getgátum sem eiga í raun engar forsendur fyrir sér. Ég vona að hann sé að ljúga, annars erum við í virkilega vondum málum.
Svo er náttúrulega spurningin hvort ekki sé verið að halda þessu leyndu vegna þess að keyra á þetta í gegn án þess að þingheimur geti gert sér grein fyrir því hvað er verið að samþykkja, svona eins og með Icesave og ESB aðildarumsóknina. Svo þegar smáatriðin koma til umræðu í lok október, þá verður bara hent í þingheim pakka og sagt að það verði að samþykkja þetta, því annars muni fjárlögin ekki standa og þar sem það séu lög, þá er allt annað lögbrot. Lengi lifi sýnileikinn.
Nú held ég að mál sé að linni. Það er ekki þörf á þessum gífurlegu þrælsbindingum, það er einfalt að laga þetta. Til þess þarf hins vegar hugrekki, dug og þor. Hugrekki til þess að viðurkenn ástandið eins og það er og að "vinir" okkar eru það bara ekki, dug til að reka burt landstjórann og hrægammana taka að sér verkið og ekki síst þor til að skipta út hinu gjaldþrota fjármálakerfi, breita kerfinu til hagsbóta fyrir almenning og standa við það sem er samfélaginu fyrir bestu, en hafna um leið öllum sérhagsmunum og hótunum. Það er kominn tími til að horfa til þess sem mestu skiptir, almennings.
![]() |
Segir Breta og Hollendinga fjárkúga Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvers vegna erum við ekki að boða til mótmæla?
hvers vegna erum við ekki fyrir framan alþingi eins og síðasta vetur með látum og krefjumst þess að allt sé uppi á borði ?
Ætlum við að láta sveitakarl eins og steingrím henda okkur aftur til 19 aldar?
A.L.F, 3.10.2009 kl. 01:11
Forsendur eru getgátur.
Snorri Hrafn Guðmundsson, 3.10.2009 kl. 08:36
Góður pistill.
Sigurður Þórðarson, 3.10.2009 kl. 11:13
Ég held að fólk verði að átta sig á því að í fyrra var það haft að fífli. Það voru pólitískar maskínur VG og Samfylkingarinnar sem leiddu þessa "byltingu" í anda þeirra rúmensku í lok níunda áratugarins. Það vantar að leiða fólkið saman og það þarf skipulag til þess að ná utan um þetta og síðast en ekki síst, þá þarf fólk að sjá valkostinn. Það þarf að sjá að það skipti einhverju máli að rísa upp. Það þarf að vita fyrir hverju á að berjast.
Fólk á að rísa upp og berjast fyrir því að við taki einstaklingar sem ekki eru háðir núverandi valdakerfi. Einstaklingar sem hafa lausnir sem byggja ekki á því að viðhalda núverandi kerfi. Það þarf að gefa fólkinu von um betri tíð. Þetta, A.L.F er það sem þarf.
Snorri, ég tel reyndar að getgátur séu byggðar á forsendum, spurningin er bara hversu góðar forsendurnar eru. Hins vegar er Steingrímur Joð að segja okkur að það séu ekki einu sinni forsendur fyrir fjárlagafrumvarpinu, hann segir alla vega að þær verði ekki þekktar fyrr en í lok október. Ef eitthvað fær mann til að óttast, þá eru það svona vinnubrögð. Þess vegna segi ég það, vonandi er hann bara að ljúga að okkur eins og venjulega. Svo væri kannski ráð að gefa honum orðabók þannig að hann geti flett upp orðinu gegnsæi.
Þakka þér fyrir Sigurður, ég tel mig búa yfir lausnum sem munu leiða okkur til farsældar og lít á það sem skyldu mína að koma þeim á framfæri við almenning. Svo er bara að sjá hvort maður nái ekki eyrum þeirra.
Jón Lárusson, 3.10.2009 kl. 12:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.