Steingrímur og Chamberlain

Steingrímur telur ekki ástæðu til að fara í stríð við aðrar þjóðir. Þetta var það sama sem Chamberlain sagði þegar hann var spurður út í hugsanlegt stríð við Hitler. Hann fór svo til Munchen og samþykkti þar plagg sem gaf Hitler allt upp í hendurnar, en það forðaði honum ekki frá stríði. Ég tel Breta og Hollendinga ekki ætla í stríð við okkur, enda engin ástæða til þess eftir að þeir verða búnir að fá allt á silfurfati. Steingrímur verður bara að átta sig á því að stundum þarf maður að berjast fyrir sínu. Það er áhyggjuefni að hugsa til þess hvar við værum ef Steingrímur hefði farið með völdin í Þorskastríðunum.

Steingrímur segir satt þegar hann segir ekki allar þjóðir vondar við okkur og vilja okkur illt. Hins vegar á það ekki við um Breta, Hollendinga og ESB báknið, svo ekki sé talað um "vini" okkar Dani, Norðmenn og Svía. Við eigum að velja okkur félagsskap þjóða sem ekki níðast á okkur. Hvað með samvinnu við lönd eins og ríki Suður-Ameríku, Kína (sem reyndar vilja ólmir komast í samvinnu við okkur). Nei, ESB, og norðurlöndin eru ekki "vinir" okkar í dag, trakteringarnar sem við fáum frá þeim eru ekki eitthvað sem vinir gera hver öðrum.

Aumingjaskapurinn er alger og þessi árátta Steingríms J. til þess að segja alltaf VIÐ þegar hann talar um þá sem skulda Bretum og Hollendingum eitthvað er orðin óþolandi. VIÐ gerðum ekkert. Það veru íslenskir skúrkar, en ekki VIÐ. VIÐ berum því enga ábyrgð. Bendum Bretum vinsamlegast á það að hægt er að nálgast flesta þessara manna í Bretlandi í dag.

Þegar Steingrímur segist ekki sammála Joly um að við getum ekki staðið við skuldbindingarnar, þá hefur hann rétt fyrir sér að því leitinu til að í dag getum við það. Fái hann hins vegar ráðið, getum við það ekki.

Það er vert að hafa í huga að fyrir um 150 árum lentu Fiji búar í trakteringum eins og við. Var hótað sem þjóð vegna einhvers misklíðs milli bandarískra einstaklinga og einhverja íbúa Fidji. Afleiðing var hörmuleg fyrir Fidji, en þeir voru þvingaðir til að skuldsetja sig til greiðslu óheyrilegra upphæða án þess að einhver verðmæti kæmu í staðin. Þarna var bara nýlendukúgun upp á gamlamátan og það er það sama sem við erum að finna fyrir í dag, enda Hollendingar og Bretar engir nýgræðingar í þeim bransanum.

Þeir sem vilja kynna sér sögu Fiji geta lesið hana í viðhengi hér með og ég mæli endregið til þess að fólk sendi þetta viðhengi sem víðast. Ekki veitir af, sagan er nefnilega til að læra af henni.


mbl.is Vill ekki stríð við aðrar þjóðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Steingrímur J Sigfússon er ekki að fórna sinni eigin velferð heldur velferð annarra. Það eru auðvelt að tala digurbarkalega við slíkar aðstæður.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.8.2009 kl. 15:11

2 Smámynd: Jón Lárusson

Það sem vakti líka athygli hjá mér, er þegar hann sagði að nú væri í fyrsta sinn hrein vinstristjórn á Íslandi og að hann vildi að hún sæti áfram. Það skiptir sem sagt ekkert máli, nema að sitja sem fastast. Þetta er ógnvænlegt því þetta þýðir að hagsmunir þjóðarinnar eru fyrir bý, ef honum tekst að halda sér í stjórn.

Við verðum að hugsa til þess að breyta kerfinu og taka upp nýtt kerfi eins og ég kem inná í þessari færslu http://jonl.blog.is/blog/jonl/entry/926292/ því að með því að viðhalda núverandi kerfi, munum við aldrei losna við skuldirnar. Eftirfylgnin við útlendinga hjálpar okkur ekki til frelsis, heldur leiðir okkur til fjötra.

Jón Lárusson, 7.8.2009 kl. 15:17

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Lesningin um Fiji er mögnuð. Það tók ekki mörg ár að breyta frjálsu smáríki í þrælanýlendu.

Haraldur Hansson, 7.8.2009 kl. 15:29

4 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Icesave er ömurlegt mál.

Í stöðunni virðast vera tveir aðgreinandi megin valkostir:

  1)  Að samþykkja samninginn.

  2)  Að hafna samningnum.

Mér sýnast báðir kostirnir slæmir.

Hinn fyrri væri viðurkenning á því að Ísland, þ.e. fyrri ríkisstjórn(ir) (kjósendur?), eftirlitsstofnanir hér og siðlausir útrásarvíkingar, beri ábyrgð á því hvernig komið er.  Með því væri kröfu alþjóðasamfélagsins, AGS, Evrópusambandsins, Hollendinga og Breta sérstaklega, Norðurlandaþjóða svo og Noregs sérstaklega, mætt.  Íslensk þjóð er enda upp við vegg í þessu máli.

Seinni kosturinn felur í sér mikla óvissu.  Er hann skynsamlegur?  Er rétt að berjast vopnlaus til síðasta manns?  Er það ekki ábyrgðarhlutur að leggja það til?  Hvaða von er í því fólgin?  Hvernig myndi efnahags- og athafnalíf hér á landi þá líta út næstu misserin og árin?  Því verður að svara áður en í þá vegferð er farið!  Það er ekki síður ábyrgðarhlutur að hafna Icesave samkomulaginu!

Hvað er skynsamlegast að gera?  Mér finnst seinni kosturinn vonlaus.  Mér finnst fyrri kosturinn vondur, í versta falli afar slæmur og ekki mun betri en seinni kosturinn.  En fyrri kosturinn hefur í sér fólgna von sem hinn seinni hefur ekki!  Vonin er bundin við margar breytur, að þær þróist á jákvæðan veg fyrir okkur.  Að við fáum hina nauðsynlegu aðstoð frá alþjóðasamfélaginu, að athafnalífið hér komist í gang, að tiltrú útlendra aðila nái að vaxa á ný á íslensku efnahagslífi, að krónan taki að styrkjast og skuld okkar erlendis lækki í hlutfalli við það, að hugsanleg verbólga í Bretlandi og Bandaríkjunum leiði til lækkaðst gengis dollars og punds, með hlutfallslegri lækkun skulda okkar erlendis, að það náist að hámarka verðgildi eigna bankans ytra sem gengi síðan upp í skuldina, að skuldatryggingarálag Íslands lækki svo hægt verði að taka enn hagstæðara lán, að viðræður fari fram um alvarleika málsins við Evrópusambandið og fleiri þjóðir til að byggja undir skilning á því hvað skuldirnar þýða fyrir velferðina hér, að ræða við Evrópusambandið um gallað regluverkið að baki tryggingarsjóðum innistæðueigenda, o.s.frv.  Og gleymum ekki því að Bretar og Hollendingar hafa þegar tekið á sig helming tjónsins!

Ef við höfnum samningnum fer allt í loft - allt í klessu.  En ábyrgðin hverfur ekki heldur munu kröfuhafar halda áfram að herja á okkur!

Við, sem almenningur í þessu landi, þurfum að opna augun fyrir vondum veruleikanum.  Við þurfum að viðurkenna að okkar leiðtogar og stofnanir okkar samfélags hafa brugðist með hræðilegum afleiðingum.  Við þurfum að byggja upp nýtt samfélag byggt á gagnsæi í opinberum rekstri, baráttu gegn spillingu og einkavinavæðingu, miklu minni efnishyggju en meiri samfélagslegri ábyrgð.  Fyrsta skrefið í þá siðbótarátt er að viðurkenna það sem hér fór úrskeiðis.  Og kjósa aldrei, aldrei, aldrei aftur slíka menn til að leiða þjóðina í ógöngur.

Ekki er við núverandi stjórnvöld að sakast.  Þau eru að fást við mjög erfitt verkefni.  Þau þurfa á trausti að halda.  Ekki er nokkur ástæða til að ætla annað en þau hugsi af heilindum um að gera það sem best má í stöðunni.

Hvað þorskastríðið varðar þá verður nú að hafa þá staðreynd í huga að það voru Bandaríkjamenn fyrst og fremst sem settu Bretum stólinn fyrir dyrnar.  Ef til alvöru stríðs hefði komið þá hefði nú orðið lítið um okkur hér á Fróni.  Í seinni heimsstyrjöldinni báðu þeir kurteisislega íslensk yfirvöld um að fá að hernema okkur.  Þegar þeim var neitað komu þeir samt!

Eiríkur Sjóberg, 7.8.2009 kl. 15:50

5 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Jón Lárus,

Þrátt fyrir áður ritað um Icesave, þá er ég í raun í hjarta mínu sammála andanum í þinni fyrri grein, sbr. http://jonl.blog.is/blog/jonl/entry/926292/

Ég hef bara ekki klárað þá pælingu fyrir mitt leyti.  Peningar eru galdratól, sýkja hugarfarið og setja almenning í þrælabönd.  Og vald þess sem framleiðir þá eftirsóttu vöru er mikið (sem sé bankanna).

Um leið og maður veltir fyrir sér peningum þá veltir maður fyrir sér verðmæti hluta.  Hvers virði eru hlutir raunverulega?  T.d. brauðrist?  Í raun einskis virði, nema í mannheimi.  Kötturinn fer um án þess að binda áhyggjur sínar við peninga.  Hlutir hafa a.m.k. ekkert absólút verðgildi heldur fara eftir eftirspurn, sem fer eftir kaupmætti o.s.frv.  Og alla tilveru sína virðist maðurinn hafa tamið sér að mæla og skoða út frá peningalegu verðgildi.  En af þeim sökum höfum við orðið fátækari!  Því við höfum afvegaleiðst, gleymt því sem hefur raunverulegt gildi, en kostar ekkert!

Mig langar að segja, og taka undir með þér, að róttækra breytinga er þörf!  En ég hef ekki klárað pælinguna, eins og fyrr segir, og veit ekki hvort við sem samfélag erum með mótaða áætlun til þess!  En spurning er hvort ekki mæti setja verðmiða t.d. á prúða hegðun, t.d. í formi endurgreiðslu skatts ef þú brýtur ekki af þér?  Í prúðri hegðun liggja mikil verðmæti a.m.k. 

Og í raun erum við Íslendingar ríkir þegar við skoðum stöðu okkur miðað við önnur samfélög í breytilegum tíma og rúmi.  En þó höfum við það ekki betra en hugarfarið leyfir.  Og því þarf fyrst og fremst að breyta!

Eiríkur Sjóberg, 7.8.2009 kl. 16:39

6 identicon

Svooo sammála !! Chamberlain líkinguna hef ég einnig notað því, þótt málin séu ekki eineggja, þá er margt líkt með þeim. Hjó einnig eftir þrá Steingríms eftir óslitinni valdagöngu vinstri flokkanna, no matter what !!

Einnig ÞOLI, ÞOLI,ÞOLI  ég ekki frasann..VIÐ gerðum þetta og við gerðum hitt.

Það eina sem VIÐ gerðum var að borga úber-vexti á öll okkar lán og lesa í séð og heyrt hvaða stórstjörnur spiluðu í hvaða afmæli, það var það eina sem við gerðum, það var okkar eina synd !!

Svei þessum hrygglausu stjórnmálamönnum sem hugga eiga þjóðina í kvöl hennar tala nú ekki um apparatið á Bessastöðum sem setti ALDREI hljóðan þegar geðveikin reið hvað mest ríkjum hér á klakanum...

runar (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 17:44

7 Smámynd: Jón Lárusson

Blessaður Eiríkur.

Það sem aldrei er, hverfur ekki. Við berum ekki þessa ábyrgð núna, það er allt mabóið með Icesave. Bretar og Hollendingar, með dyggum stuðningi "vina" okkar, er að reyna að fá okkur til að taka ábyrgð á einhverju sem við ekki eigum að bera ábyrgð á. Alla vega er mjög umdeilt.

Rosevelt sagði að það væri ekkert að óttast nema óttan sjálfan, en það er það sem menn tala um þegar val 2 er til umfjöllunar. Menn segjast ekki vita hvað verði. Ég trúi því að það gerist ekki neitt. Hvað á að gerast? Ef við segjum við Breta og Hollendinga, "bíðið aðeins, við ætlum að skoða þetta betur áður en við tökum ákvörðun þar sem við viljum að þetta byggi á réttlæti". Við séum tilbúnir til að standa undir því sem okkur beri, en ekki neitt annað en það. Hvað þá, ætla þeir að hernema landið? Ætla þeir að fara fram á alþjóðlegar viðskiptaþvinganir? Á hvaða forsendum væri það, vegna þess að við ætlum að athuga málin og að hafa farið að regluverki ESB?

Við eigum ekki að skorast undan ábyrgð, en við eigum ekki heldur að gefa eftir af því bara.

Allt tal um að gefa eftir svo við getum fengið meiri lán, er að mínu mati bull (með vísan í greinina mína  http://jonl.blog.is/blog/jonl/entry/926292/ ), enda er skuldsetning stærsta ástæðan fyrir vandanum okkar í dag.

Við eigum að biðja alþjóðasamfélagið um frest til að vinna í okkar innri málum. Við erum ekki með hótanir gegn öðrum, né viljum við svíkjast undan réttmætum skuldum okkar, en við þurfum tíma til að byggja okkur upp á réttlátan og hagsæla hátt og það væri mjög undarlegt ef alþjóðasamfélagið myndi ekki vilja það. Væru þeir á móti því að við tækjum okkur til og styrktum hagkerfið, svo við værum betur í stakk búin til að standa við skuldbindingar okkar, þá eru annarlegar hvatir að baki krafna þeirra.

Við getum samið okkur til hagsældar, við verðum bara að hafa hugrekkið til þess að láta á það reyna.

Jón Lárusson, 7.8.2009 kl. 19:42

8 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Sæll aftur Jón Lárusson,

 Skv. lögum um tryggingasjóð innistæðueigenda þá er ríkið ekki ábyrgt.  Sem sé, ríkið er ekki lagalega bundið skv. þeim lögum að ábyrgjast innistæðurnar.

En málið er ekki bara lagalegt.  Málið er einnig pólitískt, siðfræðilegt og efnahagslegt.

Í raun er ekki eftir neinu að bíða.  Nema hvað að Alþjóðasamfélagið bíður eftir því að við "göngum frá þessu."  Meira að segja matsfyrirtæki, sem ættu nú að vera óháð, telja brýnt að ganga frá þessari breytu, segja það myndu verða til þess fallið að auka trúverðugleikann, en ekki minnka.  Þótt ég sé í hjarta mínu sammála þér í því að hugsa þurfi hlutina upp á nýtt, en þá ekki bara á Íslandi heldur í fjármálaheiminum öllum, þá tel ég mjög langsótt að ætla að gegn okkur sé eitthvert allsherjar samsæri.  Veruleikinn er sá að við erum upp við vegg og ef við ætlum að rétta úr kútnum þá eru kostirnir mjög þröngir.

Svo mætti segja það að við verðum laus undan Icesave í sjö ár, þótt auðvitað safnist vextir á höfuðstólinn á meðan.  En þetta gefur okkur ráðrúm.  Þegar á hólminn verður komið og við blasir hinn svartasti raunveruleikinn sem sumir óttast ÞÁ höfnum við ábyrgðinni, á forsendum ákv. samningsins!  Margt gott gæti þó gerst í millitíðinni fyrir okkur hér, þótt heimurinn sé allur ruglaður að verða.

Eiríkur Sjóberg, 7.8.2009 kl. 21:57

9 Smámynd: Jón Lárusson

Ef alþjóðasamfélaginu er umhugað um að við náum fótunum aftur, þá ætti það ekki að sjá neitt að því að við byggjum hér upp eignasamfélag, samfélag sem væri mun sterkara og betur í stakk búið til að takast á við skuldbindingar okkar. Hins vegar finnst mér óréttlátt að við þurfum sem þjóð að takast á skuldbindingar sem skúrkar settu okkur í. Ég er ekki viss um að Bretar og Hollendingar hefðu tekið svona Icesave samningi ef hann hefði snúið að þeim.

Hvernig eigum við að hafna ábyrgðinni eftir sjö ár, ef þetta er ekki að ganga upp. Núna berum við ekki ábyrgð, en samþykkjum við Icesave, þá vissulega berum við hana. Að taka á okkur vaxtagreiðslur (nota bene, lánið lækkar ekki á meðan) sem við varla stöndum undir, bara til þess að geta tekið meiri lán, er bara bull.

Við eigum að hætta að hugsa í skuldum og lántökum. Við ÞURFUM EKKI lán að utan. Við erum að fara að taka lán sem eiga að liggja inni á reikningum á lægri vöxtum en þau kosta okkur. Þetta þýðir bara eitt. Lánin hverfa án þess að nokkur einasta verðmætasköpun komi í staðin, en eftir sitja skuldirnar og vaxtagreiðslurnar. Taktu yfirdráttarlán og leggðu það inná bankareikning með lægri vöxtum en þú borgar á láninu og sjáðu hversu lengi þú verður í "lagi". Einstaklingur sem er skuldugur upp fyrir haus fær ekki lánafyrirgreiðslu, nokkuð sem allir með vott af normal hugsun átta sig á.

Til dæmis átti gengið hjá okkur að snarbatna bara við það eitt að sækja um inngöngu í ESB, en hvað hefur gerst. Núna er þetta hengt á Icesave. Það er logið að okkur trekk í trekk. Hvort þetta sé eitthvað samsæri eða ekki ættla ég ekki að ræða neitt frekar, en heimska er þetta í alla staði.

Varðandi matsfyrirtækin, þá er ekkert að marka þau frekar en aðra "sérfræðinga" þau bulluðu út og suður í 2007 æðinu. Svo spyr maður sig um styrkleika þeirra útlendu, hvað með Royjal Bank of Scotland og Roskilde bank. Ég tel að það komi ekki til neinna lánveitinga frá erlendum ríkistjórnum því þeir þurfa lánin sín til eigin þarfa. Ef fólk heldur að þetta séu ríkistjórnir sem ætla að lána okkur þá er það bull, það eru fjármálastofnanir sem munu veita lánin að beiðni erlendra ríkistjórna.

Varðandi að málið sé pólitískt, siðferðislegt og efnahagslegt, þá er það rétt. En er það pólitískt í lagi að níðast á "vinaþjóð", siðferðislega rétt að saklausir borgi fyrir seka og efnhagslega skynsamlegt að eyðileggja möguleika þjóðar á að byggja sig upp?

Jón Lárusson, 7.8.2009 kl. 22:45

10 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Sæll aftur Jón,

 Málið er siðfræðilegt.  Það er ranglátt að ætla okkur að þurfa axla ábyrgð á því sem fáeinir aðrir gerðu.  Það er líka óréttlátt það sem hinir sömu fáu gerðu gagnvart sparifjáreigendum í Bretlandi og Hollandi - þeir meira að segja hirtu af þúsundum aðila fé fram á síðasta dag!  Siðfræðin nær einnig yfir það að stjórnvöld hér brugðust í eftirliti sínu.  Mannorð heillar þjóðar fór út um gluggann.  Það mun ekki endurheimtast nema með því að sýna ábyrgð í verki. 

Málið er efnahagslegt.  Þetta er spurning um að koma hér athafnalífi af stað og styðja við krónuna til að freista þess að hún styrkist á næstu misserum.  Hvernig styrkjum við krónuna annars?  Þetta er mjög mikilvægt í því ljósi að margt ungt fólk er með húsnæðisskuldir sínar í erlendri mynt.  Hvernig er best að vinda ofan af þeirri krísu nema með því að efla hér atvinnulífið, auka trúverðugleika á því út á við, og freista þess að krónan styrkist?  Þú segir Icesave samkomulagið geta eyðilagt möguleika þjóðarinnar á því að byggja sig upp.  Þessu eru nú ekki allir sammála, margir halda einmitt hinu öndverða fram.

Málið er pólitískt.  Við blasir að krafan kemur úr öllum áttum.  Við erum ein.  Krafan virðist byggð á því að vernda hagsmuni bankakerfisins í Evrópu, eða svo var sagt.  Menn óttuðust áhlaup á bankana ef það kvisaðist út að innistæður væru ekki tryggðar þegar á reyndi.  Ennfremur er krafa sett á herðar stjórnvalda að gæta að eftirliti með fjármálafyrirtækjum, að láta þau ekki komast upp með hvað sem er ábyrgðarlaust.  Slíkt fyrirkomulag græfi undan stöðugleika lýðræðisins í Evrópu. Þú spyrð hvort það sé pólitískt rétt að níðast á "vinaþjóð", nú, svarið er bara hinn kaldi veruleiki að það er sameiginleg krafa úr öllum áttum að okkur beri að taka á okkar herðar að ábyrgjast Icesave. 

Lán eru ekki alltaf til ills.  Þegar fé er lánað til arðbærra verkefna eru lánin árangursrík.  Vont er þó þegar vextir eru háir - tala nú ekki um þegar stöðugleiki efnahagslífs er enginn og erfitt er að gera áætlanir fram í tímann.  Slíkt ástand hefur ríkt á Íslandi lengi vel.  Vonandi verður breyting þar á einhverntímann.

Þú spyrð hvernig við getum hafnað ábyrgðinni eftir sjö ár ef þetta er ekki að ganga upp.  Nú, í samningnum er ákvæði þar sem tekið er tillit til skuldabyrði Íslands og reynist afborganir of erfiðar er sest aftur að samningum.  Ef við lendum í þessari stöðu, sem er alls ekki víst, þá er mjög líklegt að við myndum hafa meiri samúð alþjóðasamfélagsins en við höfum núna hlaupumst við undan ábyrgðinni.

Hvernig mun það koma við mig og þig ef við samþykkjum Icesave?  Væntanlega verður skattheimtan eitthvað örlítið meiri en hún væri í "góðæri" og eitthvað verður dregið úr velferðarsamfélaginu.  Þetta eru ekki of þungar byrðar að bera miðað við allan þann hrylling sem átt hefur sér stað undanfarin ár.  Við munum ekki upplifa áframhald neyslubrjálæðis.  Sem er raunar gott og hollt.  Ef við höfnum Icesave munum við eftir sem áður þurfa að greiða hærri skatta en í "góðæri" og líklegt er að velferðarsamfélagið bíði meiri skaða. 

Samþykkjum við Icesave samninginn munum við eftir sem áður njóta góðra lífskjara umfram margar aðrar þjóðir.

Eiríkur Sjóberg, 7.8.2009 kl. 23:50

11 Smámynd: Jón Lárusson

Auðvitað er þetta siðferðislegt. Það er siðferðislega rangt að svíkja fólk, en þeir sem ekki komu að því þurfa ekki að bera siðferðislega ábyrgð. Ef bróðir þinn lemur mann, ertu þá siðferðislega ábyrgur?

Það er bull að hægt sé að styrkja krónuna með því að taka lán og byggja upp einhvern gjaldeyrisforða sem er að hverfa vegna neikvæðst vaxtamunar. Hvað verður um styrk krónunnar þegar forðinn er uppurinn í vaxtagreiðslur og ekkert eftir nema afborganir og vaxtagreiðslur.

Lán eiga vissulega rétt á sér stundum, en það er til arðbærra framkvæmda. Öll þessi lán sem talað er um eru akkúrat öfugt. Það eru engar framkvæmdir, við eyðum þeim í vaxtagreiðslur og eftir situr ekkert nema skuldin og vaxtagreiðslurnar. Eins og ég sagði áður. Taktu yfirdrátt og leggðu hann inn á reikning með lægri vöxtum. Sjáðu þá hversu "sterkur" þinn efnahagur verður, sérstaklega þegar líður á sjóðinn.

Ef við skuldsetjum okkur upp í haus með algerlega óarðbærum lánum, þá er það bara einfallt við fáum engin fleiri. Þetta segir sig sjálft.

Við búum við erfitt árferði og við verðum að vinna úr því. Aukin skuldsetning í erlendum gjaldeyri er ekki lausnin. Hún er í raun hluti af vandanum og þá mun hann bara aukast.

Þetta er pólitískt vegna þess að allar ríkistjórnir eru að berjast við erfiðleika og með því að kenna okkur um fá þeir smá frið. Þetta er ekkert annað við erum bara heimsins vinsælasta smjörklípa.

Við njótum margra góðra lífskjara í dag umfram aðrar þjóðir, en með Icesave verður það fyrir bí.

Jón Lárusson, 8.8.2009 kl. 10:50

12 identicon

Það er alveg kostulegt að lesa ruglið á bloggsíðum -- það minnir helst á Ómega í sjónvarpinu, vitleysan er svo yfirgengileg að maður getur ekki hætt að horfa á hana! Samlíkingin á milli stöðu Íslands nú og stórveldanna sem stóðu gegn útþenslu nasismans árið 1938 er einmitt svona rugl, álíka og þegar Ómegamenn hefja upplestur í biblíunni til að skýra út sköpun jarðarinnar. Gagnrýnin á Chamberlain helgast nú ekki af því að rangt hafi verið að semja -- enda var síðari heimsstyrjöldin ekkert grín -- heldur af því að annars vegar voru samningar við stjórn nasista merkingarlausir vegna þess að þeir höfðu engan hug á að halda þá og hins vegar vegna þess að Bretar fórnuðu réttindum annarrar þjóðar við samningaborðið án þess að spyrja hana leyfi. Ekki tekur betra við þegar maðurinn fer að rausa um íslensk utanríkismál. Já ekki viljum við neitt með "óvini" okkar í Evrópu gera, því að við erum svo óskaplegir karlmenn og engar gungur, heldur skal leitað ásjár til Suður-Ameríku (Chaves og Kastró?) og Kína sem eru alveg ólmir í samstarf! Ég þakka nú bara mínum sæla að hafa menn eins og Steingrím J. í fjármálaráðuneytinu en ekki rugludalla á borð við þennan!

Gunnar (IP-tala skráð) 8.8.2009 kl. 13:01

13 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Lánin sem tekin hafa verið til að styrkja varaforðann verða eignir hjá lántakandanum.  Þótt greiða þurfi vexti af þeirri eign þá má ekki gleyma því að eignin er til staðar og hefur mikilvægu hlutverki að gegna, að styðja við seðlabankann og krónuna og auka trúverðugleika út á við.  Sú eign vex að verðgildi náum við að styrkja krónuna.  Að sama skapi lækkar skuld ríkissjóðs náum við að styrkja krónuna.

Þegar tekin eru lán, hvort sem það er hjá alþjóðasamfélaginu í tilfelli Íslands, eða yfirdráttarlán í "mínu/þínu" dæmi, þá skiptir náttúrulega máli hvort þau er mögulegt að greiða til baka.  Í því samhengi skiptir máli hvort tekjur halda áfram að koma inn, í tilfelli Íslands hvort athafnalíf snúist áfram eða ekki, í mínu/þínu tilfelli hvort ég/þú haldir vinnunni.  Lánið er tekið af illri nauðsyn en þarf ekki að vera íþyngjandi til lengri tíma litið.  Þar skiptir náttúrulega lánstíminn mestu. Ef Ísland skuldar tvöfalda þjóðarframleiðslu skiptir máli að skoða þá stærð í samhengi við hvaða lánstími er á lánunum.  Þótt lánsfjárhæðin sé há er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að greiða hana til baka!  Ennfremur er mikilvæg sú breyta sem gengi krónunnar er gagnvart dollurum, pundum og Evrum.  Í raun er mjög mikilvægt fyrir heimili og fjárhag Íslands að krónan styrkist!  Og það er einungis hægt til næstu framtíðar litið með því að erlent fjármagn komi hingað inn til að smyrja hjól atvinnulífsins.  Slík fjárfesting kemur ekki til nema erlendir aðilar hafi tiltrú á markaðnum hér.  Lykillinn að því er að ganga frá samþykkt Icesave samningsins.  Jafnvel þótt sú fjárhæð bætist ofan á fyrri skuldir (sú fjárhæð ein er áætluð munu verða á bilinu 200 til 900 milljarðar) er líklegt að með samþykkinu styrkist krónan sem getur vel leitt til þess að heildarskuldir ríkisins lækki frá því sem þær eru nú! (Skoða má áhrif gengis krónunnar/pundsins/Evrunnar á mbl.is hér: http://mbl.datamarket.net/icesave/ )

  Endurtek: mjög mikilvægt er fyrir heimilin í landinu og ríkissjóð að gengi krónunnar styrkist!  Það er nánast lykil atriði í allri umræðunni.  Lítil von er til þess ef Icesave verður hafnað.  Í því myndu felast skilaboð um að við högum okkur með ábyrgðarlausum hætti og að á okkur sé ekki treystandi eða stofnanir hér og stjórnvöld.  Þau huglægu teikn vega mjög þungt í því hvernig efnahag okkar mun reiða af til næstu framtíðar.

Það má fallast á það að lagatæknileg mistök séu í samningnum, einkum þau sem Ragnar Hall hefur bent á.  Að hafna samningnum er þó engu að síður versti kosturinn fyrir fjölskyldur landsins og ríkissjóð sjálfan. 

Spurning hvort hin þriðja leið verði fær - að gera einhverja fyrirvara við samþykktina, eða að ná breiðri sátt um skilgreiningu á þeim aðstæðum sem þurfa að ríkja svo virkja megi upptektarákvæði samningsins.

Alltént skulum við virða hina lýðræðislegu niðurstöðu sem koma mun frá alþingi okkar.

Eiríkur Sjóberg, 8.8.2009 kl. 16:17

14 Smámynd: Jón Lárusson

Ánægður er ég Gunnar að þú skulir ánægður með Steingrím J. en ekki get ég tjáð mig um Ómega þar sem ég hef ekki horft á hana. En þú augljóslega gerir eitthvað af því. Þú ert augljóslega ekki að skilja samlíkinguna, hún er ekki um stjórn nasista í Þýskalandi, heldur er ég að benda á líkinguna á milli þess þegar stjórnmálamenn veifa pappír sem þeir halda að sé eitthvað annað og meira en hann raunverulega er. Chamberlain samdi þrátt fyrir mikla andstöðu, enda gerðu fjöldinn allur af fólki sér grein fyrir því að það var ekki þess virði að sækja samninginn. Icesave samningurinn er þannig að við komum ekki til með að ná okkur í almennileg kjör í kjölfarið og því er hann slæmur samningur sem margir, ef ekki flestir gera sér grein fyrir, fyrir utan þá helst Steingrím vin þinn. Ég minntist heldur ekkert á Chaves eða Kastró, enda Suður Ameríka nokkuð fleiri lönd en það. Við eigum ekki að leggja lag okkar við aðila sem hóta okkur það er bara einfaldlega mín skoðun á þessum málum. Heimurinn er nægjanlega stór.

Jón Lárusson, 8.8.2009 kl. 19:34

15 Smámynd: Jón Lárusson

Eiríkur, krónan styrkist ekki vegna þess að við tökum lán sem að endanum hverfa í vaxtagreiðslur vegna þess að vextirnir af lánunum eru hærri en vextirnir af bankareikningunum sem geyma peninginn. Ef við fáum 100.000.000 milljónir á reikning, með 10% vöxtum, þá erum við 10 ár að borga 100.000.000 milljónir. Ef við höfum bara peninginn þarna inni, þá er "styrkurinn" enginn og við sitjum bara uppi með skuldina.

Styrking á gjaldeyrisforða á að koma með útflutningi umfram innflutning. Verðmæti krónunnar mælist alltaf í styrk hagkerfisins og hagældarinnar í landinu. Það skiptir engu hvað við höfum tekið mikið af lánum til að búa til einhverja styrkingu. Þetta er einfallt Peningar í debet 100.000.000 og peningar í kredit 100.000.000 þ.e. gjaldeyrisvaraforði og lán til að byggja hann upp, hefur bara eina niðurstöðu 0. Það er bara þannig að þú byggir ekki upp eign með skuld, það núllar sig út. Hins vegar fer fljótlega að halla á okkur þegar við höfum borgað vextina.

Krónan getur bara styrkst í raun með sterkara hagkerfi. Allar aðrar leiðir eru út í hött.

Jón Lárusson, 8.8.2009 kl. 19:40

16 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Jón Lárusson,

 "Krónan getur bara styrkst í raun með sterkara hagkerfi."  Þessu verður ekki mótmælt.  Þetta er reyndar svona stefið sem sannfært hefur mig um það að við þurfum á alþjóðasamfélaginu að halda.

Vissulega spilar útflutningurinn aðalhlutverkið í því að styrkja gjaldeyrisforðann.  Þess vegna skipta viðskipti við útlönd okkur miklu máli.  Það sýnir aftur hversu illa við værum komnir einangraðir.

Nú, þú gætir sagt að við ættum að láta Evrópulönd vera en snúa okkur að Kína eða Kanada, selja fiskinn okkar og aðrar útflutningsafurðir okkar þangað.  Slíkt er nú auðveldara að segja en framkvæma enda eigum við samskipti við Evrópu á mjög mörgum sviðum, ekki einasta á viðskiptasviðinu.  En hvaða verði eru Kínverjar tilbúnir að kaupa okkar fiskafurðir?  Hversu langan tíma tekur að byggja upp markað þar?  Hversu háa rullu spilar flutningskostnaður á þeirri leiði í mögulegu verði til neytenda?  Eru möguleikar til fullvinnslu fiskafurða hér hugsanlega minni ef við myndum snúa okkur inn á þann markað (þ.e. er hráefnisútflutningur þangað líklegri)?  Er sá markaður yfirleitt almennilega opinn fyrir okkar afurðir?  Hversu viljugir eru Kínverjar eða Kanadamenn til að eiga viðskipti við þjóð sem hlustar ekki vel á alþjóðasamfélagið að öðru leyti? Af hverju er sá markaður ekki þegar orðinn mikilvægur fyrir okkur, ef hann á annað borð getur orðið það?  Hvað með álútflutninginn?  Hvaða áhrif hefði það á álútflutninginn ef viðskipti yrðu stirðari við Evrópulöndin?  Hvað með öll önnur viðskipti og samskipti?  Hversu skynsamlegt yrði að fara slíkan veg þegar til lengri framtíðar er litið?

 Enn er ég sannfærður um að við verðum að viðurkenna ábyrgð okkar í Icesave málinu.  Og því fyrr, því betra.  Ég óttast hins vegar hina óyfirveguðu umræðu sem fram fer m.a. hér á netinu.  Auðvitað er fólk reitt, en reiðin er vondur húsbóndi.  Mér finnst umræðan mjög óyfirveguð, menn tala í upphrópunum og á sumum bloggsíðum er maður farinn að sjá alvöru þjóðernishyggju búa um sig, jafn skynsamlegt og það nú er (sbr. Bjartur í Sumarhúsum o.s.frv.).

Ég mun sætta mig við þá niðurstöðu sem kemur frá alþingi.

Eiríkur Sjóberg, 8.8.2009 kl. 21:22

17 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Sæll aftur Jón,

 Svona í takt við það sem þú sagðir þá eru nú tveir ágætir hagfræðingar að segja að óþarfi sé að byggja upp svo stóran gjaldeyrisforða, sbr. http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/08/08/of_mikid_gert_ur_gjaldeyrisvarasjodi/

 Athyglisvert innlegg...

Eiríkur Sjóberg, 8.8.2009 kl. 21:29

18 Smámynd: Jón Lárusson

Ég er ekki alveg að sjá afhverju útlendingar þurfa að koma að því að styrkja hagkerfið hér. Auðvitað getum við bara ekki ruddast og skellt öllum hurðum á eftir okkur, en hins vegar er ég ekki tilbúinn að viðhalda "vinskap" við Breta eða aðra fyrir hvaða verð sem er. Ef við lítum til Kína, þá er bara efri millistéttin jafn mannmörg og ESB ríkin, nokkuð sem fær mann til að hugsa. Svo eru Kínverjar ekki einir í heiminum. Við erum til dæmis með Indverja og Suður Ameríkuþjóðir (Argentínu, Brasilí t.d. svo menn hrópi ekki Chaves og Kastró í einhverri panik).

Kjarnin í viðræðunum við Hollendinga og Breta ætti að vera þessi. "Við ætlum ekki að hlaupast undan því sem okkur ber að standa undir, en væri ekki betra að við fengum næði til að endurskapa hagkerfið og styrkja inniviðina svo við værum betur í stakk búin til að standa undir því sem okkur ber". Auðvitað ef Bretar og Hollendingar eru bara í gamaldags nýlenduleik þá segja þeir okkur bara að fara til and... en þá teldi ég líka akkúrat enga ástæðu til að koma til móts við þá.

Grunnurinn að öllu bullinu hjá okkur er brenglað kerfi og við þurfum að skipta því út strax. Því hef ég birt hér http://jonl.blog.is/blog/jonl/entry/926292/ , og annarsstaðar á blogginu hjá mér, hugmyndir sem ég tel að muni leiða okkur til betri tíðar. 

Jón Lárusson, 9.8.2009 kl. 21:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband