Úlfur, úlfur.

Sagan um strákinn sem hrópaði úlfur, úlfur kom upp í hugann þegar ég las þessa frétt. Heimssjúkdómsfaraldsviðvaranir eru orðinar nær daglegt brauð núorðið og maður alveg ónæmur fyrir þeim.

Það er staðreynd að með auknum samskiptum á milli manna, aukast líkur á að smit berist á milli þeirra. Þetta er bara lógískt. Hins vegar verðum við aðeins að halda aftur af okkur. Samkvæmt fréttinni, þá hafa 39 nýir sjúkdómar orðið til síðan um 1970, en það er um einn á ári. það eru svo 1.100 heimsfaraldrar, hvorki meira né minna, sem skollið hafa á síðustu fimm árin.

Ég verð nú að viðurkenna það, að ég hef alveg misst af þessum heimsfaröldrum, en get þó ekki sagt til um það hvort ég hafi sloppið við þessa 39 sjúkdóma. Mér skilst reyndar að það verði til nokkur ný afbrigði af flensu á hverju ári þannig að líkurnar á því að fá einn af þessum 39 sjúkdómum eru einhverjar.

1.100 heimsfaraldrar er nokkuð mikið á fimm árum, en að hafa misst svona af þeim, vekur upp spurningar um það hversu miklir faraldrar hafi verið á ferð og hversu víða þeir fóru. Fuglaflensan, er hún heimsfaraldur, eða líklegur heimsfaraldur. Síðast liðin 4 - 5 ár hafa nokkrir einstaklingar smitast af henni, eitthvað um 1.000 - 2.000 manns gróflega ef maður man fréttatilkynningar rétt. Þessi smit hafa lang flest verið í Asíu, þó mig minni að einn Tyrki hafi smitast árið 2005. Ebólan var líka eitthvað sem stóð ógn af, malaría hefur verið nefnd og AIDS. Auðvitað hafa margir smitast og í kjölfarið horfið yfir móðuna miklu, en samt verður maður að skoða þetta út frá hlutfallslegum fjölda mannskynsins.

Síðasti alvarlegi heimsfaraldurinn sem ég tel að hafi orðið af einhverju viti var spænska veikin árið 1918. Þá féll fjöldi manns og hafði það gífurleg áhrif á efnahag margra ríkja, sérstaklega þegar litið er til þess að Evrópa var í sárum vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar. Svartidauðinn var svo annar heimsfaraldur. Þessir faraldrar fóru mishratt yfir, en hratt þó.

Faraldur er eitthvað sem ég lít á sem sjúkdóm sem gangi yfir og allir geti orðið fyrir óháð kyni, aldri eða lífsháttum. AIDS er til dæmis sjúkdómur sem fór hratt yfir uppúr 1980, en þar sem smitleiðir hans eru tengdar ákveðnum lífsháttum, eða aðgerðum sem hægt er að stjórna, þá er hann eitthvað sem hægt er að draga úr með atferlisbreytingu og eftirliti. T.d. varðandi kynlíf, þá er hægt að gera ráðstafanir og varðandi blóðgjöf, er hægt að herða eftirlit. Sjúkdómar sem smitast með lofti eru hins vegar miklu mun erfiðari í meðferð og líklegri til að komast í flokk með ill heftanlegum sjúkdómum.

Ég er ekki að segja að við eigum að hætta að hlusta á WHO, eða einhvern annan sem varar við slíku, en með auknum fjölda viðvarana, án þess að faraldurinn komi í kjölfarið, þá dregur úr áhrifum þessara viðvarana. Þeir sem vinna í þessu umhverfi eru líklegast á nálum og telja þetta út um allt, svona eins og þeir sem vinna að áfengisvörnum. Sjá svo mikið af þessu, að þetta hljóti að vera farið úr böndunum. Þessir aðilar vinna hins vegar í afmörkuðu umhverfi sem er mettað af þessum hlutum og því hlutfallslega miklu meira um þá þar en í úti í hinum stóra heimi.

Við þurfum að vinna vel að forvörnum og vera undirbúin, en það gerist ekki með því að hrópa úlfur, úlfur. Þeir sem vinna í þessum geira þurfa að halda því áfram eins og áður, en á þann hátt að hægt sé að grípa til ráðstafana þegar sjúkdómarnir fara á flug.

Reyndar tel ég að internetið og fjölmiðlaflóran séu stór þáttur í þessari ofurdreifingu á upplýsingum. En með auknu aðgengi að gögnum, þá eykst álagið á almenning, þar sem öllu er hent út í loftið. Það að fleiri fréttir séu sagðar, þýðir ekki að það sé eitthvað meira að marka þær, eða það sé eitthvað meira að gerast. Það er bara fjallað um allt.

Hvað er langt síðan við hefðum aldrei heyrt að ein stelpa og pabbi hennar hefðu dáið vegna þess að þau voru með smitaða kjúklinga einhversstaðar í uppsveitum Víetnam?

Ég held að við ættum bara að anda með nefinu, telja upp á 10 og slappa af. Vera samt viðbúin, án þess þó að hlaupa út í búð og birgja okkur upp af dósamat.


mbl.is WHO varar við hættunni á heimsfaraldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband