24.2.2011 | 08:48
Opið bréf til Guðbjartar Hannessonar
Við stöndum frammi fyrir því að lífskjör hafa minnkað hér á landi og ekki virðist vera nein merki um að það sé einhver raunveruleg breyting þar á. Vegna þessa höfum við nokkur ákveðið að skrifa bréf til að fá á hreint ákveðin atriði.
Hér er bréf sem sent var í gær til Guðbjartar Hannessonar. Það eru margir sem vilja einmitt fá svör við þessu, ekki vegna forvitni, heldur vegna lífsviðurværis.
Ágæti, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.
Viss hluti samlanda okkar þarf að lifa á lágmarkskjörum frá einum mánaðamótum til þeirra næstu. Til þessa hóps teljast: öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, félagsbótaþegar og starfsmenn á lágmarkslaunatöxtum. Flestallir sem koma að ákvörðun um hversu mikið einstaklingar í þessum hópum hafa úr að spila hafa margfalt hærri tekjur og eru sökum þess illa búnir til að meta aðstæður skjólstæðinga sinna rétt.Heildartekjur upp á 160 þúsund krónur á mánuði er staðreynd fyrir stóran hóp Íslendinga. Bæði rannsóknir þinna eigin starfsmanna, sérfræðinga og hyggjuvit meðalmannsins benda ótvírætt til þess að nánast ómögulegt sé að ná endum saman með fyrrnefndri upphæð.
Eftir umfangsmikla vinnu á vegum velferðarráðuneytisins var nýlega lögð fram ákaflega gagnleg skýrsla um neysluviðmið (Sjá hér). Hún er vel unnin í alla staði og gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.
Vegna þessarar skýrslu var sett upp reiknivél (Sjá hér) á vef ráðuneytisins. Samkvæmt henni þarf einstaklingur í leiguíbúð 300.966 krónur í ráðstöfunarfé til þess að eiga fyrir nauðþurftum og öðru sem telst til mannréttinda eins og húsnæði og virkri þátttöku í samfélaginu.
Í ljósi alls þessa leitum við til þín með eftirfarandi spurningu:
Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?
Ráðleggingar þínar gætu orðið upphafið að bættri umræðu um núverandi vandamál þeirra einstaklinga sem glíma við þessa spurningu 12 sinnum á ári.
Virðingarfyllst og með ósk um svör.
Ásta HafbergBjörk Sigurgeirsdóttir
Gunnar Skúli Ármannsson
Elías Pétursson
Jón Lárusson
Kristbjörg Þórisdóttir
Ragnar Þór Ingólfsson
Rakel Sigurgeirsdóttir
Bréf með sömu fyrirspurn sent á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands.
Afrit sent á fjölmiðla.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Svona hefur þetta verið alla tíð á Islandi, og hafi einhvertíma hefur verið eitthvað örlítið meira úr bítum að hafa þá er það tekið í krít.
Málið er einfalt, við erum of fá í þessu stóra landi til að halda öllu kerfinu uppi, þ.m.t. framkvæmdir landsins og allur rekstur,, vextir og afborganir frá s.l.árum ("barnalánið" fer t.d. að koma á gjalddaga 2016 held ég)
Þetta bréf ykkar hefur átt við hér á Islandi frá alda öðli. Það mun ekkert breytast við núverandi "skipulag" við verðum að læra að þiggja og DEILA með öðrum þjóðum...
Kæra fólk það er einfaldlega ekki til þessi peningur sem þarf til að mannsæmandi sé að vera hér á landi, sjáið bara það eru fleiri fleiri þúsundir manna t.d. í Norge og annars staðar í Skandinavíu.
Fyrst af öllu þarf hugarfarsbreytingu og vera raunsær, ef við ætlum að halda uppi mannsæmandi launum fyrir vinnu okkar og gerðir..........................
Kristinn J (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 14:15
Ef litið væri efnahag Islands útfrá venjulegum fyrirtækjarekstri, er ég nokkiuð viss um að útkoman yrði ansi jákvæð fyrir Island. Vel væri hægt að ímynda sér að landsmenn væru skattfríir og hefðu auk þess alitlega upphæð greidda til hvers einstaklings. Hvernig? spyrja menn auðvitað. Bara til að nefna örfá dæmi. Tekjur af orkusölu til stóriðju væri hægt að margfalda. Fiskveiðar er hægt að fimmfalda. Ferðaiðnað hægt að stórauka með lækkun skatta á td áfengi. Stórauka landbúnað, Sérstaklega sauðfjárrækt og ylrækt. Siðast en ekki síst, að laða að tölvufyrirtæki, eins og Google og Microsoft. Svo má lengi telja.
Björn Emilsson, 24.2.2011 kl. 16:03
Kristinn J. Ég er alveg sammála þér með að þetta gangi ekki upp í núverandi kerfi. Hins vegar er ég ekki sammála þér með lausnina. Tilvísun þín í að við verðum að læra að "þiggja og DEILA með öðrum þjóðum" vísi til þess að lausnin liggi hjá ESB. Það gerir hún ekki, lausnin liggur í nýju kerfi sem við sjálf stöndum að sbr. www.umbot.org
Ég get tekið undir hjá þér Björn, það eru víða tækifæri á Íslandi, það þarf bara að virkja þau samfélaginu til gagns og gamans.
Jón Lárusson, 24.2.2011 kl. 16:22
Jón L
"lausnin liggur í nýju kerfi sem við sjálf stöndum að" þetta er hárrétt hjá þér það er bara einfaldlega eitt sem þú gleymir algerlega " við erum og fá " "við erum of fá í þessu stóra landi til að halda öllu kerfinu uppi"
i sannleika sagt hef horft á þenn link undir þrisvar sinnum, svo góður er hann, (en helst til langdreginn)
http://www.umbot.org/fundur/myndband_af_fundi_umbothreyfingarinnar_23_juni_2010
Kristinn J (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 20:53
Við erum ekki of fá, það er einmitt snilldin í þessu. Værum við fleiri þá væri erfiðara að koma þessum breytingum á. Ég hef fulla trú á að okkur takist þetta.
Það gleður mig að þú hafir horft á þetta og ég veit að þetta er nokkuð langt, um 40 mínútur, en þegar tekið er tillit til þess að spurt og svarað hefur venjulega verið um tveir tímar plús, þá er þetta snöggsoðið. Þetta er mikið efni og erum við að vinna í að koma því í styttri búning sem hægt er að skoða í bútum.
Jón Lárusson, 24.2.2011 kl. 22:24
Jón L
Við eigum þá okkar grunnsýn ALLS ekki sameiginlega og getum því hætt rökræðum, ég vil deila og segi að við séum og fá til að halda kerfinnu uppi,,,,,,,,,,,,,,,,,, þú vill ekki deila og segir að við séum nógu mörg til að halda kerfinu uppi. Lenga þurfum við því ekki að fara að sinni
Rökinn millum okkar ganga því alls ekki upp
Kristinn J (IP-tala skráð) 25.2.2011 kl. 08:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.