16.8.2009 | 07:02
Hugrekki, dug og þor
Á ögurstundu birtist hið sanna eðli einstaklinganna, eru þeir tilbúnir til að sýna hugrekki, dug og þor, eða eru þeir lufsur sem láta undan álaginu og fórna heildinni með því fororði að þeir hafi staðið frammi fyrir hlutum sem voru öðrum að kenna og þeir hafi ekki getað annað en fórnað samfélaginu.
Við stöndum frammi fyrir því að þjóðfélagið er sagt skuldugt upp fyrir haus, án þess að nokkur verðmætasköpun virðist hafa komið á móti þessari skuldasöfnun og þrátt fyrir að ríkissjóður hafi verið nánast skuldlaus fyrir rétt rúmlega ári síðan. Stærsti hluti þessarar skuldsetningar virðist tilkominn vegna kröfu IMF um að við byggjum hér upp gjaldeyrisvaraforða til að styrkja gjaldmiðil okkar, krónuna. Einnig hafa hér komið fram kröfur Breta og Hollendinga um að við ábyrgjumst eitthvað sem álitamál er að við þurfum yfir höfuð að ábyrgjast.
Brjáluð peningastefna
Okkur er sagt að nauðsynlegt sé að byggja hér upp sterkt bankakerfi svo bankarnir geti byrjað að koma einstaklingum og fyrirtækjum til aðstoðar, smyrja hjól efnahagskerfisins. Í þessum tilgangi er milljörðum dælt í bankakerfið, milljörðum sem til að byrja með hafa farið í að fylla upp í skuldagryfjur óábyrgra stjórnenda. Hluti styrkingar bankanna hefur svo verið framkvæmd með óábyrgum skattlagningum og vörugjöldum sem hafa ekki bætt neitt í ríkisjóð, en hafa hins vegar leitt til hækkunar lánskjaravísitölunnar og þar með bætt eignarstöðu bankanna með hækkandi lánum og um leið aukinni greiðslubyrði einstaklinga.
Skoðum aðeins þessa stefnu. Því er haldið fram að styrkja þurfi bankana svo þeir geti stutt við einstaklinga og fyrirtæki. En hefur fólk velt því fyrir sér hvernig bankar geti staðið undir þessum væntingum, hvernig þeir yfir höfuð styrkja nokkurn hlut. Það eina sem bankarnir geta gert er að lána pening. Það er að segja, þeir lána þegar skuldsettum einstaklingum og fyrirtækjum meiri pening. Hvernig getur þetta verið lausn á vandamáli sem hefur rót sína í skuldsetningu. Hvernig er hægt að lækna skuldsetningu með aukinni skuldsetningu. Er þetta ekki svona svipað og að lækna þynnku með því að fá sér snafs? Sú fullyrðing að dæla þurfi peningum í bankana svo þeir geti búið til meiri pening og lánað okkur hann með vöxtum, er í eðli sínu byggða á heimsku. Það mun ALDREI vera lausn á ofskuldsetningu, að auka skuldirnar. Það er því eðlilegra að ríkið noti fjármagnið til að lagfæra skuldastöðu einstaklinga, því sterkur einstaklingur er grunnur að sterku samfélagi. Við þurfum ekki þrjá sterka banka. Einn miðlungsbanki er nóg.
En hvaðan kemur þessi snilldar hugmynd. Jú hún kemur úr smiðju alþjóðlegra peningamanna sem krafist hafa þessa af okkur í formi aðstoðar frá IMF. Þessi alþjóðastofnun er að auka vandann með þessum kröfum, ekki vinna gegn honum. Talandi um IMF, þá er vert að benda á hinn þáttinn í hugmyndafræði heimskunnar, uppbygging gjaldeyrisvaraforða með skuldsetningu.
Einfallt reiknidæmi. Til að auka tiltrú á gjaldmiðli, er gerð krafa til þess að á bak við hann sé eitthvað verðmæti, eign eða framleiðsla. Einhverra hluta vegna er landsframleiðsla Íslands ekki talin túskildings virði og því þarf að byggja verðmæti krónunnar á öðrum gjaldmiðli, gjaldeyrisvaraforða. Það á sem sagt að byggja upp eign í gjaldeyri. Það er hins vegar bara til ein leið að byggja upp eign í gjaldeyri og hún byggir ekki á ráðleggingum IMF. Skoðum betur hugmyndafræðina, eign með skuldsetningu. Ef við tökum lán upp á 100.000.000.000 og kaupum fyrir það gjaldeyri fyrir sömu upphæð, þá er bókhaldið okkar þannig. Gjaldeyrir 100.000.000.000 skuld 100.000.000.000 og eignin því 0. Það skiptir ekki máli hvort gjaldeyrisvaraforðinn er byggður upp með 100 krónu skuld eða 100 trilljón króna skuld, það myndast engin eign við þetta og því allt tal um að styrkja krónuna innantómt hjal. Þegar til þess er svo litið að vaxtakostnaðurinn við lántökuna, er hærri en vaxtatekjurnar vegna geymslunnar á varaforðanum þá verður þessi hugmyndafræði enn heimskari. Því þá er ekki um núll niðurstöðu í bókhaldinu, heldur verður neikvæð staða með hverjum deginum sem líður. Einfallt dæmi er þannig. 100 er lagt inn á reikning með 5% vöxtum og gefur það tekjur upp á 5, en skuld með 10% vöxtum kostar 10, þannig að á meðan tekjurnar eru 5 og kostnaðurinn er 10, þá myndast neikvæður munur uppá 5. Þannig getur ALDREI skapast eign með skuldsettum varaforða og því ALDREI myndast eign til stuðning gjaldmiðils. Sú hugmyndafræði að skuldsett gjaldeyriskaup styrki gjaldmiðil er því byggð á heimsku í besta falli.
Það má því reikna með að ráðleggingar IMF til ríkistjórnarinnar muni kosta þjóðfélagið gífurlegar upphæðir, án þess að séð verði að það hjálpi nokkru með styrkingu efnahagslífsins. Það væri því þjóðfélaginu til verulegra hagsbóta, ef IMF yrði þakkað fyrir ekki neitt og þeim vinsamlegast bent á að halda heim.
Gífurleg skuldsetning samfélagsins, eins og krafa er um nú, bæði með ráðleggingum IMF og vegna kröfu Breta og Hollendinga mun skerða verulega möguleika samfélagsins til að byggja upp lífvænlegt umhverfi í framtíðinni.
Vinnum á rót vandans
Allt sem við horfum til í dag eru afleiðingar og við leysum ekkert með því að horfa til afleiðinga. Að kenna einstaklingum um, ráðamönnum eða útrásarvíkingum er afskipti af afleiðingum. Að kenna vanhæfu eftirlitskerfi er afskipti af afleiðngum. Að álasa götóttum lagasetningum er afskipti af afleiðingum. Lausnin liggur ekki í því að hræra í afleiðingum. Lausnin liggur í því að horfa til rótar vandans. Rót vandans liggur í því fjármálakerfi sem við búum við í dag, þessu kerfi sem miðast við bindiskildu banka og gerir í raun ráð fyrir að bankar sjái um að fjármagna hagsæld hagkerfisins með skuldsetningu einstaklinga og fyrirtækja. Núverandi kerfi er þannig uppbyggt að bankar búa til peninga úr engu og lána þá einstaklingum og fyrirtækjum gegn greiðslu vaxta. Þetta leiðir til þess að bankar koma alltaf til með að heimta til baka mun meiri fjármagn í endurgreiðslu, en til staðar eru í þjóðfélaginu. Það er nefnilega þannig að þegar búin er til 1.000.000 og þess krafist að hún sé greidd til baka með 6% vöxtum, þá ætlast bankakerfið til þess að fá 60.000 krónur umfram það fjármagn sem búið var til. Þannig er algerlega ÓMÖGULEGT fyrir einstaklinga og ríki að greiða alla fjárhæðina til baka. En bankarnir, í góðsemd sinni, hafa lausn á þessu. Þeir lána bara fyrir vöxtunum. Þó allir tækju allt fjármagn í landinu og vildu með því greiða upp allar skuldir, þá væri það einfaldlega ekki hægt. Kerfið býður ekki upp á það. Kerfið leitar til skuldsetningar, ekki eignar.
Lausnin og sú eina sem leitt getur okkur úr þessum vanda, byggir á því að umturna alveg fjármálumhverfinu. Þetta er gífurleg breyting, en að sama skapi einföld í framkvæmd. Í stað þess að láta bankana um að skaffa það fjármagn sem hagkerfið þarfnast, í formi skulda, þá á ríkið að skaffa fjármagnið í formi eignar.
Peningar eru í eðli sínu verðlausir, þeirra eini tilgangur er að auðvelda skipti á þeim verðmætum sem samfélagið býr til. Það er því nauðsynlegt að samsvörun sé milli fjármagns í umferð og verðmæta samfélagsins. Ef of mikið er af fjármagni, þá myndast þennsla og verðbólga en sé skortur á fjármagni, þá verður samdráttur og kreppa í samfélaginu. Það er skýlaus krafa samfélagsins að fjármagnið sem þörf er á til að samfélagið fái notið þeirra verðmæta sem það skapar, sé sett í umferð af ríkinu í formi eignar, en ekki af bönkum í formi skuldar. Þetta er krafa sem gengur á skjön við ráðleggingar IMF, enda ekki þeim til hagsbóta að hér skapist samfélag eignar.
Hvað á að gera
Ríkið á STRAX að færa lánskjaravísitöluna aftur til þess sem hún var í febrúar, mars 2008. Við það lettir verulega á greiðslubyrði heimilanna. Hagnaður bankanna vegna þessa verðbólguskots sem varð, er engöngu bókhaldslegur, engin raunveruleg tilfærsla fjármuna átti sér stað og því munu bankarnir EKKI verða fyrir nokkru eignatjóni. Þessi eignaaukning varð til úr engu og því mun ekkert tapast við það að fella hana niður.
Ríkið á strax að gera úttekt á þeim verðmætum sem til staðar eru í samfélaginu og því fjármagni sem er í umferð. Það fjármagn sem vantar uppá til að jafnvægi sé þarna á milli skal skiptast þannig að helmingur fer til ríkisjóðs til að fjármagna samneysluna, en hinum helmingnum skal skipt jafnt á milli allra þegna samfélagsins. Ríkið á að gera það sem bankarnir hafa gert hingað til, nema nú verður það gert til eignar, en ekki skuldar.
Ríkið á endurgreiða öll erlend lán sem tekin voru til að byggja upp gjaldeyrisvaraforða og sjá til þess að gjaldeyrisvaraforði verði byggður upp á hinn eina rétta hátt, með útflutningi meiri verðmæta en flutt eru inn til landsins.
Eins og áður kom fram, þá á ríkið að þakka IMF pent fyrir ekki neitt og óska þess að þeir yfirgefi landið strax. Við þurfum ekki vini sem setja snöru um háls okkar og bíða við gálgaopið.
Við þurfum að koma á nýju kerfi, kerfi sem leiðir til eignar en ekki skuldar. Við þurfum að koma á nýju kerfi sem gætir hagsmuna einstaklinganna, kerfi sem byggir upp, en brýtur ekki niður. Þetta eru ekki flóknar breytingar, en þær krefjast hugrekkis, dug og þors.
Ég kalla til alla Íslendinga, stöndum upp og sýnum hugrekki, dug og þor. Tími aumingjaskaparins er liðinn.
Telegraph: Ekkert venjulegt hrun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ánægjulegur lestur með góðri, afhjúpandi greiningu og góðum tillögum, sem mér lízt margfalt betur á en núverandi efnahagsstefnum með AGS í broddi gæfulausrar (sam)fylkingar.
Tek undir með höfundi: "Hvernig er hægt að lækna skuldsetningu með aukinni skuldsetningu. Er þetta ekki svona svipað og að lækna þynnku með því að fá sér snafs?" Vel mælt!
Ég taldi mig sjá hérna einn smá-galla í rökleiðslunni (nema ég hafi misskilið eitthvað), þetta: – Búa bankar til peninga úr engu? Er það ekki frekar ríkið með seðlaprentun síns seðlabanka, sem gerir það? – Og eru það ekki einmitt einstaklingarnir og atvinnulífið (segjum t.d. ferðaþjónustan núna og makrílveiðimenn) sem búa til verðmæti sem skila (og að í gjaldeyrisformi) jafnvel margfalt meira en þessum 6% vöxtum? Búa þeir ekki til vaxtatekjur bankanna og peninga þeirra í raun?
Tvennt fannst mér helzt vanta hérna. Hér hefði verið tilvalið að benda á, að það kom fram í 18-fréttum Rúv í fyrradag, að Kristin Halvorsen, hinn vinstrigræni fjármálaráðherra Noregs, upplýsti, að það er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem gerir samþykkt Icesave að skilyrði fyrir lánum Norðanna o.fl. Norðurlandaþjóða! Þess vegna hafi Norðmenn í frestað lofuðu láni til Íslands, nema við klárum Icesave-samninginn! Þetta sýnir enn betur, við hvers lags ofríki við búum af hálfu AGS, og svo beygja þessir Skandínavar sig og bugta fyrir sjóðnum og Evrópubandalaginu, sem þjóna Bretlandi og Hollandi í samstöðu hinna voldugu.
Í 2. lagi er full þörf á að minna á það hér, að ALÞINGI GETUR ENN OG Á AÐ HAFNA ICESAVE! Þjóðin á að mæta á Austurvöll og mótmæla þessu kröftuglega. Hver er til í að leggja með mér í dýrar auglýsingar til að ná til fólks?
Þetta er meginmálið í núinu (eftir viku er það of seint!), því að það er rétt sem hann nafni minn segir hér í lok annarrar greinar: "Icesave mun gera að engu möguleika okkar til betra lífs. Við verðum að hafna Icesave og hefjast strax handa við að breyta kerfinu sem við búum við og taka upp nýtt kerfi sem byggir á eignarmyndun en ekki skuldsetningu."
Heilar þakkir.
Jón Valur Jensson, 16.8.2009 kl. 10:08
Góð greining á þeim vanda sem við blasir með aðkomu AGS inn í okkar litla hagkerfi.
Heilmikla lesningu er að finna um aðkomu AGS inn í t.d. Austur Asíu, Argentínu og víðar í bók Naomi Klein "The Shock Doctrine" sem og á heimasíðu hennar www.naomiklein.org
Greining þín, Jón, á hagkerfinu, sem og eftirfarandi fullyrðing þín "Núverandi kerfi er þannig uppbyggt að bankar búa til peninga úr engu og lána þá einstaklingum og fyrirtækjum gegn greiðslu vaxta." fær góðan stuðning í málflutningi Jóhannesar Björns www.vald.org - þó svo að þar komi fram það sem Jón Valur bendir á að það séu seðlabankarnir sem búi til peninga úr engu, með seðlaprentun - sem og í bókinni, "Falið vald" sem hann gaf út fyrir nokkrum áratugum og hefur verið með öllu ófáanleg þar til nú nýverið er hún var endurútgefin. Bókina má hinsvegar lesa á heimasíðu Jóhannesar Björns.
Ég hef kynnt mér þetta ICES(L)AVE dæmi, sem öll okkar vandamál undanfarin misseri, meira eða minna eru sprottin úr, og bloggað um það m.a. hér http://snorrima.blog.is/blog/snorrima/entry/916864/ hér http://snorrima.blog.is/blog/snorrima/?offset=10 og hér http://snorrima.blog.is/blog/snorrima/entry/920333/ svo dæmi séu tekin.
Lykillinn að lausn allra okkar vandamála liggur í því að HAFNA ALGERLEGA HVORUTVEGGJA ICESAVE OG AÐKOMU AGS AÐ OKKAR MÁLUM. Í kjölfarið á þeirri höfnun fara þá leið, sem Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra vildi fara þegar hann sat í ríkisstjórn þ.e. dómstólaleiðina!
Snorri Magnússon, 16.8.2009 kl. 15:15
Ég hef alltaf litið á heyforða sem heyforða og þegar hann þrýtur er horfellir framundan.
Það sjá allir að það er engin gjaldeyrisforði sem er búinn til með skuldum.
Ég hef einmitt velt þessu fyrir mér að rétt væri að búa til ríkisefnahagsreikning þar sem allt væri tekið inn vegir, orkuver, fasteignir o.þ.h. Það er hið eiginlega bakland þjóðarinnar sem væri hægt að framvísa til þess að taka rekstrar og afurðalán fyrir atvinnuvegina tímabundið.
Viðskiptajöfnuður hefur nú verið hagstæður sem ekki hefur gerst í lengri tíma. Við erum nokkuð vel á vegi stödd með framleiðslutæki þó skuldir séu nokkrar. Landbúnaður er þróaður, fiskveiðar sæmilegar þó kerfið sé umdeilt. Við búum í góðum híbýlum og höfum hitaveitur og orkuver og iðnað. Menntun og verkþekking er með ágætum.
Að þessu eigum við að hlúa og halda framleiðslutækjum vel við.
Þessi pistill Jóns Lárussonar á svo sannarlega rétt á að vera lesinn upp í Hóladómkirkju að mínu mati þó hann sé ekki beinlínis Guðfræði eins og pistill fjármálaráðherra.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 16.8.2009 kl. 19:59
Frábær lesning þú kemur því í orð sem að ég hugsa tek kalli þínu án þess að hika ef til kemur
Jón Aðalsteinn Jónsson, 16.8.2009 kl. 20:51
Það peningamagn sem ríkið býr til í gegnum seðlabankann eru einungis seðlar og myntir. Þetta er hins vegar einungis um 5% af öllu peningamagninu. Afgangurinn er búinn til af bönkum sem lánsfé. Það má eiginlega kalla þetta "bankapeninga" þar sem þeir fara ekki út fyrir kerfið. Peningurinn er í raun bókhaldsfærslur bankanna (debet/kredit milli reikninga viðskiptavina). Það er vert að hafa í huga þegar verið er að lesa um bankamál í USA að þar er fyrirkomulagið öðruvísi. Seðlabanki USA var stofnaður í skjóli nætur (bókstaflega) árið 1913 sem EINKAFYRIRTÆKI sem hefur einkaleyfi á allri peningaframleiðslu (talandi um vald!!), þar er líka verið að tala um seðlana. Það kann að hljóma ótrúlegt að bankarnir búa til megnið af peningum samfélagsins, en bankamenn reyna ekki einu sinni að neita þessu. Hér er hægt að fá útskýringar á þessu ferli frá sjálfum seðlabanka USA. Ég hef líka þýtt dæmisögu sem lýsir vel hvernig bankakerfið mergsýgur samféglögin. Hana er hægt að nálgast hér http://socialcredit.blog.is/users/ed/socialcredit/files/go_sogn_peninga_afhjupu.pdf
Egill Helgi Lárusson, 16.8.2009 kl. 23:44
P.s. hvet alla til að horfa á Rúv kl. 23.20 á miðvikudaginn!
Egill Helgi Lárusson, 17.8.2009 kl. 00:46
Jón - Svona til að byrja með, þá sýnist mér þú vera að rugla saman tveimur óskildum, en þó tengdum atriðum. Þú ruglar saman verðmætasköpun og peningaframleiðslu. Verðmætasköpunin á sér stað með vinnu einstaklinganna, en peningaframleiðslan á sér stað í bönkunum. Auðvitað er rétt hjá þér að ríkið prenti peninga, en reyndin er hins vegar sú að peningar, þ.e. seðlar og mynt eru ekki nema um 5 - 10% restin er framleidd af bönkunum. Þú þarft að kynna þér fractional reserve system, eða þessa frægu bindiskyldu. En 10% bindiskylda þýðir í raun að bankinn býr til 900 krónur á hverja 1.000 sem lagðar eru inn á reikning. Varðandi IMF, þá er það orðið svo augljóst að bara þeir sem neita að viðurkenna staðreyndir, halda það virkilega að sjóðurinn sé hér að hjálpa okkur, þegar hann í raun er að gæta hagsmuna "vina" okkar.
Snorri - Ég kannast við hugmyndirnar sem koma fram á vald.org og eru þær réttar. Hins vegar er það þannig að seðlaprentun er bara örlítill hluti fjármagnsframleiðslunnar og því er það bara að hluta til sem seðlabankinn býr til pening. En auðvitað er þetta allt keyrt í gegnum bindiskylduna, en bankarnir sjálfir búa til peningana með henni. Það eru til upplýsingar um þetta víðsvegar á netinu hvernig fractional reserve virkar hjá bankastofnunum.
Eina leiðin til að byggja upp sterkt hagkerfi er að huga að verðmætasköpun innan þess og sjá til þess að það fjármagn sem þarf til að skiptast á undirliggjandi verðmætum, komi til samfélagsins í formi eigna en ekki skulda.
Jón Lárusson, 17.8.2009 kl. 01:49
Sæll Jón,
frábær grein hjá þér, ég er algjörlega sammála þér. Vonandi tekst okkur að koma vitinu fyrir þjóðina.
Gunnar Skúli Ármannsson, 17.8.2009 kl. 09:29
Ég hef staðfasta trú á því að það takist að koma vitinu fyrir þjóðina. Ég vona bara að það gerist áður en skaðinn verður of mikill.
Jón Lárusson, 25.8.2009 kl. 09:32
Takk fyrir frábæra grein og ég vona að við íslendingar göngum sem fyrst í breytingar a stjórnkerfi okkar.
Sjá: http://hreinn23.blog.is/blog/hreinn23/entry/930289/
"Okkar Ísland" er hugsað sem nýtt kerfi án flokka. Grunnur að nýju stjórnkerfi sem lýðræðinu er snúið við og fært til fólksins. Hugmyndaflæði sem mætti útfæra enn betur!
Kv. Guðni Karl
Guðni Karl Harðarson, 26.8.2009 kl. 22:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.