Tími ákvarðanna er kominn.

Það kemur ekki á óvart að þessi skýrsla skuli koma verr út en skýrsla Seðlabankans, sérstaklega þegar litið er til þess að skýrsla Seðlabankans þurfti nokkrar tilraunir til að verða "rétt". Svo er maður alltaf ánægður að vita að Steingrímur J. skuli vera ánægður og að hann telji skýrslurnar ekki vera svo frábrugðnar. Meðvirknin er alger. Svo kemur félagsmálaráðherra og segir við þjóðina í sjónvarpi að það verði ekki hægt að afskrifa neinar skuldir, það sé ekkert mannlegt sem geti hjálpað fólkinu í landinu, enda slíkt ekki að skapi IMF. Þessi ríkistjórn vinnur ekki fyrir fólkið, það er deginum ljósara.

Við sem þjóð stöndum frammi fyrir ákvörðun. Hún er í sjálfu sér ekki sú hvort við eigum að borga eða ekki, heldur er þessi ákvörðun önnur og meiri. Þetta er ákvörðun sem kemur til með að móta okkur til framtíðar. Ákvörðunin er í eðli sínu ekki flókin og þarf ekki mörg gögn til að undirbyggja hana. Ákvörðunin er einfaldlega þessi:

Ætlum við að sýna hugrekki og verja það sem er okkar, eða eigum við að gefast og láta útlendinga dæma okkur til framtíðar í örbirgð.

Mín skoðun er einföld, en ég vil ekki gefast upp. Ég trúi því að til sé lausn sem feli ekki í sér uppgjöf og aumingjaskap til framtíðar. Ég veit að verði gefist upp, þá munum við sem þjóð búa við þá ákvörðun til framtíðar og þjóð sem lifir í uppgjöf uppsker aldrei neitt annað en aumingjaskap. Ég vil berjast, í versta falli tapast allt. En ég spyr mig, hverju hef ég að tapa hvort eð er. Ef ég samþykki Icesave, þá er ég að skapa ömurlega framtíð fyrir börnin mín. Ef allt fer til andskotans hér og ég þarf að flytja burt, þá vil ég geta gert það með reisn. Það er hægt að tapa með reisn og það er hægt að tapa með smán, ég veit hvað ég vel. Hvað velur þú?

Að neita því að til séu aðrar lausnir er uppgjöf. Það eru til lausnir, þær eru kannski ekki hefðbundnar, en þær byggja á hugmyndafræði sem er í andstöðu við það hugarfar sem ríkt hefur hingað til. Ég vil sjá bjarta framtíð á Íslandi og ég trúi því að hana sé hægt að skapa. Til þess þarf hugrekki, dug og þor. Ég veit að Íslendingar geta framkvæmt þær breitingar sem þarf. Íslendingar hafa verið eftirsóttir til hjálpræðisstarfa erlendis vegna þess að þeir hugsa í lausnum. Íslendingar bjarga sér alltaf, þeir redda sér. Afhverju erum við að hætta því núna?

Ég veit að hlutirnir eru erfiðir núna, en þeir batna ekki við eftirgjöf. Ríkistjórnin hefur sent okkur skýr skilaboð. Það á ekki að hjálpa fólkinu. Það á að hjálpa erlendum kröfuhöfum. Þjóðin skal blæða. Því hefur verið logið að okkur að bjarga þurfi bönkunum og borga útlendingum svo allt batni. En hvernig á þetta allt að batna. Jú við fáum lán ef við gefum eftir. Ég spyr mig hvort ég vilji meiri lán, auk þess sem ég velti því fyrir mér hvort einhver sé tilbúinn að lána þjóð sem, í besta falli, er á mörkunum með að geta borgað það sem hún þegar skuldar.

Því var logið að okkur að bara með því að afhenda umsókn um inngöngu í ESB myndi gengið batna, en ég er ekki að sjá neina breitingu þar. Svo segir ríkistjórnin að með því að, gefast upp og skuldsetja okkur upp fyrir haus, þá aukist tiltrú á okkur og lánatraust. Bullið er algert og tími til kominn að við hættum að hlusta á það.

Breytingar eru þannig að eitt hverfur og annað kemur í staðin. Þær eru í sjálfu sér ekki endalok alls. Við stöndum frammi fyrir því að velja hvað við viljum að taki við nú þegar það gamla er að hverfa og nýtt mun taka við.


mbl.is Mesta hættan fólksflótti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband