15.8.2009 | 07:08
Breið sátt?
Hversu breið verður sáttin ef þjóðin vill ekki? Fyrirvari sem byggir á því að hægt sé að taka málið upp aftur, komi það til með að verða okkur of þungt, er ekki fyrirvari, heldur heimska þeirra sem láta sér detta í hug að þetta gæti flokkast sem fyrirvari. Eins og ég hef áður sagt, þá er það þannig að sá sem gerir góðan samning, endurskoðar hann ekki neitt, hann bara brosir. Við getum óskað eftir endurskoðun samningsins eins oft og okkur langar til, en það hefur ekkert að segja ef Bretar eða Hollendingar vilja það ekki. Þannig fyrirvari er því marklaus og aðeins léleg afsökun fyrir aumingjaskap.
Allar "sáttir" sem runnar eru undan rifjum ríkistjórnarinnar eru þess líklegar að vera marklausar með öllu, enda ríkistjórninni í mun að ekki verði ögrað umsókn hennar í ESB. Það er nefnilega þannig að ríkistjórnin ber ekki hag þjóðarinnar fyrir brjósti, heldur er múlbundin alþjóðlegri sósíalistavæðingu í nafni ESB. Dýrt verður plássið við brusselsku kjötkatlana.
Eins og ég hef áður bent á, þá er trakteringin sem við erum að upplifa sambærileg þeirri sem Fidji búar urðu fyrir og Tolstoy greindi frá. Það verður að gera kröfu til alþingismanna að þeir hugsi um hag þjóðarinnar og láti ekki hótanir eða gylliboð villa sér sýn.
Því hefur verið haldið fram að við munum uppskera einangrun, komi til þess að við samþykkjum ekki þessa ábyrgð, eitthvað sem eingin rök hafa í raun vísað til. Hins vegar er alveg augljóst að komi Alþingi til með að samþykkja þessa ábyrgð, þá erum við búin að vera sem sjálfstæð þjóð og samfélag sem lifir við mannsæmandi kjör. Við vitum í raun ekki hvað gerist ef við segjum nei, en við vitum hvað gerist ef við segjum já.
Icesave mun gera að engu möguleika okkar til betra lífs. Við verðum að hafna Icesave og hefjast strax handa við að breyta kerfinu sem við búum við og taka upp nýtt kerfi sem byggir á eignarmyndun en ekki skuldsetningu. Hugmyndir mínar má meðal annars lesa hér og legg ég til að fólk kynni sér hið nýja kerfi sem við verðum að taka upp.
Nálægt breiðri sátt um Icesave-frumvarp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Jón. Kærar þakkir fyri þennan pistil. Ég tek heils hugar undir allt sem þú segir þarna, því þetta fellur algjörlega að mínum skoðunum.
Ég gluggaði aðeins í pistilinn "Tökum málin í eigin hendur" og lýst vel á það sem ég las. Ég ætla að kynna mér hann betur, því þetta virðist með því betra sem sett hefur verið fram.
Kveðja. G. J.
Guðbjörn Jónsson, 15.8.2009 kl. 17:11
Það sem ég les út úr pistli þínum er að þú ert á móti ríkisstjórninni og ESB. Ég velti fyrir mér hvort þú sért Framsóknarmaður (fæ ekki séð að þú sért blindur sjálfstæðismaður).
Öfugt við þig, Jón minn, þá fagna ég niðurstöðunni mjög. Loksins komumst við úr hjólförunum! Til hamingju!
Eiríkur Sjóberg, 15.8.2009 kl. 19:27
Jón, þakka góðan pistil! Eiríkur Sjóberg til hamingju með að komast úr hjólförunum í helförina.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 15.8.2009 kl. 23:15
Sæll Eiríkur og til hamingju með að hafa lesið það út úr skrifunum mínum að ég styð ekki ríkistjórnina og er á móti ESB, nokkuð sem ég hef svo sem ekki farið í felur með. Ég er ekki framsóknarmaður og hef aldrei verið, en var einu sinni flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum, þó ég hafi svo sem alltaf verið með spurningar varðandi margt í þeirra framsetningum.
Í dag skilgreini ég mig ekki eftir hægri og vinstri, enda tel ég það ekki þjóna neinum tilgangi að fylgja eftir hugmyndafræði sem sett er upp til að sundra samstöðu einstaklinganna svo þeir sem ráða vilja, eigi auðveldara með það. Ég hafna ekki góðum hugmyndum bara vegna þess að þær eru skilgreindar hægri eða vinstri. Það sem ég vil er breið samstaða fólks sem vinnur að hag samfélagsins óháð takmarkandi hugmyndafræði. Eitt af því sem hefur haldið aftur af raunverulegri hagsæld til handa fólknu, er þessi skilgreiningaárátta sem krefst þess að fólk verður að velja eitt eða annað og megi ekki styðja góða hugmynd bara vegna þess að hún er skilgreind einhvers staðar á öðrum stað í huglægu pólitísku litrófi.
Ég trúi á frelsi einstaklingsins til að leita sér þeirrar hamingju sem hann sjálfur óskar sér svo lengi sem það skaðar ekki þriðja aðila. Ég trúi því að við getum lifað í samfélagi þar sem hagur einstaklingsins er látin ganga fyrir sérhagsmunum, því sterkir einstaklingar leiða af sér sterkt samfélag öllum til hagsbóta. Samfélagið verður aldrei sterkara en einstaklingarnir sem byggja það og þegar unnið er gegn einum einstakling, öðrum til hagnaðar, þá veikist undirstaða samfélagsins. Þegar slíku framferði er leyft að ganga eftir mun samfélagið að lokum falla saman. Ég trúi því að við getum byggt upp réttlátt samfélag, þetta er bara spurning um vilja og hugrekkið til þess að hafna sjálfhverfum hugsunum.
Jón Lárusson, 16.8.2009 kl. 00:14
Sæll aftur Jón,
Tek undir hvert orð þitt í athugasemdinni!
Vilhjálmur,
Hættum nú þessum orðljótu og innantómu upphrópunum. Það búa mörg tækifæri í framtíðinni. Nú reynir á að við brettum upp ermarnar og vinnum að bættu samfélagi.
Eiríkur Sjóberg, 16.8.2009 kl. 10:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.